Fjárhagsaðstoð

Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. 

Félagsþjónusta Vestmannaeyja veitir fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta veitt sér og sínum farborða án aðstoðar samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr 40/1991 og reglum um fjárhagsaðstoð sem Vestmannaeyjabær setur. Fjárhagsaðstoð er veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustu.

Réttur til fjárhagsaðstoðar

Einstaklingur með lögheimili í Vestmannaeyjum sem hefur tekjur á eða undir ákveðnum viðmiðunarmörkum getur sótt um fjárhagsaðstoð. Tekjumörk eru miðuð við upphæð fjárhagsaðstoðar. Fólk sem er í skráðri sambúð í Þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.

Umsækjanda ber að kanna til þrautar rétt til annarra greiðslna áður en sótt er um fjárhagsaðstoð, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, LÍN, fæðingarorlofssjóði, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Umsækjandi þarf að tilkynna um breytingar á tekjum og fjölskylduaðstæðum en slíkar breytingar geta haft áhrif á rétt til fjárhagsaðstoðar. Fjárhagsaðstoð sem er veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga er endurkræf. Heimildir eru til styrkja eða láns vegna sérstakra aðstæðna.

Umsókn um fjárhagsaðstoð

Umsókn um fjárhagsaðstoð er hægt að fylla út í Íbúagátt eða á eyðublaði á skrifstofu félagsþjónustu Kirkjuvegi 23 og skila inn ásamt fylgigögnum. Í umsókninni skulu koma fram upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldugerð, nafn maka og barna á framfæri og nákvæmar upplýsingar um tekjur og eignir.

Eftir að öllum gögnum hefur verið skilað fær umsækjandi viðtalstíma hjá ráðgjafa/félagsráðgjafa. Eftirfarandi fylgigögn þurfa að fylgja umsókninni:

  1. Launaseðlar 3. sl. mánuði, þ.e. yfirlit yfir allar tekjur viðkomandi, s.s. atvinnuleysisbætur, lífeyrissjóðsgreiðslur, greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins ofl.

  2. Ef umsækjandi er atvinnulaus án bótaréttar þarf samt sem áður að skila staðfestingu Vinnumálastofnunar á skráningu þar

  3. Læknisvottorð ef við á

  4. Síðasta skattframtal og/eða veflykill inn á vef rsk.is

  5. Yfirlit úr staðgreiðsluskrá (sjá á skattur.is eða á skattstofu)

  6. Upplýsingar um ónýttan persónuafslátt eða stöðu skattkorts

  7. Yfirlit yfir helstu útgjöld s.s. húsnæði, dagvistunar/skólakostnað, hita, rafmagn, síma, áskriftir o.fl.

Framfærsla barna s.s. barnabætur og barnalífeyrir/meðlag er ekki talin með sem tekjur.

Upphæð fjárhagsaðstoðar

Fjárhagsaðstoð til einstaklinga 18 ára og eldri getur numið allt að kr. 210.263.- á mánuði (2024)

Fjárhagsaðstoð til hjóna og fólks í skráðri sambúð getur numið allt að kr. 336.420.- (210.263.- x 1,6) (2024)

Fjárhagsaðstoð er óháð því hvort barn eða börn búa á heimilinu þar sem ekki er heldur tekið mið af greiðslum barna s.s. barnabætur og barnalífeyrir.

Rétt er að benda á að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er skattskyld.

Skerðing fjárhagsaðstoðar

Hafi umsækjandi um fjárhagsaðstoð hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, er heimilt að greiða honum hálfa grunnupphæð til framfærslu þann mánuð sem umsækjandi hafnar vinnu og mánuðinn þar á eftir. Sama á við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki sýnir fram á staðfesta skráningu sína frá Vinnumálastofnun. Þá skerðist með sama hætti réttur umsækjanda sem hætt hefur þátttöku í átaksverkefni, endurhæfingu og einstaklingsmiðaðri áætlun hjá ráðgjafa, nema veigamiklar ástæður sem fram koma við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því.

Einstaklingar sem eru inniliggjandi á sjúkrahúsum, meðferðarstofnunum eða þeir sem eru í afplánun eiga ekki rétt á fjárhagsaðstoð nema í undantekingatilvikum.

Eftir að mat félagsráðgjafa liggur fyrir á umsókn, (sem m.a. felur í sér viðtal við ráðgjafa þar sem farið er yfir möguleg réttindi og úrræði umsækjanda) er samþykkt aðstoð, að jafnaði í mánuð í senn en hægt er að endurnýja umsóknina meðan aðstæður eru óbreyttar. Að jafnaði er fjárhagsaðstoð er greidd út síðasta fimmtudag í mánuði fimmtudögum eftir að mat ráðgjafa liggur fyrir þann mánuðinn en einnig er hægt að greiða út hálfsmánaðarlega eða vikulega, allt eftir nánara samkomulagi.

Ef mat félagsráðgjafa og fyrirliggjandi gögn gefa til kynna að viðkomandi eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð er möguleiki að sækja um undanþágu til Fjölskyldu- og tómstundaráðs. Nefndin fjallar einnig um aðrar umsóknir sem reglurnar fjalla um, s.s. um sérstaka aðstoð vegna húsnæðis, vegna barna, sérfræðiaðstoð ofl.

Nánari upplýsingar um fjárhagsaðstoð veita félagsráðgjafar sviðsins í síma 488 2000 eða í netfanginu felags@vestmannaeyjar.is eða Silja Rós Guðjónsdóttir umsjónarfélagsráðgjafi í netfanginu silja@vestmannaeyjar.is