Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1323

27.02.2003

BÆJARSTJÓRN

1323. fundur.

Ár 2003, fimmtudaginn 27. febrúar kl. 18.00 var fundur haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja í sal Listaskólans.

Forseti bæjarstjórnar, Guðjón Hjörleifsson, stjórnaði fundi en fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Inga Sigurðssonar bæjarstjóra.

Fyrir var tekið:

Leitað var afbrigða til þess að taka á dagskrá fundargerðir skólamálaráðs frá 26. febrúar sl., félagsmálaráðs frá 26. febrúar sl., og hafnarstjórnar frá 26. febrúar og 27. febrúar.

Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum og verða fundargerðir hafnarstjórnar teknar fyrir sem 1. mál á fundinum, fundargerðir skólamálaráðs og félagsmálaráðs verða teknar með bæjarráði sem 2. mál og fjárhagsáætlun sem 3. mál.

1. mál.

Fundargerðir hafnarstjórnar:

a) Fundur haldinn 26. febrúar sl.

Stefán Jónasson bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

“Teljum illa að verki staðið vegna vinnu við fjárhagsáætlun, að ætla nefndum bæjarins að afgreiða fjárhagsáætlun daginn fyrir og jafnvel sama dag og seinni umræða fer fram um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn.”

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Óskar Jónasson (sign.)

Fundargerðin var síðan samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

b) Fundur haldinn 27. febrúar sl.

Svohljóðandi bókun barst:

“Tökum undir bókanir fulltrúa V-listans í hafnarstjórn og lýsum vanþóknun á því að útgerðamenn og aðrir viðskiptamenn hafnarinnar hafi þurft að standa straum af 11,7 milljóna króna útgjöldum vegna gæluverkefna Þróunarfélagsins undir stjórn Guðjóns Hjörleifssonar.

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Óskar Jónasson (sign.)

Fundargerðin var síðan samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

2. mál.

Fundargerð bæjarráðs, skólamálaráðs og félagsmálaráðs:

a) 2659. fundur frá 24. febrúar sl.

1. liður: Upplesið.

2. liður: Upplesið.

3. liður: Samþ. með 7 samhl. atkv.

4. liður: Samþ. með 7 samhl. atkv.

5. liður: Samþ. með 7 samhl. atkv.

6. liður: Samþ. með 7 samhl. atkv.

7. liður: Upplesið.

8. liður: Samþ. með 7 samhl. atkv.

9. liður: Upplesið.

10. liður: Samþ. með 7 samhl. atkv.

11. liður: Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 sat hjá.

12. liður: Upplesið.

13. liður: Samþ. með 7 samhl. atkv.

14. liður. Samþ. með 7 samhl. atkv.

b) Fundargerð félagsmálaráðs frá 26. febrúar sl.

Guðrún Erlingsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi tillaga barst:

“Leggjum til varðandi 12. mál í fundargerð félagsmálaráðs að ráðið verði frá 26. febrúar í 2,6% stöðugildi á Hraunbúðum í átaksverkefni eins og talið er að sé lágmarksþörf á.”

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Stefán Ó. Jónasson (sign.)

Fram kom tillaga um að vísa ofangreindri tillögu til félagsmálaráðs.

Samþykkt með 4 atkvæðum, 3 á móti.

Fundargerðin var síðan samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

c) Fundargerð skólamálaráðs frá 26. febrúar sl.

Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

3. mál.

Fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og stofnana hans árið 2003:

- Síðari umræða –

Svohljóðandi tillaga barst:

“Þar sem komið hefur í ljós leki á nýbyggðu íþróttahúsi við Íþróttamiðstöðina og hljóðeinangrun er alls ófullnægjandi, þá samþykkir bæjarstjórn Vestmannaeyja, að tæknideild bæjarins verði falið að sjá til þess að verktakanum við húsið verði nú þegar gert að bæta úr þessum ágöllum.

Þar sem núverandi bæjarstjóri var framkvæmdastjóri verktakans við bygginguna telur bæjarstjórn rétt að fela formanni bæjarráðs að hafa yfirumsjón með því að ekkert fari úrskeiðis í þessu máli.

Greinargerð

Tillaga þessi er flutt af gefnu tilefni og m.a. litið til þess að þegar leki kom fram þegar unnið var að viðgerð á þaki sundlaugar þá varð Vestmannaeyjabær fyrir töluverðu fjárhagslegu tjóni vegna tómlætis og að ekki var staðið rétt að málum.

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Stefán Ó. Jónasson (sign.)

Fram kom tillaga um að vísa ofangreindri tillögu til bæjarráðs.

Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

Svohljóðandi tillaga barst:

´”Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar sl. var upplýst að ekki stæði til að bjóða út endurnýjun á gólfi og lagfæringum á þaki gamla íþróttasalarins. Þetta teljum við í alla staði óeðlilegt og leggjum við því til að verkið verði boðið út.

Vestmannaeyjum, 27. febúar 2003.

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Stefán Ó. Jónasson (sign.)

Fram kom tillaga um að vísa ofangreindri tillögu til bæjarráðs og að þar verði lagðar fram nánari upplýsingar þ.m. talinn samningar um gamla salinn.

Svohljóðandi tillaga barst:

“Bæjarfulltrúar V-listans leggja til að nú þegar verði hafist handa við byggingu nýs leikskóla í Vestmannaeyjum. Ennfremur er lagt til að hafist verði handa við nauðsynlegar endurbætur á ýmsum fasteignum, þar sem stofnanir bæjarins eru til húsa. Þá eru fleiri verkefni sem áætlanir gera ráð fyrir að farið verði fljótlega í sem mætti flýta.

Greinargerð

Vegna atvinnuástandsins er mikilvægt að Vestmannaeyjabær flýti framkvæmdum vegna ýmissa verkefna sem áætlað er að ráðast í á næstu árum. Þetta hafa önnur sveitarfélög gert. Má þar nefna Reykjavík, Hafnarfjörð o.fl. Það er mikilvægt að Vestmannaeyjabær feti í fótspor þessara bæjarfélaga.

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Stefán Ó. Jónasson (sign.)

Svohljóðandi frávísunartillaga barst:

“Bæjarstjórn Vestmannaeyja getur ekki fallist á að stefna til nýrra útgjalda að upphæð allt að 125 milljónum króna, umfram þau útgjöld sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Vestmannaeyja fyrir 2003 sem er til síðari umræðu og afgreiðslu á þessum fundi. Tillaga V-listans felur aftur á móti í sér óvænt traust á fjármálastjórn meirihluta bæjarstjórnar, sem ber að þakka.”

Með hliðsjón af ofangreindum rökum samþykkir bæjarstjórn að vísa frá tillögu V-listans.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Lúðvík Bergvinsson bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

“Óskum eftir að það sé bókað að Arnar Sigurmundsson nýtti stóran hluta fundarhlés V-listans til þess að umorða frávísunartillögu sína, sem kemur mjög á óvart í ljósi fyrri yfirlýsinga hans er varðar fundarhlé á bæjarstjórnarfundum.”

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Óskar Jónasson (sign.)

Svohljóðandi bókun barst:

“Afgreiðslutillaga meirihlutans staðfestir óstjórn Sjálfstæðisflokksins í rekstri Vestmannaeyjabæjar undanfarin ár. Hörmum vilja- og getuleysi meirihlutans til að takast á við þann vanda sem að steðjar í atvinnumálum. Í ljósi alvarlegs atvinnuástands lýsum við furðu okkar á galgopahætti sem birtist í frávísunartillögu Arnars Sigurmundssonar.”

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Óskar Jónasson (sign.)

Frávísunartillagan var þessu næst samþ. með 4 atkv., 3 á móti.

Er hér varð komið gaf forseti fundarhlé meðan bæjarfulltrúar útbjuggu bókanir eða tillögur.

Svohljóðandi tillaga barst:

“Leggum til að liðunum 57-01-541-1 í liðnum húsnæðisnefnd að upphæð 1,2 millj. kr. verði felldur niður. Niðurstöðutölur breytast sem þessu nemur í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun.”

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Guðjón Hjörleifsson (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)

Selma Ragnarsdóttir (sign.)

Svohljóðandi bókun barst:

“Lýsum furðu okkar á því að félagslega íbúðakerfið hafi verið látið greiða 1.200.000 til Þróunarfélagsins á ári síðastliðin ár að sögn fyrrverandi bæjarstjóra. Óskum eftir að fá samkomulag húsnæðisnefndar og Þróunarfélagsins vegna þessa framlags og forsendur þess að félagslega íbúðakerfið greiddi til Þróunarfélagsins Í ljósi orða fyrrverandi bæjarstjóra, óskum við eftir upplýsingum frá honum hversu mörg ár þetta hefur verið greitt. Einnig óskum við eftir upplýsingum um það hvort aðrar nefndir eða stofnanir hafi greitt til Þróunarfélags Vestmannaeyja fyrir utan Bæjarveitur (HS) og hafnarsjóð. Óskum eftir því að upplýsingar verði lagðar fram í bæjarráði n.k. mánudag.

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Ó. Jónasson (sign.)

Ofangreind tillaga var síðan samþ. með 7 samhl. atkv.

Svohljóðandi bókun barst:

“Ítrekum óskir okkar um að fá að sjá samkomulag HÍ og Þróunarfélagsins, það verði lagt fram í bæjarráði n.k. mánudag.”

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Ó. Jónasson (sign.)

Var nú gengið til atkvæða um fjárhagsáætlunina:

Fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Vestmannaeyja 2003:

Niðurstaða reksturs kr. 1.725.499.000
Til eignabreytinga frá rekstri kr. 108.075.000
Gjaldfærður stofnkostnaður (nettó) kr. 72.567.000
Eignfærður stofnkostnaður (nettó) kr. 33.423.000
Gjöld alls kr. 1.834.108.000
Tekjur alls kr. 1.836.193.000
Tekjur umfram gjöld kr. 2.085.000
Niðurstöðutölur fjármagnsyfirlits kr. 124.000.000

Samþ. með 4., 3 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun hafnarsjóðs Vestmannaeyja 2003:

Niðurstöðutölur reksturs: Tekjur kr. 157.830.000
Gjöld kr. 140.185.000
Heildarniðurstaða kr. 450.135.000

Samþ. með 7 samhljóða atkv.

Fjárhagsáætlun félagslegra íbúða 2003:

Niðurstöðutölur reksturs: Tekjur kr. 19.185.000
Gjöld kr. 12.368.000
Heildarniðurstaða kr. 79.068.000

Samþ.með 7 samhljóða atkv.

Fjárhagsáætlun sorpeyðingarstöðvar Vestmannaeyja 2003:

Niðurstöðutölur reksturs: Tekjur kr. 59.163.000
Gjöld kr. 56.363.000
Heildarniðurstaða kr. 59.163.000

Samþ. með 7 samhljóða atkv.

Svohljóðandi bókun barst:

“Fjárhagsáætlun ársins 2003 er fyrsta áætlun sem unnin er og lögð fram í samræmi við ný lög og reglur um bókhald og reikningsskil sveitarfélaga.

Heildartekjur eru á árinu 2003 áætlaðar rúmar 1.690 milljónir króna á móti 1.680 milljónum króna árið 2002 sem er 0.6% hækkun á milli ára.

Heildargjöld eru rúmar kr. 1.663 milljónir á móti rúmum kr. 1.518 milljónum á árinu 2002 sem er 9.5% hækkun á milli ára og stafar aðallega af breytingum eða leiðréttingum umfram launavísitölu á launum ýmissa starfsstétta.

Gjaldfærð fjárfesting er brúttó að upphæð um kr. 92 milljón króna á móti kr. 123 milljónum í fjárhagsáætlun 2002. Helstu liðir eru gatnagerðaráætlun upp á kr. 18 milljónir eða kr. 3 milljónir nettó, holræsaframkvæmdir um 20 milljónir nettó, ásamt öðrum minni liðum sem taka breytingum og þá aðallega til lækkunar, eins og meðfylgjandi listi fjárhagsáætlunar sýnir. Nettó gjaldfærð fjárfesting er því um kr. 73 milljónir á móti um kr. 115 milljónir á árinu 2002. Í eignfærðri fjárfestingu er gert ráð fyrir rúmum kr. 33 milljónum á móti kr. 95 milljónum nettó á árinu 2002. Helstu framkvæmdir eru lokauppgjör upp á rúmar kr. 8 milljónir, vegna viðbyggingar við Hamarsskólann og er þetta liður í að ljúka einsetningu. Einnig er gert ráð fyrir endurnýjun þaks á eldri íþróttasal íþróttamiðstöðvarinnar upp á rúmar kr. 11 milljónir ásamt eftirstöðvum á framkvæmdum í sundlaugarsal, þ.e. hljóðeinangrun og aðgengi í sundlaug. Þá er gert ráð fyrir 10 millj. kr. í standsetningu efri hæðar viðbygginar við Týsheimili vegna flutnings ÍBV úr Þórsheimili í samræmi við samning þar um frá árinu 2002.

Í viðhaldsáætlun er gert ráð fyrir um kr. 31 milljón. Helstu liðir þar eru tæpar kr. 6 milljónir til Barnaskólans og tæpar kr. 5 milljónir til leikskólans Rauðagerðis.

Í fjármagnsstreymi er áætlað að skuldir bæjarsjóðs aukist ekki á árinu 2003, þar sem niðurstaða ársins er áætluð um kr. 2.085.000.-. í hagnað án hafnarsjóðs og félagslegra íbúða.

Rekstrartekjur hafnarsjóðs eru áætlaðar tæpar kr. 158 millj. á móti kr. 154 milljónum árið 2002, sem er hækkun um á 2.6%.

Rekstrargjöld eru áætluð kr. 142 milljónir á móti kr. 131 milljónum árið 2002, sem er hækkun upp á 8.1%.

Miklar framkvæmdir og fjárfestingar eru áætlaðar á árinu. Ber þar hæst að ljúka framkvæmdum við Nausthamarsbryggju , þ.e. lokafrágangur, römmun inni í Botni og steypa þekju frá ísstöð og löndunaraðstöðu og kaup á stáli fyrir bryggukant í norðurhluta Friðarhafnar. Einnig verður farið í dýpkun á snúningssvæði út frá gömlu slippunum sem og frágangur á svæði fyrir smábáta.

Rekstur félagslegra íbúða verður mjög erfiður sem endranær og er gert ráð fyrir auknum lántökum sem nema um kr. 16 milljónum á móti kr. 32 milljónum á árinu 2002. Lántakan lækkar m.a. vegna þess að ekki verður farið í neinar eignfærðar fjárfestingar utan kr. 1.2 millj. við uppsetningu á lyftu í Sólhlíð 19.

Guðjón Hjörleifsson ( sign.)

Andrés Sigmundsson ( sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Selma Ragnarsdóttir (sign.)

Svohljóðandi bókun barst:

“Sú fjárhagsáætlun sem hér er til afgreiðslu er eðlileg afleiðing þeirrar óráðsíu og skuldasöfnunar sem einkennt hefur stjórnun bæjarins undanfarin 12 ár undir forystu Guðjóns Hjörleifssonar. Það metnaðar- og úrræðaleysi sem einkennir hana, ber því annarsvegar keim af óstjórn undanfarinna ára og því hugmyndaleysi sem einkennir störf núverandi meirihluta.

Nú þegar atvinnuleysi er jafn mikið og raun ber vitni, væri eðlilegt að Vestmannaeyjabær hefði forgöngu um úrræði í atvinnumálum svo sem eins og að flýta framkvæmdum og leggja meira fé til atvinnuuppbygginar, en í framlagðri fjárhagsáætlun mun slíkt ekki vera á döfinni.

Vestmannaeyjabær er eitt fárra sveitarfélaga sem ekki hefur einsett grunnskólann. Ekki er að sjá í fjárhagsáætluninni að ætlunin sé að standa við gefin loforð í þeim efnum, en eins og kunnugt er rennur frestur til einsetningar út árið 2004 sem er næsta ár. Í ljósi þessarar stöðu verður að telja það eðlileg viðbrögð hjá menntamálaráðherra að hafa komið í sérstaka heimsókn til Vestmannaeyja til að kynna sér þessar sérstöku aðstæður sem hér ríkja.

Loforð um leikskóla á Sólalóðinni virðist eiga að svíkja eina ferðina enn. Ekki er gert ráð fyrir einni einustu krónu í fjárhagsáætluninni í undirbúning að byggingu hans. Í ljósi atvinnuástandsins nú og áður gefinna kosningaloforða allra flokka hefði verið skynsamlegt að hefja byggingu leikskóla nú þegar.

Ástand fasteigna Sóla, Rauðagerðis og Barnaskólans er sveitarfélaginu til mikilla vansa og því miður er ekki að sjá í þesssari metnaðarlausu áætlun vonir um nokkrar úrbætur hvorki í þeim málum né menntamálum í Vestmannaeyjum. Sú stefna sem Sjálfstæðismenn hafa rekið lengi og Framsóknarflokkurinn styður nú, virðist einsetningu grunnskólanna aðeins verða náð með auknum brottflutningi fólks úr bænum. V-listinn lýsir undrun sinn og vanþóknun á þessari stefnu.

Fjárhagsáætlun þessi er óraunhæf. T.d. er ekki gert ráð fyrir svo til neinum veikindalaunum í rekstri bæjarins. Engar áætlanir hafa verið gerðar um framtíð Þróunarfélagsins þrátt fyrir gefin loforð til félagsmálaráðuneytisins. Félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar eru mjög þröngar skorður settar. Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna atvinnumála. Það hefði verið gott að hafa til ráðstöfunar nú í atvinnumál, þær 3 milljónir sem runnu úr bæjarsjóði til Guðjóns Hjörleifssonar, sem var sérstaklega ráðinn til ráðgjafar nýráðnum bæjarstjóra s.l. sumar.”

Vestmannaeyjum 27. febrúar 2003.

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Ó. Jónasson (sign.)

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 21.50.

Guðjón Hjörleifsson

Arnar Sigurmundsson

Andrés Sigmundsson

Selma Ragnarsdóttir

Lúðvík Bergvinsson

Guðrún Erlingsdóttir

Stefán Ó. Jónasson

Ingi Sigurðsson