Skipulagsmál í kynningarferli

Í samræmi við ákvæði Skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér til kynningar deiliskipulagsgögn á vinnslustigi tillögunnar. 

Tillaga að breyttu Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 og Deiliskipulag Eldfells vegna minnisvarða í tilefni 50 ára gosloka afmælis Heimaeyjargoss.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti þann 23. febrúar 2023 að auglýsa tillögu að breyttu Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 og tillögu að deiliskipulagi fyrir Eldfell vegna uppsetningar minnisvarða í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá lokum Heimaeyjargossins. Gögnin eru auglýst skv. skipulagslögum nr. 123/2010.

Með tillögu að fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir uppsetningu minnisvarða og gerð grein fyrir staðsetningu hans á Óbyggðu svæði ÓB-3. Einnig er gert ráð fyrir nýjum gönguleiðum og útsýnisstöðum á Hverfisvernduðu svæði HV-9. Deiliskipulagið gerir grein fyrir byggingareit minnisvarðans, aðkomu gangandi og keyrandi vegfaranda og bílastæða. Einnig er gerð grein fyrir nýrri gönguleið á Eldfell sem skapar sjónrænt samspil við minnisvarðann sjálfan. Við uppsetningu nýrrar gönguleiðar verður lokað fyrir aðrar gönguleiðir og slóða. Auk þess er gert ráð fyrir takmörkun umferðar ökutækja á svæðinu.

Meginmarkmið uppsetningarinnar í heild er að skapa sjónarhorn og sýn á stórbrotna náttúruna, þar sem lögð verður áhersla á samspil gönguleiða og náttúrumynda.

Breytingin styður við meginmarkmið Aðalskipulags Vestmannaeyja um að sérkenni Vestmannaeyja, sem eru þeirra aðdráttarafl verði styrkt með því að draga enn frekar fram sérstöðu eyjanna í uppbyggingu aðstöðu, þróun afþreyingar og markaðssetningar auk þess að náttúruvernd verði í hávegum höfð.

Skipulagsgögn liggja í afgreiðslu Ráðhúss Vestmannaeyja, að Kirkjuvegi 50 frá og með 14. mars til 25. apríl 2023 og má einnig finna hér að neðan.

Tillaga að breyttu aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035

Tillaga að deiliskipulagi Eldfells

Deiliskipulagsuppdráttur

Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér gögnin. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna þarf að skila skriflega eigi síðar en 25. apríl 2023 í afgreiðslu Ráðhúss Vestmannaeyja eða á netfangið dagny@vestmannaeyjar.is.