Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1379

24.08.2006

Bæjarstjórn Vestmannaeyja

1379. fundur

Ár 2006, fimmtudaginn 24. ágúst kl. 18.00 var fundur haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja í sal Listaskólans við Vesturveg.

Forseti bæjarstjórnar, Gunnlaugur Grettisson stjórnaði fundi.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Elliða Vignissonar bæjarstjóra og Páls Einarssonar sem ritaði fundargerð.

Áður en gengið var til dagskrár minntist forseti Magnúsar H. Magnússonar með eftirfarandi orðum:

“Áður en gengið verður til formlegrar dagskrár vil ég hér í nokkrum orðum minnast Magnúsar H. Magnússonar fyrrum bæjarstjóra í Vestmannaeyjum og ráðherra sem lést í gær, 23. ágúst 2006 á Landakoti á 84. aldursári.

Magnús var fæddur í Vestmannaeyjum 30. september 1922, sonur hjónanna Magnúsar Helgasonar og Magnínu Jónu Sveinsdóttur.

Magnús var bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum árin 1962-1982 þar af bæjarstjóri árin 1966-1975. Hann sat 203 fundi í bæjarstjórn og 663 fundi í bæjarráði.

Magnús sat á Alþingi árin 1978-1983 og var félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1978-1980 og jafnframt samgönguráðherra frá 1979.

Magnús var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu vegna framgöngu sinnar í eldgosinu í Vestmannaeyjum og uppbyggingarstarfinu sem á eftir fylgdi.

Um leið og við sendum aðstandendum Magnúsar okkar samúðarkveðjur vil ég biðja bæjarfulltrúa að rísa úr sætum og minnast hans.”

1. Tillögur og mál til umræðu og afgreiðslu.

a) Ráðningar framkvæmdastjóra:

Svohljóðandi tillaga barst: “Bæjarstjórn samþykkir að ráða Jón Pétursson sálfræðing sem framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs og Rut Haraldsdóttur sem framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs hjá Vestmannaeyjabæ, og felur bæjarstjóra að ganga frá ráðningarsamningum við þau.

Ráðningar þessar taka mið af ráðgjöf Liðsauka-Mannafls sem unnið hefur úr umsóknum fyrir Vestmannaeyjabæ.”

Elliði Vignisson (sign)

Gunnlaugur Grettisson (sign)

Páley Borgþórsdóttir (sign)

Páll Marvin Jónsson (sign)

Tillagan var samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

b) Svohljóðandi tillaga barst:

“Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að styrkja Nemendafélag Framhaldsskóla Vestmannaeyja um eina milljón króna. Fénu skal varið til eflingar félagslífs ungs fólks í Vestmannaeyjum, skemmtanahalds, menningarviðburða og íþróttastarfs á vegum félagsins á haustönn 2006. Stjórn Nemendafélagsins skal fara með umsjón fjárins. Allir viðburðir, sem kostaðir eru af þessum sjóði skulu opnir öllum 16 ára og eldri og auglýstir opinberlega. Heimilt er að innheimta hóflegan aðgangseyri að viðburðunum.

Nemendafélagið, ásamt kennurum og yfirmönnum skólans, skulu við lok haustannar 2006 skila bæjarstjórn skýrslu þar sem farið er yfir ráðstöfun sjóðsins, kosti og galla fyrirkomulagsins, auk þess að gera tilllögu um hvort framhald eigi að vera á þessu fyrirkomulagi og þá hvernig best verði að henni staðið.”

Greinargerð.

Félagslíf ungs fólks í Vestmannaeyjum, frá 16 ára aldri og uppúr, hefur um langt skeið verið lamað – svo notað sé skýrt orðalag. Heiðarlegar tilraunir til uppbyggingar sérstaks Húss eða aðstöðu fyrir ungt fólk hefur mistekist, ekki aðeins í Vestmannaeyjum heldur víðar. Meginástæðan er sú að mun erfiðara er að skapa aðsókn meðal þessa aldurshóps en annara nema með miklum tilkostnaði.

Með því að veita fjármagni til Nemendafélags Framhaldskólans og fela því aukin verkefni í uppbyggingu félagslífsins í Eyjum er líklegt að það muni stórefla Nemendafélagið og allt félagslíf, auk þess sem það mun ef vel tekst til efla Framhaldsskólann sem stofnun. Það er mikilvægt.

Tillagan er sett fram sem tímabundin tilraun. Hugmyndin er að láta unga fólkið sjálft um að hafa frumkvæði og móta sitt félagslíf með því að treysta þeim til að fara með talsverða fjármuni. Það gerði þeim kleift að skapa sér sitt umhverfi á eigin forsendum. Á fjárhagsáætlun ársins 2006 er gert ráð fyrir 1 milljón kr. til undirbúnings uppbyggingu á félagslífi unga fólksins. Það er eðlilegt að þeir fjármunir yrðu færðir í þetta tímabundna verkefni.”

Páll Scheving (sign)

Hjörtur Kristjánsson (sign)

Guðlaugur Friðþórsson (sign)

Svohljóðandi frávísunartillaga barst: “Meirihluti bæjarstjórnar vísar tillögu minnihlutans frá enda er hún ekki í samræmi við nýútkomna skóla- og æskulýðsstefnu Vestmannaeyjabæjar né heldur stefnu Vestmannaeyjabæjar í forvörnum. Þess í stað beinir Vestmannaeyjabær því til MTV að það standi að stofnun ungmennaráðs eins og getið er um í skóla- og æskulýðsstefnu Vestmannaeyjabæjar. Þar kemur fram að hlutverk slíks ráðs sé að leggja mat á tillögur og stefnumótandi þætti er varða mál unglinga. Eðlilegt er að nemendafélag FÍV standi til boða að eiga þar fulltrúa.”

Elliði Vignisson (sign)

Gunnlaugur Grettisson (sign)

Páley Borgþórsdóttir (sign)

Páll Marvin Jónsson (sign)

Frávísunartillagan var samþykkt með 4 atkvæðum, 3 á móti.

2. Mál. Fundargerðir ráða, nefnda og stjórna.

a) Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs, nr. 45 frá 26. júlí sl.

- Liðir 1 til 18 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

b) Fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs nr. 4 frá 31. júlí sl.

- Liðir 1,3, og 6 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 2,4,5,7 og 8 lágu fyrir til kynningar.

c) Fundargerð bæjarráðs nr. 2798 frá 1. ágúst sl.

- Liðir 1 til 11 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

d) Fundargerð fjölskylduráðs frá 16. ágúst sl.

- Liðir 1 til 4, og 9 til 10 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 5 til 8, og 11 lágu fyrir til kynningar.

e) Fundargerð bæjarráðs nr. 2799 frá 21. ágúst sl.

- Liðir 1 til 4, og 6 b) lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 5 og 6 a) lágu fyrir til kynningar.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.20

Elliði Vignisson (sign.)

Páley Borgþórsdóttir (sign.)

Gunnlaugur Grettisson (sign.)

Guðlaugur Friðþórsson (sign.)

Páll Marvin Jónsson (sign.)

Páll Schveing (sign.)

Hjörtur Kristjánsson (sign.)