Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1284
Bæjarstjórn Vestmannaeyja
1284. fundur.
Ár 2000, miðvikudaginn 5. júlí kl. 16:00 var haldinn aukafundur í bæjarstjórn Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Forseti bæjarstjórnar, Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir, stjórnaði fundi en fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Guðjóns Hjörleifssonar, bæjarstjóra.
Fyrir var tekið:
1. mál. Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 4. júlí sl.
Svohljóðandi tillaga barst:
Í framhaldi af fundargerð skipulags- og bygginganefndar frá 4. júlí sl. 6. mál samþykkir Bæjarstjórn Vestmannaeyja að heimila RARIK að klæða inntakshús sitt að utan með norskri skarklæðningu. Guðjón Hjörleifsson (sign.), Elsa Valgeirsdóttir (sign.), Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir (sign.) og Helgi Bragason (sign.). |
Svohljóðandi bókun barst:
Enn einu sinni hefur það gerst að gengið er framhjá skipulags- og bygginganefnd við undirbúning framkvæmda sem sannarlega heyra undir nefndina. Í þessu máli liggur fyrir að búið er að panta sérstaka norska skarklæðningu til að klæða inntakshús RARIK við Skansinn og að klæðningin er komin til Vestmannaeyja án þess að sótt hafi verið um leyfi til þess að ráðast í framkvæmdir. Þessi vinnubrögð eru óeðlileg og fara í bága við sjálfsagðan framgang mála vegna framkvæmda. Þessum vinnubrögðum mótmælum við harðlega og krefjumst þess að í framtíðinni verði breytt um vinnubrögð í skipulagsmálum hvað þessi atriði varðar. Á þessum aukafundi í bæjarstjórn krefjumst við og skýrra svara um hvernig þetta mál er til komið og hvernig stendur á því að skipulags- og bygginganefnd hefur ekki fyrr fengið það til afgreiðslu. Niðurstaða skipulagsnefndar eru skýr skilaboð og mótmæli gegn þeim vinnubrögðum sem hér eru höfð í frammi. Þrír fulltrúar sjálfstæðisflokksins í nefndinni klofna í þrennt í afstöðu sinni og sá eini sem greiðir atkvæði með breytingum á inntakshúsinu er formaður nefndarinnar. Því hlýtur að vakna sú spurning hvort hann hefur traust nefndarinnar að baki sér. Í raun teljum við enga þörf á að klæða inntakshúsið með sérstakri norskri skarklæðningu því húsinu hefur verið vel við haldið og þarfnast ekki klæðningar. Við getum því tekið undir með meirihluta nefndarinnar varðandi útlit hússins. Við ítrekum mótmæli okkar á málatilbúnaði þeim sem hér er við hafður og krefjumst þess enn og aftur að breytt verði um vinnubrögð við undirbúning og heimild til framkvæmda. Til þess að leggja áherslu á mótmæli okkar munum við ekki taka þátt í atkvæðagreiðslu um málið.
Vestmannaeyjum 5. 7. 2000, Þorgerður Jóhannsdóttir (sign.), Sigurlás Þorleifsson (sign.) og Ragnar Óskarsson (sign.). |
Tillagan var samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.
Liðir 1–5 og 7–20 voru síðan samþykktir með 7 samhljóða atkvæðum.
Fleira ekki bókað.
Fundi slitið kl. 16:35.
Helgi Bragason
Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir
Elsa Valgeirsdóttir
Ragnar Óskarsson
Sigurlás Þorleifsson
Þorgerður Jóhannsdóttir
Guðjón Hjörleifsson.