Skansinn
20 mín. | 40 m | 1.4 km |
Gangan á Skansinn hefst í miðbænum við verslunina Eymundsson og liggur þaðan til austurs eftir Strandvegi. Þegar komið er upp á hæðina má finna tröppur sem liggja niður að Skansinum. Leiðin til baka liggur upp Skansveginn og þaðan yfir nýja hraunið í átt að miðbænum. Aðeins 20 metra hækkun er hvora leið, gangan sjálf er ekki erfið og því tilvalin fyrir fjölskyldufólk eða þá sem hafa ekki mikla reynslu af fjallgöngum.
Skansinn heitir réttu nafni Kornhólsskans en hann stendur nálægt Kornhóli.
Virkið / varnargarðurinn á Skansinum var reistur 1586 að ósk Danakonungs til þess að verja konungsverslunina ágangi Englendinga. Eftir Tyrkjaránið 1627 var varnargarðurinn á Skansinum endurbyggður enda töldu menn hann nauðsynlegann til að verjast frekari innrásum.
Á Skansinum er hægt að sjá fallbyssu frá 1586 sem meðal annars var notuð á æfingum herfylkingar Vestmannaeyja sem stofnuð var eftir Tyrkjaránið.
Á Skansinum má einnig finna Stafkirkjuna, eftirmynd fyrstu kirkjunnar í Vestmannaeyjum sem byggð var við kristnitöku íslendinga árið 1000. Leifar þeirrar kirkju hafa þó aldrei fundist en þær urðu eflaust hafinu að bráð. Kirkjan er nú stendur var reist í tilefni 1000 ára kristnitökuafmæli Íslendinga árið 2000 og var hún gjöf frá Norðmönnum.
Landlyst þar sem fyrsta fæðingarheimili á Íslandi var til húsa var einnig endurbyggt á Skansinum. Upphaflega stóð Landlyst í miðbænum en því var valinn staður á Skansinum árið 2000. Húsið hýsir nú læknaminjasafn.
Á þessum stað er vatns- og rafmagnssögu Vestmannaeyja einnig gerð góð skil sem og sögu sjóveitunnar. Sjóveitutankurinn frá árinu 1931 stendur til dæmis hálfur út úr hrauninu eftir gosið 1973.
Til móts við Skansinn er dalur sem kallast Hraunskógur. Í daglegu tali er hann oft nefndur Dauðadalur því þar safnaðist eitrað gas í Heimaeyjagosinu sem banvænt var að anda að sér. Óhætt er að fara í dalinn núna og er hann tilvalinn fyrir lautarferð.
Þú ert á þína eigin ábyrgð.