Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1385

25.01.2007

Bæjarstjórn Vestmannaeyja

1385. fundur

Bæjarstjórnarfundur

Fundur var haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja, fimmtudaginn 25. janúar 2006

kl. 18.00 í sal Listaskólans við Vesturveg.

Forseti bæjarstjórnar, Gunnlaugur Grettisson, stýrði fundi.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Rutar Haraldsdóttur, sem ritaði fundargerð.

Páll Scheving las upp tilkynningu frá Kristínu Jóhannsdóttur bæjarfulltrúa V-lista:

Ég undirrituð óska eftir því að fá eins árs lausn frá embætti mínu sem bæjarfulltrúi Vestmannaeyjabæjar frá og með 25. janúar 2007.

Ástæðan fyrir beiðninni eru miklar annir og fjarverur vegna aðalstarfs míns hjá Vestmannaeyjabæ. Beiðnin er því í fullu samræmi við 34. grein sveitarstjórnarlaga þar sem segir:

“telur sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum sínum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags getur sveitarstjórn þá létt af honum störfum eða veitt honum lausn að eigin ósk um tiltekinn tíma eða til loka kjörtímabilsins„

Í fjarveru minni mun Guðlaugur Friðþórsson 4. bæjarfulltrúi V- listans taka mitt sæti.

Vestmannaeyjum 23. janúar 2007

Kristín Jóhannsdóttir

3. bæjarfulltrúi V- listans.

Beiðnin var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

1. mál.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekar fyrri bókanir sínar um ríka áherslu á að samhliða því að ljúka rannsóknum vegna Bakkafjöru verði næsta áfanga í rannsóknum vegna jarðganga lokið. Einungis þannig er hægt að svara með óyggjandi hætti hver kostnaður vegna jarðganga milli lands og Eyja er. Útvegsbændur í Vestmannaeyjum hafa nú heitið 20 milljónum króna til þessara lokarannsókna og sýnir sá stuðningur stórhug Eyjamanna og mikilvægi þess að þegar ákvörðun verður tekin um framtíðarsamgöngur milli lands og Eyja, liggi raunhæft kostnaðarmat fyrir vegna allra þeirra þriggja kosta sem hingað til hafa verið ræddir. Bæjarstjórn skorar því á þingmenn Suðurlands, ríkisstjórn Íslands og Alþingi að mæta rausnarlegu framlagi heimamanna til þessa mikla hagsmunamáls svo ljúka megi þessum rannsóknum enda dylst það engum að jarðgöng eru besti kosturinn séu þau tæknilega og fjárhagslega möguleg.

Páll Marvin Jónsson (sign).

Elliði Vignisson (sign).

Páley Borgþórsdóttir (sign).

Gunnlaugur Grettisson (sign).

Hjörtur Kristjánsson (sign).

Páll Scheving (sign).

Guðlaugur Friðþórsson (sign).

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

2. mál.

Ályktun bæjarstjórnar Vestmannaeyja vegna samgöngumála

Starfshópi sem falið var að fjalla um hvernig bæta mætti samgöngur á sjó hefur nú lagt það til að gengið verði til leigu á skipinu Aqua Jewel, sem ber allt að 200 bíla og 1000 farþega. Með vísan í samhljóða ályktun sína frá 27. júlí sl. um samgöngumál skorar bæjarstjórn Vestmannaeyja á samgönguráðherra að stórbæta samgöngur á sjó milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja með því að ganga tafarlaust til samninga um leigu á umræddu skipi eða öðru sambærilegu þannig að slíkt skip hefji siglingar ekki síðar en í apríl 2007.

Páll Marvin Jónsson (sign).

Elliði Vignisson (sign).

Páley Borgþórsdóttir (sign).

Gunnlaugur Grettisson (sign).

Hjörtur Kristjánsson (sign).

Páll Scheving (sign).

Guðlaugur Friðþórsson (sign).

Ályktunin var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

3. mál.

Tillaga V-lista:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja óskar eftir umsögn félagsmálaráðuneytisins um hæfi þeirra bæjarfulltrúa, sem þátt tóku í bæjarstjórnarfundi 28. desember 2006 þegar tekinn var fyrir samningur við fyrirtækið Nautilus um rekstur líkamsræktaraðstöðu í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyjabæjar.

Greinargerð

Í bókun við þetta mál kemur fram að fulltrúar D-lista telji einn af fulltrúum V-lista vanhæfan. Forseti bæjarstjórnar, sem skrifar undir ofannefnda bókun, úrskurðar um vanhæfi fulltrúa á fundum en gerði slíkt hins vegar ekki og leyfði bæjarfulltrúa að sitja fundinn. Hann lét hins vegar hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann teldi viðkomandi bæjarfulltrúa vera á gráu svæði. Þannig hefur forseti bæjarstjórnar ýmist talið þennan fulltrúa hæfan, vanhæfan eða á gráu svæði. Viðkomandi bæjarfulltrúi tók ekki þátt í útboði, á ekki hlut í neinu fyrirtæki og hefur engin fjölskyldutengsl í málinu. Eftir fundinn komu fram athugasemdir í fjölmiðlum bæjarins um að einn fulltrúa D-listans væri vanhæfur vegna fjölskyldutengsla. Bæjarfulltrúar V-listans ætla ekki annað en að bæjarfulltrúar bæði V- og D-listans hafi tekið afstöðu í málinu byggða á málefnalegum grunni og með hagsmuni bæjarfélagsins í huga. Hins vegar telja þeir rétt fyrir alla aðila að öllum vafa verði eytt og fenginn verði úrskurður félagsmálaráðuneytisins um hæfi bæjarfulltrúa í máli þessu.

Páll Scheving (sign).

Hjörtur Kristjánsson (sign).

Guðlaugur Friðþórsson (sign).

Bókun Elliða Vignissonar bæjarstjóra:

Harma það að bæjarfulltrúar V-lista skulu með jafn ósmekklegum hætti blanda störfum föður míns, sem verið hefur starfsmaður hjá Vestmannaeyjabæ í um 40 ár inn í pólitíska umræðu til þess eins að koma pólitísku höggi á mig. Látið er í veðri vaka að faðir minn hafi haft annarlega hagsmuni í umræddu máli og það gert mig vanhæfan til að fjalla um málið. Lægra geta bæjarfulltrúar vart lagst. Ég læt Eyjamenn sem þekkja störf föður míns í þágu sveitarfélagsins seinustu áratugi dæma um hversu smekkleg slík umræða er og vík af fundi á meðan málið er rætt.

Elliði Vignisson (sign).

Frávísunartillaga D-lista:

Fyrirliggjandi tillaga V-listans er furðuleg svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Á fundi bæjarstjórnar 28. desember sl. var umrætt mál tekið fyrir. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks bentu þá á að einn af bæjarfulltrúum V- listans hafði sannarlega komið að því á forstigum sem viðskiptaaðili. Um það verður ekki deilt. Fyrir bæjarstjórnarfundinn benti forseti bæjarstjórnar m.a. viðkomandi bæjarfulltrúa á hugsanlegt vanhæfi. Það var þó mat forseta að ekki væru nægjanlega sterk rök fyrir því að úrskurða viðkomandi bæjarfulltrúa vanhæfan og aðhafðist ekki frekar í málinu. Vert er að minnast þess að skv. 22. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar er það sveitarstjórnarmanns sjálfs að vekja athygli á vanhæfi sínu.

Varðandi hugsanlegt vanhæfi bæjarstjóra við afgreiðslu á samningi við Nautilus vegna fjölskyldutengsla við forstöðumann Íþróttamiðstöðvar þá á það að mati meirihlutans ekki við nein rök að styðjast enda hreyfði enginn bæjarfulltrúi við slíku á umræddum bæjarstjórnarfundi. Forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar sem hefur yfir 40 ára starfsreynslu hjá Vestmannaeyjabæ hefur sjálfur enga persónulega hagsmuni af því að bærinn semji við Nautilus og því eru aðdróttanir um vanhæfi bæjarstjóra með öllu tilhæfulausar. Tveir af bæjarfulltrúum V-lista eiga eiginkonur sem starfa hjá Vestmannaeyjabæ, en hæfisreglur sveitarstjórnarlaga og almennra laga sem þau njóta skýringar af, kveða ekki á um að slík fjölskyldutengsl geri þá vanhæfa til að fjalla um málefni tengd þeim stofnunum. Á sama hátt hafa bæjarfulltrúar verið yfirmenn stofnana og það ekki á neinn hátt valdið þeim vanhæfi til að fjalla um málefni sveitarfélagsins.

D-listi telur þannig ástæðulaust að óska eftir umsögn félagsmálaráðuneytisins um málið og vísar málinu frá.

G. Ásta Halldórsdóttir (sign).

Páley Borgþórsdóttir (sign).

Páll Marvin Jónsson (sign).

Gunnlaugur Grettisson (sign).

Bókun V-listans:

Fulltrúar V-listans skilja ekki hvernig hægt er, að verið sé að blanda störfum forstöðumanns Íþróttamiðstöðvarinnar í málið eða koma pólitísku höggi á bæjarfulltrúann. Aldrei hafa fulltrúar V-listans efast um hæfi bæjarfulltrúans heldur er tilgangurinn að hreinsa bæjarfulltrúa V-listans af áburði um vanhæfi og af því tekinn allur vafi.

Frávísunartillaga D-listans var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn tveimur.

4. mál. Fundargerðir ráða, nefnda og stjórna.

  1. Fundargerð bæjarráðs nr. 2809 frá 5. janúar sl.

Liðir 1,2,3,6 og 7 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 4 og 5 lágu fyrir til kynningar.

  1. Fundargerð fjölskylduráðs frá 10. janúar sl.

Liðir 2-8 og 9 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

Liður 1 lá fyrir til kynningar.

  1. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs nr. 53 frá 10. janúar sl.

Liðir 1-6 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

  1. Fundargerð menningar- og tómstundaráðs nr. 35 frá 11. janúar sl.

Liðir 1 og 2 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

  1. Fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs nr. 14 frá 11. janúar sl.

Liðir 1 og 2 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

Liður 3 lá fyrir til kynningar.

  1. Fundargerð bæjarráðs nr. 2810 frá 22. janúar sl.

Liðir 1,4,5,6 og 8 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

Liður 2 lá fyrir til umræðu og staðfestingar.

Bókun bæjarstjórnar:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að óska eftir því við samgönguráðherra og iðnaðarráðherra sem ráðherra byggðamála að þeir skipi nefnd til að gera úttekt á íþyngjandi álögum á Vestmannaeyinga vegna gjaldtöku fyrir notkun á þjóðvegi Eyjamanna ms. Herjólfi. Nefndin skal sérstaklega horfa til áhrifa farmgjalda á verðlagningu á vörum og þjónustu í Vestmannaeyjum. Þá er einnig óskað eftir því að nefndin leggi mat á áhrif farmgjalda Herjólfs á samkeppnishæfni fyrirtækja í Vestmannaeyjum.

Elliði Vignisson (sign).

Páley Borgþórsdóttir (sign).

Páll Marvin Jónsson (sign).

Gunnlaugur Grettisson (sign).

Páll Scheving (sign).

Guðlaugur Friðþórsson (sign).

Hjörtur Kristjánsson (sign).

Liður 2 var samþykktur með sjö samhljóð atkvæðum.

Liðir 3 og 7 lágu fyrir til kynningar.

  1. Fundargerð skólamálaráðs nr. 176 frá 23. janúar sl.

Liðir 1-3 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 4-5 lágu fyrir til kynningar.

Fundi slitið kl. 19.23

Elliði Vignisson (sign.)

Páley Borgþórsdóttir (sign.)

Gunnlaugur Grettisson (sign.)

Páll Scheving Ingvarsson (sign.)

Páll Marvin Jónsson (sign.)

Hjörtur Kristjánsson(sign.)

Guðlaugur Friðþórsson(sign.)