Leikskólar
Í Vestmannaeyjum eru starfandi þrír leikskólar sem starfa eftir lögum og reglugerðum um leikskóla sem og skólastefnu Vestmannaeyjabæjar.
Aðalnámskrá leikskóla, sem er ætlað að vera leiðarvísir fyrir allt leikskólastarf, er gerð á grundvelli 13. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008. Hver leikskóli byggir sína stefnu og áherslur á aðalnámskrá.
Fræðslufulltrúi er Drífa Gunnarsdóttir, drifa@vestmannaeyjar.is sem veitir nánari upplýsingar í tölvupósti og í síma 488 2000. Fræðslufulltrúi hefur umsjón með faglegu leikskólastarfi í samvinnu við leikskólastjóra.
Verklagsreglur við innritun í leikskóla
Forráðamenn/foreldrar og börn þeirra, sem fá úthlutun á leikskólaplássum, skulu eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Forráðamenn/foreldrar, sem áætla að flytja til Vestmannaeyja, geta, þremur mánuðum fyrir flutning, sótt um leikskólapláss. Þeir skulu hafa flutt lögheimili sitt til Vestmannaeyja þegar leikskólaganga barnsins hefst. Í umsókninni skal tilgreina m.a. æskilegan dvalartíma og hvaða leikskóla óskað er eftir. Hægt er að sækja um leikskóla til vara en sé það ekki gert er litið svo á að aðalval komi einungis til greina.
Leikskólaplássum er úthlutað eftir kennitölu, þ.e. eftir aldri barns. Aðalúthlutun leikskólaplássa er í janúar og að vori/hausti. Vakin er athygli á því að við úthlutun á leikskólaplássum getur þurft að taka tilliti til skipulags á leikskólanum, aldurs barns og þess tíma sem er laus á hverjum leikskóla.
Forgangur í leikskóla
Hægt er að óska eftir forgangi vegna barna með sérþarfir. Greining þarf að vera fyrirliggjandi frá viðurkenndum greiningaraðilum. Aðrar beiðnir um forgang þurfa að berast skriflega og skulu afgreiddar hjá fræðsluráði. Fræðsluráð getur hafnað beiðni um ákveðinn leikskóla ef t.d. aðstæður leyfa ekki fleiri börn með sérþarfir.
Afsláttur vegna leikskólagjalda
Vestmannaeyjabær veitir systkinaafslátt sem gildir milli dagggæslu í heimahúsi, leikskóla og/eða frístundavers. Einstæðir foreldrar geta sótt um niðurgreiðslu vegna daggæslu í heimahúsi eða 40% afslátt af leikskólagjaldi. Foreldrar sem báðir stunda ólánshæft nám geta sótt um 40% afslátt af leikskólagjaldi. Sækja skal um afslátt á umsóknareyðublaði sem er að finna á vefsíðu sveitarfélagsins www.vestmannaeyjar.is eða í þjónustuveri Ráðhússins og því skal skila þangað. Móttaka umsókna og afgreiðsla er í þjónustuveri Ráðhússins.