Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1380

21.09.2006

Bæjarstjórn Vestmannaeyja

1380. fundur

Ár 2006, fimmtudaginn 21. september kl. 18.00 var fundur haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja í sal Listaskólans við Vesturveg.

Forseti bæjarstjórnar, Gunnlaugur Grettisson stjórnaði fundi.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Elliða Vignissonar bæjarstjóra og Rut Haraldsdóttur sem ritaði fundargerð.

1. Tillögur og mál til umræðu og afgreiðslu.

a) Framtíðarskipulag háskóla- og rannsóknastofnanna í Vestmannaeyjum

Svohljóðandi tillaga barst:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að fela bæjarstjóra að ræða við Menntamálaráðuneytið um skipan sérstaks starfshóps, skipaðan fulltrúum ráðuneytisins, bæjaryfirvalda og Rannsókna- og fræðasetursins til að fjalla um og koma með tillögur um framtíðarskipulag háskóla- og rannsóknastofnanna í Vestmannaeyjum. Meginmarkmið hópsins verður að endurskipuleggja aðstöðu til rannsókna og háskólanáms í Vestmannaeyjum.

Greinargerð

Mikil áhersla hefur verið á uppbyggingu háskólanáms á landsbyggðinni í þeim tilgangi að skapa forsendur fyrir jákvæða byggðarþróun. Árið 1993 gerðu Vestmannaeyjabær og Háskóli Íslands með sér samning um að byggja upp rannsóknaraðstöðu og opna útibú frá Háskóla Íslands í Eyjum. Rannsókna- og fræðasetrið var síðan opnað haustið 1994. Megin markmið Setursins var að leiða saman þær rannsóknastofnanir sem þá voru til staðar í Eyjum og tengja við útibú Háskóla Íslands sem tók til starfa á sama tíma. Með því að setja þessar stofnanir undir sama þak tókst að skapa þverfaglegt rannsóknarumhverfi innan raunvísinda. Þær rannsóknastofnanir sem hafa aðsetur í Setrinu í dag eru Háskóli Íslands, Hafrannsóknastofnunin, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknaþjónustan Vm. ehf. og Náttúrustofa Suðurlands. Þá er Viska, fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja sem hóf starfsemi 2003 með skrifstofu og kennsluaðstöðu í Setrinu. Um þessar mundir stunda 60-70 manns háskólanám í Eyjum í gegnum fjarnámsbúnað og fjöldi annarra tekur þátt í almennum námskeiðum Visku.

Mikið hefur breyst í rannsókna- og háskólasamfélaginu frá stofnun Setursins og ber þar hæst fjölgun háskóla í landinu og efling fræðasetra á landsbyggðinni með virkri aðkomu ríkisins. Fjölgun háskóla hefur almennt leitt til eflingar fjarnáms og aukins námsframboðs á háskólastigi. Uppbygging á háskólasamfélagi og aukin þekking og/eða menntun í heimabyggð er talin vera ein megin forsenda jákvæðrar byggðarþróunar úti á landi. Það er mikilvægt að Vestmannaeyjar taki virkan þátt í þessari þróun og marki sér nýja framtíðarsýn í þessum málum, með aðkomu ríkisins og hinum fjölmörgu háskóla- og rannsóknastofnunum sem gera sér grein fyrir mikilvægi þess að starfa í Vestmannaeyjum.

Atvinnuþróunarfélag Suðurlands hefur tekið að sér að leiða vinnu er lítur að stöðumati og stefnumótun stofnanna Setursins í tengslum við Vaxtasamning Suðurlands. Sú vinna mun nýtast starfshópnum til að móta tillögur um framtíðarstefnu og skipulag háskólanáms og rannsókna í Vestmannaeyjum.

Elliði Vignisson

Páll Marvin Jónsson

Páley Borgþórsdóttir

Gunnlaugur Grettisson

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

b) Skráning sjómanna í Vestmannaeyjum

Svohljóðandi tillaga barst:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að láta nú þegar kanna hversu stórt hlutfall sjómanna á bátum og skipum sem gera út frá Vestmannaeyjum eru með lögheimili annarstaðar en í Vestmannaeyjum.

Elliði Vignisson

Páll Marvin Jónsson

Páley Borgþórsdóttir

Gunnlaugur Grettisson

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

c) Stórskipahöfn í Vestmannaeyjum

Svohljóðandi tillaga barst:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að fela bæjarstjóra í samráði við Famkvæmda- og hafnarráð að láta vinna hagkvæmnisathugun vegna stórskipahafnar í Vestmannaeyjum

Greinargerð

Vestmannaeyjahöfn er lífæð samfélagsins og því má ekki dragast að hefja nú þegar handa við næsta skref í hafnarmálum Vestmannaeyja, markvissan undirbúning að gerð stórskipahafnar. Flest bendir nú til þess að þau skip Eimskips og Samskipa sem nú eru í gangi séu síðasta kynslóð skipa af þessari stærð. Sú næsta byggist á stærri flutningaskipum, en Vestmannaeyjahöfn ræður við í dag og slíkt hæfir ekki stærstu verstöð landsins. Þá er ótalið hversu gríðarleg lyftistöng það yrði fyrir samfélagið að geta tekið á móti þeim mikla fjölda skemmtiferðaskipa sem í dag sigla hjá þar sem stærð þeirra leyfir ekki hafnarlegu.

Ljóst er að undirbúningur og rannsóknir á forsendum stórskipahafnar hafa nú þegar hafist og þegar liggja fyrir nokkur gögn um straummælingar og fleira. Þó nokkrar umræður hafa verið í Vestmannaeyjum um staðsetningu stórskipahafnar. Ákvörðun um kosti og galla hvers möguleika fyrir sig þarf að meta og yfirvega af þar tilbærum aðilum og því ber að flýta.

Forsendur ákvörðunar á framkvæmd gerðar stórskipahafnar eru af sjálfsögðu ekki hvað síst hagkvæmniathugun og mikilvægt að bæjaryfirvöld láti nú þegar vinna slíkt fyrir sig.

Elliði Vignisson

Páll Marvin Jónsson

Páley Borgþórsdóttir

Gunnlaugur Grettisson

Lúðvík Bergvinsson, Hjörtur Kristjánsson, Páll Scheving gerðust meðflutningsmenn að tillögunni.

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

D) Skipan starfshóps um heilbrigðisþjónustu

Svohljóðandi tillaga barst:

Bæjarstjórn samþykkir að koma á laggirnar fimm manna starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna atvinnuskapandi verkefnum innan heilbrigðisþjónustu og heilsutengdri ferðaþjónustu brautargengi hjá landsyfirvöldum og öðrum sem að þessum málum koma. Hópurinn hefur auk þess það hlutverk að halda utan um og koma af stað undirbúningsvinnu til að kanna möguleika á að koma hér á fót heilsuhælis. Hópurinn fær umboð til að koma fram fyrir hönd bæjarins í viðræðum við ráðuneyti, önnur yfirvöld og aðra hagsmunaaðila og umboð til samningagerðar með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.

Lagt er til að hópinn skipi:

Gunnar Gunnarsson framkv.stjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja, Lúðvík Bergvinsson alþingismaður og bæjarfulltrúi, Guðjón Hjörleifsson alþingismaður, Hjörtur Kristjánsson læknir og bæjarfulltrúi og Elliði Vignisson bæjarstjóri.

Greinargerð:

Hvar eru vaxtarmöguleikar í atvinnulífi Eyjanna? Að mati Vestmannaeyjalistans liggja þeir möguleikar einna helst í ferðaþjónustu og þá ekki síst á sviði íþróttatengdrar og heilsutengdar ferðaþjónustu.

Tækifæri eru fyrir hendi á sviði heilbrigðisþjónustu og heilsutengdrar ferðaþjónustu. T.d. eru möguleikar á að fá hingað sérhæfð verkefni til Heilbrigðisstofnunarinnar og er verið að vinna að nokkrum slíkum málum. Slík verkefni eru atvinnuskapandi. Í því sambandi má nefna að hópur hjúkrunarfræðinga útskrifast úr fjarnámi s.l. vor og mikilvægt er að atvinnuframboð sé fyrir hendi.Yfirleitt þarf aðkomu ríkisins og ýmissa annara aðila til þess að slík verkefni verði að veruleika. Til að hægt sé að nýta þessi tækifæri þarf að kynna þau og skapa þeim góðar viðtökur hjá hagsmunaaðilum. Markmiðið með stofnun vinnuhóps er að slíkum málum verði skapaður farvegur þegar aðkomu bæjarins þarf með, meðal annars og hópurinn sjái um að vinna þeim brautargengi.

Eins og áður hefur komið fram þarf þó að grípa til róttækari aðgerða til að stöðva fólksfækkunina. Fulltrúar Vestmannaeyjalistans telja að vænlegur kostur í því sambandi sé að athuga möguleika á því að koma hér upp heilsuhæli. Ef undirbúningsvinna skilar jákvæðum niðurstöðum og viðskiptaáætlun liggur fyrir má selja hana fjárfestum. Hins vegar þarf frumkvæði og fjármögun rannsókna- og undirbúningsvinnu að koma frá bænum. Til að vanda til verks er rétt er að fá fagaðila til slíkrar vinnu. Eitt af hlutverkum vinnuhópsins yrði að koma slíkum undirbúningi í réttan farveg.

Lúðvík Bergvinsson

Hjörtur Kristjánsson

Páll Scheving

Elliði Vignisson, Páll Marvin Jónsson, Páley Borgþórsdóttir,Gunnlaugur Grettisson gerðust meðflutningsmenn að tillögunni.

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

E. Fundur um ástand Lundastofsins

Svohljóðandi tillaga barst:

Bæjarstjórn samþykkir boða til fundar sem fyrst um ástand Lundastofnsins í Vestmannaeyjum. Á fundinn skal boða veiðimenn, aðila í ferðaþjónustu og þá Eyjamenn sem stundað hafa merkingar, fylgst með varpi og unga eða rannsakað hafa hegðan Lundans á annan hátt í Vestmannaeyjum. Markmið fundarins er greina hvort aðgerða sé þörf í ljósi þess að varp virðist hafa brugðist undanfarin tvö ár og veiði verið lakari. Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að boða til fundarins.

Greinargerð.

Lundinn er Vestmannaeyingum mikilvægur. Lundaveiðar eru af fjölmörgum stundaðar sem sport og eru einnig tímabundin atvinna annarra. Ferðamenn koma hingað til að fylgjast með fuglinum í einstakri náttúru. Flug pysjunar á ljósin í bænum og framganga yngri kynslóðarinnar við björgun ungans er sérstakt fyrirbæri sem vakið hefur athygli víða um heim. Það er því áhyggjuefni þegar stofninn gefur eftir og rétt að kanna hvort einhverjar aðgerðir geti stutt hann. Sem er reyndar alls ekki víst.

Lúðvík Bergvinsson

Hjörtur Kristjánsson

Páll Scheving

Svohljóðandi afgreiðslutillaga barst frá fulltrúum sjálfstæðisflokksins:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að vísa tillögunni til stjórnar Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum og fela henni framgang málsins sem fyrst. Ennfremur samþykkir bæjarstjórn að beina því til stjórnar Rannsóknar og fræðaseturs Vestmannaeyja og stjórnar Náttúrustofu Suðurlands að kanna forsendur fyrir stofnun vísindaráðs til ráðleggingar og eftirlits með lundastofninum og öðrum bjargfuglum.

Elliði Vignisson

Páll Marvin Jónsson

Páley Borgþórsdóttir

Gunnlaugur Grettisson

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

F. Ástand vatns- og rafmagnsleiðslu

Svohljóðandi tillaga barst:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja óskar eftir því að rekstraraðilar Vatns- og rafmagnsleiðslu (Hitaveita Suðurnesja/Landsnet), sem liggja milli lands og Eyja, skili bæjarstjórn skýrslu um hvort og hvaða viðbragðsáætlanir liggja fyrir komi til þess að tjón verði á leiðslunum. Á ákveðinn hátt eru þessar leiðslur lífæðar Eyjanna, þær eru komnar til ára sinna, og því mikilvægt að fyrir liggi áætlanir um hvernig verði brugðist við verði tjón.

Lúðvík Bergvinsson

Hjörtur Kristjánsson

Páll Scheving

Svohljóðandi afgreiðslutillaga barst:

Umbeðnar upplýsingar liggja nú þegar hjá Vestmannaeyjabæ. Hinsvegar felur bæjarstjórn bæjarstjóra að eiga sem allra fyrst viðræður við fulltrúa Hitaveitu Suðurnesja/Landsnet um endurnýjun vatnsleiðsla þeirra sem lagðar voru 1968 og 1971 milli lands og Eyja, að óska eftir því við Hitaveitu Suðurnesja/Landsnet að bæjarstjóri verði á öllum tímum upplýstur um ástand lagna milli lands og Eyja.

Elliði Vignisson

Páll Marvin Jónsson

Páley Borgþórsdóttir

Gunnlaugur Grettisson

Lúðvík Bergvinsson

Hjörtur Kristjánsson

Páll Scheving

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

G. Skipan í Almannavarnarnefnd

Bæjarstjórn samþykkir að skipa sex menn í Almannavarnanefnd auk lögreglustjóra.

Skipaðir eru Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri; Ragnar Þór Baldvinsson, slökkviliðsstjóri; Elliði Vignisson, bæjarstjóri Frosti Gíslason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs; Karl Björnsson, yfirlæknir heilsugæslustöðvar HV; Adolf Þórsson, Sigurður Þórir Jónsson, báðir fyrir hönd Björgunarfélag

Tillagan samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

2. Mál. Fundargerðir ráða, nefnda og stjórna.

a) Fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs nr. 5 frá 28. ágúst sl.

- 2,3 og 7 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

-

- Liðir 1,4,5,6 lágu fyrir til kynningar.

-

b) Fundargerð menningar- og tómstundaráðs nr. 30 frá 29. ágúst sl.

- Liður 1 lá fyrir til umfjöllunar og staðfestingar og var hann samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

-

Bókun V listans:

V-listinn hefur markað þá stefnu að byggja skuli knattspyrnuhús í Vestmannaeyjum. V-listinn hefur einnig markað þá stefnu að leita allra leiða til að byggja eins hagkvæmt og nokkur er kostur. Á síðasta kjörtímabili var samþykkt samhljóða að byggja knattspyrnuhús sem fullnægði þörfum knattspyrnunnar í Vestmannaeyjum. Það hús var u.þ.b. helmingi ódýrar en það hús sem nú er rætt um.

Það er mikilvægt að lögð verði fram nákvæm kostnaðaráætlun. Það er mikilvægt, ef ákveðið verður að byggja knattspyrnuhús, að hugmyndir þar um verði lagðar fyrir eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sbr. 1. og 3. gr. Samnings bæjarstjórnar Vestmannaeyja og eftirlitsnefndarinnar frá 8. ágúst s.l.

Í skýrslu sem lögð var fyrir MTV koma fram upplýsingar um að fyrirhugað sé að stofna íþróttaakademíu við Framhaldsskólann. Engar upplýsingar liggja fyrir um stofnun íþróttaakademíu. Engar upplýsingar liggja fyrir um aðkomu stjórnvalda eða fjármögnun íþróttaakademíu í Vestmannaeyjum.

Lúðvík Bergvinsson

Hjörtur Kristjánsson

Páll Scheving

- Liður 4 lá fyrir til staðfestingar og var hann staðfestur með sjö samhljóða atkvæðum.

-

- Liðir 2,3,5,6,7 og 8 lágu fyrir til kynningar.

c) Fundargerð fjölskylduráðs frá 30. ágúst sl.

- Liður 16 lá fyrir til staðfestingar og var hann samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

-

- Liðir 9,12,13,14,15,17 og 18 lágu fyrir til kynningar.

d) Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs, nr. 46 frá 30. ágúst sl.

- Liður 1 lá fyrir til umfjöllunar og staðfestingar, var hann samþykktur með fjórum atkvæðum gegn þremur. Fulltrúar V-listans í bæjarstjórn taka undir bókanir V-lista í ráðinu.

-

- Liðir ,2,3,4,5,6,7,8,9,10,11,12,14,16 og 17 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

-

- Liðir 13,15 og 18 lágu fyrir til kynningar.

e) Fundargerð bæjarráðs nr. 2800 frá 4. september sl.

- Liðir 1,2, og 3 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

-

- Liðir 4,5,6,7,8 og 9 lágu fyrir til kynningar.

f) Fundargerð félagsmálaráðs nr. frá 13. september sl.

- Liðir 6,7 og 8 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

-

- Liðir 1,2, og 9 lágu fyrir til kynningar.

-

- Liður 10 lá fyrir til umfjöllunar og kynningar.

Bókun V-listans:

Á síðastaliðnu kjörtímabili var búið að ákveða að fækka sviðum Vestmannaeyjarbæjar. Félags-og fjölskyldusvið og Fræðslu- og menningarsvið skyldu felld niður og við tæki Fjölskyldu-og fræðslusvið. Við þessar breytingar fækkar stöðugildum um eitt þar sem einn framkvæmdastjóri verður yfir sameinuðu sviði í stað tveggja áður. Á síðasta fundi fjölskylduráðs voru kynntar hugmyndir að skipulagi hins nýja sviðs. Samkvæmt þeim hugmyndum eða tillögum verður fækkað um ríflega eitt stöðugildi til viðbótar og er þá búið að taka tillit til þess að menningar-,markaðs- og ferðamálafulltrúi fer af sviðinu yfir til stjórnsýslusviðs.

Mikilvægt er að þjónusta þessa sviðs við bæjarbúa skerðist ekki. Starfsmenn sviðsins hafa meira en nóg af verkefnum á sinni könnu nú þegar. Má nefna í því sambandi frétt RÚV frá því fyrr í dag um fjölgun barnaverndarmála og skort á starfsfólki til að sinna þessum málaflokk. Frekari sparnaður í mannahaldi mun skerða þjónustu. Sú skerðing mun bitna mest í þeim sem eiga undir högg að sækja. Aukinheldur vara fulltrúar Vestmannaeyjalistans við þeim skilaboðum sem slík ákvörðun gefur, þ.e.a.s. skilaboðum um skerðingu á þjónustu og búsetuskilyrðum. Með ákvörðun um frekari fækkun stöðugilda innan Fjölskyldu-og fræðslusviðs virðist stefna D-listans vera sú að skerða þjónustu við bæjarbúa.

Lúðvík Bergvinsson

Hjörtur Kristjánsson

Páll Scheving

Bókun V-listans:

Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra Fjölskyldu- og fræðslusviðs er ekki vilji fyrir því að ráða í stöðu íþrótta- og æskulýðsfulltrúa að nýju. Ákveðið hefur verið að leggja þessa stöðu niður. Það skýtur skökku við að íþróttabærinn Vestmannaeyjar hafi ekki íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, ekki síst þar sem uppi eru hugmyndir um að koma hér upp íþróttaakademíu. Í því samhengi þykir rétt að taka fram að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúar eru starfandi m.a. á Akranesi, í Borgarnesi, í Snæfellsbæ, í Vesturbyggð, á Ísafirði, á Hvammstanga, á Blöndósi, á Sauðárkróki, á Hornafirði, á Kirkjubæjarklaustri, í Vík í Mýrdal, á Hvolsvelli, á Selfossi, í Hveragerði, í Þorlákshöfn, í Grindavík, í Reykjanesbæ, í Hafnarfirði, í Garðabæ, í Kópavogi, í Mosfellsbæ, á Seltjarnarnesi og í Bessastaðahreppi.

Í nýsamþykktri skóla- og æskulýðsstefnu Vestmannaeyjabæjar er lögð áhersla á mikilvægi íþrótta-og æskulýðsstarfs. Stefnan er metnaðarfull en er marklaust plagg ef ekki er farið eftir henni. Niðurfelling á stöðu íþrótta- og æskulýðsfulltrúa er í mótsögn við þær yfirlýsingar sem gefnar eru með samþykkt ofangreindrar stefnu. Slík ákvörðun gefur til kynna að ekki sé alvara á bak við samþykkt D-listans á skóla-og æskulýðsstefnu Vestmannaeyjarbæjar. Vestmannaeyjalistinn telur fulla þörf á að halda áfram því góða starfi sem fráfarandi íþrótta- og æskulýðsfulltrúi sinnti og telur að rangt sé að fella þessa stöðu niður.

Lúðvík Bergvinsson

Hjörtur Kristjánsson

Páll Scheving

g) Fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs nr. 6 frá 18. september sl.

- Liðir 1,3 og 5 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

-

Liðir 2,4 og 6 lágu fyrir til kynningar

h) Fundargerð skólamálaráðs nr. 172 frá 19. september sl.

- Liðir 3,5,6,7,8,9,11,15,16,19 og 20 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

-

Liðir 1,2,3,10,12,14,17 og 18 lágu fyrir til kynningar

i) Fundargerð bæjarráðs nr. 2801 frá 18. september sl.

- Liðir 1,2,6,7,8 og 9 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

-

- .

Liðir 3,4,og 5 lágu fyrir til kynningar

Elliði Vignisson (sign.)

Páley Borgþórsdóttir (sign.)

Gunnlaugur Grettisson (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Páll Marvin Jónsson (sign.)

Páll Schveing (sign.)

Hjörtur Kristjánsson (sign.)