Barnaverndarþjónusta
Starfsmenn barnaverndarþjónustu taka við barnaverndartilkynningum á skrifstofutíma í síma 488 2000 .
Markmið barnaverndarlaga er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.
Einstaklingar teljast börn til 18 ára aldurs en þau eiga öll rétt á vernd og umönnun og eiga að njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærgætni og ber þeim jafnframt að gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Foreldrum ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Aðrir aðilar sem koma að uppeldi barna skulu sýna þeim virðingu og umhyggju.
Sveitarfélög bera ábyrgð á barnavernd skv. barnaverndarlögum og skulu starfrækja barnaverndarþjónustu sem ber ábyrgð á verkefnum og ákvörðunum samkvæmt barnaverndarlögum sem ekki eru sérstaklega falin öðrum, þ.m.t. umdæmisráði barnaverndar, dómstólum eða öðrum stjórnvöldum.
Tilkynningarskylda
Allir hafa tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi, stofni heilsu sinni og þroska í hættu eða telja að líf, heilsu eða þroska ófædds barns sé stefnt í alvarlega hættu. Óska má eftir því að tilkynning sé undir nafnleynd gagnvart þeim sem verið er að tilkynna.
Starfsmenn barnaverndarþjónustu taka við barnaverndartilkynningum á skrifstofutíma í síma 488 2000 . Utan þess tíma er bent á neyðarlínuna 112 þar sem unnt er að koma á framfæri barnaverndartilkynningum og fá samband við starfsmann á bakvakt barnaverndar í neyðartilvikum.
Einnig er hægt að koma tilkynningum á framfæri á netfangið barnavernd@vestmannaeyjar.is, í gegnum Signet transfer eða á annan hátt með skriflegum hætti auk þess sem hægt er að fá viðtal við barnaverndarstarfsmann samkvæmt nánara samkomulagi þar um.
Ferli Barnaverndarmáls
Ferli barnaverndarmáls er á þann veg að þegar tilkynning berst til barnaverndar taka starfsmenn ákvörðun um hvort hefja skuli könnun máls. Markmið könnunar er að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði, allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Við vinnslu barnaverndarmála er megin áhersla lögð á aðstæður og líðan barna sem og samvinnu við foreldra og samstarf við aðrar fagstéttir er koma að málefnum barna þegar það á við.
Þegar könnun máls er lokið skal barnaverndarþjónustan taka saman niðurstöður könnunar í greinagerð þar sem skilgreint er hvaða vandi er til staðar og hvort talin sé ástæða til að gera meðferðaráætlun í máli barnsins þar sem kveðið er á um stuðningsúrræði eða hvort málinu sé lokið af hálfu barnaverndar.
Fyllsta trúnaðar er gætt við vinnslu barnaverndarmála.
Framkvæmdastjórn Barnaverndarþjónustu Vestmannaeyja er samansett af framkvæmdastjóra og umsjónarfélagsráðgjafa sviðsins. Nánari upplýsingar veitir Silja Rós Guðjónsdóttir, Umsjónarfélagsráðgjafi bæði í síma 488-2000 og í tölvupósti á netfangið silja@vestmannaeyjar.is