Akstursþjónusta

Vestmannaeyjabær býður upp á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk með lögheimili í Vestmannaeyjum.

Aksturinn fer fram á virkum dögum á tímabilinu 7:30 til 17:30 og hefur til þjónustunnar sérútbúinn bíl. 

Markmið þjónustunnar er að aðgera þeim sem eru andlega og líkamlega fatlaðir og þurfa nauðsynlega vegna fötlunar sinnar á akstursþjónustu að halda kleift að geta stundað vinnu og nám eða sótt þjónustu á sérhæfðar þjónustustofnanir.

Ellilífeyrisþegar sem nýta sér dagvist aldraðra Hraunbúðum og tómstundir á Hraunbúðum geta sótt um akstursþjónustu. Þeir sem sækja dagvistun geta jafnframt sótt um akstur í sjúkraþjálfun (að hámarki 36 ferðir) og til læknis.

Fyrir ferðaþjónustu á vegum Vestmannaeyjabæjar skal greiða gjald fyrir hverja ferð, frá A-B, að upphæð kr. 275,- (2023). Undanþegið gjaldtöku er akstur fyrir þá er falla undir lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992.

Þjónusta utan hefðbundins tíma akstursþjónustannar (viðbótarþjónusta)

  • Vestmannaeyjabær býður sömu aðilum upp á niðurgreiðslu á kostnaði vegna leigubifreiðar. Niðurgreiðslan er bundin við 900 kr ferðin og takmarkast við 10 ferðir á mánuði. Niðurgreiðslan miðast við ferðir á þeim tíma sem ekki er veitt akstursþjónusta á vegum sveitarfélagsins.

  • Fyrir fólk í hjólastól eða sem vegna fötlunar geta ekki nýtt sér leigubílaþjónustu heldur eru í þörf á sérútbúnum bíl getur pantað slíka þjónustu með minnst 2ja daga fyrirvara. Ef sameiginlegt mat notenda og þjónustuaðila er á þörfinni er bílstjóri fenginn til verksins og útkall greitt. Ferðafjöldinn miðast við 10 ferðir að hámarki á mánuði og gjald notenda er 300 kr. ferðin.

  • Í vissum tilfellum er hægt að fá lánaðan sérútbúinn ferðaþjónustubíl til fatlaðs fólks í hjólastól eða sem vegna fötlunar eru í þörf á sérútbúnum bíl. Leggja verður fram pöntun tímanlega. Bílstjóri verður að hafa viðeigandi ökuréttindi til að aka umrædda bifreið og ber ábyrgð á henni skv. umferðarlögum. Gjald fyrir láni á bifreiðinni er 800 kr og miðast við lán í 4 klst.

     

Þjónustusamningur við Blindrafélagið

Vestmannaeyjabær er með samning við Blindrafélagið um að það taki að sér að veita ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu til einstaklinga með lögheimili í Vestmannaeyjum sem eru blindir og geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar sinnar. Umsækjendur sækja um ferðaþjónustuna til skrifstofu fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, Kirkjuvegi 23 s. 488 2000 . Starfsmenn sviðsins fara yfir umsókn og ákveður fjölda ferða í samræmi við mat á þörf. Hámark ferða er allt að 20 ferðir á ári.

Umsókn um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk er hægt að fylla út rafrænt á ibuagatt.vestmannaeyjar.is eða á þar til gerðu eyðublaði sem fæst á skrifstofu fjölskyldu- og fræðslusviðs, Kirkjuvegi 23.

Umsóknin berst til fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar Kirkjuvegi 23. Umsókn er tekin fyrir hjá starfsmönnum sviðsins og fær umsækjandi svarbréf með niðurstöðu innan fjögurra vikna.

Nánari upplýsingar er veittar á skrifstofu fjölskyldu- og fræðslusviðs í 488 2000 .

Til að hægt sé að fá viðbótarþjónustu þarf að liggja fyrir samþykki fyrir aksturþjónustu.

Pöntun á viðbótarþjónustu fer í gegnum skrifstofu fjölskyldu- og fræðslusviðs í síma 488 2000 .

Til að fá endurgreiðslu á leigubifreiðakostnaði þarf að skila inn kvittum fyrir ferðum og er hægt að skila þeim inn á skrifstofu fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, Kirkjuvegi 23. Gefa verður upp reiknisnúmer sem lagt er inn á. Ekki er greitt fyrir hærri upphæð en sem nemur útlögðum kostnaði og niðurgreiðslur heimila.