20. maí 2022

Kynning á vinnslustigi Fiskeldi í Viðlagafjöru

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja samþykkti þann 20. apríl 2022 að hefja samráðsferli vegna fyrirhugaðrar breytingar á Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 og deiliskipulags vegna fiskeldis í Viðlagafjöru.

Fiskeldi2Í Viðlagafjöru hefur um nokkur skeið verið efnistökusvæði. Með tillögu að fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu verður svæðið skilgreint sem iðnaðarsvæði og fyrirhugað að þar komi fiskeldi. Svæðið er einnig stækkað til suðvesturs þar sem nú er pittur fyrir jarðefni.

Deiliskipulags tillagan gerir ráð fyrir tveim lóðum. Fyrirtækið Icelandic Land Farmed Salmon (ILFS) hefur fengið vilyrði frá bæjarstjórn um nýtingu á lóðunum til fiskeldis. Á annarri lóðinni hefur fyrirtækið þegar hafið hönnunarvinnu og er fyrirkomulag og kvaðir þeirrar lóðar því skilgreindar í deiliskipulagi. Í deiliskipulagi er einnig gert ráð fyrir svæði til norðurs þar sem áfram verður hægt að vinna sand úr fjörunni.

Umhverfisskýrsla vegna skipulagsáætlana hefur verið unnin til að meta áhrif þessara breytinga á helstu umhverfisþætti.

Fiskeldi í Vestmannaeyjum er talið geta skotið stoð undir þjónustu og vinnslu útgerðar í Vestmannaeyjum. Breyting styður við meginmarkmið Aðalskipulags Vestmannaeyja um öflugt atvinnusvæði þar sem sjávarútvegurinn er meginstoðin og að aðstaða þessara greina verði eins og best getur orðið. Breytingin er einnig í samræmi við markmið Aðalskipulagsins um svæði fyrir fiskeldi á landi.

Gögnin eru nú kynnt sem tillaga á vinnslustigi til samráðs um frekari úrvinnslu. Kynningarfundur verður haldinn í Eldheimum þann 30. Maí 2022 klukkan 17:15. Þar mun ILFS kynna fyrirhugaða framkvæmd og atvinnustarfsemi og Vestmannaeyjabær kynna breytingu á Aðalskipulagi, deiliskipulag og umhverfisskýrslu.

Skipulagsgögn liggja frammi hjá Umhverfis- og framkvæmdasviði að Skildingavegi 5 og má einnig finna í skipulagsgátt á vefsíðu sveitafélagsins.

Bæjarbúar og aðrir sem láta sig málið varða eru hvattir til að kynna sér kynningargögn skipulagsins á samráðsstigi. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna þarf að skila skriflega eigi síðar en 1. júní 2022 í afgreiðslu Umhverfis- og framkvæmdasviðs Skildingavegi 5, eða á netfangið umhverfissvid@vestmannaeyjar.is