Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundur nr. 1280
BÆJARSTJÓRN
1280. fundur.
Ár 2000, mánudaginn 8. maí kl. 16.00 var haldinn aukafundur í bæjarstjórn Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Forseti bæjarstjórnar, Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir, stjórnaði fundi en fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Neðangreindir bæjarfulltrúar sátu fundinn auk Guðjóns Hjörleifssonar, bæjarstjóra.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fundargerð skipulagsnefndar frá 4. maí sl., ásamt tillögu að svarbréfi til þeirra aðila er gert höfðu athugasemdir vegna 3. og 5. máls fundargerðarinnar.
Svohljóðandi tillaga barst:
“Í framhaldi af fundi skipulagsnefndar 4. maí sl. samþykkir bæjarstjórn að halda sameiginlegan fund með skipulagsnefnd, bæjarstjórn, fyrirhuguðum byggingaraðilum ráðstefnuhúss á vatnstanki við Löngulág og þeim sem sent hafa skipulagsnefnd mótmæli vegna væntanlegra framkvæmda. Á þeim fundi verði farið rækilega yfir málið með það fyrir augum að sætta þau mismunandi sjónarmið sem upp hafa komið í því sambandi.
Bæjarstjórn leggur áherslu á að við afgreiðslu málsins verði farið í öllu eftir gildandi reglum um framkvæmdir og að leyfi til framkvæmda verði ekki heimilað fyrr en að þær reglur hafa verið uppfylltar.”
Vestmannaeyjum, 8. maí 2000.
Ragnar Óskarsson (sign.)
Þorgerður Jóhannsdóttir (sign.)
Björn Elíasson (sign.)
Elsa Valgeirsdóttir bað um fundarhlé og var það veitt.
Tillagan var samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
Svohljóðandi bókun barst:
“Samþykkjum tillöguna, enda verði tryggt að framkvæmdaaðilar geti hafist handa við jarðvegskönnun svo hægt verði að ljúka teikningu a lagnabrunni sem staðsettur verður sunnan við núverandi vatnstank sbr. 2. mál á dagskrá fundarins.”
Guðjón Hjörleifsson (sign.)
Elsa Valgeirsdóttir (sign.)
Helgi Bragason (sign.)
Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir (sign.)
Liðir 1-12 voru samþykktir með 7 samhljóða atkvæðum.
2. mál.
Bréf frá Sigmari Georgssyni dags. 5. maí f.h. húsfélags þar sem óskað er eftir því að byggingarframkvæmdir á veislu- og ráðstefnuhúsi á vatnstankinum við Löngulág geti hafist um leið og fundargerð skipulagsnefndar hefur verið samþykkt og staðfest af bæjarstjórn Vestmannaeyja.
Guðjón Hjörleifsson óskaði eftir fundarhléi og var það veitt.
Svohljóðandi afgreiðslutillaga barst:
“Með vísan til tillögu sem samþykkt var fyrr á fundinum samþykkir bæjarstjórn að fresta afgreiðslu á málinu en heimilar framkvæmdaraðila að fara í jarðvegskönnun sunnan við vatnstankinn til þess að hægt sé að ljúka teikningum á lagnabrunni sbr. bréf Sigmars Georgssonar dags. 5. maí.”
Guðjón Hjörleifsson (sign.)
Tillagan var samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 16.40.
Elsa Valgeirsdóttir
Helgi Bragason
Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir
Ragnar Óskarsson
Þorgerður Jóhannsdóttir
Björn Elíasson
Guðjón Hjörleifsson