Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1330
BÆJARSTJÓRN
1330. fundur.
Ár 2003, fimmtudaginn 10. júlí kl. 18.00 var fundur haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja í Þórsheimilinu.
Fyrsti varaforseti bæjarstjórnar, Andrés Sigmundsson, stjórnaði fundi en fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Inga Sigurðssonar, bæjarstjóra.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fundargerðir bæjarráðs:
a) 2.677. fundur frá 30. júní s.l.
1. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
2. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
3. liður: Samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.
4. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
5. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
6. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
7. liður: Upplesið.
8. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
9. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
10. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
11. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
12. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
13. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum
Lúðvík Bergvinsson og Jóhann Ólafur Guðmundsson tóku undir bókun Andrésar Sigmundssonar og Stefáns Ó. Jónassonar á fundinum.
14. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
15. liður: Svohljóðandi tillaga barst:
“Legg til að skólastjóri og aðstoðarskólastjóri Barnaskólans í Vestmannaeyjum skili áliti sínu um ástæður niðurstaðna samræmdra prófa 10. bekkinga í Barnaskóla Vestmannaeyja. Bæjarstjórn, skólamálaráði og foreldrum grunnskólabarna í 10. bekk Barnaskólans í Vestmannaeyjum verði send afrit af álitinu sem skal lokið fyrir 31. ágúst 2003.”
Guðjón Hjörleifsson (sign)
Fram kom tillaga um að vísa tillögunni til bæjarráðs. Var það samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
Liðurinn var síðan samþykktur með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá. Arnar Sigurmundsson greiddi atkvæði með vísan í bókun sína í bæjarráði. Guðjón Hjörleifsson og Selma Ragnarsdóttir tóku undir bókun Arnars.
16. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
17. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
18. liður: Svohljóðandi fyrirspurn barst:
“Fyrirspurn frá bæjarfulltrúum minnihlutans:
Þar sem hætt hefur verið við flutning á æskulýðsstarfsemi í Félagsheimilinu yfir í Týsheimilið, þá er óskað eftir upplýsingum um stefnu núverandi meirihluta í uppbyggingu fyrir æskulýðsstarfsemi í Vestmannaeyjum.”
Arnar Sigurmundsson (sign)
Selma Ragnarsdóttir (sign)
Guðjón Hjörleifsson (sign)
Liðurinn var síðan samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum. Guðjón Hjörleifsson og Selma Ragnarsdóttir tóku undir bókun Elsu Valgeirsdóttur í fundargerð íþrótta- og æskulýðsráðs.
19. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
20. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
b) 2.678. fundur frá 8. júlí s.l.
1. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
2. liður: Svohljóðandi tillaga barst:
“Tillaga lögð fram í bæjarstjórn Vestmannaeyja.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir meðfylgjandi skipurit fyrir Vestmannaeyjabæ. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að nýtt skipurit taki gildi frá og með 1. september 2003.”
(Skipuritið er hægt að nálgast á bæjarskrifstofunum.)
Vestmannaeyjar 10. júlí 2003
Lúðvík Bergvinsson (sign)
Andres Sigmundsson (sign)
Stefán Ó. Jónasson (sign)
Jóhann Ó. Guðmundsson (sign)
Svohljóðandi tillaga barst:
“Leggjum til að starfsemi Vestmannaeyjahafnar heyri beint undir starf bæjarstjóra í nýju skipuriti Vestmannaeyjabæjar sem nú er til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar.
Vestmannaeyjahöfn skiptir gríðarlega miklu fyrir öflugt sjávarútvegspláss eins og Vestmannaeyjar.
Nýjar reglur um starfsemi hafna og hafnarsjóða sem tóku gildi 1. júlí s.l. munu auka á sjálfstæði þeirra í ört vaxandi samkeppni þeirra.
Arnar Sigurmundsson (sign)
Guðjón Hjörleifsson (sign)
Selma Ragnarsdóttir (sign)
Tillagan var felld með 4 atkvæðum, 3 með.
Fyrsta tillagan var síðan samþykkt með 4 atkvæðum, 1 á móti, 2 sátu hjá.
Svohljóðandi bókun barst:
Bókun frá Guðjóni Hjörleifssyni bæjarfulltrúa minnihlutans:
Með vísan til mótatkvæða míns um skipulagsbreytingar hjá Vestmannaeyjabæ óska ég að gera grein fyrir nokkrum ástæðum þess:
1. Þessi úttekt er pöntuð af núverandi meirihluta m.a. til þess að eiga léttara með að segja Inga Sigurðssyni bæjarstjóra okkar Eyjamanna upp störfum og láta kunningsskap ráða því hver verði næsti bæjarstjóri.
2. Tillögurnar hafa engan sparnað í för með sér, heldur aukin útgjöld.
3. Tillögurnar eru unnar upp úr tillögum um skipulag hjá Húsavíkurbæ, sem er engan veginn samanburðarhæft.
4. Það má segja að “Copy og paste” af Húsavíkurútgáfunni hafi verið notað. Sem sönnun fyrir því þá er verið að leggja niður starf afgreiðslugjaldkera sem hefur ekki verið til staðar hjá Vestmannaeyjabæ í um 10 ár.
5. Sjálfstæði Vestmannaeyjahafnar er afnumið og er það hrein og bein móðgun gagnvart sjávarplássi og öllum þeim aðilum sem á einn eða annan hátt tengjast hafnarstarfseminni. Öll skilvirkni minnkar við þetta og úttektin miðast við að Vestmannaeyjahöfn sé sambærileg Húsavíkurhöfn.
6. Ég er alfarið á móti flutningi og splittun tæknideildar af Tangagötu 1.
7. Ég tel að atvinnumál eigi að fara undir stjórnsýslusvið en atvinnuátaksmál undir tækni- og umhverfissvið.
Guðjón Hjörleifsson (sign)
Svohljóðandi tillaga barst:
“Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að segja upp ráðningarsamningi Inga Sigurðssonar bæjarstjóra frá og með 11. júlí 2003. Bæjarstjórn felur forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs að ganga til samninga við Inga um starfslok hans.
Bæjarstjórn samþykkir að ráða Berg Elías Ágústsson sem nýjan bæjarstjóra til loka yfirstandandi kjörtímabils og felur forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs að ganga frá ráðningarsamningi við Berg Elías.
Þá felur bæjarstjórn forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs að ganga frá ráðningarsamningum við Viktor Stefán Pálsson, Andres Sigurvinsson, Heru Ósk Einarsdóttur og Frosta Gíslason um stöður framkvæmdastjóra hjá Vestmannaeyjabæ.”
Lúðvík Bergvinsson (sign)
Jóhann Ó. Guðmundsson (sign)
Stefán Ó. Jónasson (sign)
Andres Sigmundsson (sign)
Óskað var eftir því að eftirfarandi bréf frá Lögmönnum Mörkinni ehf. yrði sett í bækur bæjarstjórnar:
“Ingi Sigurðsson bæjarstjóri
Litlagerði 3
900 Vestmannaeyjar
Reykjavík 12. júní 2003.
Ég hef samkvæmt beiðni þinni farið yfir ákvæði ráðningarsamnings þíns við bæjarstjórn Vestmannaeyja frá 12. júní 2002 í tilefni af umræðu um mögulega uppsögn samningsins í kjölfar breytinga á meirihlutasamstarfi í bæjarstjórninni.
Í inngangi ráðningarsamningsins er vísað til þess, að bæjarstjórn hafi samykkt á fundi 12. júní 2002
að ráða Inga Sigurðsson í starf bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar frá 1. ágúst 2002 til loka kjörtímabils 2006.
Ráðningarsamningurinn er í 9 greinum. Ekki er þar neitt ákvæði um rétt til að segja samningnum upp, en í 8. grein samningsins segir:
Komi til þess að bæjarstjóri verði ekki endurráðinn að loknu ráðningartímabili skal bæjarsjóður greiða honum laun samkv. 2. gr. þessa samnings í sex mánuði frá því kjörtímabil bæjarstjórnar rennur út. Af fyrrgreindum sex mánuðum skuldbindur Ingi Sigurðsson sig til að gegna starfi bæjarstjóra í allt að þrjá mánuði, sé þess óskað af hálfu (sic) bæjarstjórnar Vestmannaeyja, enda haldi bæjarstjóri þá óskertum launum sínum samkv. ráðningasamningi þessum á því tímabili.
Ég tel að hin tilvitnuðu orð séu ekki sérlega vandskýrð, en vegna umfjöllunar um efni samningsins á opinberum vettvangi er ástæða til að fara yfir fáein álitaefni.
Er ráðningarsamningurinn gerður til ákveðins tíma?
Ég tel ljóst af hinum tilvitnuðu orðum í inngangi samningsins að aðilar samningsins hafa samið um ráðningu sem rennur út við lok yfirstandandi kjörtímabils. Þetta er einnig ljóst af ákvæðum 8. gr., en þar er tekin afstaða til þess hvað við skuli taka, ef bæjarstjórinn verður ekki endurráðinn að loknu ráðningartímabilinu. 8. gr. fjallar ekki um uppsögn og hefur ekki að geyma ákvæði um uppsagnarfrest að loknu ráðningartímabili, heldur fjallar greinin um rétt til viðbótarlaunagreiðslna ef ekki verður af endurráðningu. Engum getur komið tilhugar að endurráða þurfi mann nema því aðeins að fyrra ráðningartímabil sé á enda.
Ákvæðið í 8. gr. verður að mínu áliti ekki túlkað öruvísi en svo, að með því sé leitast við að tryggja ákveðna samfellu í daglegri stjórnun bæjarfélagsins við þær sérstöku aðstæður sem upp geta komið í kjölfar sveitarstjórnarkosninga. Ég tel fráleitt að hægt sé að lesa einhvers konar uppsagnarákvæði út úr þessari samningsgrein.
Samkvæmt þessu er það niðurstaða mín, að samningurinn sé tímabundinn og gildi til loka kjörtímabilsins.
Getur annar hvor aðilinn sagt samningnum upp
á samningstímanum?
Ég hygg að það sé óumdeild meginregla að gerða samninga beri að halda. Hún hefur fram að þessu verið talin gilda um ráðningarsamninga bæjarstjóra jafnt sem samninga annarra manna. Af þessari meginreglu leiðir að hvorugur samningsaðila getur sagt samningnum upp án samþykkis hins án þess að baka sér bótaskyldu. Vinnuveitandi getur að sjálfsögðu hvenær sem er kosið að afþakka frekara vinnuframlag starfsmanns, en það leysir hann ekki undan því að greiða starfsmanninum laun. Ef starfsmaðurinn brýtur gegn starfsskyldum sínum er vinnuveitandanum þó heimilt að leysa hann frá störfum, hvort sem samningur þeirra er tímabundinn eða ótímabundinn.
Í þessu tilviki er ekki rætt um uppsögn samningsins vegna ætlaðra brota á starfsskyldum, heldur vegna þess að nýr meirihluti hefur verið myndaður í bæjarstjórn.
Ég hef kynnt mér álitsgerð sem Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður hefur tekið saman samkvæmt beiðni forseta bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Í henni kemst lögmaðurinn m.a. að þeirri niðurstöðu að í orðalagi 8. gr. ráðningarsamningsins felist “ráðagerð um einhvers konar uppsagnarfrest eða biðlaunatímabil”.
Eins og að framan greinir er ég ósammála þessari túlkun á ákvæðinu. Lögmaðurinn leiðir af þessu þá niðurstöðu að ráðning Inga Sigurðssonar samkvæmt samningnum sé “ekki venjuleg tímabundin ráðning þó að form samningsins sé þannig”. Telur hann að hér sé “um að ræða ráðningu sérstaks eðlis” og að Ingi Sigurðsson hafi mátt gera ráð fyrir því við ráðningu sína að sá pólitíski meirihluti sem réð hann yrði að halda til að hann héldi starfi sínu. Síðan segir í álitsgerðinni:
Hann er pólitískt ráðinn bæjarstjóri sem ekki getur gert ráð fyrir því að halda starfi sínu hvað sem líður pólitískum meirihluta á hverjum tíma. Þetta ber að skoða sem forsendu ráðningarinnar. Þegar sá meirihluti sem réði Inga brast, brustu um leið þessar forsendur ráðningarinnar.
Þessar niðurstöður sínar telur lögmaðurinn vera í samræmi við tvo dóma Hæstaréttar. Annar þeirra er í dómasafni Hæstaréttar 1996, bls. 744: Bjarni Kr. Grímsson gegn Ólafsfjarðarbæ. Hinn er dómur frá 25. október 2001: Óli Jón Gunnarsson gegn Borgarbyggð.
Þetta þarfnast nánari skoðunar.
Í fyrrnefnda dóminum hagaði svo til, að B gerði ráðningarsamning við Ólafsfjarðarbæ. Í 2. gr. þess samnings sagði, að ráðningartími sé yfirstandandi kjörtímabil bæjarstjórnar, en samningurinn sé þó uppsegjanlegur af beggja hálfu með þriggja mánaða fyrirvara. Fyrir lá í málinu að B hafði óskað eftir breytingum á uppsagnarákvæðinu, en það hafði ekki verið samþykkt. B var síðan endurráðinn í stöðu bæjarstjóra eftir næstu kosningar á eftir, en ekki var gerður við hann nýr ráðningarsamningur þá. Var því talið að hinn eldri samningur hefði enn verið í gildi þegar bæjarstjórn ákvað að segja honum upp með þriggja mánaða fyrirvara. - Ég tel augljóst að atvik í þessu tilviki sé gerólík því sem er í tilviki Inga Sigurðssonar og að dómurinn hefi ekkert leiðsagnargildi um rétt til að segja ráðningarsamningi hans upp.
Í síðarnefnda dóminum voru atvik með nokkuð öðrum hætti. Þar var Ó endurráðinn í starf bæjarstjóra Borgarbyggðar að loknum sveitarstjórnarkosningum 1998. Hann var í þeim kosningum kosinn í bæjarstjórnina, en hafði ekki átt sæti í henni áður. Næsta kjörtímabil á undan hafði hann verið bæjarstjóri. Í samræmi við samkomulag fulltrúa tveggja stjórnmálaflokka í bæjarstjórninni var hann endurráðinn bæjarstjóri “frá 7. júní 1998 til tveggja ára”.
Í sama samningi var jafnframt svofellt ákvæði: “Að afloknum ráðningartíma eða ef hann hættir störfum áður en honum lýkur (undirstrikað hér), á hann rétt á launum í sex mánuði frá þeim tíma”. Í dómi Hæstaréttar er það rakið að áfrýjandi hafi verið kosinn í bæjarstjórn og að mjög skiptar skoðanir hafi verið milli fulltrúa þeirra þriggja lista sem sæti áttu í bæjarstjórninni eftir umræddar kosningar.
Af þeirri ástæðu hafi verið full ástæða til þess fyrir aðila samningsins að gera ráð fyrir því að til ráðningarslita gæti komið á samningstímanum. Verði að túlka ákvæðið um starfslok á ráðningartímanum þannig að í því felist gagnkvæm heimild samningsaðila til uppsagnar samningsins. – Ég tel augljóst að þessi röksemdafærsla geti ekki átt við um rétt bæjarstjórnar til að segja upp ráðningarsamningi sínum við Inga Sigurðsson. Hann er ekki bæjarstjórnarmaður og er ekki pólitískt ráðinn með sama hætti og t.d. Ó var í Borgarbyggð. Einnig ber að líta til þess, að það hlýtur ævinlega að vera forsenda þeirra sem fara úr góðri vinnu til að gegna starfi bæjarstjóra að þeir hafi þá trygga vinnu til loka þess tímabils sem sveitarstjórnin hefur heimild til að ráða þá. Í ráðningarsamningi Inga Sigurðssonar er engin heimild fyrir bæjarstjórnina til að binda endi á ráðningu hans með sama hætti og var í ráðningarsamningi Ó í því dómsmáli sem hér var rakið.
Niðurstöður
Af þessum hæstaréttardómum má ráða, að dómstólar túlka samninga sem þessa þannig að viðkomandi starfsmaður eigi rétt til launa til loka ráðningartímabils nema því aðeins að í ráðningarsamningi sé að finna heimild til að binda endi á ráðningarsambandið á tímabilinu. Í ráðningarsamningi Inga Sigurðssonar er ekkert slíkt ákvæði.
Sveitarstjórn hefur samkvæmt 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 heimild til að ráða framkvæmdastjóra sveitarfélags með samningi sem gildir út kjörtímabil sveitarstjórnar. Bæjarstjórn Vestmannaeyja fór því ekki út fyrir heimildir sínar þegar hún gerði ráðningarsamninginn við Inga Sigurðsson, og samningurinn er ekki annars efnis en gert er ráð fyrir í ákvæðinu. Ég tel að við túlkun samningsins beri að líta til forsenda beggja aðila fyrir gerð samningsins, en augljóst er að erfitt getur reynst að fá hæfa menn til að gegna slíkum störfum ef þeir þurfa að gera ráð fyrir uppsögn á samningstímabili án þess að hafa vanefnt samningsskyldur sínar.
Niðurstaða mín er samkvæmt framangreindu sú, að segi Vestmannaeyjabær upp ráðningarsamningi bæjarins við Inga Sigurðsson áður en ráðningartímabil hans er á enda eigi Ingi rétt til bóta sem nema missi launatekna á ráðningartímanum.
Virðingarfyllst
Ragnar Halldór Hall hrl. (sign)
Svohljóðandi frávísunartillaga barst:
“Leggjum til að tillögunni verði vísað frá m.a. með vísan til lögfræðiálits sem lagt var fram á fundinum.”
Guðjón Hjörleifsson (sign)
Selma Ragnarsdóttir (sign)
Arnar Sigurmundsson (sign)
Svohljóðandi bókun barst:
Bókun bæjarfulltrúa minnihlutans í bæjarstjórn Vestmannaeyja 10. júlí 2003.
Mótmælum harðlega framkomu og vinnubrgðum núverandi meirihluta bæjarstjórnar gagnvart Inga Sigurðssyni bæjarstjóra..
Ingi Sigurðsson var ráðinn bæjarstjóri til loka kjörtímabilsins árið 2006 á fundi bæjarstjórnar 12. júní 2002. Ráðningarsamningur hans var lagður fram í bæjarstjórn þann dag og samþykktur án mótatkvæða og síðan staðfestur af efstu mönnum allra framboðslista sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn.
Ingi Sigurðsson hefur með dugnaði sínum í starfi sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum áunnið sér mikið og vaxandi traust meðal bæjarbúa hvar í flokki sem þeir standa.
Við lýsum fullri ábyrgð á hendur meirihluta bæjarstjórnar á þeim skaða og þeim mikla álitshnekki sem bæjarfélagið verður fyrir í þessu máli.
Virðingarfyllst,
Arnar Sigurmundsson (sign)
Guðjón Hjörleifsson (sign)
Selma Ragnarsdóttir (sign)
Svohljóðandi bókun barst:
Bókun bæjarfulltrúa minnihlutans á aukafundi bæjarsstjórnar 10. júlí 2003.
Fordæmum siðleysi í vinnubrögðum núverandi meirihluta bæjarstjórnar varðandi samskipti við starfsfólk vegna breytinga á skipuriti vegna Vestmannaeyjabæjar sem nú er verið að afgreiða á aukafundi bæjarstjórnar.
Í stað þess að ræða við viðkomandi starfsfólk var tilkynning send í fjölmiðla fyrir hádegi í dag og mátti starfsfólk bæjarins lesa eða heyra það í fjölmiðlum að því hafði verið sagt upp störfum.
Einnig hlýtur það að vekja furðu að stöður fjögurra nýrra framkvæmdastjóra hjá Vestmannaeyjabæ skulu ekki verða auglýstar lausar til umsóknar, eins og reglur bæjarstjórnar gera ráð fyrir og samið hefur verið við Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar.
Arnar Sigmundsson (sign)
Guðjón Hjörleifsson (sign)
Selma Ragnarsdóttir (sign)
Svohljóðandi bókun barst:
“Ég óska eftir því að fært verði til bókar:
Lúðvík Bergvinsson sagði í ræðunni: Það lá fyrir lögfræðiálit sem við pöntuðum.”
Guðjón Hjörleifsson (sign)
Svohljóðandi bókun barst:
“Það er ofur eðlilegt að meirihluti bæjarstjórnar hverju sinni velji sér sinn helsta trúnaðarmann, sem er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins. Þannig er hagsmunum bæjarfélagsins best borgið.”
Lúðvík Bergvinsson (sign)
Stefán Ó. Jónasson (sign)
Jóhann Ó. Guðmundsson (sign)
Andres Sigmundsson (sign)
Var nú gengið til atkvæða:
Frávísunartillagan hér að framan var felld með 4 atkvæðum, 3 með.
Tillagan í málinu var borin upp í tvennu lagi.
Fyrri hluti tillögunnar: “Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að segja upp ráðningarsamningi Inga Sigurðssonar bæjarstjóra ……………………..að ganga frá ráðningarsamningi við Berg Elías,” var samþykkt með 4 atkvæðum, 3 á móti.
Síðari hluti tillögunnar: “Þá felur bæjarstjórn forseta …………………………..hjá Vestmannaeyjabæ” var samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.
Liðirnir:
3. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
Arnar Sigurmundsson greiddi atkvæði með vísan í bókun sína í bæjarráð.
4. liður: Upplesið
5. liður: Upplesið
6. liður: Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 fjarverandi
7. liður: Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 fjarverandi
8. liður: Fram kom eftirfarandi breytingartillaga við ályktun bæjarráðs:
Breytingartillaga við ályktun meirihluta bæjarráðs í 8. máli frá fundi bæjarráðs 8. júlí 2003.
Niðurlag síðustu málsgreinar breytist þannig:
Í starfshópnum verði fulltrúar frá, skólastjórnendum og kennurum grunnskólanna, skólamálaráði, félagsmálaráði, íþrótta- og æskulýðsráði, lögreglu, heilsugæslu, foreldrafélögum og foreldraráðum grunnskóla auk tveggja bæjarfulltrúa.
Starfshópurinn skili greinargerð og tillögum sínum til bæjarráðs fyrir 15. október 2003.
(Arnar Sigurmundsson sign)
Var samþykkt með 7 atkvæðum að vísa tillögunni, ásamt málinu í heild, til bæjarráðs.
9. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
10. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20.40.
Stefán Ó. Jónasson
Jóhann Ó. Guðmundsson
Andres Sigmundsson
Lúðvík Bergvinsson
Selma Ragnarsdóttir
Arnar Sigurmundsson
Guðjón Hjörleifsson
Ingi Sigurðsson