Umhverfis- og auðlindastefna Vestmannaeyjabæjar
Þann 5. maí 2022 samþykkti bæjarstjórn Umhverfis- og auðlindastefnu Vestmannaeyjabæjar. Stefnan nær yfir rekstur bæjarins og þau umhverfismál sem bærinn hefur umsjón með, t.d. sorpmál og landgræðslu.
Stefnan var unnin í samvinnu við Eflu verkfræðistofu og byggir á vel ígrundaðri greiningarvinnu sem gerð var á rekstrareiningum bæjarins árið 2020 og fjölmargir starfsmenn komu að. Auk þess var starfræktur vinnuhópur sem hittist reglulega á stefnumótunar tímabilinu, haldinn var opinn íbúafundur í Eldheimum í desember 2021 og skoðanakönnun framkvæmd meðal íbúa og starfsfólks Vestmannaeyjabæjar.
Framtíðarsýn Vestmannaeyjabæjar er að vera framúrskarandi á sviði umhverfismála í allri starfsemi sveitafélagsins.
Stefnan Vestmannaeyjabæjar á sviði umhverfis- og auðlindamála er eftirfarandi:
Vestmannaeyjabær leggur áherslu á að ganga vel um náttúruauðlindir samfélagsins, koma í veg fyrir mengun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og öðrum umhverfisáhrifum af rekstri bæjarins með stöðugar umbætur að leiðarljósi.
Almennt tekur stefnan á helstu umhverfis- og auðlindaþáttum tengdum Vestmannaeyjabæ. Eftirfarandi áherslur eru skilgreindar:
- Við förum vel með náttúru, auðlindir og menningarminjar bæjarfélagsins.
- Við leggjum áherslu á gott aðgengi að náttúrunni fyrir alla m.a. með göngu- og hjólastígum.
- Við viljum draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingu og endurvinnslu.
- Við leggjum áherslu á ábyrg, hagkvæm og vistvæn innkaup.
- Við tryggjum að öllum lagakröfum á sviði umhverfismála sé fullnægt og göngum lengra þegar það á við.
- Við viljum efla umhverfisvitund íbúa og starfsfólks með fræðslu, þjálfun, leiðbeiningum og virku umhverfisstarfi.
- Við leggjum áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stefnum á kolefnishlutleysi árið 2030.
- Við sköpum aðstöðu fyrir bæjarbúa til að draga úr umhverfisáhrifum sínum.
Stefnan tengir auk þess áherslurnar við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, t.d. markmið nr. 7. Sjálfbær orka, 11. Sjálfbærar borgir og samfélög, 13. Aðgerðir í Loftslagsmálum, 14. Líf í hafi og 15. Líf á landi, sjálfbær orka og aðgerðir í loftslagsmálum.
Stefnan skilgreinir auk þess metnaðarfulla aðgerðaáætlun. Þar að auki komu fjölmargar ábendingar sem skráðar hafa verið til frekari skoðunar. Stefnunni verður fylgt eftir með innleiðingu aðgerða og vöktun mikilvægra umhverfis- og auðlindaþátta.
Umhverfis-og auðlindastefna - einblöðungur
Vestmannaeyjabær þakkar öllum þeim sem komu að gerð Umhverfis- og auðlindastefnu bæjarins.