Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2809

05.01.2007

Bæjarráð

2809. fundur.

 

Ár 2007, föstudaginn 05. janúar kl. 12.00 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

 

Mætt voru: Páley Borgþórsdóttir, Páll Scheving og Elliði Vignisson bæjarstjóri.

 

Fundargerð ritaði Rut Haraldsdóttir.

 

Fyrir var tekið:

 

  1. mál.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir framgangi rannsókna við Bakkafjöru og starfi stýrihóps þar að lútandi.

 

Í máli bæjarstjóra kom fram að í næstu viku er von á niðurstöðum á áhættumati vegna siglingaleiðar frá Det Norsk Veritas og niðurstöðum á athugunum á efnisflutningum sjávarstrauma og falla frá dönsku straummælingastöðinni.  Þá kom og fram að athuganir vegna grjótnáms hafa leitt í ljós hentugan námustað í nálægð við framkvæmdastað.  Málið er allt á áætlun og ekkert ætti að verða því til fyrirstöðu að ákvörðun verði tekin í mars eins og til hefur staðið.  Bæjarstjóri lýsti því einnig yfir að hann teldi mikilvægt að leitað yrði formlega eftir samstarfi við sjómenn vegna þessarar framkvæmdar enda þeir eðli málsins samkvæmt kunnugir siglingum á þessu svæði og því afar mikilvægt að hlustað verði eftir skoðunum þeirra og hugmyndum varðandi þessa framkvæmd.

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra að taka saman minnisblað með helstu upplýsingum varðandi þennan framtíðarkost í samgöngum milli lands og Eyja.  Þá tekur bæjaráð undir skoðanir bæjarstjóra hvað varðar mikilvægi þess að koma á samráðsfundi milli fulltrúa Siglingastofnunar og fulltrúa sjómanna og felur bæjarstjóra að koma slíku á eins fljótt og verða má.  

 

  1. mál

Reglugerð um stjórn lögreglurannsókna, rannsóknardeildir og samvinnu lögreglustjóra við

rannsókn opinberra mála.

 

Fyrir lá reglugerð um stjórn lögreglurannsókna, rannsóknardeildir og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála dagsett 29. desember sl. Þegar hefur verið ákveðið að sérstök rannsóknardeild verði ekki við embættið í Vestmannaeyjum þrátt fyrir að hér sér rannsóknarlögreglumaður að störfum. Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að rannsókn fjölmargra málaflokka verði í höndum rannsóknardeildar lögreglustjórans á Selfossi og ekki á forræði lögreglustjórans í Vestmannaeyjum eins og verið hefur. Slík niðurstaða er andstæð væntingum bæjarráðs og telur bæjarráð miklum hagsmunum fórnað án nokkurrar röksemdafærslu. 

 

Bæjarráð hefur áður fjallað um þetta mál og telur að landfræðileg sérstaða Vestmannaeyja og íbúafjöldi geri það að verkum að hér sé afar mikilvægt að hafa rannsóknardeild við lögregluembættið.  Komi reglugerð sú er hér er um rætt til framkvæmda er ljóst að um verulega skerðingu á þjónustu sýslumannsembættisins í Vestmannaeyjum er að ræða og hætt er við að slíkt bitni á gæðum rannsókna í opinberum málum.

 

 Bæjarráð skorar því á dómsmálaráðherra að endurskoða reglugerðina með hagsmuni löggæslu í Vestmannaeyjum í huga og haga málum þannig að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum meti hvenær mál teljist það alvarleg að senda þurfi þau til rannsóknardeildar lögreglustjórans á Selfossi. Bæjarráð brýnir jafnframt fyrir þingmönnum Suðurlands að beita sér í þessu mikla hagsmunamáli.

 

  1. mál

Bréf frá dóms-og kirkjumálaráðuneytinu dags. 27. desember 2006. Er um að ræða drög að nýrri reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna og lögregluumdæmi lögreglustjóra vegna laga nr. 46/2006 sem samþykkt voru á Alþingi 2. júní sl. og tóku gildi 1. janúar sl. Er óskað eftir umsögn sveitarstjórna.

 

Efni bréfsins hefur verið borið undir sýslumann og telur hann ekki ástæðu til umsagnar.  Bæjarráð tekur undir þá afstöðu.

 

  1. mál

Bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands dags. 19. desember 2006 til upplýsinga um framlög sveitarfélaga á Suðurlandi til Atvinnuþróunarfélagsins á árinu 2007.

 

  1. mál

Bréf frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 20. desember 2006 þar sem tilkynnt er að Gistiskálinn María, Brekastíg 35, Vestmannaeyjum hefur hætt starfsemi frá og með 18. desember 2006.

 

  1. mál.

Bréf frá Fjármálaeftirlitinu dags. 20. desember 2006 vegna rafrænna skýrsluskila til Fjármálaeftirlitsins. Óskað er eftir því að skipaður verði regluvörður fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar varðandi skuldabréf þau sem skráð eru í Kauphöll Íslands.

 

Bæjarráð samþykkir að Páll Einarsson verði regluvörður Vestmannaeyjabæjar og Rut Haraldsdóttir til vara.

 

  1. mál.

Samningamál.

 

  1. mál.

Fyrir lágu eftirfarandi fundargerðir:

 

  1. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands nr. 94 frá 12. desember 2006.

 

Fleira ekki bókað.  Fundi slitið kl. 13.00

 

Páley Borgþórsdóttir (sign). 

Páll Scheving (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

 

 


Jafnlaunavottun Learncove