Stuðningur við fatlað fólk

Fjölskyldu- og fræðslusvið hefur umsjón með málefnum fatlaðs fólks sem nýtur allrar almennrar þjónustu sem Vestmannaeyjabær veitir.

Auk þess er í boði ýmis sértæk þjónusta í samræmi við lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem miðar að því að tryggja fötluðu fólki jafnan rétt og skilyrði til að lifa sem eðlilegasta lífi.

Björg Ólöf Bragadóttir umsjónarþroskaþjálfi hefur faglega umsjón með verkefnum málaflokks fatlaðs fólks og veitir nánari upplýsingar bæði í tölvupósti á netfangið bjorg@vestmannaeyjar.is og í síma 488 2000 .

Stuðningsfjölskyldur

Hlutverk stuðningsfjölskyldu er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess og veita barninu tilbreytingu. Stuðningsfjölskyldan hefur barnið í umsjón sinni að jafnaði tvo sólarhringa í mánuði.

Dvöl hjá stuðningsfjölskyldu er samningsbundin til ákveðins tíma.

Björg Ólöf Bragadóttir umsjónarþroskaþjálfi veitir nánari upplýsingar bæði í tölvupósti á netfangið bjorg@vestmannaeyjar.is og í síma 488 2000

Heimaey – vinnu- og hæfingarstöð

Í Heimaey fer fram dagþjónusta, hæfing, iðja, starfsþjálfun og vernduð vinna samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks. Heimaey vinnu- og hæfingarstöð starfar eftir Lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Heimaey veitir dagþjónustu fyrir fólk sem vegna fötlunar þarf sérhæfða og einstaklingsmiðaða þjónustu, létta vinnu, þjálfun, umönnun og afþreyingu. Þjónustunotendur vinna bæði verkefni frá utanaðkomandi aðilum ásamt því að þróa eigin framleiðslu.

Auk starfstengdra verkefna s.s. merkja og pakka bjór fyrir Brothers Brewery, brjóta öskjur fyrir Iðunn Seafoods eða pakka harðfisk fyrir Volcano Seafood, leggjum við áherslu á heilbrigði, hreyfingu, tómstundir og afþreyingu auk ýmissa starfa sem tengjast heimilishaldi og daglegum störfum.

Heimaey vinnu og hæfingarstöð er mótttökuaðili fyrir hönd Endurvinnslunnar á einnota umbúðum. Einnig framleiðum við og seljum hágæðakerti á landsvísu í vinnusalnum. Starfsmenn í vinnusal þar sem m.a. kertagerðin er og í Endurvinnslunni eru skilgreindir sem starfsmenn í verndaðri vinnu.

Heimaey er aðili að Hlutverki sem eru hagsmunasamtök um vinnu og verkþjálfun.

Markmið:

· Markmið Heimaeyjar er að stuðla að aukinni vinnu-, félags- og sjálfshjálparfærni fólksins.

· Veita þeim sem ekki eiga kost á vinnu á almennum vinnumarkaði atvinnu við sitt hæfi.

· Veita fólki með fötlun þjálfun og endurhæfingu.

· Veita starfsþjálfun sem eykur möguleika fólk með fötlun vinnu á almennum markaði.

· Bjóða uppá næg og fjölbreytt verkefni sem taka mið af þjálfunargildi og sértekjum.

· Líkja sem mest eftir algengum vinnuaðstæðum og kröfum á almennum vinnumarkaði.

· Veita góða, faglega og sveigjanlega þjónustu.

· Veita einstaklingsmiðaða þjónustu sem fellur að mismunandi þörfum og óskum.

· Að starfsemin sé í tengslum við nærsamfélagið og atvinnulífið í Vestmannaeyjum

Forstöðumaður Heimaeyjar vinnu- hæfingarstöðvar er Þóranna Halldórsdóttir, thoranna@vestmannaeyjar.is.

Styrkur vegna námskostnaðar eða verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks

Vestmannaeyjabær veitir fötluðu fólki aðstoð vegna felagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:

  1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.

  2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

Aksturþjónusta fatlaðs fólks

Vestmannaeyjabær býður upp á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk með lögheimili í Vestmannaeyjum á virkum dögum á tímabilinu 7:30 til 17:00 og hefur til þjónustunnar sérútbúinn bíl. Markmið þjónustunnar er að gera þeim sem eru andlega og líkamlega fatlaðir og þurfa nauðsynlega, vegna fötlunar sinnar á akstursþjónustu að halda, kleift að geta stundað vinnu og nám eða sótt þjónustu til sérhæfðar þjónustustofnanar.

Þjónusta utan hefðbundins tíma akstursþjónustunnar (viðbótarþjónusta)

  • Vestmannaeyjabær býður sömu aðilum upp á niðurgreiðslu á kostnaði vegna leigubifreiðar. Niðurgreiðslan er bundin við 900 kr ferðin og takmarkast við 10 ferðir á mánuði. Niðurgreiðslan miðast við ferðir á þeim tíma sem ekki er veitt akstursþjónusta á vegum sveitarfélagsins.

  • Einstaklingar sem nýta hjólastól og/eða vegna fötlunar sinnar geta ekki nýtt sér leigubílaþjónustu geta pantað þjónustu sérútbúins bíls og skal það gert með minnst 2ja daga fyrirvara. Ef sameiginlegt mat notenda og þjónustuaðila er á þörfinni er bílstjóri fenginn til verksins*. Ferðafjöldinn miðast við 10 ferðir að hámarki á mánuði og gjald notenda er 300 kr. ferðin. (* ath. háð því að bílstjóri fáist til starfa)

  • Í vissum tilfellum er hægt að fá lánaðan sérútbúinn ferðaþjónustubíl til fatlaðs fólks í hjólastól eða sem vegna fötlunar eru í þörf á sérútbúnum bíl. Leggja verður fram pöntun tímanlega. Bílstjóri verður að hafa viðeigandi ökuréttindi til að aka umrædda bifreið og ber ábyrgð á henni skv. umferðarlögum. Gjald fyrir láni á bifreiðinni er 800 kr og miðast við lán í 4 klst. 

 

Þjónustusamningur við Blindrafélagið

Vestmannaeyjabær er með samning við Blindrafélagið um að það taki að sér að veita ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu til einstaklinga með lögheimili í Vestmannaeyjum sem eru blindir og geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar sinnar. Umsækjendur sækja um ferðaþjónustuna til skrifstofu fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, Kirkjuvegi 23 s. 488 2000 . Starfsmenn sviðsins fara yfir umsókn og ákveður fjölda ferða í samræmi við mat á þörf. Hámark ferða er allt að 20 ferðir á ári.

Umsókn um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk er hægt að fylla út rafrænt á ibuagatt.vestmannaeyjar.is eða á þar til gerðu eyðublaði sem fæst á skrifstofu fjölskyldu- og fræðslusviðs, Kirkjuvegi 23

Umsóknin berst til fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar Kirkjuvegi 23. Umsókn er tekin fyrir hjá starfsmönnum sviðsins og fær umsækjandi svarbréf með niðurstöðu innan fjögurra vikna.

Nánari upplýsingar er veittar á skrifstofu fjölskyldu- og fræðslusviðs í 488 2000 .

Til að hægt sé að fá viðbótarþjónustu þarf að liggja fyrir samþykki fyrir aksturþjónustu.

Pöntun á viðbótarþjónustu fer í gegnum skrifstofu fjölskyldu- og fræðslusviðs í síma 488 2000 .

Til að fá endurgreiðslu á leigubifreiðakostnaði þarf að skila inn kvittum fyrir ferðum og er hægt að skila þeim inn á skrifstofu fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, Kirkjuvegi 23. Gefa verður upp reiknisnúmer sem lagt er inn á. Ekki er greitt fyrir hærri upphæð en sem nemur útlögðum kostnaði og niðurgreiðslur heimila.

Félagsleg liðveisla

Persónulegur stuðningur sem miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis með aðstoð við að njóta tómstunda, menningar og lista. Er veitt bæði börnum og fullorðnum. Markmið félagslegrar liðveislu er að efla viðkomandi til sjálfshjálpar, veita honum persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun og efla hann til sjálfstæðis í félagslegum samskiptum. Liðveisla er ekki ætluð til að aðstoða við athafnir daglegs lífs.

 

Stoðþjónusta

Fötluðu fólki stendur til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og með því komið í veg fyrir félaglega einangrun. Stoðþjónustan miðast við aftirfarandi þarfir; a) þörf fatlaðra einstaklinga fyrir þjónustu sem felst í því að treysta möguleika þeirra til sjálfstæðs heimilishalds og samfélagslegrar þátttöku, b) þarfir fatlaðra einstaklinga til hæfingar, endurhæfingar, menntunar og atvinnu, m.a. á grundvelli viðeigandi aðlögunar, svo að þeir geti sé sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra, c) þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir sérhæfða ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þ.m.t. ástundun tómstunda og menningarlífs, d) þarfir fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri þjónustu við fjölskyldur þeirra svo að þær geti búið börnunum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði og e) þarfir fatlaðra foreldra vegna umönnunar og uppeldis barna sinna.

Margháttuð aðstoð við fullorðna við ýmsar athafnir daglegs lífs, bæði inni á heimilum og úti í samfélaginu.

Þjónustuíbúðakjarni fatlaðra (Kjarninn Strandvegi 26)

Þjónustuíbúðakjarninn að Strandvegi 26 samanstefnur af sjö leiguíbúðum fyrir fólk sem þurfa sökun fötlunar sinnar á sértæku húsnæði að halda sem og umfangsmikla aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili.

Þjónustuíbúðin er heimili viðkomandi leigjanda en hann mun njóta þjónustu samkvæmt þjónustusamningi frá starfsmönnum þjónustukjarnans sem staðsettur er á sömu hæð.

Í þjónustukjarnanum er stórt og mikið rými þar sem íbúar þjónustuíbúðanna geta eldað, borðað saman og notið samveru. Starfsemi þjónustukjarnans býður upp á sólarhringsþjónustu fyrir íbúa þjónustuíbúðanna á meðan þjónustumat kallar eftir slíku.

Skammtímavistun

Skammtímavistun er tímabundin sólarhringsvistun með það að markmiði að veita einstaklingum með fötlun reglubundna vistun. Einnig er skammtímavistun veitt vegna óvæntra áfalla í fjölskyldu, þ.e. neyðarvistun. Skammtímavistun er til hvíldar og tilbreytingar fyrir einstaklinginn, til að létta álagi af fjölskyldu hans og til þess að gera honum kleift að dvelja sem lengst heima.

Vistunin er því ýmist reglubundin eða veitt til ákveðins tíma og er dvalartíminn breytilegur eftir aðstæðum hvers og eins.

Réttindagæsla fyrir fatlað fólk

Fatlað fólk á rétt á réttindagæslu á vegum ríkisins. Geta fatlaðir leitað til réttindagæslumanns með hvaðeina sem varðar réttindi hans, fjármuni og önnur persónuleg mál. Réttindagæslumaður skal veita viðkomandi stuðning og aðstoða hann við að leita réttar síns eftir því sem við á. Einnig getur hver sá sem telur vera brotið á réttindum fatlaðs einstaklings tilkynnt það réttindagæslumanni auk þess sem réttindagæslumaður getur tekið upp mál að eigin frumkvæði. Réttindagæslumaður skal vera sýnilegur og standa fyrir fræðslu fyrir fatlað fólk og þá sem starfa með því.

Hægt er að hafa samband við réttindagæslumann í síma 5548100 eða senda póst á netfangið postur@rettindagaesla.is