Tillaga að breyttu aðalskipulagi – nýir háspennustrengir Vestmannaeyjalínur 4 og 5
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti þann 13. júní 2024 að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 og umhverfismat áætlana, vegna lagningu tveggja nýrra háspennustrengja til Vestmannaeyja, sbr. 31. gr Skipulagslaga nr. 123/2010.
Tillagan gerir ráð fyrir að tveir nýir 66 kV sæstrengir, Vestmannaeyjalínur 4 og 5 (VM4 og VM5) komi í land í gjábakkafjöru austan við þann stað þar sem Vestmannaeyjalína 3 (VM3) kemur nú í land. Eftir landtöku er gert ráð fyrir að strengirnir verði leiddir norður upp gil sem liggur í Gjábakkafjöru og áfram að Skansvegi.
Skansvegur verður þveraður og strengirnir þaðan leiddir í gegnum hraun að mestu um göngustíga sem eru þar fyrir. Því yfirborði sem verður raskað á þeim hluta leiðarinnar er að mestu þakið lúpínu sem er talið rýra verndargildi yfirborðs hraunsins. Strengjaleiðirnar verða nýttar til að búa til nýjar gönguleiðir.
Þó nokkrar leiðir að landi og að spennistöð voru skoðaðar og má sjá í skipulagsgögnum). Þótti leiðin sem lýst er að ofan fela í sér mest rekraröryggi og minnst umhverfisrask, en leið sem gert var ráð fyrir í tillögu á vinnslustigi reyndist ekki fýsileg vegna strengja sem fyrir eru.
Umhverfisáhrif sem hljótast af framkvæmd skipulagsins eiga að mestu við um rask á yfirborði lands sem er að hluta til ósnert hraun. Sértækir skilmálar hafa verið skilgreindir varðandi umgengni við framkvæmdir og endurnýjun umhverfis að þeim loknum.
Skipulagsgögn eru aðgengileg á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar Skipulag í kynningu, afgreiðslu í Ráðhúsi Vestmannaeyja og á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar .
Tillagan er auglýst á tímabilinu 28. júní – 9. ágúst 2024. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skulu berast skriflega til og með 9. ágúst 2024 á netfangið dagny@vestmannaeyjar.is, í afgreiðslu Ráðhúss Vestmannaeyja eða í gegnum skipulagsgátt Skipulagsstofnunar.