Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1290

23.11.2000

Bæjarstjórn

1290. fundur.

Ár 2000, fimmtudaginn 23. nóvember kl. 20.30 var haldinn aukafundur í bæjarstjórn Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Fyrsti varaforseti bæjarstjórnar, Elsa Valgeirsdóttir, stjórnaði fundi en fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Guðjóns Hjörleifssonar, bæjarstjóra.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Drög að kaupsamningi ríkissjóðs Íslands á hlutabréfum Vestmannaeyjabæjar í Herjólfi hf.:

Þorgerður Jóhannsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

"Við mótmælum því hvernig málið ber að. Bæjarfulltrúar eru á þessum fundi að fá fyrstu upplýsingar um það og eiga að svara af eða á um afstöðu sína fyrir morgundaginn.

Við teljum nauðsynlegt að skriflegt álit frá hlutlausum aðila þurfi að liggja fyrir vegna málsins áður en bæjarstjórn tekur afstöðu. Jafnframt krefjumst við þess að Vegagerðin dragi til baka þann frest sem nú er gefinn til 24.11, þar til umrætt álit liggur fyrir."

Þorgerður Jóhannsdóttir (sign.), Ragnar Óskarsson (sign.), Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Guðjón Hjörleifsson bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi tillaga barst:

"Leggjum til að samningsdrög ásamt minnisblaði vegna sölu hlutabréfa Vestmannaeyjabæjar, sem er 51,4%, verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og felum bæjarstjóra að undirrita kaupsamning um söluna."

Elsa Valgeirsdóttir (sign.), Helgi Bragason (sign.), Guðjón Hjörleifsson (sign.), Hallgrímur Tryggvason (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.

Tillagan var samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.

Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans sátu hjá með vísan í bókun sína hér að framan.

Svohljóðandi bókun barst:

" Í framhaldi af bókun fulltrúa V-listans óska bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókað:

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins telur þau samningsdrög sem fyrir liggja mjög hagstæð fyrir Vestmannaeyjabæ, þ.e. að fá greiddar 55 milljónir fyrir 51,4% hlut í Herjólfi hf. sem er langt yfir markaðsvirði.

Að fresta afgreiðslu málsins og óska eftir mati getur orðið þess valdandi að tugir milljóna gætu tapast."

Guðjón Hjörleifsson (sign.), Elsa Valgeirsdóttir (sign.), Helgi Bragason (sign.), Hallgrímur Tryggvason (sign.).

Ragnar Óskarsson bað um fundarhlé og var það veitt.

Svohljóðandi bókun barst:

" Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans telja nauðsynlegt að vanda vinnubrögð í ákvarðanatöku bæjarstjórnar. Vinnubrögð meirihluta sjálfstæðismanna hafa til þessa oft valdið Vestmannaeyjabæ fjárhagslegu tjóni og kappkosta verður að svo verði ekki nú.

Á þessu einu byggist bókun okkar."

Þorgerður Jóhannsdóttir (sign.), Ragnar Óskarsson (sign.), Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 22.30.

Helgi Bragason

Þorgerður Jóhannsdóttir

Hallgrímur Tryggvason

Elsa Valgeirsdóttir

Ragnar Óskarsson

Guðrún Erlingsdóttir

Guðjón Hjörleifsson 


Jafnlaunavottun Learncove