Félagslegt leiguhúsnæði

Með félagslegu leiguhúsnæði er átt við almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk (sértækt húsnæði og húsnæði með stuðningi), leiguhúsnæði fyrir aldraða og þjónustuíbúðir aldraðra.

Almennt félagslegt leiguhúsnæði er ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrði og lágra launa. Með almennu félagslegu leiguhúsnæði er átt við hverja þá íbúð í eigu Vestmannaeyjabæjar sem ekki er sérstaklega skilgreind sem leiguíbúð aldraðra, þjónustuíbúð aldraðra eða húsnæði fyrir fatlað fólk. Um almennt félagslegt leiguhúsnæði er fjallað í II. kafla reglna þessara.

Húsnæði fyrir fatlað fólk er íbúðarhúsnæði sem gert hefur verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir tiltekinn hóp fatlaðs fólks. Húsnæði fyrir fatlað fólk skiptist í sértækt húsnæði fyrir fatlað fólk (þjónustuíbúðakjarna) og í húsnæði með stuðningi. Með húsnæði fyrir fatlað fólk er átt við húsnæðisúrræði í skilningi reglugerðar um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk nr. 370/2016, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

a. Sértækt húsnæði fyrir fatlað fólk (þjónustuíbúðakjarni) er ætlað þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum fötlunar og þurfa umfangsmikla aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili.

b. Húsnæði með stuðningi er ætlað þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum fötlunar og þurfa nokkurn stuðning við að geta búið á eigin heimili.

Um húsnæði fyrir fatlað fólk er fjallað í III. kafla reglna þessara.

Leiguhúsnæði fyrir aldraða er leiguhúsnæði sem er ætlað fólki 67 ára og eldra þar sem núverandi búseta viðkomandi hentar ekki lengur sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrði, lágra tekna og heilsufarsvanda og önnur úrræði í búsetumálum fást ekki.

Um leiguhúsnæði fyrir aldraða er fjallað í IV. kafla reglna þessara.

Með þjónustuíbúð aldraðra er átt við félagslegt leiguhúsnæði sem sérstaklega er ætlað öldruðum, sbr. 4. tl. 13. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999. Þjónustuíbúðir aldraðra eru ætlaðar þeim sem þurfa töluverða aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili, sbr. 1. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999. Um þjónustuíbúðir aldraðra er fjallað í IV. kafla reglna þessara.

Nánari upplýsingar gefa starfsmenn félagsþjónustu (felags@vestmannaeyjar.is) og í síma 488 2000

 


Jafnlaunavottun Learncove