Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1319

12.12.2002

BÆJARSTJÓRN

1319. fundur.

Ár 2002, fimmtudaginn 12. desember kl. 18.00 var fundur haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja í sal Listaskólans.

Forseti bæjarstjórnar Guðjón Hjörleifsson, stjórnaði fundi en fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Inga Sigurðssonar, bæjarstjóra.

Fyrir var tekið:

Leitað var afbrigða til að taka fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 3. desember á dagskrá.

Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum og verður tekið fyrir sem 1. mál hér á eftir.

Fram kom tillaga um að 3. mál á dagskrá, nú 4. mál, skuli vera síðari umræða en ekki fyrri umræða eins og fram kemur í útsendri dagskrá.

Guðrún Erlingsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi tillaga barst:

“Leggjum til að síðari umræða fari fram í dag en atkvæðagreiðslu frestað til 30. desember 2002.”

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Steinunn Jónatansdóttir (sign.)

Greidd voru atkvæði um fyrri tillöguna og var hún samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.

Síðan voru greidd atkvæði um síðari hluta síðari tillögunnar.

Var það fellt með 4 atkvæðum, 3 meðmæltir.

Forseti leitaði eftir samþykki bæjarfulltrúa við því að 4. mál fundarins (3ja mál á dagskrá) yrði tekið fyrir fyrst á fundinum og gerðu bæjarfulltrúar ekki athugasemd við það.

1. mál.

Samþykkt um búfjárhald í Vestmannaeyjum:

- Síðari umræða –

Fram kom eftirfarandi tillaga að breytingu á tillögu B sem fram var lögð í landnytjanefnd 21. nóvember sl.

SAMÞYKKT

um búfjárhald í Vestmannaeyjum

1. gr.

Markmiðið með samþykkt þessari er að tryggja skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Vestmannaeyjum, sbr. lög um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002, koma í veg fyrir að gróðurlendi sé spillt og ágang búfjár á lóðir í þéttbýli í Vestmannaeyjabæ. Landnytjanefnd fer með málefni sem varða búfjárhald. Til þess að framfylgja samþykkt þessari og lögum um búfjárhald skal ráða búfjáreftirlitsmann, sem annast eftirlit með ásetningi búfjár, fóðrun, hirðu og vörslu bæjarlandsins. Hann skal handsama og skrá lausagöngubúfénað. Auk forðagæslu og vörslu lands skal búfjáreftirlitsmaður halda skrá um búfjáreigendur og fjölda búfjár af einstökum tegundum. Hann skal starfa á vegum landnytjanefndar Vestmannaeyjabæjar.

2. gr.

Búfjárhald (alifugla, geita, hrossa, kanína, loðdýra, nautgripa, sauðfjár og svína) og lausaganga búfjár er óheimil á Heimaey að öðru leyti en greinir í samþykkt þessari.

3. gr.

Hver sem vill fá leyfi til búfjárhalds á Heimaey skal senda um það umsókn til landnytjanefndar. Búfjárleyfi skal gefið út til fjögurra ára í senn. Leyfið miðast við ákveðinn hámarksfjölda búfjár og er bundið við nafn umsækjanda. Óheimilt er að framselja leyfið. Leyfi skal einungis veitt þeim sem hafa yfir að ráða viðunandi beitilandi og gripahúsi að mati landnytjanefndar.

4. gr.

Leyfi til byggingar gripahúss og til afnota af beitilandi skal sækja um til skipulags- og byggingafulltrúa, sem fjallar um umsóknina í samráði við landnytjanefnd. Skipulags- og byggingafulltrúi heldur skrá og kort yfir tún og jarðir sem eru í notkun og samninga sem í gildi eru. Umsóknin, ásamt tillögum skipulags- og byggingafulltrúa og landnytjanefndar, er síðan send bæjarstjórn til afgreiðslu.

5. gr.

Búfjáreigandi skal ætíð ganga vel um land það sem hann hefur á leigu og aflétta beit samstundis ef til landskemmda horfir. Hann skal tryggja örugga vörslu búfjár síns með fjárheldum girðingum, sbr. 4. og 6. gr. reglugerðar um vörslu búfjár nr. 59 frá 2000. Búfjárleyfishafi skal viðhalda girðingum (sbr. girðingarlög nr. 135/2001) og gripahúsum sínum. Lausaganga er heimil sem hér segir: Sauðfé er frjálst ferða sinna utan girðinga á tímabilinu 1. október til 31. mars um ógirt lönd sunnan flugbrautar og pípuhliðs á Höfðavegi. Landnytjanefnd getur veitt undanþágu frá dagsetningum ef nauðsyn krefur að mati nefndarinnar.

6. gr.

Fylgi búfjáreigandi ekki settum reglum varðandi búfjárhald má svipta hann forræði þess að undangenginni skriflegri aðvörun. Sleppi búfénaður laus skal búfjáreftirlitsmaður sjá um að framfylgja 9. gr. III. kafla laga um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002.

7. gr.

Þeir, sem við gildistöku samþykktar þessarar, eiga eða hafa í umsjón sinni búfé sem fellur undir ákvæði hennar, skulu tilkynna búfjárhald sitt til landnytjanefndar og sækja um leyfi til búfjárhalds.

8. gr.

Vestmannaeyjabær leigir úteyjafélögum nytjarétt í úteyjum öllum að undanskilinni Surtsey, til fjögurra ára í senn. Aðskilja skal beitar- og veiðirétt. Þeim sem nytja úteyjar til beitar ber að hafa samráð við landnytjanefnd og búfjáreftirlitsmann um fjölda fjár og fyrirkomulag að öðru leyti.

9. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum eða fangelsi, ef sakir eru miklar. Með mál vegna brota á samþykkt þessari skal farið að hætti opinberra mála, sbr. 18. gr. laga nr. 103 frá 2002 um búfjárhald.

10. gr.

Samþykkt þessi sem samþykkt hefur verið af bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar, er sett með heimild 5. gr. laga nr. 103/2002 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi V. kafli lögreglusamþykktar fyrir Vestmannaeyjar nr. 320 frá 1979 og 12. gr. reglugerðar um fjallskil, fjármörk o.fl. í Vestmannaeyjum nr. 5 frá 1958.

Landbúnaðarráðuneytinu, dags. 2002.

Ráðherra.

Breytingarnar voru bornar upp lið fyrir lið:

a) Breyting á 3. gr.: Samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.

b) Breyting á 5. gr.: Samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.

c) Breyting á 6. gr.: Samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.

d) Breyting á 7. gr.: Samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.

Samþykktin með áorðnum breytingum var síðan samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.

Svohljóðandi bókun barst:

“Sitjum hjá við afgreiðslu málsins þar sem við teljum að eðlilegt hefði verið að kynna hagsmunaaðilum og landnytjanefnd breytta tillögu B.”

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Steinunn Jónatansdóttir (sign.)

2. mál.

Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar:

a) Fundur haldinn 3. desember sl.

Liðir 1-12 voru samþykktir með 7 samhljóða atkvæðum.

3. mál.

Fundargerð hafnarstjórnar:

a) Fundur haldinn 27. nóvember sl.

Liðir 1-7 voru samþykktir með 7 samhljóða atkvæðum.

4. mál.

Fundargerðir bæjarráðs:

a) 2647. fundur frá 25. nóvember sl.

1. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

2. liður: Upplesið.

3. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

4. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

5. liður: Upplesið.

6. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

7. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

8. liður: Upplesið.

9. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

10. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

11. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

12. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

b) 2648. fundur frá 2. desember sl.

1. liður: Fram kom tillaga um að d) liður yrði borinn upp sérstaklega.

Liðir a)-c) voru samþykktir með 7 samhljóða atkvæðum.

Liður d) var samþykktur með 4 atkvæðum, 3 á móti.

Liðir e)-i) voru samþykktir með 7 samhljóða atkvæðum.

2. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

3. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

4. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

Stefán Jónasson og Steinunn Jónatansdóttir tóku undir bókanir Guðrúnar Erlingsdóttur í málinu.

5. liður. Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

6. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

7. liður:

8. liður: Upplesið.

9. liður: Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 fjarverandi.

10. liður: Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 fjarverandi.

11. liður: Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 fjarverandi.

12. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

13. liður. Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

14. liður: Upplesið.

c) 2649. fundur frá 9. desember sl.

1. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

2. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

Svohljóðandi bókun barst þar sem bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans gerðu grein fyrir atkvæði sínu.

“Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans samþykkja þau útgjöld sem samþykkt hafa verið af fulltrúum V-listans í bæjarráði. Aðra liði endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar munum við

ekki greiða atkvæði um.”

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Steinunn Jónatansdóttir (sign.)

3. liður: Svohljóðandi bókun barst:

“Bókun fulltrúa V-listans vegna lánveitingu til Þróunarfélagsins.

Í ljósi þess hvernig forsvarsmenn Þróunarfélags Vestmannaeyja hafa farið með fé undanfarin ár, geta fulltrúar V-listans ekki staðið að því að bæjarsjóður veiti félaginu frekari fyrirgreiðslu að sinni. Við treystum okkur því ekki að styðja tillögu um frekari lánveitingu til félagsins úr almannasjóðum. Fulltrúar V-listans í bæjarstjórn leggjast gegn því að þetta lán verði veitt. Ekkert liggur fyrir um það hvernig aðrir eigendur félagsins munu koma að fjármögnun þeirra vandræða sem félagið stendur frammi fyrir. Bæjarsjóður getur ekki einn borið ábyrgð á öllu ruglinu. Það vekur einnig sérstaka undrun að milliuppgjör fyrir félagið skuli ekki fylgja með beiðni um lánveitingu úr bæjarsjóði. Það segir meira en mörg orð um vinnubrögð félagsins. Við lítum því svo á að sjálfstæðismenn séu með þessari beiðni að reyna að breiða yfir þá óráðsíu og mistök sem hafa átt sér stað í rekstri félagsins undanfarin ár. Við teljum því að ef lánveitingin verður samþykkt séu þeir því að misnota sér pólitíska stöðu sína á kostnað almennings. Þá liggur fyrir að ólíklegt verður að telja að félagið geti nokkurn tíma endurgreitt bæjarsjóði lánið, ena tekjur þess hverfandi og eignastaða óljós. Í ljósi alls þessa teljum við einnig nauðsynlegt að íteka þá skoðun fulltrúa V-listans að stjórnarformaðurinn Guðjón Hjörleifsson sé rúinn öllu trausti til að gegna áfram þeirri stöðu og telja fráleitt að veita félaginu fyrirgreiðslu úr bæjarsjóði meðan hann situr í stjórn, hvað þá sem stjórnarformaður.”

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Steinunn Jónatansdóttir (sign.)

Liðurinn var samþykktur með 4 atkvæðum, 3 á móti.

Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans gerðu grein fyrir atkvæði sínu með vísan í bókun sína.

Svohljóðandi tillaga barst:

“Bæjarstjórn hvetur Þróunarfélag Vestmannaeyja til að auglýsa nú þegar eftir rekstraraðila fyrir verksmiðju Westmars ehf. og koma henni þannig í gagnið hið allra fyrsta.”

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Steinunn Jónatansdóttir (sign.)

Svohljóðandi frávísunartillaga barst:

“Leggjum til að tillöguni verði vísað frá þar sem hún er í ósamræmi við atkvæðagreiðslu V-listans fyrr á fundi í þessu máli.”

Andrés Sigmundsson (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Selma Ragnarsdóttir (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

“Tillaga Vestmannaeyjalistans var flutt í þeim tilgangi að flýta fyrir því að rekstur fiskréttaverksmiðjunnar fari sem fyrst í gang. Vísum í ábyrga afstöðu við afgreiðslu á lántöku til Þróunarfélagsins og einnig að ekki hefur verið haft samráð við aðra eigendur.”

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Steinunn Jónatansdóttir (sign.)

Frávísunartillagan var samþykkt með 4 atkvæðum, 3 á móti.

4. liður: Upplesið.

5. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

6. liður: Upplesið.

7. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

8. liður: Svohljóðandi bókun barst:

“Samþykkjum tillöguna þar sem meirihluti bæjarráðs hefur staðfest það að tillaga þessi muni ekki draga úr annarri vinnu varðandi samgöngumál, né skerða ferðatíðni Herjólfs.”

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Steinunn Jónatansdóttir (sign.)

Liðurinn var samþykktur með 7 samhljóða

Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans greiddu atkvæði með vísan í bókun sína.

9. liður: Ingi Sigurðsson, bæjarstjóri, las upp og lagði fram svar frá Guðmundi Þ.B. Ólafssyni, íþróttafulltrúa, við fyrirspurn Guðrúnar Erlingsdóttur í málinu.

Svohljóðandi tillaga barst:

“Í ljósi þess að bæjaryfirvöld hafa fengið ofanígjöf frá Samkeppnisstofnun og ekki sinnt þeirri skyldu sinni að lagfæra hlutina strax, auk svikinna loforða fyrrverandi bæjarstjóra, leggjum við til að bæjarstjórn láti á það reyna með samningum við Líkamræktarstöðina að tryggja megi almenningi sömu kjör til líkamsræktar og hann hefur haft hingað til.

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Steinunn Jónatansdóttir (sign.)

Selma Ragnarsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi afgreiðslutillaga barst:

“Bæjarstjórn felur bæjarráði að taka afstöðu til tillögunnar þegar sérfræðiálit um rekstur líkamræktarstöðvar í Íþróttahúsinu liggur fyrir á fundi bæjarráðs í næstu viku.”

Guðjón Hjörleifsson (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Selma Ragnarsdóttir (sign.)

Afgreiðslutillagan var samþykkt með 4 atkvæðum, 3 á móti.

Liðurinn var að öðru leyti samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

10. liður: Svohljóðandi bókun barst:

“Teljum hækkunina of mikla í því ástandi sem hér ríkir í dag. Hefðum talið betra að hafa hækkunina minni og munum því sitja hjá við afgreiðslu b) hluta 1. máls.”

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Steinunn Jónatansdóttir (sign.)

Greidd voru atkvæði um nokkra liði sérstaklega:

1 b) Samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.

2 b) Samþykkt með 6 atkvæðum, 1 sat hjá.

Selma Ragnarsdóttir gerði grein fyrir hjásetu sinni.

Fundargerðin að öðru leyti var síðan samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

11. liður: Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.

5. mál.

Reglugerð um holræsagjald í Vestmannaeyjum:

- fyrri umræða-

Samþykkt var með 7 samhljóða atkvæðum að vísa málinu til síðari umræðu.

6. mál.

Ársreikningar Þróunarfélags Vestmannaeyja fyrir árið 2001:

- síðari umræða-

Undir þessu máli vék Guðjón Hjörleifsson af fundi og tók Helgi Bragason sæti hans.

Andrés Sigmundsson, fyrsti varaforseti, tók þá við stjórn fundarins.

Svohljóðandi tillaga og greinargerð barst:

Tillaga og greinargerð bæjarfulltr. V-listans um að vísa rekstri Þróunafélags Vestmannaeyja vegna áranna 2000, 2001 og 2002 til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra sem lögð er fram á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja 12 des. 2002.

Eitt veigamesta hlutverk bæjarstórnar hvers samfélags er að fjalla um og ákvarða hvernig sameiginlegum fjármunum þess skuli varið. Það er einnig stórt hlutverk bæjarstjórnar að fylgjast vandlega með því hvernig þessum fjármunum er varið. Þessi ábyrgð hvílir á herðum kjörinna bæjarfulltrúa.

Saga Þróunarfélags Vestmannaeyja (ÞV) hefur verið þyrnum stráð undanfarin misseri. ÞV er sameignarfélag bæjarsjóðs Vestmannaeyja sem á 40% í félaginu, Hafnarsjóður Vestmannaeyja á 20%, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í Vestm. á 20% og að lokum Hitaveita Suðurnesja sem á 20% í félaginu eftir að hún keypti Bæjarveitur Vestmannaeyja sem höfðu átt þann hlut frá stofnun ÞV. Bæjarsjóður Vestmannaeyja hefur ráðstafað verulegu fjármunum til félagsins undanfarin ár og gengist í sérstakar ábyrgðir vegna skuldbindinga þess. Þar sem um sameignarfélag er að ræða eru eigendur ábyrgir fyrir skuldum félagsins hvort sem gefnar eru út sérstakar yfirlýsingar þar að lútandi eða ekki, sameignafélagsformið leiðir til þessarar niðurstöðu. Vegna þess að um sameignarfélag er að ræða er eðlilega ákvæði í stofnsamningi félagsins um að eigi sé heimilt að skuldbinda félagið nema allir fimm stjórnarmenn félagsins undirriti skuldbindingar þess, ella er skuldbindingin ekki skuldbindandi fyrir félagið.

Upphaflegt stofnfé félagsins var 1 milljón króna. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur tilnefnt þrjá einstaklinga til setu í stjórn félagsins. Vegna félagsformsins er það mikið ábyrgðarstarf að sitja í stjórn þess þar sem ákvarðanir stjórnarinnar um að skuldbinda félagið þýðir að eigendur þess verða sjálfkrafa í ábyrgðum fyrir þeim. Þetta þýðir m.ö.o. að bæjarsjóður er ábyrgur fyrir þeim skuldbindingum sem ÞV tekst á hendur, ef ekki tekst að greiða þær á annan hátt. Þessi staða gerir ríkar kröfur til þess að ávarðanir sem teknar eru um skuldbindingar félagsins séu vandlega undirbúnar. Því miður hefur þetta ekki gengið eftir. Því er líklegt að í framtíðinni muni bæjarsjóður sitja uppi með stórar ábyrgðir. Vegna stjórnleysis þá er mjög erfitt að átta sig á því hvernig rekstrinum hefur verið háttað. Fundargerðir stjórnar eru mjög ónákvæmar, óljóst hvort og hvaða ákvarðanir hafa verið teknar, auk þess sem bókhald hefur ýmist ekki verið fært eða fylgigögn hafa týnst. Hér að neðan verða nefnd nokkur dæmi um það hvernig stjórnun félagsins hefur verið háttað, að svo miklu leyti sem mögulegt er að átta sig á henni vegna óráðsíu og skipulagsleysis.

1. Það er ekki aðeins gagnrýnivert að týna bókhaldsgögnum, það getur verið refsivert. Hér er þó rétt að hafa í huga að ef tekist hefði að fá afrit af öllum gögnunum félagsins vegna færslu ársreiknings fyrir árið 2001 hefði mátt semja sæmilega trúverðugan ársreikning og komast að nokkuð öruggri rekstrar- og efnahagsniðurstöðu. Það hefði verið háð því að afrit af öllum gögnum finndust. Ef bókhaldið er meira og minna byggt á munnlegum útskýringum og treyst á minni forráðamanna félagsins er það einskisvirði.

Því miður er það svo að ársreikningur félagsins fyrir árið 2001 er ekki byggður nema að litlu leyti á afritum af gögnum eins og fram hefur komið hjá löggiltum endurskoðenda þess, því er vonlaust að byggja á honum að því er varðar rekstrar- og efnahagsniðurstöðu fyrir árið 2001. Fram hefur komið eftir mikla eftirgrennslan að bókhaldið hafi týnst í febrúar 2002. Þessu var haldið leyndu fram í miðjan októer þrátt fyrir ítarlegar fyrirspurnir bæjarfulltrúa V-listans um bókhald og ársreikninga félagsins í bæjarstjórn og í bæjarráði. Stjórnarformaður félagsins, sem jafnframt er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hélt þessum staðreyndum, ef um staðreyndir er að ræða, vísvitandi leyndum þrátt fyrir að eftir væri gengið af kjörnum fulltrúum bæjarins. Það er vítavert. Aðrir stjórnarmenn virðast ekki hafa haft upplýsingar um þetta.

2. Í ljós hefur komið að félagið hefur verið í vanskilum með vörslufé. Það er refsivert að standa ekki skil á virðisaukaskattsgreiðslum, staðgreiðslu skatta, lífeyrissjóðsgjöldum eða félagsgjöldum. Í ársreikningnum kemur fram að þessar greiðslur eru í vanskilum. Því var haldið leyndu fyrir hluta stjórnamanna að félagið skuldaði vörsluskatta fyrir árið 2001 og ekki er búið að gera upp vörsluskatta vegna ársins 2002. Það verður að teljast vítavert.

3. Á árinu 2001 keypti félagið hlutafé í Skúlason ehf. fyrir 6 milljónir króna. Hvergi er að finna fundargerð eða annað í gögnum málsins sem staðfestir hvernig sú ákvörðun var tekin og hvað lá henni að baki. Heildarhlutafé Skúlason ehf var 500 þús. kr. Fyrrv. framkvæmdastjóri félagsins hefur sagt að ætlunin hafi verið að kaupa 20-25% hlut félaginu. Það er því ljóst að félagið hefur verið hátt metið. Að kaupa hlutafé á yfirverði, eins og greinilega var gert í þessu tilviki, gera

menn ekki nema fyrir liggi gögn úr bókhaldi þess félags sem keypt er í um framtíðarafkomu þess. Venjulega eru ársreikningar lagðir til grundvallar ásamt mati á eignum og framtíðarafkomu félagsins. Ákvörðun um fjárfestingu félagsins þarf öll stjórnin að samþykkja sbr. 6. gr. stofnsamnings félagsins.

Þar sem það samþykki lá ekki fyrir er ekki ljóst hver ber ábyrgð á henni. Hugsanlegt er að sá sem ákvörðunina tók sé einn ábyrgur fyrir henni og hún komi félaginu ekkert við. Hann hafi sem sagt ráðstafað fjármunum félagsins í heimildarleysi. Þá hljóta að vakna spurningar um brot í starfi. Þá kom fram á fundi bæjarfulltrúa og stjórnamanna félagsins í október s.l. að félagið hefur engar kvittanir fengið vegna þessara kaupa og á sama fundi gat hvorki fyrrv. framkvæmdastjóri, né stjórnarformaður þess eða aðrir gert grein fyrir því hversu stór eignarhlutur félagsins væri. Reyndar voru menn ekki á eitt sáttir um hvort um styrk eða kaup hefði verið að ræða. Þetta verður að teljast vítavert.

4. Þar sem fundargerðir félagsins eru í miklu ólestri er óljóst hvaða ákvarðanir stjórnin tók og hverjar ekki. Það er óhjákvæmilegt að reynt verði að grafast fyrir um það. T.d. má nefna að ef dagpeninga- og ökutækjagreiðslur til starfsmanna hafa ekki verið samþykktar af stjórn félagsins eða hluti af launasamningi, skoðast það sem einkaúttekt þeirra og ætti að færast á þá og þeir látnir endurgreiða það. Þetta verður að liggja fyrir.

5. Framkvæmdastjóri félagsins hefur fyrir hönd stjórnar þess lagt fyrir bæjarstjórn beiðni þess efnis að bæjarsjóður leggi fram rúmar 20 milljónir króna til reksturs þess. Ekki liggur fyrir milliuppgjör um rekstur félagsins, enda hefur bókhald fyrir árið 2002 ekki verið fært. Það hefur hins vegar verið dregið fram vegna harðfylgis eins stjórnamanna félagsins, Björns Elíassonar, að áætlanir gera ráð fyrir að skuldir félagsins muni hækka í a.m.k. 70 miljónir fyrir lok þessa árs. Gangi það eftir hafa skuldir félagsins rúmlega tvöfaldast frá áramótum 2001/2002. Bókhald á að útskýra hvers vegna skuldir hafi hækkað um 36 milljónir, hvaðan peningarnir komu og í hvað þeim var ráðstafað. Þetta þarf að liggja fyrir. Þar sem ekkert bókhald hafði verið fært 4. des. s.l. er þessar tölur settar fram með fyrirvara um þetta af eðlilegum ástæðum.

6. Um áramót 2001-2002 var búið að taka ákvörðun um að bókhaldið yrði fært hjá bókara bæjarins. Aftur var það ítrekað í mars eða apríl að bókhaldið ætti vera fært af bókara bæjarins. En ekki var því fylgt eftir því það er ekki fyrr en 1. október 2002 að byrjað var að færa bókhaldið hjá bókara bæjarins. Bókhaldið fram að þeim tíma á bókhaldskrifstofa að færa og var ekki byrjað á því 4.desember 2002. Stjórnarformaður hefur ekki fylgt eftir ákvörðun stjórnar og komið bókhaldinu í rétt horf, þar af leiðandi er ekki hægt að nota það sem nauðsynlegt stjórntæki. Öll ábyrgð vegna þessarar vanrækslu hvílir á herðum stjórnarformanns félagsins sem átti að sjá um þetta.

7. Í fjölmiðlum og víðar hefur stjórnarformaður félagsins haldið því fram að hluti stjórnarinnar hafi gefið út skuldabréf með bæjarábyrgð uppá 10 milljónir króna. Síðar hefur verið leitt í ljós að fjárhæðin var kr. 8 milljónir. Þá hefur sami stjórnarformaður haldið því fram undirritun bréfsins hafi sjálfkrafa falið í sér samþykki stjórnarmanna á ráðstöfun á tíu milljónum króna úr sjóðum félagsins, þ.e.a.s. sex milljóna króna framlagi til Skúlason ehf og fjögurra milljóna króna framlagi til Öndvegisrétta. Þetta er að sjálfsögðu algerlega rangt enda hvergi að finna stafkrók um ráðstöfun þessara fjármuna í fundargerðarbókum. Þá er nauðsynlegt að minna á að allir stjórnarmenn verða að undirrita skuldbindingar vegna félagsins, ef hún á að skuldbinda félagið. Þetta ber vott um mikla óstjórn hjá félaginu. Það er nauðsynlegt að komist verði til botns í þessu.

8. ÞV hefur greitt 498.000.- inn á reikning Nýja Bíós, sem er reikningur á vegum Skjás 1. Hvergi er samþykkt fyrir því að greiða þessa upphæð frá Þróunarfélaginu. Ákveðið hafði verið í stjórninni að safna ætti styrkjum fyrir þessari upphæð og hefur það ekki verið gert. Einnig er það mjög furðulegt að ekki hefur þessi upphæð verið færð sem eign hjá félaginu. Þetta verður að skýra.

9. Í ráðningarsamning fyrverandi framkvæmdastjóra er ákvæði þess efnis að honum verði greidd ákveðinn upphæð fyrir að færa upp bókahald árið 2001. Ekkert liggur fyrir um annað en að þessi fjárhæð hafi verið greidd, en bókhaldsgögn eru glötuð.

Hér hefur aðeins verið tæpt á nokkrum atriðum sem lúta að starfrækslu félagsins sem hefur með höndum umsýslu almannafjár. Ef áætlanir félagsins um að skuldir þess muni nema 70 milljónum í árslok er ljóst að ábyrgð eigenda þess kann að verða mikil. Um þessar tölu er þó ekkert hægt að fullyrða þar sem bókhald vegna ársins 2002 hefur enn ekki verið fært. ÞV er félag að stórum hluta í eigu almennings. Það verður því að gera ríkar kröfur til þess að því sé vel stjórnað og fylgt sé lögum og reglum til hins ýtrasta. Það er augljóst að stafsemi þess undir forystu Guðjóns Hjörleifssonar stjórnarformanns hefur verið í miklum ólestri. Nú þegar enn er komið til bæjarsjóðs um frekari framlög lýsa ftr. V-listans því yfir að þeir geta ekki stutt frekari framlög til félagsins, a.m.k. ekki meðan núverandi stjórnarformaður fer þar með ferðina. Þá liggur ekkert fyrir um það hvernig aðrir eigendur félagsins en bæjarsjóður hyggjast leggja félaginu lið í erfiðleikum sínum, auk þess sem ekki er mögulegt að átta sig á því hvort þeir sem stjórnað hafa félaginu séu ábyrgir fyrir gjörðum þess eður ei. Vegna stjórnleysis þess þá liggur það ekki fyrir hvort eigendur þess séu í ábyrgðum vegna skuldbindinga þess eður ei. Við svo búið verður ekki unað. Til þess eru hagsmunir bæjarfélagsins of stórir. Það er því mat ftr. V-listans í bæjarstjórn, með vísan til þess sem að framan er sagt, að rétt sé að vísa málefnuum ÞV, þ.e.a.s. bókhaldi og fjárreiðum félagsins fyrir árin 2000, 2001 og 2002 til rannsóknar efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Þar til þessi mál hafa komist á hreint geta ftr. V-listans ekki staðið að frekari fjárframlögum úr almannasjóðum til félagsins.

Guðrún Erlingsdóttir(sign.), Stefán Jónasson (sign.), Steinunn Jónatansdóttir (sign.).

Andrés Sigmundsson veitti fundarhlé er hér var komið.

Svohljóðandi frávísunartillaga barst:

“Bæjarstjórn samþykkir að vísa frá tillögu fulltrúa V-listans um að vísa rekstri

Þróunarfélags Vm. vegna 2000-2002 til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Bæjarstjórn bendir jafnframt á að ársreikningar Þróunarfélags Vestmannaeyja vegna

2000 og 2001 hafa verið endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda

Vestmananeyjabæjar.”

Arnar Sigurmundsson (sign.), Selma Ragnarsdóttir (sign.), Helgi Bragason (sign.)

Er hér var komið lagði bæjarstjóri fram yfirlýsingu dags. 4.12.02. um hlutafé í Skúlason ehf., samkomulag um forkaupsrétt og bréf frá forráðamönnum Skúlason ehf. dags. 11.12.02.

Frávísunartillagan var síðan samþykkt með 4 atkvæðum, 3 á móti.

Andrés Sigmundsson lagði fram eftirfarandi bókun:

“Það er rétt að taka það fram að fulltrúar Framsóknarflokksins komu ekki að

rekstri á Þróunarfélaginu fyrr en eftir síðustu kosningar.

Í erfiðri stöðu Þróunarfélagsins skýt ég mér ekki undan ábyrgð að taka á vanda

félagsins.

Það er eðlilegt að bæjarfulltrúar V-listans og Samfylkingarinnar vísi sínum eigin

störfum í Þróunarfélaginu til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.”

Svohljóðandi bókun barst:

“Bendum Andrési á að tillaga sú sem vísað var frá var lögð fram af bæjarfulltrúum

Vestmannaeyjalistans og hörmum við það að enn á ný skuli meirihluti bæjarstjórnar

vísa tillögu sem snýr að hagsmunum bæjarbúa frá.”

Guðrún Erlingsdótir (sign.), Stefán Jónasson (sign.), Steinunn Jónatansdóttir (sign.).

Nú var gengið til atkvæða um reikningana.

Voru þeir samþykktir með 4 atkvæðum, 3 á móti.

Andrés Sigmundsson gerði grein fyrir atkvæði sínum með vísan í bókun sína.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 00.35.

Selma Ragnarsdóttir Guðrún Erlingsdóttir

Arnar Sigurmundsson Stefán Jónasson

Helgi Bragason Steinunn Jónatansdóttir

Andrés Sigmundsson

Ingi Sigurðsson