Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1382

15.11.2006

Bæjarstjórn Vestmannaeyja

1382. fundur

Bæjarstjórnarfundur

Fundur var haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja, miðvikudaginn 15. nóvember kl. 18.00 í sal Byggðasafns Vestmannaeyja, Safnahúsi.

Forseti bæjarstjórnar, Gunnlaugur Grettisson stjórnaði fundi.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Rutar Haraldsdóttur sem ritaði fundargerð.

1. Kosning í ráð og nefndir og stjórnir skv. 42. gr. bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar

Bæjarráð

Kosning aðalmanns:

Páll Scheving Ingvarsson í stað Lúðvíks Bergvinssonar.

Kosning varamanns: Stefán Jónasson í stað Páls Scheving Ingvarssonar.

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum

Menningar- og tómstundaráð

Kosning formanns:

Páley Borgþórsdóttir í stað Páls Marvins Jónssonar

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Fjölskylduráð

Kosning varamanns:

Rúnar Þór Karlsson í stað Gunnlaugs Grettissonar

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum

Umhverfis- og skipulagsráð

Kosning varamanns:

Jenný Jóhannsdóttir í stað Silju Rósar Guðjónsdóttur.

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum

2. Mál. Fundargerðir ráða, nefnda og stjórna.

a) Fundargerð bæjarráðs, nr. 2804 frá 30. október s.l.

Liður 1 lá fyrir til umræðu og kynningar og var hann samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Bókun V-listans:

Fulltrúar Vestmannaeyjalistans lýsa áhyggjum á seinagangi við undirbúning fjárhagsáætlunar í fagráðum.

Hjörtur Kristjánsson

Stefán Jónasson

Páll Scheving

Liður 5 lá fyrir til staðfestingar og var hann samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 2, 3 og 4 lágu fyrir til kynningar.

Fundargerð bæjarráðs, nr. 2805 frá 14. nóvember s.l.

Liður 1 lá fyrir til umræðu og staðfestingar og var hann samþykktur með sjö samhjóða atkvæðum.

Liður 2 lá fyrir til umræðu og staðfestingar og var hann samþykktur með fjórum atkvæðum en þrír sátu hjá.

Hjörtur Kristjánsson, Páll Scheving, Stefán Jónasson, Páll Marvin Jónsson og Páley Borgþórsdóttir gerðu grein fyrir atkvæðum sínum.

Bókun V-listans:

Fulltrúar Vestmannaeyjalistans hvetja til þess að kjörin fagráð fjalli um þau mál er undir þau heyra og skili áliti sínu til bæjarstjórnar. Í því felst valddreifing sem er mikilvægur þáttur í lýðræðinu. Forðumst miðstýringu. Sú hugmyndafræði hefur endurtekið fengið falleinkun.

Hjörtur Kristjánsson

Stefán Jónasson

Páll Scheving

Liður 3 lá fyrir til umræðu og staðfestingar og var hann samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 4,7,8 og lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhjóða atkvæðum.

Liðir 5,6 og 9 lágu fyrir til kynningar.

b) Fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs, nr. 8 frá 20. október s.l.

Liðir 1,2 og 3 lágu fyrir til staðfestingar og voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

c) Fundargerð menningar- og tómstundaráðs nr. 32 frá 26. október s.l.

Liður 2 lá fyrir til umræðu og staðfestingar og var hann samþykktur með fjórum atkvæðum en þrír sátu hjá.

Afgreiðslutillaga V-listans:

Þegar skýrsla starfshóps um tjaldsvæði var birt fulltrúum MTV var eingöngu birtur hluti af tillögu fulltrúa minnihlutans. Því samþykkir bæjarstjórn að skýrslu starfshóps um tjaldsvæði verði vísað aftur til MTV og birt þar fulltrúum nefndarinnar í heild sinni.

Hjörtur Kristjánsson

Stefán Jónasson

Páll Scheving

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.

Liðir 1 og 3 liggja fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

d) Fundargerð skólamálaráðs nr. 173 frá 01. nóvember s.l.

Liður 1 lá fyrir til umræðu og staðfestingar og var hann samþykktur með fjórum atkvæðum en þrír sátu hjá.

Páley Borgþórsdóttir og Hjörtur Kristjánsson gerðu grein fyrir atkvæði sínu.

Afgreiðslutillaga V-listans:

Svohljóðandi afgreiðslutillaga barst:

Bókun 1 við 1. mál í fundargerð skólamálaráðs frá 1. nóvember (fundur nr. 173).

Fulltrúar meirihlutans gátu ekki lagt fram neinar tölur eða útreikninga á fundi skólamálaráðs sem sýna fram á hagræðingu við sameiningu leikskólanna Sóla og Rauðagerðis. Ekki er þó ólíklegt að svo sé til lengri tíma litið.

Í apríl s.l. sagði þáverandi bæjarfulltrúi og núverandi fulltrúi D-listans í skólamálaráði forkastanlegt að leggja fram tillögu um hagræðingu í rekstri leikskóla án þess að hafa fjárlegar tölur þar á bakvið. Sami fulltrúi hefur greinilega gleymt þessu og kemur nú ásamt meðreiðarfólki sínu með tillögur sem engir útreikningar virðast liggja á bak við. Að minnsta kosti gátu menn ekki komið fram með eða vitnað í neinar tölur á fundinum um þá hagræðingu sem liggi í sameiningu leikskólanna.

Eru þetta þá ekki forkastanlegar tillögur frá fulltrúanum, sem talaði um arfavitlausan graut á sínum tíma? Svo virðist sem ekki liggi mikill undirbúningur að tillögunni nú og ætti því kannski að tala um fljótfærnisgraut í þessu sambandi?

Á fundi bæjarstjórnar 24. ágúst s.l. kvörtuðu sjálfstæðismenn undan því að einföld tillaga Vestmannaeyjalistans um eflingu félagslífs unglinga væri illa undirbúin. Hvað má þá segja um þessar tillögur Sjálfstæðismanna í mun flóknara máli?

Væri ekki nær að byrja á réttum enda og skipa starfshóp sem hefði það að hlutverki að skoða mögulega sameiningu í kjölinn. Sá hópur gæti síðan skilað vel ígrunduðum hagræðingartillögum byggðum á mati og útreikningum. Við slíkt mat þarf einnig að taka tillit til annarra hagsmuna bæjarfélagsins en þeirra fjárhagslegu. Að því loknu gæti verið ástæða til að ákveða sameiningu. Ef skýr rök eru fyrir því að sameining sé til hagsbóta fyrir bæjarfélagið og íbúa þess þegar á heildina er litið, þá munu fulltrúar Vestmannaeyjalistans ekki setja sig á móti slíkum tillögum.

Bókun 2 (vegna liðs 2 í forsendum) við 1. mál í fundargerð skólamálaráðs (nr.173) frá 1. nóvember.

Í október voru 24 starfsmenn í 15,08 stöðugildum á Rauðagerði og 15 starfsmenn í 11,65 stöðugildum á gamla Sóla, eða samtals 39 starfsmenn í 26,73 stöðugildum og eru þá ekki ræstingar taldar með. Með ræstingum er þarna um 30 stöðugildi að ræða. Gert mun vera ráð fyrir 21,5 stöðugildum á hinum nýja Sóla m.v. fulla mönnun. U.þ.b. 4 stöðugildi í ræstingum koma svo til viðbótar. Þarna munar því a.m.k. 5 stöðugildum í leikskólunum eins og stöðugildi voru 1. október og stöðum á nýja Sóla. Ef ekki verður fjölgun starfsmanna á öðrum sviðum bæjarins er ljóst, sama hvernig menn reyna að snúa því, að verið er að fækka starfsfólki bæjarins sem nemur 5 stöðugildum. Hugsanlegt er að ekki þurfi að grípa til uppsagna, en ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn er að fækka stöðugildum um 5 hjá bænum m.v. stöðuna í dag. Þessar aðgerðir ganga lengra en tillögur um sameiningu yfirstjórnar leikskólans sem sjálfstæðismenn gagnýndu hvað mest s.l. vor og voru eitt aðalhitamálið í kosningunum. Þær tillögur byggðu m.a. á því að ekki þyrfti að loka Rauðagerði. Þá virtist Sjálfstæðisflokkurinn hafa margt starfsfólk leikskólanna á bak við sig gegn sameiningunni. Núverandi tillögur fela í sér enn róttækari breytingar og fækkun stöðugilda og það er væri fróðlegt að vita hvað þessu sama starfsfólki finnst núna þegar það fær nú rýtinginn í bakið.

Skv. tillögum þessum verður starfsmönnum boðið sama starfshlutfall í öðrum störfum. Ekki fylgir loforð um að starfsmenn haldi launum sínum. Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn þarna að skerða kjör fólks sem þegar er margt á lágum launum fyrir? Líklegt er að svo muni verða.

Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar s.l. vor segir orðrétt: “Við viljum að leikskólarnir verði áfram reknir sem sjálfstæðar einingar og á hverjum leikskóla fyrir sig verði starfandi leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri.” Tilvitnun lýkur. Þarna gleymdu þeir, kannski vísvitandi, að segja: “við viljum að sumir leikskólarnir verði áfram reknir sem sjálfstæðar einingar. En í ljósi m.a. ósanninda um íþróttaakademíuna sem fræg er orðin; Er einhver lengur hissa á því að sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum segi ekki alltaf satt og rétt frá?

Bókun 3 (vegna liðs 6 í forsendum) við 1. mál í fundargerð skólamálaráðs (nr. 173) frá 1. nóvember.

Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar segir orðrétt: “Við viljum auka starfsöryggi starfsmanna okkar með áherslu á að stöðuveitingar verði ekki byggðar á geðþótta kjörinna fulltrúa.” Hvað er þetta annað en geðþóttaákvörðun? Það er kannski ekki sama hvaða kjörnir fulltrúar eiga í hlut. Auk þessa er ekki rétt að tilgreindir einstaklingar séu með mestan starfsaldur eða menntun, en forsendur ráðningar þeirra eru einmitt sagðar vera starfsaldur og menntun. Vestmannaeyjalistinn telur farsælast að þessar stöður verði auglýstar og faglegt mat fari fram á umsækjendum af óháðum aðila, líkt og gert var við ráðningu skólastjóra Grunnskóla Vestmannaeyja.

Bókun 4 við 1. mál í fundargerð skólamálaráðs (nr. 173) frá 1. nóvember.

Fulltrúar Vestmannaeyjalistans í skólamálaráði ákváðu að sitja hjá við afgreiðslu þessarar tillögu þar sem þeim hafði ekki gefist tækifæri til að skoða forsendur tillögunnar. Enn sýna sjálfstæðismenn vinnubrögð í anda Kremlverja á tímum kalda stríðsins. Fulltrúar minnihlutans fengu ekki að sjá skýrslu vinnuhóps né forsendur tillagna meirihlutans um leikskólamál fyrr en sama dag og fundað var.

Fram kom í máli formanns ráðsins að starfshópurinn hefði skilað inn tillögum sínum viku áður. Hugmyndir D-listans voru kynntar fyrir starfsmönnum leikskólanna á fundi daginn áður en málið var afgreitt í skólamálaráði. Fram kom á fundi ráðsins að Sjálfstæðisfulltrúarnir væru hræddir um að upplýsingum yrði lekið á netið, í fjölmiðla. Hvað hafa fulltrúar Vestmannaeyjalistans í skólamálaráði gert sem réttlætir svona framkomu? Ekkert. Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans telja að fulltrúar listans í skólamálaráði eigi inni afsökunarbeiðni frá formanni ráðsins.

Í forsíðufrétt Vaktarinnar 2. nóvember er fjallað um sameiningu leikskólanna og í henni er m.a. sagt eftirfarandi: “Í greinargerð sem fylgir tillögum hópsins segir að á seinasta kjörtímabili hafi Vestmannaeyjabær ákveðið að ráðast í byggingu stærri leikskóla en þörf er fyrir.” Í þeim tillögum og greinargerð sem hópurinn lagði fyrir skólamálaráð er hvergi minnst á þetta. Í ljósi þessa getur maður spurt: Var önnur greinargerð lögð fyrir starfsfólk leikskólanna en lögð var fyrir skólamálaráð?

Ekki nóg með það; Í umfjöllun fjölmiðla kemur fram að markmið starfshópsins sé að leikskólarnir Rauðagerði og Sóli verður sameinaðir undir eina yfirstjórn og ákveðnum einstaklingum hafi verið boðnar stöður leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra. Þetta er alfarið rangt. Hópurinn komst alls ekki að þessum niðurstöðum, hvað þá að hann mælti með ákveðnum einstaklingum í ofangreindar stöður.

Í niðurstöðum starfshópsins kemu fram að hann átti erfitt með að koma sér saman um leiðir til hagræðingar. Hópurinn kom fram með tillögur um breytingu á gjaldskrá og innheimtu leikskólagjalda sem og breytingar á niðurgreiðslum vegna daggæslu í heimahúsum. Hópurinn treysti sér ekki til að taka ákvarðanir um leiðir til stærri hagræðingar innan málaflokksins.

Fréttir um sameiningu leikskólanna voru komnar á netið áður en fundur skólamálaráðs hófst. Fréttir um sama mál voru í báðum vikufréttablöðum bæjarins í sömu viku. Blöðum sem send voru í prentun áður en fundur ráðsins hófst. Af ofangreindu má vera ljóst að fréttir um málið í fjölmiðlum voru matreiddar fyrir bæjarbúa af sjálfstæðismönnum, matreiddum fréttum var “lekið” í fjölmiðla af þeim sjálfum og aðgangur fulltrúa minnihlutans að upplýsingum takmarkaður.

Hvað er svona viðkvæmt við þetta mál sem sjálfstæðismenn þurfa að hylma yfir? Hvers vegna þora þeir ekki að taka málefnalega umræðu um tillögur sínar? Hvers vegna þessa aðferðafræði?

Það gæti hugsast að fulltrúar minnihlutans væru sammála tillögum þeirra í sumum málum. Og þó svo væri ekki; Er ekki rétt að viðhafa lýðræðislega stjórnarhætti, leyfa öllum sjónarmiðum að koma fram og taka ákvarðanir byggðar á málefnalegum grundvelli?

Hvers vegna fengu fulltrúar minnihlutans afhent gögn svo seint að þeim gafst ekki tækifæri til að kynna sér þau til hlítar og taka málefnalega afstöðu? Alræðishyggja sjálfstæðismanna endurspeglast endurtekið í aðferðum þeirra og ákvörðunum. Lýðræði sveitarfélagsins hefur beðið mikinn hnekki síðan meirihluti sjálfstæðismanna tók við stjórnartaumunum nú í vor. Sannleikurinn virðist auk þess ekki vera mikilvægur í málatilbúnaði D-listans.

Fulltrúar Vestmannaeyjalistans fordæma þessi vinnubrögð sjálfstæðismanna og ef áframhald verður á munu þeir ekki hika við að senda stjórnsýslukæru til félagsmálaráðuneytisins.

Afgreiðslutillaga

Bæjarstjórn samþykkir að vísa málinu aftur til skólamálaráðs til frekari kynningar fyrir fulltrúum þar og til frekari undirbúnings.

Hjörtur Kristjánsson

Stefán Jónasson

Páll Scheving

Afgreiðslutillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn þremur atkvæðum.

· Liður 2 lá fyrir til umræðu og staðfestingar.

· Breytingartillaga D-listans:

· Meirihlutinn leggur til að varaformaður skólamálaráðs hafi rétt til fundarsetu með sama rétt og framkvæmdastjóri fjölskyldu-og fræðslusviðs, bæjarstjóri og formaður skólamálaráðs.

· Arnar Sigurmundsson

· Gunnlaugur Grettisson

· Páll Marvin Jónsson

· Páley Borgþórsdóttir

· Fulltrúar V-listans óskuðu eftir því að gerast meðflutningsmenn að tilllögunni.

· Liðurinn ásamt breytingartillögunni voru samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

· Páll Scheving, Páll Marvin Jónsson og Hjörtur Kristjánsson gerðu grein fyrir atkvæðum.

·

· Liður 3 lá fyrir til umræðu og staðfestingar og var hann samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 4,5,6 og 7 lá fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

e) Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs, nr. 49 frá 01. nóvember s.l.

Liður 1 lá fyrir til umræðu og staðfestingar og var hann samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 2,3,4,5,6,7 og 8 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

Liður 9 lá fyrir til kynningar.

f) Fundargerð fjölskylduráðs frá 08. nóvember s.l.

Liðir 1-4, 6-11 og 13 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

Liður 5 og 12 lágu fyrir til kynningar.

g) Fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs, nr. 9 frá 08. nóvember s.l.

Liðir 1,2,4,5 og 7 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 3,6,8 og 9 lágu fyrir til kynningar.

Fundi slitið kl. 21.36

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Páley Borgþórsdóttir (sign.)

Gunnlaugur Grettisson (sign.)

Páll Scheving Ingvarsson (sign.)

Páll Marvin Jónsson (sign.)

Hjörtur Kristjánsson (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)