Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1307

08.02.2002

Bæjarstjórn Vestmannaeyja

1307. fundur.

Ár 2002, föstudaginn 8. febrúar kl 18:30 var aukafundur haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja í fundarsal Ráðhúsins.

Forseti bæjarstjórnar, Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir, stjórnaði fundi en fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Guðjóns Hjörleifssonar bæjarstjóra.

Fyrir var tekið.

1. mál.

Samningur við Vegagerðina og Samskip h/f um fjölgun ferða Herjólfs og gjaldskrárbreytingar:

Svohljóðandi tillaga barst:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að samkomulagið ásamt fylgiskjölum verði samþykkt og þakkar þeim aðilum sem lögðu hönd á plóginn til að gera það mögulegt. Bæjarstjórn lítur á þetta nýja samkomulag sem mikilvægt skref í bættum samgöngum á sjó á milli lands og Eyja og styrkir stoðir atvinnu- og mannlífs í Vestmannaeyjum.

Með þessu samkomulagi er tryggt að ferðum á ársgrundvelli hefur fjölgað um tæpar 50, og leggur grunn að enn frekari fjölgun ferða, en skoða á sérstaklega fjölgun sunnudagsferða og næturferðir á álagstímum.

Guðjón Hjörleifsson

Elsa Valgeirsdóttir

Helgi Bragason

Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir

Svohljóðandi bókun barst:

Fyrir fundinum liggur samkomulag milli Vegargerðarinnar, Samskipa h/f og Vestmannaeyjabæjar um breytingar á ferðaáætlun Herjólfs og gjaldskrárbreytingar.

Þrátt fyrir það að um sé að ræða fjölgun ferða teljum við allt of skammt gengið í þeirri nýju áætlun sem hér er gert ráð fyrir að verði samþykkt. Þá teljum við algerlega fráleitt að ljá máls á því að hækka fargjöld um 13%. Hvor tveggja er í algerri andstöðu við vilja bæjarbúa eins og m.a. kom fram á fjölmennum almennum borgarafundi fyrir réttri viku.

Máli okkar til stuðnings bendum við ennfremur á eftirfarandi þætti:

1. Tímaáætlunin er alls ekki í samræmi við það sem ferðamálasamtökin í Vestmannaeyjum hafa lagt áherslu á m.a. til þess að auka ferðamannastarfsemina hér.

2. Það hefur verið skýlaus krafa Vestmannaeyinga að fargjöld hækki ekki frá því sem nú er og þeirri kröfu verður að fylgja fast eftir. Engar forsendur eru fyrir því að hækka gjaldskrá nú enda hafa Samskip h/f fengið meiri tekjur af rekstri Herjólfs en búist var við þegar samið var við félagið um þennan rekstur.

3. Alþýðusamband Íslands hefur sent frá sér skýlausa kröfu þar sem farið er fram á að ekki komi til hækkana á ýmsum gjöldum og álögum. Fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu hafa orðið við þessari kröfu. Með samþykki á gjaldskrárhækkun nú er verið að vinna gegn þessari kröfu Alþýðusambandsins.

Af ofangreindum ástæðum leggjumst við gegn þessu samkomulagi og munum við greiða atkvæði á móti því.

Vestmannaeyjum 8. feb. 2002.

Ragnar Óskarsson

Lára Skæringsdóttir

Björn Elíasson

Elsa Valgeirsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska bókað:

Við hörmum það að fulltrúar V – listans skuli ekki samþykkja þennan mikla áfangasigur í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Þetta nýja samkomulag mun hafa margfeldisáhrif á flesta þætti mannlífs og atvinnulífs í Vestmannaeyjum.

Ferðatíðni hefur aldrei aukist jafn mikið í einu samkomulagi eins og þessu og því kemur það okkur á óvart að fulltrúar Vestmannaeyjalistans skuli hafna samkomulaginu.

Samkomulagið mun gefa Eyjamönnum fleiri valkosti og aukið svigrúm til ferða bæði einstaklingum og atvinnurekendum.

Í samkomulaginu er jafnframt endurskoðunarákvæði um að kannað verði hvort ástæða sé til að breyta ferðatíðni Herjólfs með hliðsjón af þörfum markaðarins hverju sinni.

Það er rangt sem fram kemur í bókun fulltrúa V-listans varðandi tímaáætlun og áherslur ferðamálasamtakanna. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa rætt við forsvarsmenn ferðamálasamtaka Vestmannaeyja og hafa þeir lýst ánægju sinni með þær hugmyndir sem var grundvöllur fyrir samkomulaginu. Þessi aukna ferðatíðni mun auka veg ferðamannaiðnaðar í Vestmannaeyjum þar sem við teljum að mikill vaxtabroddur sé til framtíðar litið.

Varðandi gjaldskrárhækkanir þá taka þær gildi 1. júlí nk., en forsenda fyrir heildarsamkomulaginu var þessi breyting, en gjaldskrá hefur ekki hækkað síðan í janúarbyrjun 1997, og þessi hækkun er langt undir almennum verðlagsbreytingum á þessu tímabili, hvort sem um er að ræða launavísitölu eða neysluvísitölu.

Þess má geta að ferðakostnaður með rútu til og frá Þorlákshöfn og almennur ferðakostnaður hefur hækkað langt umfram þessar hækkanir. Ferð með Herjólfi hækkar um 120 kr. fyrir einstaklinga aðra leiðina ef greitt er með einingum.

Bæjarfullrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir ánægju sinni með fyrirliggjandi samkomulag og munu áfram vinna að hagsmunum Eyjamanna í samgöngumálum.

Guðjón Hjörleifsson

Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir

Helgi Bragason

Elsa Valgeirsdóttir

Ragnar Óskarsson bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

“ Við ítrekum að í samkomulaginu er allt of skammt gengið miðað við þær kröfur sem

Vestmannaeyingar hafa sett fram um úrbætur í rekstri Herjólfs.

Þá teljum við undarlegt í meira lagi að sjálfstæðismenn skuli telja það eðlilegt að Vestmannaeyingar verði látnir greiða enn hærri fargjöld til þess að ná fram breytingum á ferðatíðni skipsins.

Enn sýna sjálfstæðismenn hug sinn til aukinna álagna á Vestmannaeyinga með því að fallast á kröfu um hækkuð fargjöld á sama tíma og sveitarfélög eru að draga úr álögum í

samræmi við kröfu ASÍ þar um.

Að öðru leyti erum við tilbúin að leggja samkomulagið í dóm Vestmannaeyinga”

Ragnar Óskarsson (sign)

Björn Elíasson ( sign)

Lára Skæringsdóttir (sign)

Guðjón Hjörleifsson bað um fundarhlé og varð það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska bókað:

Við viljum vekja athygli á því að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa í langan tíma verið að þrýsta á ýmsar úrbætur í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Árið 1997 náðist sá áfangi að fargjöld barna 6-11 ára með Herjólfi voru felld niður, og fargjöld eldri borgara, öryrkja og unglinga 12-15 ára voru lækkuð um 33% og voru það sjálfstæðismenn sem stóðu einir að því samkomulagi, eins og nú. Við viljum jafnframt vekja athygli á því að gjaldskrá hækkar 1. júlí, en ný áætlun Herjólfs tekur þegar gildi, og n.k. föstudag mun m/s Herjólfur fara tvær ferðir.

Á næstunni verður skipuð nefnd sem mun vinna að úttekt á ferjuaðstöðu í Bakkafjöru og móta framtíðarstefnu í samgöngumálum Vestmannaeyinga.

Bæjarfulltrúar V-listans hafa ekki komið með neinar tillögur í samgöngubótum á þessu kjörtímabili, en þegar fyrir liggur mjög jákvætt samkomulag, þá eru þeir allt í einu farnir að hafa skoðun á samgöngumálum og pólítískir hagsmunir eru enn og aftur látnir ráða fram yfir hagsmuni okkar Eyjamanna.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins munu stuðla að því að að Bakkafjörunefndin taki til starfa sem fyrst, og skili niðurstöðum um valkost eins fljótt og hægt er miðað við umfang verksins.

Miðað við bókanir fulltrúa V-listans þá eru þeir að biðja um óbreytt ástand og það vilja þeir leggja í dóm kjósenda í vor, en bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja horfa til framtíðar í samgöngumálum og samgönguöryggi okkar Eyjamanna, m.a. með því að fjölga ferðum enn frekar og endurskoða þörfina á ferðafjölgun árlega.

Guðjón Hjörleifsson

Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir

Helgi Bragason

Elsa Valgeirsdóttir

Björn Elíasson bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

“Við ítrekum enn og aftur andstöðu okkar við gjaldskrárhækkanir Herjólfs og hve

skammt sjálfstæðismenn vilja ganga í aukinni ferðatíðni.

Við höfnum útúrsnúningum sjálfstæðismanna í bókun sinni.

Sjálfstæðismenn hafa um langt skeið verið helstu dragbítar á eðlilegri framþróun

samgöngumála í Vestmannaeyjum, og svo mun enn verða.

Vestmannaeyingar eiga annað skilið en metnaðarleysi það sem fram kemur í fyrirliggjandi samkomulagi”

Ragnar Óskarsson (sign)

Björn Elíasson (sign)

Lára Skæringsdóttir (sign)

Elsa Valgeirsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska bókað:

Vestmannaeyingar eiga allt gott skilið og því er þetta samkomulag mjög mikilvægt

og stórt spor í átt til betri samgangna fyrir Eyjamenn og aðra er Eyjarnar sækja.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu áfram vinna að framförum í samgöngumálum

í Vestmannaeyjum.

Guðjón Hjörleifsson

Elsa Valgeirsdóttir

Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir

Helgi Bragason

Ragnar Óskarsson bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

“Ætli sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum að vinna að framförum í samgöngumálum Vestmannaeyinga þurfa þeir að sýna meiri metnað en fram hefur komið á þessum fundi”

Ragnar Óskarsson (sign)

Björn Elíasson (sign)

Lára Skæringsdóttir (sign)

Helgi Bragason bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska bókað:

Bókanir V-lista manna í þessu máli og andstaða þeirra við samkomulag um mikla fjölgun

ferða Herjólfs milli lands og Eyja er enn á ný staðfesting á því að pólitískir hagsmunir eru teknir fram fyrir hagsmuni Eyjanna og Eyjamanna.

Guðjón Hjörleifsson

Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir

Helgi Bragason

Elsa Valgeirsdóttir

Ragnar Óskarsson bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

“ Eftir þessa umræðu erum við sannfærð um að hagsmunir Vestmannaeyinga fara ekki saman við pólitíska hagsmuni Sjálfstæðisflokksins”

Ragnar Óskarsson (sign)

Björn Elíasson (sign)

Lára Skæringsdóttir (sign)

Elsa Valgeirsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska bókað:

Hagsmunir Sjálfstæðismanna og annarra Eyjamanna felast m.a. í bættum samgöngum við Eyjar. Sjálfstæðismenn taka afstöðu í jákvæðum málum fyrir Eyjamenn og samþykkja nú mikla aukningu í samgöngum við Eyjar og munu halda áfram vinnu við að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar, með hagsmuni atvinnulífs, ferðaþjónustu og Eyjamanna í fyrirrúmi.

Elsa Valgeirsdóttir

Helgi Bragason

Guðjón Hjörleifsson

Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir

Ragnar Óskarsson bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

“Við ítrekum að Vestmannaeyingar eiga skilið betri lausnir í samgöngumálum en fram koma í fyrirliggjandi samkomulagi. Að öðru leyti ítrekum við bókanir okkar”

Ragnar Óskarsson (sign)

Björn Elíasson (sign)

Lára Skæringsdóttir (sign)

Guðjón Hjörleifsson bað um fundarhlé og var það veitt:

Svohljóðandi bókun barst:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska bókað:

Samkomulag þetta er tímamótasamkomulag, bæði hvað varðar ferðaaukningu, svo og árlega endurskoðun á ferðatíðni Herjólfs. Einnig er möguleiki að fjölga ferðum enn frekar sbr. endurskoðun og mat á sunnudagsferðum svo og næturferðum með vöruflutninga á álagstímum. Því er þetta samkomulag mikill áfangasigur í samgöngumálum sem gefur möguleika á enn frekari samgöngubótum sjóleiðina milli lands og Eyja.

Guðjón Hjörleifsson

Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir

Helgi Bragason

Elsa Valgeirsdóttir

Var nú loks gengið til atkvæða um tillögu sem lögð var fram í upphafi fundar.

Var hún samþ. með 4 atkv, 3 á móti.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl 21:30.

Elsa Valgeirsdóttir

Björn Elíasson

Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir

Lára Skæringsdóttir

Helgi Bragason

Guðjón Hjörleifsson