Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1365

22.09.2005

Bæjarstjórn Vestmannaeyja

1365. fundur

Ár 2005, fimmtudaginn 22. september, kl. 18.00 var fundur haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja í sal Listaskólans að Vesturvegi 38.

Forseti bæjarstjórnar, Lúðvík Bergvinsson stjórnaði fundi.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Bergs E. Ágústssonar bæjarstjóra og Viktor S. Pálssonar sem ritaði fundargerð.

Var nú gengið til auglýstrar dagskrár.

1. Mál. Tillögur og mál til umræðu og afgreiðslu að frumkvæði bæjarstjórnarmanna.

Svohljóðandi tillögur bárust frá meirihluta bæjarstjórnar:

a. Tillaga um íbúaþing

"Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að halda íbúaþing í Vestmannaeyjum fyrri hluta desembermánaðar nk. Á þinginu verði rædd málefni Vestmannaeyja í nútíð og framtíð þar sem m.a. komi til umræðu skóla-, samgöngu-, atvinnu- og menningarmál-, íþrótta - og æskulýðsmál auk skiplagsmála. Þá verði reynt að kalla eftir þeirri framtíðarsýn sem íbúar Vestmannaeyja hafa á þróun byggðar og mannlífs í Eyjum næstu árin. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að skipuleggja íbúaþingið og skal hann leita aðstoðar sérfróðra aðila við undirbúning þess."

Greinargerð.

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að sveitarfélög haldi íbúaþing þar sem íbúum þess gefst kostur á að koma saman á skipulegan hátt og ræða sín áhugamál, setja fram hugmyndir um framtíðna sínar og áhyggjur af því sem betur megi fara. Þessi þing hafa í flestum tilvikum skilað byggðarlögunum miklu. Almenn umræða íbúanna um hvert skuli stefnt og hvernig skuli unnið er lykilatriði þegar byggja á upp til lengri tíma. Ekkert samfélag er sterkara en það fólk sem þar býr og því er afar mikilvægt að reyna að samhæfa krafta og hugmyndir þess til að vinna samfélaginu heilt næstu árin.

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Helga Björk Ólafsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Tillagan samþykkt með sex atkvæðum, einn sat hjá.

Leitað var afbrigða við að taka tillögu b., á dagskrá fundarins, skv. 2. mgr. 19. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar og var það samþykkt með 6 atkvæðum, einn greiddi atkvæði á móti.

b. Tillaga um hagræðingu í rekstri Vestmannaeyjabæjar og stofnana.

Í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyja þann 25. ágúst sl. leggur meirihluti bæjarstjórnar fram tillögur um lækkun útgjalda Vestmannaeyjabæjar að fjárhæð liðlega 65 milljónir króna, sem verða að fullu komnar til framkvæmda 1. janúar 2007.

Tillögur þessar varða bæjarstjórn, nefndarfólk og starfsemi og starfsmenn eftirfarandi stofnana.

Ráðhússins

Vestmannaeyjahafnar

Hraunbúða

Þjónustumiðstöðvarinnar (Áhaldahús)

Nýsköpunarstofu

Safna Vestmannaeyjabæjar

Auk þessa eru lagðar til breytingar á stjórnkerfi og skipuriti Vestmannaeyjabæjar sem leiða munu til umtalsverðrar lækkunar útgjalda.

Í vinnslu þessara tillagna hefur verið unnið eftir verklagsreglum sem fylgja tillögum þessum.

Með tillögum þessum telur meirihluti bæjarstjórnar að hann hafi brugðist við tilmælum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og mun bæjarstjóri gera nefndinni grein fyrir ákvörðunum bæjarstjórnar. Árangur þessara aðgerða mun koma skýrar fram í næstu 3 ára áætlun bæjafélagsins fyrir árin 2006 til 2009.

Verklagsreglur:

· Starfsmaður sem unnið hefur hjá bæjarfélaginu í meira en 15 ár og er yfir 60 ára að aldri verður að öðru jöfnu ekki sagt upp störfum, en gæti þurft að hliðra til í starfi samkvæmt sérstöku samkomulagi við Vestmannaeyjabæ.

· Starfsmenn sem náð hafa ellilífeyrisaldri eiga möguleika á starfslokasamningi eða lækkun starfshlutfalls samkvæmt sérstöku samkomulagi við viðkomandi starfmenn.

· Við nýráðningar verður ekki samið um greiðslur fyrir óunna yfirvinnu og jafnframt miðast bílastyrkur við áætlaða notkun í þágu bæjarfélagsins.

· Stefnt er að því að starfsmenn Vestmannaeyjabæjar vinni ekki meira en 550 yfirvinnustundir á ársgrundvelli.

· Þeir starfsmenn sem missa núverandi starf sitt vegna hagræðingar, munu eftir atvikum njóta forgangs við ráðningu í önnur störf hjá bænum. Enn fremur verður þeim boðið upp á aðstoð við leit að nýju starfi og/eða gefinn kostur á að sækja endurmenntunarnámskeið með styrk frá Vestmannaeyjabæ.

Áður en tillögur þessar og leikreglur voru lagðar fram i bæjarstjórn var viðkomandi stéttarfélögum (Drífandi og STAVEY) kynnt innihald þeirra og gefin kostur á að koma að athugasemdum.

Tillögur um hagræðingu í rekstri

1. Almenn ákvæði er varða starfsmenn eftirfarandi stofnana.

Ráðhússins, Vestmannaeyjahafnar, Hraunbúða, Þjónustumiðstöðvarinnar,

Nýsköpunarstofu og Safna Vestmannaeyjabæjar:

a. 15% af óunninni yfirvinnu verður sagt upp.

b. 15% af bílastyrk verður sagt upp.

c. Þetta gildir þó ekki fyrir starfsmenn með lægri heildarlaun en 250.000.- krónur á mánuði miðað við fullt starf að meðtöldum ofangreindum liðum.

d. Uppsagnir þessara launaliða taka gildi frá og með 1. nóvember 2005 með sama uppsagnarfresti og samningar viðkomandi starfsmanna kveða á um. Ofangreindar breytingar munu að meðaltali hafa 4% lækkun launakostnaðar vegna þeirra starfsmanna sem þær ná til og koma til framkvæmda á fyrri hluta ársins 2006.

2. Stjórnkerfið

a. Fækkað verður fulltrúum í öllum fagráðum úr sjö í fimm. Mun þessi breyting taka gildi frá og með 15. júní 2006.

b. Frá og með 15. júní 2006 mun nýtt Umhverfis- og hafnarráð taka yfir verkefni hafnarstjórnar. Auk þess mun Umhverfis- og hafnarráð taka yfir núverandi verkefni Umhverfis- og skipulagsráðs.

c. Þóknun til bæjarfulltrúa verða lækkuð um 4% frá 1. janúar 2006.

d. Nefndarlaun verða lækkuð um 4% frá 1. janúar 2006.

3. Ráðhúsið

a. Umsýsla fjármála þar með talið Hafnarinnar og Hraunbúða verður færð í ráðhús Vestmannaeyjabæjar.

b. Uppbygging skipurits og launafyrirkomulags verður endurskoðað, auk þess verður launakostnaður lækkaður um 5 milljónir króna umfram það sem áður hefur komið fram.

4. Höfnin

a. Starfsemi grafskips Vestmannaeyjahafnar verður hætt frá og með 1. nóvember 2005.

b. Starf hafnarstjóra verður sameinað starfi bæjarstjóra frá og með 1. janúar 2007.

c. Vakta- og stjórnfyrirkomulag hafnarinnar verður endurskoðað með hliðsjón af nauðsynlegu þjónustustigi hafnarinnar.

5. Þjónustumiðstöð / Slökkvistöð

a. Þjónustumiðstöð (Áhaldahús) mun sinna eftirfarandi verkefnum.

i. Fráveitumál

ii. Viðhald gatna

iii. Umferðamerkingar

iv. Veðurtengd verkefni

v. Gatnahreinsun

vi. Almenn þjónusta

vii. Umsjón fasteigna Vestmannaeyjabæjar

viii. Landgræðsla, sláttur og umsjón opinna svæða

ix. Búfjármál og meindýraeyðing

b. Gert er ráð fyrir að stöðugildi við Þjónustumiðstöð verði 10 - 14 frá og með 1 júlí 2006.

c. Ráðinn verður slökkviliðsstjóri sem jafnframt verður eftirlitsmaður með brunavörnum ofl., sem tekur til starfa 1. júní 2006.

d. Starf eftirlitsmanns fasteigna verður sameinað starfi forstöðumanns Þjónustumiðstöðvar frá 1. janúar 2006.

e. Stefnt er að því að samþætta ákveðna verkþætti hafnarinnar og Þjónustumiðstöðvar.

6. Hraunbúðir

a. Fylgt eftir tillögu IBM-BCS að hjúkrunarforstjóri gangi dagvaktir alla virka daga en ekki um helgar og að hjúkrunarfræðingar gangi heilar vaktir um helgar og læknadaga, en morgunvaktir aðra daga.

b. Lagt er til að kvöldvakt hjúkrunarfræðinga verði lengd úr 5 tímum í 8 tíma og þannig dregið úr þeim tíma sem hjúkrunarfræðingar eru hvorki á vakt né bakvakt, sem í dag eru 11 tímar á sólarhring en yrðu 8 tímar við þessar breytingar, þ.e. bara næturvaktir.

c. Í aðhlynningu er lagt til að “stubbavaktin” verði felld niður og í staðinn sett inn heil vakt frá kl. 16.00 – 24.00.

d. Á morgunvakt í aðhlynningu um helgar er lagt til að bætt verði við einum starfsmanni frá kl. 8.00 – 12.00. Lagt er til að tilhögun ræstinga heimilisins verði endurskoðuð í tengslum við ofangreint.

e. Varðandi skipulag í eldhúsi er lagt til að tillögum IBM-BCS verði fylgt og starfshlutföllum starfsmanna í eldhúsi breytt.

f. Lagt er til að endurskipulagt verði í þvottum og viðhaldi þannig að meginhluti þvotta færist í verktöku en viðhald á fatnaði, lagfæring á líni og annar saumaskapur verði áfram hjá stofnuninni.

g. IBM-BCS leggur áherslu á í úttekt sinni að mikilvægt sé að koma á fastri 4 vikna vaktarúllu sem gildir fyrir 3 mánuði í senn, til að tryggja meiri festu í starfsemi stofnunarinnar, betri nýtingu starfshlutfalls, auðveldari skipulagningu og betri yfirsýn yfir vinnutilhögun lengra fram í tímann. Lagt er til að Vestmannaeyjabær kaupi vaktaáætlanakerfið TimeCare til að ná þessum markmiðum. TimeCare er tölvudrifið vaktaáætlanakerfi sem byggir útreikninga sína á fyrirfram skilgreindri mönnunarþörf vinnustaðarins og er ávinningur atvinnurekenda m.a. lægri fjarvistarkostnaður, minni starfsmannavelta og aukin framleiðni um leið og starfsfólki er falin aukin ábyrgð á eigin vinnutíma og því gefin valmöguleiki sem stuðlar að betri líðan á vinnustað.

h. Starf rekstrarstjóra Hraunbúða verður lagt niður í núverandi mynd 1. janúar 2007. Verkefnin verða færð til fjölskyldusviðs annarsvegar og fjármálasviðs hinsvegar.

i. Ofangreindar tillögur taka gildi frá og með frá og með janúar 2006.

7. Nýsköpunarstofa Vestmannaeyja

a. Starf markaðsfulltrúa Vestmannaeyjabæjar verði fært undir MTV.

b. Samið verður við Atvinnuþróunarsjóð Suðurlands um að atvinnu- og rekstrarráðgjafi verði staðsettur í Vestmannaeyjum.

c. Í ljósi samstarfs við Atvinnuþróunarsjóð Suðurlands verður starfsemi Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja endurskoðuð.

Tillögur þessar verða að hluta komnar til framkvæmda á árinu 2006 og að fullu frá ársbyrjun 2007 og miðast neðangreindar fjárhæðir við áætlaða útgjaldalækkun á árinu 2007 á verðlagi dagsins í dag.

Bæjarstjóra framkvæmd málsins.

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Helga Björk Ólafsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Andrés Sigmundsson óskaði bókað:

“Óskað er eftir úrskurði forseta bæjarstjórnar um, hvort rétt sé staðið að 1. máli í dagskrá bæjarstjórnar í 22. september liðir b og c. Hvort farið sé að sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 m.a. er bent á 62. gr.

Óskað er eftir að úrskurður forseta verði bókaður í bækur bæjarstjórnar á fundinum.”

Forseti bæjarstjórnar, Lúðvík Bergvinsson, kvað upp svohljóðandi úrskurð, “umræddar tillögur hafa nær engin áhrif á fjárhagsáætlun ársins 2005 og eiga röksemdir bæjarfulltrúans Andrés Sigmundssonar um breytingar á fjárhagsáætlun, sbr. 62. gr. laga um sveitarstjórnir því ekki við.”

Bæjarstjórn samþykkir ofangreindar tillögur með sex atkvæðum, einn greiddi atkvæði á móti.

c. Tillaga um eflingu nýsköpunar í Vestmannaeyjum

"Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að leggja allt að 10 milljónir króna til eflingar framleiðslu-/nýsköpunarstarfsemi í Vestmannaeyjum. Það verður skilyrt að hálfu Vestmannaeyjabæjar að þau fyrirtæki sem fjárfest verður í geti sýnt fram á starfsgrundvöll byggðan á traustri viðskiptahugmynd, enda rúmist slík aðkoma Vestmannaeyjabæjar meðal hugmynda sem fram koma við gerð vaxtasamningi við Vestmannaeyjar.

Bæjarstjórn hefur þá meginstefnu að taka ekki beinan þátt í atvinnurekstri en í ljósi þeirra sparnaðaraðgerða sem Vestmannaeyjabær er að ráðast í telur bæjarstórn mikilvægt að taka þátt í mótvægisaðgerðum til uppbyggingar fleiri starfa í samfélaginu."

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Helga Björk Ólafsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Tillagan samþykkt með sex atkvæðum, einn greiddi atkvæði á móti, tillögunni vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar komi til að útgjöld verði á þessu ári.

Andrés Sigmundsson gerði grein fyrir atkvæði sínu og óskaði bókað að hann myndi leita til félagsmálaráðuneytisins

2. Mál. Fundargerðir ráða, nefnda og stjórna.

a) Fundargerð Hafnarstjórn frá 24. ágúst sl.

- Liður 5 lá fyrir til staðfestingar og var hann samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liðir 1 til 4 lágu fyrir til kynningar.

b) Fundargerð Skólamálaráðs nr. 157 frá 30. ágúst sl.

- Liðir 1 og 7 lágu fyrir til umfjöllunar og staðfestingar .

- Liður 1: Liðurinn samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liður 7: Liðurinn samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liðir 2 til 5, 8 og 11 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 6, 9 og 10 lágu fyrir til kynningar.

c) Fundargerð Bæjarráðs nr. 2769 frá 5. september sl.

- Liður 5 lá fyrir til umfjöllunar og staðfestingar og var hann samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 1 til 4, 7 og 10 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 6, 8 og 9 lágu fyrir til kynningar.

d) Fundargerð Umhverfis- og skipulagsráðs nr. 27 frá 7. september sl.

- Liður 2 lá fyrir til umfjöllunar og staðfestingar og var hann samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 1 og 3 til 15 lágu fyrir staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

e) Fundargerð Skólamálaráðs nr. 158 frá 13. september sl.

- Liðir 8 og 11 lágu fyrir til umfjöllunar og staðfestingar.

- Liður 8: Liðurinn samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liður 11: Liðurinn samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liðir 1, 2, 6, 13 og 14 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 3 til 5, 7, 9, 10 og 12 lágu fyrir til kynningar.

f) Fundargerð Menningar- og tómstundaráðs nr. 16 frá 13. september sl.

- Liðir 9 og 10 lágu fyrir til umfjöllunar og staðfestingar.

- Liður 9: Liðurinn samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liður 10: Liðurinn samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liðir 1 til 4, 13 og 14 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 5 til 8, 11 og 12 lágu fyrir til kynningar.

g) Fundargerð Fjölskylduráðs frá 14. september sl.

- Liður 21 lá fyrir til umfjöllunar og staðfestingar og var hann samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 2 til 13, 17 og 18 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 1, 14 til 16, 19, 20, 22 og 23 lágu fyrir til kynningar.

h) Fundargerð Bæjarráðs nr. 2770 frá 20. september sl.

- Liðir 1, 3, 6 og 10 lágu fyrir til umfjöllunar og staðfestingar.

- Liður 1: Liðurinn samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liður 3: Liðurinn samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liður 6: Liðurinn samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liður 10:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja tekur fram að gefnu tilefni að einróma samþykkt bæjarstjórnar þann 2. júní sl., er varðaði skýrslu skólarannsóknadeildar Háskólans á Akureyri fjallaði eingöngu um að sameina yfirstjórn grunnskólanna annarsvegar og leikskólanna í Vestmannaeyjum hinsvegar og tekur þessi nýja skipan gildi þann 1. ágúst 2006.

Fjölmargir aðilar í Eyjum komu að undirbúningsvinnu við gerð skýrslunnar, meðal annars starfsfólk leik- og grunnskóla Vestmannaeyjabæjar.

Bæjarstjórn ákvað á fundi 23. júní sl. að setja á stofn sérstaka fjölskipaða verkefnisstjórn um skóla- og æskulýðsstarf í Vestmannaeyjum undir formennsku Trausta Þorsteinssonar frá skólaþróunardeild Háskólans á Akureyri. Verkefnisstjórnin hefur nú þegar haldið tvo fundi og er þess að vænta að áfangaskýrlsa verði lögð fyrir fund bæjastjórnar fyrir lok nóvember nk. og lokaskýrsla þar sem fjallað verður um nýja skóla- og æskulýðsstefnu fyrir Vestmannaeyjar verði lögð fram fyrir lok mars 2006.

Þá liggur fyrir að haldnir verða fjórir opnir kynningarfundir, sá fyrsti 27. október nk., með starsfólk skólana, forráðamönnum nemenda og bæjaryfirvöldum áður en lokaskýrslan verður kynnt fyrir bæjarstjórn. Þessu til viðbótar ákvað bæjarstjórn á fundi sínu fyrr í dag að gangast fyrir íbúaþingi í byrjun desember um málefni Vestmannaeyja og er þess að vænta að skóla- og æskulýðsmál fái þar ýtarlega umfjöllun samhliða öðru sem skiptir miklu fyrir þróun byggðar í Vestmannaeyjum.

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Andrés Sigmundsson lagði fram svohljóðandi afgreiðslutillögu:

“Til að skapa frið og einingu um allt skólastarf bæjarfélasins samþykkir bæjarstjórn eftirfarandi:

1. Samþykktir bæjarstjórnar frá fundi sínum 2. júní sl. um að leik- og grunnskólar bæjarins verði sameinaðir undir eina yfirstjórn verði hér með dregnir til baka.

2. Bygging nýs leikskóla á Sólalóðinni er anni 100 heildags börn verði hraðað sem kostur er.

3. Bæjarstjórn mun boða stjórnendur leik- og grunnskóla ásamt fulltrúum í skólamálaráði, verkefnisstjórn er vinnur að skóla- og æskulýðsstefnu, fulltrúum kennara í leik- og grunnskólunum sem og fulltrúum foreldra kennara í leik- og grunnskólunum til fundar og freista þess að skapa þann grunn friðar og einingar er ríkja þarf um skólamálin í bæjarfélaginu. Fundurinn skal haldinn eigi síðar en 29. September nk.

4. Jafnframt beinir bæjarstjórn þeim tilmælum til Skólamálaráðs að aftur verði teknir upp samráðsfundir ráðsins við skólastjórnendur svo koma megi í veg fyrir frekari truflun á skólastarfinu.

5. Einnig beinir bæjarstjórn þeim tilmælum til Verkefnisstjórnar er vinnur að skóla- og æskulýðsstefnu fyrir Vestmannaeyjabæ að stjórnin haldi opinn fund við fyrsta hentugleika og kynni bæjarbúum starf sitt.”

Andrés Sigmundsson (sign.)

Var nú gengið til atkvæða um afgreiðslutillöguna og var hún felld með 5 atkvæðum, einn sat hjá og greiddi atkvæði með tillögunni.

Ályktun meirihlutans var því næst borin upp til atkvæða og var hún samþykkt með 5 atkvæðum, tveir sátu hjá.

- Liðir 7, 8 og 11 til 13 lágu fyrir til staðfestingar og voru þeir samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

- Liðir 2, 4, 5, 9 og 14 lágu fyrir til kynningar.

Fundi slitið.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir(sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Helga Björk Ólafsdóttir (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)