Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1355

10.01.2005

Bæjarstjórnarfundur 

Ár 2005, mánudaginn 10. janúar, kl. 20.00 var fundur haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja í sal Hituveitu Suðurnesja að Tangagötu 1.

Forseti bæjarstjórnar, Guðrún Erlingsdóttir stjórnaði fundi, en fundargerð ritaði Viktor Stefán Pálsson.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Bergs E. Ágústssonar bæjarstjóra.

1. mál. Aðalskipulag Vestmannaeyjabæjar 2002 til 2014.

- seinni umræða -

Borin var fram tillaga um að Frosta Gíslasyni, framkvæmdastjóra umhverfis og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar yrði leyft að ávarpa fundinn og kynna fyrirliggjandi tillögur að aðalskipulagi Vestmannaeyjabæjar 2002 til 2014 og var það samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum. Að þessu loknu kynnti Frosti fyrirliggjandi tillögur.

Andrés Sigmundsson lagði fram svohljóðandi afgreiðslutillögu:

“Legg til að breytingartillögum meirihlutans verði vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til umfjöllunar og afgreiðslu.”

Andrés Sigmundsson, (sign.)

Afgreiðslutillaga Andrésar Sigmundssonar felld með 6 atkvæðum gegn einu atkvæði.

Fyrri umræða um aðalskipulag Vestmannaeyjabæjar 2002 til 2014 fór fram á fundi bæjarstjórnar þann 4. nóvember sl. og hafa bæjarfulltrúar þegar fengið nauðsynleg fylgigögn vegna þessa máls.

Aðalskipulag Vestmannaeyja

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á fundi sínum þann 4. nóvember 2004 að auglýsa tillögu að nýju aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014 samkvæmt 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum. Auglýsingin birtist í Lögbirtingablaðinu tölublaði 134/2004.

Skipulagstillagan, þéttbýlis- og sveitarfélagsuppdrættir ásamt fylgigögnum, greinargerð og athugasemdum Skipulagsstofnunar lágu frammi á skrifstofu umhverfis- og framkvæmdasviðs, Tangagötu 1, í Safnahúsinu við Ráðhúströð í Vestmannaeyjum og hjá Skipulagsstofnun, Laugarvegi 166 í Reykjavík, frá og með þriðjudeginum 16. nóvember 2004 til og með föstudeginum 17. desember 2004.

Frestur til að skila inn athugasemdum rann út miðvikudaginn 29. desember 2004 og átti þeim að hafa verið skilað skriflega á skrifstofu umhverfis- og framkvæmdasviðs, Tangagötu 1, 900 Vestmannaeyjum.

Á sama tíma voru uppdrættir og greinargerð til kynningar á vef Vestmannaeyjabæjar þar sem hægt er að skoða tillöguna og senda athugasemdir til umhverfis- framkvæmdasviðs á netfangið umhverfissvid@vestmannaeyjar.is Í auglýsingum kom fram að þeir sem ekki gera athugasemdir við tillöguna innan ofangreinds frests, teljast samþykkja hana.

Auk ofangreindrar kynningar var aðalskipulagið kynnt á þennan hátt einnig

Greinargerð um aðalskipulagið birtist í Fréttum fimmtudaginn 9. desember 2004.

Fjallað var um aðalskipulagið á sjónvarpstöðinni Fjölsýn í Fréttaljósi, 11. og 12. desember 2004.

Opinn kynningarfundur um tillöguna var þriðjudaginn 14. desember kl. 20.00 á Fjólunni, Vestmannabraut 28 og hafði fundurinn ásamt tillögum og fylgigögnum verið auglýstur á vef Vestmannaeyjabæjar, www.vestmannaeyjar.is, eyjar.net og í Fréttum.

Aðalskipulag Vestmannaeyja 2002-2014.

Greinargerð í 4 köflum

Kafli 1. Inngangur og skýringar, (ekki til staðfestingar).

Kafli 2. Um náttúrufar, forsendur fyrir skipulagstillögum (ekki til staðfestingar).

Kafli 3. Um byggð, forsendur fyrir skipulagstillögum (ekki til staðfestingar)

Kafli 4. Notkun lands, stefna og skipulagsákvæði (til staðfestingar).

Sveitarfélagsuppdráttur í mælikvarða 1:50.000 (til staðfestingar).

Þéttbýlisuppdráttur í mælikvarða 1:10.000 (til staðfestingar).

Fylgigögn við aðalskipulag Vestmannaeyja 2002-2014

Fornleifaskráning, fyrri hluti - heimildir fyrir Vestmannaeyjar (ekki til staðfestingar).

Athugasemdir Skipulagsstofnunar við 3. tillögu aðalskipulagsins dagsett 20. nóv 2003 (ekki til staðfestingar).

Venslatöflur fyrir mat á umhverfisáhrifum skipulagstillagna aðalskipulags Vestmannaeyja 2002-2014 (til staðfestingar).

Hverfisverndarreglur (til staðfestingar).

Til umræðu og staðfestingar lá ofangreind aðalskipulagstillaga Vestmannaeyjabæjar 2002 til 2014, ásamt fylgigögnum sem og breytingatillögur sem fram koma í fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs, sbr. afgreiðslur ráðsins í 1. máli fundargerðar þann 29. desember sl. og 1. máli í fundargerð ráðsins þann 7. janúar sl. auk þeirra breytinga sem fram komu á bæjarstjórnarfundinum og fram koma í tillögu meirihluta bæjarstjórnar.

Breytingartillaga meirihluta bæjarstjórnar:

Lagt er til að inn í kafla 4.12.5 U-10 verði bætt eftirfarandi "ennfremur ræktuð tún, nytjuð af tómstundabændum samkvæmt núgildandi samningum og nýjum."

Í kafla 4.12.5 komi U-10 “Félagsvæði hestamanna við Dali, ennfremur ræktuð tún, nytjuð af tómstundabændum samkvæmt núgildandi samningum og nýjum. Stærð svæðis er 6,0 ha.”

Lagt er til að eftirfarandi kafla verði bætt aftan við kafla 4.22.5.

Í kafla 4.22.6 og 4.22.7 komi 4.22.6 Mat á umhverfisáhrifum Hverfisverndarsvæðis

Ekki er gert ráð fyrir að fram fari umhverfismat skipulagstillagnanna og skipulagstillögurnar eru ekki háðar mati samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

4.22.7 Framkvæmd skipulagstillögunar, Hverfisverndarsvæð.i

Í samstarfi umhverfis- og skipulagsráðs og Náttúrustofu Suðurlands verði settar reglur um hverfisverndun eins og fram kemur hér að framan. Stærð og mörk svæðanna koma fram á skipulagsuppdráttum og í kafla 4.22.4 hér að framan.

Í hverfisverndarreglunum skal koma fram:

1. Ákvæði um að nytjar svæðanna verði með svipuðu sniði og verið hefur m.t.t beitar, fugla- og eggjartekju, umferð takmörkuð um varptíma og skotveiði bönnuð.

2.Ákvæði um að fótgangandi fólki er verði heimil för um svæðin og ekki má

hindra slíka för með girðingum nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili eða hlið.

3. Ákvæði um friðun fornminja og annarra minja s.s hella,grjótgarða o.þ.h. og gosminja þar sem það á við.

4. Ákvæði um uppgræðslu, ræktun, beitarstýringu og friðun gerð í samvinnu við Landgræðslu ríkisins.

5. Ákvæði um að óheimilt sé að setja upp nýjar girðingar nema með leyfi umhverfis- og skipulagsráðs.

6. Ákvæði um takmörkun á framkvæmdum. Óheimilt sé að gera á svæðinu jarðrask nema með leyfi umhverfis- og skipulagsráðs og í sérstökum tilfellum Umhverfisstofnunar þar sem það á við.

7. Ákvæði um leigu á landi og öðrum hlunnindum verði með svipuðu sniði og verið hefur samkvæmt ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs, mælingum skipulags- og byggingarfulltrúa og staðfestingu bæjarstjórnar Vestmannaeyja.

Gert er ráð fyrir að gert verði deiliskipulag á svæðunum HV-8 og HV-9 áður

en framkvæmdir hefjast.”

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Jóhann Guðmundsson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Björn Elíasson (sign.)

Elsa Valgeirsdóttir (sign.)

Var nú gengið til atkvæða og bar forseti fyrst upp tillögur meirihluta bæjarstjórnar sem fram komu á fundinum og voru þær samþykktar með 6 atkvæðum, einn sat hjá.

Því næst voru greidd atkvæði um aðalskipulagið ásamt þeim breytingartillögum sem fram koma í 1. máli fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. desember sl. og 1. máli fundargerðar ráðsins frá 7. janúar sl. og var aðalskipulagið ásamt breytingartillögum samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

Að þessu gerðu lagði meirihluti bæjarstjórnar fram svohljóðandi afgreiðslutillögu:

“Bæjarstjórn samþykkir ofangreint aðalskipulag fyrir Vestmannaeyjabæ fyrir árin 2002 til 2014 og þær breytingar sem gerðar voru milli umræðna auk fyrirliggjandi skipulagsuppdrátta, þéttbýlisuppdrátts og sveitarfélagsuppdrátts. Einnig samþykkir bæjarstjórn skipulagsgreinargerðina sem er í 4. kafla greinargerðar, (Notkun lands, stefna og skipulagsákvæði), með áorðnum breytingum. Einnig samþykkir bæjarstjórn venslatöflur fyrir mat á umhverfisáhrifum skipulagstillagnanna. Bæjarstjórn samþykkir einnig samantekt um kynningu og samráð við gerð aðalskipulagsins og framtalin gögn verði sendar til Skipulagsstofnunar til yfirferðar og þaðan til staðfestingar umhverfisráðherra.

Samhliða þessari afgreiðslu samþykkir bæjarstjórn fyrirliggjandi hverfisverndarreglur en leggur til að þær verði endurskoðaðar fyrir ágúst 2005.

Afgreiðslutillagan samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

2. mál. Fundargerðir ráða, nefnda og stjórna.

a) Umhverfis- og skipulagsráð, fundur frá 29. desember sl.

- Liður 1 þegar samþykktur, sbr. afgreiðslu bæjarstjórnar í máli 1.

- Liðir 2 til 6 og 8 lágu fyrir til umræðu og staðfestingar og voru þeir samþykktir með 7 samhljóða atkvæðum.

- Liðir 7 og 9 liggja fyrir til kynningar.

b) Umhverfis- og skipulagsráð, fundur frá 7. janúar sl.

- Liður 1 þegar samþykktur, sbr. afgreiðsla bæjarstjórnar í máli 1.

- Liður 2 lá fyrir til staðfestingar og umræðu: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum að vísa deiliskipulaginu til auglýsingar, sbr. 25. gr. rgl. nr. 73/1997 og seinni umræðu bæjarstjórnar.

- Liðir 3 til 5 lágu fyrir staðfestingar og voru þeir samþykktir með 7 samhljóða atkvæðum.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Jóhann Guðmundsson (sign.)

Björn Elíasson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Elsa Valgeirsdóttir (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)

Bergur E. Ágústsson (sign.)