Gönguleiðir


Hiking routes in English

Tyrkjaránsganga

Klukka
Fjall4 A - B
   
3-4 klst. 480 m 12 km   Boots Boots Boots

Gangan hefst í Ræningjatanga og þaðan liggur leiðin til allra helstu staða í Vestmannaeyjum þar sem sögufrægir atburðir áttu sér stað í Tyrkjaráninu 1627. Hægt er að sjá kort af gönguleiðinni fyrir neðan lýsinguna.

1. Ræningjatangiraeningjatangi

Ræningjatangi er tangi sem stendur austan við Brimurð á Heimaey. Tanginn dregur nafn sitt af sjóræningjunum sem komu til Vestmannaeyja í Tyrkjaráninu árið 1627, en þar er sagt að sjóræningjarnir hafi komið á land. Ekki þótti þeim ráðlegt að sigla inn í höfnina þar sem viðbúnaður var á Skansinum og mannaðar fallbyssur.

2. Litlhöfði

Litlhöfði er suður af Kervíkurfjalli. Hann myndaðist fyrir rúmum 5000 árum þegar gos varð í Stakkabótargíg.

3. Lyngfellisdalur

Í Lyngfellisdal eru ræningjarnir í Tyrkjaráninu sagðir hafa sett upp búðir og þurrkað vopn sín og klæði áður en haldið var til byggða.

4. Ofanleiti

Ofanleiti var áður bæjarland sem kallað var Kirkjubæir en þar var starfrækt prestsetur fram til ársins 1837. Í Tyrkjaráninu var þá prestur á Kirkjubæ séra Jón Þorsteinsson en frægt er að hann faldi sig fyrir ræningjunum í Rauðahelli í Urðum, ásámt skyldfólki sínu og fleirum. Jón var höggvinn, og fólk hans herleitt til Algeirsborgar og áttu þau aldrei afturkvæmt til Íslands.

5. Hundraðmannahellir

Sagt er að hundrað manns hafi falið sig í Hundraðmannahelli þegar sjóræningjarnir frá Algeirsborg herjuðu á eyjarnar 1627 í Tyrkjaráninu. Fannst þó hópurinn vegna þess að hundur var að snuðra fyrir utan. Til að finna hellinn gátu menn notað mið, líkt og gert er með fiskimið. Miðið er: Hanahöfuð í Halldórsskoru og Hásteinn í Dönskutó.

6. Fiskhellarfiskhellar

Í Tyrkjaráninu 1627 leitaði fólk skjóls fyrir ræningjunum í hellum og skútum í Fiskhellum. Fóru menn með konur sínar og börn þangað upp, líklega á Þorlaugargerðishillu þar sem Þorlaugargerðisbændur höfðu fiskbyrgi sín en sú hilla er mjög ofarlega í berginu. Er það í munnmælum að pils sumra kvennanna á hillunni hafi hangið fram af og hafi 18 kúlnagöt verið á pilsi einnar konunnar en hana hafi ekki sakað. 

7. Sængurkonusteinn

Sagan segir að tveir sjóræningjar í Tyrkjaráninu 1627 hafi komið að konu sem nýbúin var að ala barn við Sængurkonustein. Annar ræninginn vildi drepa barnið og hafa konuna á brott en hinn bannaði það og gaf konunni hluta af skikkju sinni til að vefja utan um barnið og gaf hann þeim líf.

8. Prestasteinn

Sagt er að prestar Eyjamanna á tíma Tyrkjaránsins, þeir séra Jón Þorsteinsson á Kirkjubæ og séra Ólafur Egilsson á Ofanleiti hafi viðhaldið þeim hinum gamla sið að messu lokinni að ganga saman að Prestasteini og kveðjast þar. Þeir fornvinir og kollegar, séra Jón píslarvottur og séra Ólafur, hafa því að öllum líkindum kvaðst þar í hinsta sinn sunnudaginn 15. júlí 1627.

9. Minnismerki Jóns ÞorsteinssonarIMG_0773-2-

Jón Þorsteinsson var sóknarprestur að Kirkjubæ frá 1607 til dauða síns 1627. Andlát Jóns var líklega sá atburður sem veitti honum hve mesta frægð. Hann dó þann 18. júlí 1627, þegar hann var hálshöggvinn af sjóræningja frá Alsír, í Tyrkjaráninu. Hann hefur upp frá því verið kallaður Jón Píslarvottur, en legsteinn Jóns var endurreistur á hrauninu eftir gos.

10. Stakkagerðistún

Á Stakkagerðistúni má sjá höggmynd í minningu Guðríðar Símonardóttur frá Stakkagerði sem rænt var í Tyrkjaráninu 1627 og seld í ánauð í Alsír. Hún var ein fárra Íslendinga er keypt var laus af Danakonungi 1636. Á leið hennar aftur til Íslands dvaldi hún veturinn 1636-1637 í Kaupmannahöfn þar sem hún ásamt öðrum Íslendingum fengu uppfræðslu í kristnum fræðum og upprifjun í móðurmálinu. Þá kennslu annaðist Hallgrímur Pétursson. Kom það svo til að þau þau felldu hugi saman og fylgdi Hallgrímur henni til Íslands. Hallgrímur Pétursson varð síðar eitt mesta sálmaskáld íslendinga.

11. Skansinn

Eftir Tyrkjaránið óttuðust Eyjamenn aðra innrás og því var danskur herþjálfari fenginn til að hafa umsjón með landvörnum frá Skansinum . Fallbyssur, sem en má sjá á Skansinum, voru notaðar í æfingar Herfylkingar Vestmannaeyja og skipulagði hann einnig eftirlit frá Helgafelli í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum skipa.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

Tyrkjaransganga