Byggingamál

Svið - Umhverfis- og framkvæmdasvið

Byggingaleyfi

Byggingarfulltrúinn í Vestmannaeyjum annast samþykkt og útgáfu byggingarleyfa fyrir mannvirki í Vestmannaeyjum.

Sækja þarf um byggingarleyfi fyrir byggingarleyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt byggingarreglugerð. Slíkt á við þegar fyrir liggur að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja. Eins þegar það á að breyta mannvirki, burðarkerfi þess eða lagnakerfum, og þegar breyta á notkun þess, útliti og formi. Hér að neðan má finna helstu upplýsingar um umsóknarferlið, hverju þarf að huga að áður en farið er af stað og hvað þarf til að framkvæmdir geti hafist.

Aðsetur: Skildingavegur 5

Skrifstofa umhverfis-og framkvæmdasviðs er opin alla virka daga frá kl. 8:00 – 15:00.

Viðtals- og símatími byggingarfulltrúa er milli kl. 10:00 og 12:00 alla virka daga.

Sími: 488-2530

Umsókn um byggingarleyfi er tvíþætt. Annars vegar þarf að samþykkja að byggingaráformin (aðalteikningarnar) uppfylli allar lagalegar kröfur sem gerðar eru til framkvæmdarinnar. Hins vegar er byggingarleyfi útgefið og heimild til framkvæmda veitt, þegar búið er að skrá ábyrgðaraðila framkvæmdar (byggingarstjóri og iðnmeistari) og greiða álögð gjöld. Athugið að áður en byggingarvinna hefst þurfa að liggja fyrir samþykktir séruppdrættir af uppbyggingu og útfærslu verksins.

Samþykkt byggingarleyfisumsókn segir einungis til um það hvort áform um framkvæmd uppfylli lagalegar kröfur. Hún veitir ekki heimild til framkvæmda, til þess þarf að liggja fyrir formlega útgefið byggingarleyfi.

Ef óskað er eftir almennum upplýsingum og leiðbeiningum vegna byggingarleyfa má senda fyrirspurn á bygg@vestmannaeyjar.is.

Rafrænt ferli byggingarleyfisumsókna

Frá og með 1. mars 2022 fara umsóknir um byggingarleyfi fram rafrænt á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar.

Rafrænar umsóknir er að finna í mínar síður

Leiðbeiningar fyrir hönnuði

Hvenær skal sækja um byggingarleyfi?

Sækja þarf um byggingarleyfi til að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útlit og formi.

Hverjir geta sótt um?

Húseigendur og lóðarhafar, eða hönnunarstjóri í umboði þeirra, geta sótt um byggingarleyfi. Húseigendum ber að ráða löggiltan hönnunarstjóra. Hönnunarstjóri hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á því að hönnunargögn séu til staðar og með þeim hætti sem byggingarleyfisumsókn og framkvæmd krefst. Hönnunarstjóri er að öllu jöfnu sá aðili sem annast öll samskipti við embætti byggingarfulltrúa þegar sótt er um byggingarleyfi.

Þarf ég byggingarleyfi?

Gott er að athuga hvort þörf sé á byggingarleyfi fyrir áætluðum framkvæmdum. Húseigandi eða lóðarhafi getur lagt inn formlega fyrirspurn áður en hönnunarferli hefst til að kanna hvort líklegt sé að leyfi muni fást fyrir tiltekinni framkvæmd. Fyrirspurn þurfa ekki að fylgja fullnaðaruppdrættir og því sparast hönnunarkostnaður ef í ljós kemur að fyrirhuguð framkvæmd er ósamþykkjanleg þar sem hún uppfyllir ekki lagaleg ákvæði.

Fyrirspurnin er lögð fyrir fund Skipulagsráðs en þeir eru að jafnaði annan hvern mánudag. Fyrirspurnin þarf að berast fimm virkum dögum fyrir fund.

Rafrænar fyrirspurnir er að finna í mínar síður

Athugið! Jákvætt svar formlegrar fyrirspurnar veitir ekki heimild til framkvæmdar. Til að fá slíka heimild þarf að sækja um byggingarleyfi. Ekki er gefið að svar við byggingarleyfisumsókn verði með sama hætti og svar formlegrar fyrirspurnar.

Hvenær þarf ekki byggingarleyfi?

Undanþegið byggingarleyfi eru ýmsar minniháttar framkvæmdar samkvæmt gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð. Minniháttar framkvæmdir sem eru undanþegnar byggingarleyfi geta þó verið tilkynningaskyldar. Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á að ekki skapist hætta fyrir fólk og eignir og að virt séu öll viðeigandi ákvæði reglugerðarinnar. Hann ber jafnframt ábyrgð á að framkvæmd sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og að ekki sé gengið á rétt nágranna.

Hvernig fæ ég byggingarleyfi útgefið?

Til að fá byggingarleyfi útgefið svo framkvæmdir geti hafist þarf að skila inn eftirfarandi gögnum:

1. Undirritaðri yfirlýsingu byggingarstjóra um ábyrgð sína á framkvæmdinni (eyðublað).

2. Undirritaðri ábyrgðaryfirlýsingu iðnmeistara sem bera ábyrgð á einstöku verkþáttum (eyðublað).

3. Starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra frá tryggingarfélagi (staðfesting tryggingar er send frá tryggingarfélagi á netfang byggingarfulltrúa: bygg@vestmannaeyjar.is).

4. Yfirliti hönnunarstjóra um innra eftirlit við framkvæmd hönnunar um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða og áritun hans til staðfestingar á því að um tæmandi yfirlit sé að ræða.

5. Eignaskiptayfirlýsingu (ef við á).

6. Greiða byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld.

Athugið!

Það er hlutverk hönnunarstjóra að tryggja að öll gögn berist embætti byggingarfulltrúa sem og að óska eftir áframhaldandi afgreiðslu málsins þegar gögnin og greiðslan hafa borist. Þá getur formlegt byggingarleyfi verið gefið út og einungis þá getur framkvæmdin hafist.

Byggingarleyfi er gefið út með þeim skilyrðum að allir viðeigandi verkuppdrættir skuli liggja fyrir samþykktir og áritaðir af byggingarfulltrúa áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst.

Byggingarleyfi fellur sjálfkrafa úr gildi hafi byggingarframkvæmd ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess.

Afgreiðslutími

Endanlegur tími fyrir samþykkt áforma og útgáfu byggingarleyfis fer eftir því hvort öllum viðeigandi gögnum var skilað inn og hvort þau uppfylla þær kröfur sem eru gerðar, stærð verkefnis, hvort fara þurfi í grenndarkynningu og hvenær tilskilin gjöld eru greidd.

Tafir

Algeng ástæða lengri afgreiðslutíma á samþykkt áforma og útgáfu byggingarleyfis er að gögn sem berast eru ekki fullnægjandi. Þar má helst nefna:

-ekki fylgja öll nauðsynleg gögn umsókninni (t.d. samþykki meðeiganda, umsögn burðarvirkishönnuða)

-teikningar eru ófullgerðar, ófullnægjandi eða samræmast ekki byggingarreglugerð

-teikningar eru ekki í samræmi við samþykkt skipulag

-gjöld eru ekki greidd

Umsóknir og eyðublöð

Lög og reglugerðir

Teikningar

KORTAVEFUR (loftmynd dags. 04.08.2018)

Á kortavef Vestmannaeyjabæjar er ma. að finna upplýsingar um lósar lóðir, samþykktar teikningar, lagnir í jörðu og skipulagsmál.

ATH: varðandi allar jarðvegsframkvæmdir skal leita upplýsinga um lagnir hjá viðkomandi veitufyrirtæki og / eða hjá Vestmannaeyjabæ.

Hægt er að kaupa ljósrit af teikningum flestra húsa bæjarins á skrifstofu skipulags- og byggingafulltrúa, og eru það í flestum tilfellum til grunnteikningar, lagnateikningar, útlitsteikningar og afstöðuteikningar.