Þjónusta fyrir eldri borgara

Vestmannaeyjabær veitir ýmiss konar þjónustu fyrir eldri borgara. 

Eins og stuðningsþjónustu, dagdvöl, heimsendan mat, leiguhúsnæði til eldri borgara, niðurgreiðslu á garðslætti í heimagörðum, akstursþjónusta, frítt í sund o.fl.

Hér er hægt að kynna sér hvað er í boði og hvernig hægt er að sækja um þjónustu.

Stuðningsþjónusta
Stuðningsþjónusta er fyrir alla aldurshópa. Þjónustan er fyrir þá sem búa í heimahúsum og vegna heilbrigðisvanda geta ekki annast heimilishald. Með stuðningsþjónustu skal stefnt að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og sjálfræðis, gera honum kleift að búa sem lengst á eigin heimili við sem eðlilegastar aðstæður. Hlutverk stuðningsþjónustu er m.a. að veita aðstoð við almennt heimilishald s.s. þrif og útréttingar. Aðstoð við persónulega umhirðu og félagslegan stuðning. Stuðningsþjónusta er almennt veitt á dagvinnutíma á virkum dögum. Boðið er upp á kvöld og helgarþjónustu í þeim tilvikum sem brýn þörf er á.

Heimsendur matur
Heimsendur matur er hluti af félagslegri heimaþjónustu Vestmannaeyja og er ætlað fyrir þá sem ekki geta eldað sjálfir vegna veikinda eða skertrar getu og búa ekki á heimili með öðrum sem færir eru um það. Hægt er sækja um heimsendan mat til skemmri eða lengri tíma, einu sinni til 7 sinnum í viku. Heimsendur matur er keyrður út í hádeginu. Gjald vegna félagslegrar heimaþjónustu er skv. gjaldskrá sem Fjölskyldu- og tómstundaráð setur. Gjaldskráin er tekjutengd.

Sótt er um þessa þjónustu á íbúagátt Vestmannaeyjabæjar eða hjá Kolbrúnu Önnu Rúnarsdóttir deildarstjóra stuðningsþjónustu í síma 488 2607 / 488 2600 eða kolla@vestmannaeyjar.is

Dagdvölin Bjargið
Dagdvöl er stuðningsúrræði við þá sem búa í heimahúsum en þurfa að staðaldri eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Í dagdvöl er boðið upp á þjálfun, tómstundaiðju og félagslegan stuðning. Boðið er upp á fría akstursþjónustu til og frá heimili fyrir þá sem nýta sér dagdvöl. Hægt er að fá morgunverð, hádegisverð og síðdegisverð gegn gjaldi. Hægt er að nýta sér dagdvöl alla virka daga, hluta úr degi eða ákveðna daga í viku. Vestmannaeyjabær hefur heimild fyrir 10 almennum dagdvalarrýmum og 5 sértækum dagdvalarrýmum.

Sótt er um dagdvöl á íbúagátt Vestmannaeyjabæjar, eða hjá deildarstjóra dagdvalar í síma 488 2610 eða dagdvol@vestmannaeyjar.is

Húsnæðismál
Á vegum Vestmannaeyjabæjar eru 41 leiguíbúðir fyrir eldri borgara. Um er að ræða íbúðir í Eyjahrauni 1 og 3, Kleifarhrauni 1-3 og Sólhlíð 19. Við úthlutun íbúða er tekið mið af félags-, heilsufars- og fjárhagsaðstæðum umsækjenda. Íbúðunum er úthlutað af eftir að mat fagfólks liggur fyrir.

Í Eyjahrauni 1 eru 11 íbúðir og þar af eru 9 skilgreindar sérstaklega sem þjónustuíbúðir eldri borgara. Eru þær ætlaðar þeim einstaklingum sem þurfa meiri stuðning og aðstoð en hægt er að veita í heimahúsi en heilsufar ekki orðið það slæmt að þörf er fyrir rými á stofnun. Grundvallarþættir mats fyrir þörf á þjónustuíbúð eru líkamlegt og andlegt heilsufar umsækjanda.

Sótt er um með rafrænum skilríkjum eða íslykli á eftirfarandi slóð umsókn um félagslegthúsnæði. Skila þarf inn fylgigögnum með umsókninni. Mikilvægt er að læknisvottorð (sem lýsir núverandi ástandi) fylgi með umsókn um þjónustuíbúð.
Hægt er að fá aðstoð með að hringja í síma 488 2000  eða kíkja á félagsþjónustuna á Kirkjuvegi 23.

Akstursþjónusta
Eldri borgarar sem nauðsynlega þurfa á ferðaþjónustu að halda milli heimilis og dagdvalar eða í sjúkraþjálfun, heilbrigðisþjónustu geta sótt um á sérstökum eyðublöðum á íbúagátt eða á skrifstofu Fjölskyldu- og fræðslusviðs við Kirkjuveg 23.

Afsláttur af fasteignagjöldum
Elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í Vestmannaeyjum og eru þinglýstir eigendur viðkomandi húsnæðis er veittur afsláttur af fasteignaskatti, fráveitugjaldi, sorpeyðingar- og sorphirðurgjöldum og lóðarleigu samkvæmt reglum Vestmannaeyjabæjar.

Afsláttur miðast við tilteknar viðmiðunartekjur einstaklinga eða hjóna, þ.e. tekjum sem mynda álagningarstofn tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjuskatts, eins og þesssar tekjur voru árinu á undan álagningarári. Miðað er við sameiginlegar tekjur hjóna eða samskattaðs sambýlisfólks. Gögnin eru sótt til RSK. Þegar nýtt skattframtal á álagningarárinu liggur fyrir er heimilt að endurreikna afslátt þeirra sem þess óska. Viðmiðunarfjárhæðirnar eru endurskoðaðar árlega.

Niðurgreiðsla vegna garðslátta í heimagörðum
Vestmannaeyjabær býður eftirlaunaþegum og öryrkjum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum niðurgreiðslu af kostnaði vegna garðsláttarþjónustu sem það kaupir. Þjónustuþegar leita sjálfir til þeirra þjónustuaðila sem bjóða upp á garðslátt. Niðurgreiðslan er að hámarki 20.000 kr á lóð gegn framvísun kvittunar fyrri þjónustuna.

Alla jafna er boðið upp á slíka niðurgreiðslu þar sem allir fullorðnir heimilismenn eru lífeyrisþegar en annars ekki. Réttur til þjónustunnar miðast við garð þess hús þar sem umsækjandi hefur fasta búsetu. Lóðir við fjöleignahús tilheyra ekki þessari þjónustu nema allir íbúar þess séu lífeyrisþegar og falli undir ofangreindar forsendur.

Framvísa þarf gildum kvittunum og nauðsynlegum upplýsingum í þjónustuveri Ráðhúss þegar sótt er um niðurgreiðsluna.

Kvika
Vestmannaeyjabær býður upp á aðstöðu fyrir Félag eldri borgara á 3. hæð í félagsheimilinu Kviku við Heiðarveg 19. Þar er boðið upp á skipulagða dagskrá í samvinnu Félag eldri borgara og Vestmannaeyjabæjar. Í aðstöðu Kviku er púttsalur. Þar fer fram öflugt kórastarf og ýmis afþreying á vegum félags eldri borgara.

Annað
Frítt er í sund fyrir 67 ára og eldri í boði Vestmannaeyjabæjar.

Þjónusta á vegum Heilbrigðisstofnunar suðurlands (HSU)

Heilbrigðisstofnun suðurlands (HSU) sér um heimahjúkrun og rekstur Hraunbúða.

Heimahjúkrun
Hlutverk heimahjúkrunar er fræðsla, forvarnir og heilsuefling til einstaklinga og fjölskyldu þeirra. Henni er gert að styrkja og viðhalda andlegu og líkamlegu heilbrigði einstaklings og draga úr einangrun og einkennum sjúkdóma, eins og kostur er. Heimahjúkrun starfar náinni í samvinnu við heimilislækna, félagsþjónustu og veitendur annarrar stoðþjónustu. Beiðni um heimahjúkrun getur komið frá einstaklingnum sjálfum, aðstandendum, sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum. Ákvörðun um að veita heimahjúkrun byggist á kerfisbundinni upplýsingasöfnun hjúkrunarfræðings. Áhersla er lögð á að meta hvort og hvernig heimahjúkrun muni bæta/styðja við heilbrigði einstaklingsins og fjölskyldu hans. Heimahjúkrun er tímabundin þjónusta sem veitt er meðan þörf er á einstaklingshæfðri og faglegri hjúkrunarþjónustu. Þegar meðferðarmarkmiðum er náð og heilsufarsleg vandamál hafa verið leyst eða komið í viðunandi horf er gert ráð fyrir að viðkomandi útskrifist.

Heimahjúkrun býður ekki upp á þjónustu er felur í sér fasta viðveru, yfirsetu, heimilisstörf, persónulega aðstoð s.s. klæðnað eða útréttingar slíkt kemur frá stuðningsþjónustu sem er á vegum sveitarfélagsins. Heimahjúkrun er án endurgjalds

Yfirmaður heimahjúkrunar er Guðný Bogadóttir hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum (HSU) s. 432 2500

Hraunbúðir
Hjúkrunar- og dvalarheimilið Hraunbúðir var tekið í notkun 1974. Ríkið ráðstafar Hraunbúðum heimild til að reka þar ákveðinn fjölda hjúkrunar- og dvalarrýma auk fjárheimilda til rekstursins. Rekstur heimilisins fór yfir til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) 1. maí 2021. Heimild er fyrir 32 hjúkrunarrýmum, 2 dvalarrýmum og einu hvíldarrými.

Hjúkrunarrými er fyrir þá sem þurfa mikla umönnun en dvalarrými fyrir þá sem þurfa minni umönnun. Á heimilinu starfa hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar auk ófaglærðs starfsfólks. Læknir kemur reglulega og þjónustar heimilismenn. Fullkomið eldhús er á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og þaðan kemur allur matur sem framreiddur er í matsal Hraunbúða.

Fjölbreytt tómstundastarf er á Hraunbúðum, s.s vikulegur upplestur, mánaðarlegar myndasýningar, boccia, heimsóknir leikskólabarna, söngstundir og ýmsar vikulegar uppákomur. Einnig er leikfimi og heitir bakstrar hjá íþróttakennara alla virka daga.

Til að komast á biðlista eftir hjúkrunar- og dvalarrými þarf að sækja um til færni- og heilsumatsnefndar Suðurlands.

Sótt er um með því að senda umsókn á Færni- og heilsumatsnefnd, eyðublaðið má finna á heimasíðu landlæknisembættisins.

Ekki er heimild til að taka einstakling inn á Hraunbúðir nema með samþykki færni- og heilsumatsnefndar. Í Vestmannaeyjum eru að auki heimild frá ríkinu fyrir 7 hjúkrunarrýmum á Heilbrigðisstofnun suðurlands (HSU) til viðbótar við þau 32 sem eru á Hraunbúðum. Inntaka á þau rými eru háð sömu skilyrðum og nefnd eru hér að framan.

Eyðublöð má nálgast á www.landlaeknir.is , eða á heimasíðu HSU

Hár- og fótsnyrting
Á Hraunbúðum er boðið upp á hár- og fótsnyrtiþjónustu sem stendur heimilismönnum á Hraunbúðum til boða sem og öðrum eldri borgurum gegn gjaldi. Sjálfstæðir verktakar sinna umræddri þjónustu á Hraunbúðum.

Þjónustu veita: Guðbjörg Sveinbjörnsdóttir og Lára Skæringsdóttir hársnyrtar s. 488 2608 og Anita Vignisdóttir snyrti- og fótaaðgerðafræðingur s. 488 2609 / 869 0725


Jafnlaunavottun Learncove