Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1384

28.12.2006

Bæjarstjórn Vestmannaeyja

1384. fundur

Bæjarstjórnarfundur

Fundur var haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja, fimmtudaginn 28. desember 2006

kl. 18.00 í sal Listaskólans við Vesturveg.

Forseti bæjarstjórnar, Gunnlaugur Grettisson stýrði fundi.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Elliða Vignissonar bæjarstjóra og Rutar Haraldsdóttur sem ritaði fundargerð.

Leitað var afbrigða til að taka inn mál mál nr. 2, álagningu gjalda fyrir árið 2007 og fundargerð skólamálaráðs frá 27. desember s.l. inn á dagskrá fundarins og var hvoru tveggja samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

1. mál. Tillaga V-lista:

Ályktun:

Í samræmi við samhljóða ályktun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 27. júlí 2006, um nauðsyn þess að fjölga ferðum Herjólfs og fá stærra og hraðskreiðara skip, en sá Herjólfur sem nú siglir milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, til að hefja siglingar ekki seinna en 1. apríl nk. fer bæjarstjórn Vestmannaeyja þess á leit við samgönguráðherra að fá skýr svör við eftirtöldum spurningum fyrir næsta fund bæjarstjórnar:

 • Er vinna í gangi í samgönguráðuneytinu varðandi leigu á stærra og hraðskreiðara skipi í stað núverandi Herjólfs, og ef svo er; hver er staða þess máls nú?
 • Er vinna í gangi í samgönguráðuneytinu varðandi hönnun og útboð á byggingu nýs, stærra og hraðskreiðara skips í stað núverandi Herjólfs, og ef svo er; hver er staða þess máls nú?
 • Verður fengið nýtt, stærra og hraðskreiðara skip í stað núverandi Herjólfs á árinu 2007?

Bæjarstjórn ítrekar fyrri yfirlýsingar um nauðsyn þess að fá sem fyrst stærri og hraðskreiðari ferju á siglingaleiðinni Þorlákshöfn – Vestmannaeyjar, auk þess að fjölga ferðum skipsins.

Bæjarstjórn skorar á þingmenn allra flokka Suðurkjördæmis að standa saman að því að fengin verði stærri og hraðskreiðari ferja á siglingaleiðinni.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja felur bæjarstjóra það verkefni að fá svör við ofangreindum spurningum frá samgönguráðherra fyrir næsta bæjarstjórnarfund og jafnframt að koma ofangreindri ályktun á framfæri við alla þingmenn Suðurkjördæmis.

Hjörtur Kristjánsson

Stefán Jónasson

Páll Scheving

Svohljóðandi frávísunartillaga barst:

Vísum tillögu V-lista frá með svohljóðandi afgreiðslutillögu:

Flestum er það nú ljóst að undirbúningur að gerð ferjulægis í Bakkafjöru er nú nánast lokið og fara framkvæmdir að öllu óbreyttu af stað innan fárra vikna og ferjan hefji siglingar á vordögum 2010 eftir rétt rúm þrjú ár. Þar með styttist sigling milli lands og Eyja úr 2.45 klst. niður í 30 mínútur. Þá gera tillögur ráð fyrir að skipið beri a.m.k. 50 bíla og 250 farþega og fari allt að 6 áætlunarferðir á dag. Slíkt myndi auka flutningsgetuna í 300 bíla og 1500 farþega á dag í viðbót við mikið sveigjanlegri brottfarar- og komutíma. Ferðum myndi sem sagt fjölga milli lands og Eyja úr 730 ferðum á ári í rúmlega 2000 ferðir.

Það er hinsvegar algerlega ljóst að ekki verður búið við núverandi ástand til ársins 2010 og mikilvægt að hratt verði brugðist við. Öll vinna við leit að skipi sem leyst getur núverandi Herjólf af hefur verið unnin af heimamönnum og mikilvægt að í þessu máli eins og öðrum okkar hagsmunamálum sé frumkvæðið okkar heimamanna. Þau skip sem skipamiðlarar hafa hingað til fundið þykja ekki hentug til siglinga milli lands og Eyja og því hefur leit enn ekki skilað árangri. Slíkt er óviðkomandi samgönguráðuneytinu. Það er því ljóst að mikilvægt er að ganga fastar fram og hefja einnig leit að skipi sem siglt getur á móts við Herjólf yfir álagstímann.

Í þessu tilgangi samþykkir bæjarstjórn að skipa nú þegar 3 manna starfshóp til að leiða þessa vinnu. Hópurinn er skipaður eftirfarandi fulltrúum: Elliði Vignisson bæjarstjóri frá Vestmannaeyjabæ, Bjarki Guðnason frá Eimskip og Sigurmundur Einarsson, fulltrúi hagsmunaaðila í ferðaþjónustu.

Páll Marvin Jónsson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Páley Borgþórsdóttir (sign.)

Gunnlaugur Grettisson (sign.)

Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír voru á móti.

Svohljóðandi bókun barst frá V-lista:

Vestmannaeyjalistinn stendur fast á þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að þrýsta á samgönguyfirvöld og þingmenn til að úrbætur verði sem fyrst í samgöngumálum og að fagaðilar vinni vinnuna. Frávísunartillaga D-listans ber þess keim að bíða eigi með málið þar til nær dregur kosningum, sem er hættulegt og þjónar ekki hagsmunum Vestmannaeyinga.

Hjörtur Kristjánsson

Páll Scheving

Stefán Jónasson

Bókun D-lista:

Mikið hefur áunnist í samgöngum við Vestmannaeyjar á seinasta hálfa ári. Það er vont þegar bæjarfulltrúar tefla á það vað að nota samgöngur sem pólitískt bitbein og nær að sú samstaða sem hingað til hefur verið hvað samgöngur varðar haldi áfram. Á bæjarstjórnarfundi 27.07. 2006 kynntu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslur sínar í fimm liðum. Þegar hafa þrír þessara liða verið uppfylltir og mikil vinna unnin vegna þess liðar sem snýr að skipi sem leyst getur Herjólf af. Næsta verkefni er að ganga fastar fram til að finna betra skip.

Páll Marvin Jónsson

Elliði Vignisson

Páley Borgþórsdóttir

Gunnlaugur Grettisson

2. mál. Álagning gjalda árið 2007:

Fyrir lá svohljóðandi tillaga vegna álagningar gjalda árið 2007:

"Álagning útsvars, fasteignagjalda, holræsagjalda og sorpeyðingargjalda árið 2007:

a) Bæjarstjórn samþykkir að útsvar fyrir árið 2007 verði 13,03% sbr. 23. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. 6. gr. laga nr. 144/2000.

b) Fasteignaskattur af húsnæði verði eftirfarandi hlutfall af fasteignamati þeirra samkvæmt II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, með síðari breytingum, og reglugerð um fasteignaskatt nr. 945/2000.

 1. Íbúðir og íbúðarhús, útihús og mannvirki á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði og sumarbústaðir: 0,42 %.
 2. Allar aðrar fasteignir: 1,55 %.

c) Holræsagjald af fasteignamati húsa og lóða skv. reglugerð.

 1. Íbúðir og íbúðahús, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði og sumarbústaðir: 0,20%.
 2. Allar aðrar fasteignir: 0,30%.
 3. Heimild til undanþágu er í samræmi við h) lið hér á eftir.

d) Bæjarstjórn samþykkir að lagt verði sorpeyðingargjald á hverja íbúð, kr. 11.510.- og að sorphirðu- og sorppokagjald verði kr. 7.084.- á hverja íbúð.

 1. Heimild til undanþágu er í samræmi við h) lið hér á eftir.

e) Sorpbrennslu– og sorpeyðingargjöld fyrirtækja samkvæmt samþykktri gjaldskrá fyrir árið 2007.

f) Gjalddagar fasteignagjalda skulu vera tíu þ.e. 20. jan., 15. feb.,15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. sept., 15. okt.

 1. Dráttarvextir reiknast af gjaldföllnum fasteignagjöldum 30 dögum eftir gjalddaga.

g) Bæjarstjórn samþykkir að veittur verði 5% staðgreiðsluafsláttur af fasteignagjöldum, holræsagjöldum og sorpgjöldum skv. b), c), og d) liðum hér að ofan, séu þau að fullu greidd eigi síðar en 16. febrúar 2007.

h) Bæjarstjórn samþykkir að fella niður fasteignagjöld og holræsagjöld ellilífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, af eigin íbúð, sem þeir búa í.

Ennfremur samþykkir bæjarstjórn með tilliti til 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, að fella niður fasteignaskatt ellilífeyrisþega af eigin íbúð, sem þeir búa í, á eftirfarandi hátt.

 1. Fyrir einstakling:
  1. Brúttótekjur 2006 allt að 2.078 þús. kr. 100% niðurf.
  2. Brúttótekjur 2006 allt að 2.457 þús. kr. 70% niðurf.
  3. Brúttótekjur 2006 allt að 2.792 þús. kr. 30% niðurf.
 2. Fyrir hjón, sem bæði eru ellilífeyrisþegar:
  1. Brúttótekjur 2006 allt að 2.499 þús. kr. 100% niðurf.
  2. Brúttótekjur 2006 allt að 3.020 þús. kr. 70% niðurf.
  3. Brúttótekjur 2006 allt að 3.425 þús. kr. 30% niðurf.

Við mat á niðurfellingu fasteignaskatts af eigin íbúð 75% öryrkja, sem þeir búa í, skal hafa hliðsjón af fyrrgreindum reglum.

 1. Sorphirðu-/sorpeyðingargjald, holræsagjald og lóðarleiga verði fellt niður eða lækkað í samræmi við ofangreindar reglur hvað varðar eigin íbúð ellilífeyrisþega og 75% öryrkja, sem þeir búa í. “

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

3. mál. Fundargerðir ráða, nefnda og stjórna.

a. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. desember s.l.

- Liðir 1-6 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

b. Fundargerð menningar- og tómstundaráðs frá 19. desember s.l.

- Liðir 2 og 3 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liður 1 lá fyrir til kynningar.

c. Fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs frá 20. desember s.l.

- Liðir 1-4 lágu fyrir til staðfestingar. Voru liðir 1,2 og 4 samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

Liður 3, brunavarnaráætlun fyrir Vestmannaeyjabæjar var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

d Fundargerð fjölskylduráðs frá 21. desember s.l.

- Liðir 1-8 og 10 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liður 12 lá fyrir til umræðu og staðfestingar.

Bókun V-lista við lið 12:

Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans taka undir bókun fjölskylduráðs. Þær aðhaldsaðgerðir sem farið var í á síðasta ári voru einkum gerðar í því skyni að nýta fjármuni sem til Hraunbúða fara sem best, svo hægt sé að veita heimilismönnum sem besta þjónustu. Í ljósi fjölgandi hjúkrunarrýma ætti að skapast tækifæri til þess að hlúa betur að heimilismönnum. Enn þarf að herja á ríkisvaldið um frekari fjölgun hjúkrunarrýma.

Páll Scheving Ingvarsson

Hjörtur Kristjánsson

Stefán Jónasson

Bókun D-lista við lið 12:

Þjónusta Hraunbúða og aðbúnaður heimilisfólks hefur verið með miklum ágætum og metnaður bæjarstjórnar allrar stendur til þess að svo verði áfram.

Elliði Vignisson

Páley Borgþórsdóttir

Gunnlaugur Grettisson

Páll Marvin Jónsson

Liður 12 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum. Hjörtur Kristjánsson gerði grein fyrir atkvæði sínu.

- Liður 11 lá fyrir til kynningar.

e. Fundargerð bæjarráðs frá 22. desember s.l.

- Liðir 1,3,4,7 og 11-14 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 2,5 og 6 lágu fyrir til umræðu og staðfestingar.

Breytingartillaga V-lista við lið 2:

Vestmannaeyjalistinn leggur til að skipaður verði vinnuhópur með einum fulltrúa frá D-lista, einum fulltrúa frá V-lista ásamt einum fulltrúa frá Vestmannaeyjahöfn til að vinna hugmyndir um framtíð upptökumannvirkis í Vestmannaeyjahöfn. Vinnuhópurinn skal skila áliti til bæjarstjórnar á næsta fundi hennar.

Páll Scheving Ingvarsson

Hjörtur Kristjánsson

Stefán Jónasson

Frávísunartillaga D-lista við breytingartillögu V-lista:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa aldrei farið leynt með þá skoðun sína að fáist 60% aðkoma ríkisins til enduruppbyggingar upptökumannvirkis þá eigi Vestmannaeyjabær að ráðast í slíka framkvæmd eins fljótt og mögulegt er. Bæjarráð hefur nú falið bæjarstjóra að óska eftir því við gerð samgönguáætlunar sem birt verður um miðjan janúar að gert verði ráð fyrir slíkri aðkomu ríksins. Ekki þarf vinnuhóp til slíks og vísar meirihluti bæjarstjórnar því frávísunartillögu þeirra frá. Bæjarfulltrúar V-listans eru hinsvegar hvattir til að brýna sína fulltrúa í ríkisstjórn til dáða í þessu mikilvæga hagsmunamáli hafi þeir enn ekki gert það.

Elliði Vignisson

Gunnlaugur Grettisson

Páley Borgþórsdóttir

Páll Marvin Jónsson

Liður 2 var samþykktur með fjórum atkvæðum, þrír voru á móti. Hjörtur Kristjánsson gerði grein fyrir atkvæði sínu.

BreytingatillagaV-lista við liðum 5 og 6:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur samning þann sem fyrir liggur við fyrirtækið Nautilus um rekstur líkamsræktarsals í Íþróttamiðstöðinni ekki vera til þess fallinn að þjóna hagsmunum bæjarbúa. Hann felur í sér niðurgreiðslu bæjarsjóðs á einkarekstri og bæjarstjórn telur ekki rétt að opinber aðili hygli einu einkafyrirtæki umfram annað í samkeppnisrekstri þar sem þegar er fyrir hendi rekstur einkaaðila á líkamsræktarsal í Vestmannaeyjum. Þar er um að ræða fyrirtæki í heimabyggð og samningur þessi mun klárlega hygla fyrirtæki sem borgar opinber gjöld á fastalandinu umfram fyrirtæki í heimabyggð. Vafi leikur á því hvort samningur þessi stenst samkeppnislög samanber málaferli vegna samskonar samnings við Kópavogsbæ.

Vegna ofangreinds hafnar bæjarstjórn fyrrnefndum samningi og afgreiðslu meirihluta bæjarráðs varðandi hann.

Líkamsræktarfyrirtæki í heimabyggð hefur óskað eftir fresti til 10. janúar n.k. til að skila inn tilboði í reksturinn. Bæjarstjórn samþykkir þann frest og felur bæjarstjóra að taka á móti því tilboði og bera í framhaldinu undir bæjarráð og bæjarstjórn.

Páll Scheving Ingvarsson (sign)

Hjörtur Kristjánsson (sign)

Stefán Jónasson (sign)

Frávísunartillaga D-lista við breytingartillögu V-listans:

Bæjarfulltrúum V - listans hefur fyrir nokkru verið kynnt innihald fyrirliggjandi samningsdraga. Á bæjarráðsfundi sem haldinn var 22. desember 2006 var oddvita V-listans afhent samningsdrögin og hann beðinn um að kynna sér hann vandlega og gera við hann athugasemdir fyrir bæjarstjórnarfund til að hægt væri að gera breytingar á honum ef V-listinn óskaði eftir. Engar athugasemdir við samninginn bárust frá fulltrúum V-listans. Allt tal þessara fulltrúa um að samningurinn sé ekki nægilega góður eru því hjómið eitt.

Einnig er rétt að halda því til haga að einn af bæjarfulltrúum V-listans hefur áður komið á fund Vestmannaeyjabæjar með það fyrir augum að taka hugsanlega sjálfur, ásamt viðskiptafélögum, við rekstri líkamsræktarsalarins. Með vísan í 22. gr. bæjarmálasamþykktar veldur slíkt að mati fulltrúa meirihlutans vanhæfi og hefur viðkomandi verið bent á það.

Þá vilja bæjarfulltrúar D - lista einnig benda á að engar tillögur hafa nokkurn tímann borist frá fulltrúum V - listans um hvað þeir vilja gera í málefnum líkamsræktarsalar sem rekinn hefur verið með halla seinustu ár.

Í kjölfarið á auglýsingu þar sem óskað var eftir samstarfsaðilum um reksturinn á líkamsræktarsal sótti einungis einn aðili gögn og sendi inn tilboð. Bæjarráð hefur metið samninginn hagstæðan fyrir Vestmannaeyjabæ enda segir í 16. gr. samningsins ,,Komi til þess að samkomulag þetta verði úrskurðað ólöglegt af þar til gerðum yfirvöldum munu aðilar þessa samnings leitast við að laga samkomulagið að slíkum ábendingum. Takist það ekki fellur samkomulagið niður með þriggja mánaða fyrirvara.”

Með tilliti til ofangreinds vísar meirihluti bæjarstjórnar tillögu V- listans frá.

Elliði Vignisson

Gunnlaugur Grettisson

Páley Borgþórsdóttir

Páll Marvin Jónsson

- Liðir 5 og 6 voru samþykktir með fjórum atkvæðum, þrír voru á móti.

- Liðir 8,9 og 10 lágu fyrir til kynningar.

f. Fundargerð skólamálaráðs nr. 175 frá 27. desember s.l.

- Liðir 1-5 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

4. Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar og stofnana fyrir árið 2007

- S Í Ð A R I U M R Æ Ð A -

Elliði Vignisson, bæjarstjóri gerði grein fyrir þeim breytingum sem urðu á fjárhagsáætluninni milli fyrri og seinni umræðu og fyrir liggja í framlögðum gögnum.

Bókun V-lista við fjárhagsáætlunar Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2007:

Bæjarfulltrúar V-listans munu sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2007. Áætlun þessi er unnin og lögð fram af meirihluta sjálfstæðismanna. Það er sorglegt til þess að vita að þær aðhaldsaðgerðir sem farið var í á síðasta ári í meirihluta V-lista og D-lista skuli lítils virtar í framkominni fjárhagsáætlun. Það er grafalvarlegt mál að taka ekki á fjármálum Vestmannaeyjabæjar með myndarlegum hætti. Bæjarfulltrúar eru kosnir til þess að fara vel með fé bæjarbúa, fjárhagsáætlun þessi og undanhlaup sjálfstæðismanna eru ekki til þess fallin að koma bæjarsjóði á réttan kjöl. Það harma fulltrúar V-listans.

Páll Scheving Ingvarsson

Hjörtur Kristjánsson

Stefán Jónasson

Bókun D-lista:

Bókun V – lista er hefðbundið minnihlutahjal og svo virðist sem V – listi hafi gleymt því að núverandi fjárhagsáætlun byggir að stóru leyti á fjárhagsáætlun seinasta árs sem m.a. var unnin af þeim sjálfum. Stærsta breytingin er hinsvegar minni sala á eignum og aukin niðurgreiðsla á lánum. Minnihlutinn hefur engar tillögur lagt fram um breytingar á fjárhagsáætlun þeirri sem um er rætt þrátt fyrir áskoranir um slíkt.

Þá vekur það enn og aftur undrun að í máli minnihlutans á fundinum hefur komið fram að þeir finni því fjárhagsáætlun helst til foráttu að ekki hafi verið farið í frekari uppsagnir. Fulltrúar D – lista ítreka enn og aftur að uppsagnir á starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar eru neyðarúræði.

Elliði Vignisson

Gunnlaugur Grettisson

Páley Borgþórsdóttir

Páll Marvin Jónsson

Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar vegna ársins 2007 var samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír sátu hjá.

Fundi slitið kl. 22.36

Elliði Vignisson (sign.)

Páley Borgþórsdóttir (sign.)

Gunnlaugur Grettisson (sign.)

Páll Scheving Ingvarsson (sign.)

Páll Marvin Jónsson (sign.)

Hjörtur Kristjánsson(sign.)

Stefán Jónasson (sign.)