Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1305

17.01.2002

Bæjarstjórn

1305. fundur.

Ár 2002 fimmtudaginn 17.janúar var fundur haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja í sal Listaskólans kl. 18:00.

Forseti bæjarastjórnar, Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir, stjórnaði fundi en fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Neðangreindir bæjarfulltrúa sátu fundinn auk Guðjóns Hjörleifssonar bæjastjóra.

Fyrir var tekið:

Leitað var afbrigða til þess að taka fjárhagsáætlun Sorpeyðingarstöðvar fyir árið 2002 á dagskrá. Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum og verður tekið fyrir með 2. máli hér síðar á fundinum.

1. mál.

Fundargerð bæjarráðs frá 16. janúar s.l.

1. liður: Samþ. með 7 samhl. atkvæðum.

2. liður: Svohljóðandi bókun barst:

“ Fyrir bæjarstjórn liggur nú tillaga um að sameina BæjarveiturVestmannaeyja

Hitaveitu Suðurnesja hf. þannig að hlutur Vestmannaeyjabæjar verði eftir sameiningu 7% í hlutafélaginu.

Aðdragandi að sameiningunni hefur verið nokkur og ljóst er að sameiningin getur haft í för með sér bæði kosti og galla fyrir hagsmuni Vestmannaeyja.

Fjárhagsstaða Vestmannaeyjabæjar er orðin svo bágborin að nauðsynlegt er að grípa til róttækra aðgerða til þess að koma í veg fyrir algert hrun. Því er ljóst að Vestmannaeyjabæ er nauðsynlegt að lækka skuldir sínar sem hrannast hafa upp stjórnlaust í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum. Sameining Bæjarveitna Vestmannaeyja og Hitaveitu Suðurnesja nú getur verið ein leið til þess að grynnka á skuldum bæjarfélagsins. Það hlýtur þó að teljast skelfilegt minnismerki um fjármálastjórn sjálfstæðismanna að sjá á eftir einu rótgrónasta og best rekna fyrirtæki bæjarfélagsins til þess að bjarga bæjarfélaginu frá fjáhagslegu hruni.

Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans hafa á undanförnum árum bent á afar slaka og í raun hættulega fjáhagstöðu bæjarfélagsins. Jafnframt höfum við bent á að leita verði allra leiða til þess að ráða bót þar á. Sjálfstæðismenn í Bæjarstjórn Vestmannaeyja hafa til þessa látið þessar ábendingar sem vind um eyru þjóta og því er fjármálum bæjarfélagsins

komið sem komið er.

Nú hafa sjálfstæðismenn að því er virðist gert sér grein fyrir þessari alvarlegu fjármálastöðu og sjá þá einu leið út úr ógöngunum að selja Bæjarveitur Vestmannaeyja.

Við höfum miklar efasemdir um tímasetningu sameiningarinnar nú og bendum í því sambandi á að ný raforkulög hafa ekki verið samþykkt á Alþingi og ekki virðist samkomulag innan ríkstjórnarflokkanna um lagafrumvarpið. Nýir möguleikar til orkuöflunar, þ.m.t. í Vestmannaeyjum eru að verða sífellt ódýrari og þar með skapast hugsanlega fjölþættir möguleikar til eflingar Bæjarveitna Vestmannaeyja.

Í þessu sambandi má benda á ódýrari öflun vindorku eins og fram hefur komið síðustu daga. Þá má benda á að vafi hlýtur að leika á því hvort heimilt er að fela hlutafélagi rekstur Vatnsveitunnar. Með hliðsjón af þessu getum við ekki fallist á sölu Bæjarveitna Vestmannaeyja nú en erum tilbúin að skoða málið aftur í heild sinni þegar ný raforkulög

hafa verið samþykkt og frekari möguleikar til orkuöflunar í Vestmannaeyjum hafa verið kannaðir nánar”

Vestmannaeyjum 17. janúar 2002.

Þorgerður Jóhannsdóttir

Ragnar Óskarsson

Guðrún Erlingsdóttir

Var nú gengið til atkvæða.

Liðurinn var samþ. með 4 atkv, 3 voru á móti.

Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans greiddu atkvæði með vísan til bókunar sinnar

hér að ofan.

Elsa Valgeirsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

" Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska bókað:

Við lýsum yfir furðu okkar á afstöðu bæjarfulltrúa Vestmannaeyjalistans og bókun þeirra við afgreiðslu málsins. Ljóst er að þeir þættir sem fram koma í bókun þeirra og skýra afstöðu þeirra til að hafna sölu Bæjarveitna hafa verið vandlega yfirfarnir af nefnd sem starfaði fyrir stjórn Bæjarveitna og veitustjóri hefur kynnt fyrir stjórn Bæjarveitna og bæjarfulltrúum bæði hvað varðar orkulög, rekstur Vatnsveitu og fleira. Afstaða bæjarfulltrúa V-listans er köld vatnsgusa og vantraust á formann V-listans, sem sæti átti í nefndinni og hefur mælt fyrir málinu á opinberum vettvangi. Með afstöðu sinni eru bæjarfulltrúar V-listans að bera pólitíska hagsmuni sína fram yfir heildarhagsmuni Vestmannaeyjabæjar og íbúanna sem þar búa."

Guðjón Hjörleifsson (sign), Elsa Valgeirsdóttir (sign), Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir (sign), Helgi Bragason (sign)

Ragnar Óskarsson óskaði eftir fundarhléi og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

“Með afstöðu okkar teljum við okkur gæta hagsmuna Vestmannaeyinga best. Í bókun okkar er sú afstaða skýrð til fullnustu og ítrekum við það hér.

Við berum fullt traust til allra nefndarmanna sem unnu að málinu f.h. Bæjarveitna en teljum að ekki hafi til hlítar fengist niðurstaða við þau atriði sem við bendum á í bókuninni. Öllu tali um pólitíska hagsmuni vísum við til föðurhúsanna”

Þorgerður Jóhannsdóttir (sign) Ragnar Óskarsson (sign) Guðrún Erlingsdóttir (sign)

3. liður: Samþ. með 7 samhl. atkv.

4. liður: Samþ. með 7 samhl. atkv.

2. mál.

Fjárhagsáætlun bæjarsjóðs, hafnarsjóðs, félagslegra íbúða og sorpeyðingarstöðvar fyrir árið 2002.

-fyrri umræða-

Guðjón Hjörleifsson, bæjarstjóri hafði framsögn um áætlunina og gerði grein fyrir helstu þáttum hennar.

Svohljóðandi bókun barst:

“Í framhaldi af ályktun Alþýðusambads Íslands um verðlagsmál og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um endurskoðun á áður boðuðum hækkunum samþykkir bæjarstjórn að endurskoða hækkanir á gjaldskrám Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans. Endurskoðun þessi fari fram milli umræðna um fjárhagsáætlun og verði tekin til afgreiðslu samfara seinni umræðu”

Vestmannaeyjum 17. janúar 2002

Guðrún Erlingsdóttir

Ragnar Óskarsson

Þorgerður Jóhannsdóttir

Guðjón Hjörleifsson bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi afgreiðslutillaga barst:

" Leggjum til að sviðsstjórum verði falið að gera samanburð á þjónustugjöldum í sambærilegum sveitarfélögum og Vestmannaeyjum og skili greinargerð til bæjarráðs.

Stefnt er að því að þessari könnun ljúki fyrir næsta bæjarstjórnarfund."

Guðjón Hjörleifsson (sign), Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir (sign), Elsa Valgeirsdóttir (sign), Helgi Bragason (sign)

Afgreiðslutillaga var samþ. með 7 samhl. atkv.

Var nú gengið til atkvæða í málinu.


3 .mál.

3ja ára áætlun bæjarsjóðs 2003-2005

-fyrri umræða-

Guðjón Hjörleifsson, bæjarstjóri hafði framsögn um áætlun og gerði grein fyrir helstu þáttum hennar.

Áætluninni var síðan vísað til síðari umræðu með 7 samhl. atkv.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19:45

Elsa Valgeirsdóttir

Guðrún Erlingsdóttir

Ragnar Óskarsson

Þorgerður Jóhannsdóttir

Sigrún I. Sigurgeirsdóttir

Helgi Bragason

Guðjón Hjörleifsson