Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2831

24.10.2007

2831. fundur

bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

miðvikudaginn 24. október 2007 og hófst hann kl. 11.30

Fundinn sátu:

Páley Borgþórsdóttir, Páll Scheving Ingvarsson, Gunnlaugur Grettisson og Elliði Vignisson.

Fundargerð ritaði: Elliði Vignisson bæjarstjóri.

Dagskrá:

1. 200710058 - Útboð á ferju til siglinga í Bakkafjöru

Bæjarráð telur afar mikilvægt að kröfur og óskir Vestmannaeyjabæjar vegna ferjusiglinga milli Vestmannaeyja og Bakka liggi fyrir áður en rekstur og eignarhald verður boðið út. Gott samstarf hefur verið hingað til í öllum aðdraganda þessara framkvæmda og hefur Vestmannaeyjabær einsett sér að vinna áfram af fullum heilindum að þeim miklu samgöngubótum sem felast í nýrri ferju sem siglir stystu leið milli lands og Eyja. Til þess að það geti orðið er afar mikilvægt að vilji heimamanna liggi fyrir með skýrum og skilmerkilegum hætti áður en ráðist er í framkvæmdina.

Í þeim tilgangi hefur bæjarráð komið sér saman um minnisblað undir heitinu “Sjónarmið Vestmannaeyjabæjar vegna fyrirhugaðs útboðs á hönnun, smíði og rekstri ferju milli Vestmannaeyja og Bakka”. Minnisblaðið skoðast hér með samþykkt af bæjarráði.

Meðal þess sem þar kemur fram er:
Vestmannaeyjabær gerir kröfu um að...
... skipið beri 55 bíla og 350 farþega
... frátafir verði ekki meiri en þær hafa verið í siglingum til Þorlákshafnar
...15 til 20 kojur verði í skipinu
... ferðatíðnin verði ekki minni en 6 ferðir á sólarhring yfir vetrartímann (15. sept. til 1. maí) og 8 á sólarhring yfir sumartímann (1. maí til 15. sept).
... fyrsta ferð sé farin ekki síðar en 07.00 frá Eyjum og seinasta ferð til Eyja sé um 23.00.
... fullorðinn greiði kr. 500 fyrir fargjaldið (veittur verði 40% magnafsláttur (einingar) og verð þá kr. 300.00)
...greitt verði kr. 500 fyrir fólksbíl og jeppa (veittur verði 40% magnafsláttur (einingar) og verð þá kr. 300.00)
...gjaldheimta fyrir börn verði ekki meiri en nú er og því verði gjaldfrjálst fyrir börn yngri en 12 ára.
... eldri borgarar, öryrkjar og skólafólk greiði kr. 250 (veittur verði 40% magnafsláttur (einingar) og verð þá 150 krónur.
.. aukinn afsláttur sé gefinn við aukin magnkaup (stærri einingakort). Lagt er til að slík magninnkaup veitti allt að 60% afslátt til þeirra sem mikið nota ferjuna.
...far- og farmgjöld taki mið af því að hér er um þjóðveg að ræða. Þannig er gerð sú krafa að kostnaður vegna farmgjalda verði ekki meiri en sem nemur því ef viðkomandi leið væri ekin
... hönnun ferjunnar sé þannig að skipið verði nægilega öflugt til að geta gengið á 18 til 20 sml. hraða.

Einnig er varað við því að samið sé við einn aðila um rekstur í 15 ár og farið fram á að ekki verði samið til lengri tíma en 5 ára og í 1 – 2 ár til að byrja með á meðan reynsla er að komast á þessar nýju samgöngur og gengið út frá því að hafnarmannvirki og önnur mannvirki í Bakkafjöru verði í rekstri eigenda hafnarinnar þ.e.a.s. sveitarfélaganna Vestmannaeyjabæjar (60%) og Rangárþings eystra (40%).

Mikið af því sem í minnisblaðinu er fjallað um snertir ekki beinlínis stýrihóp þann sem nú starfar að framkvæmdinni heldur hefur að gera með stjórnsýslulegar ákvarðanir samgönguyfirvalda og ríkisstjórnar allrar. Því er afar brýnt að fjallað verði um óskir þessar og kröfur bæði innan stýrihópsins sem og á pólitískum vettvangi.

Það er einróma skoðun bæjarráðs að sé til þess pólitískur vilji sé hægt að lyfta grettistaki í samgöngum milli lands og Eyja og þar með í þróun samfélagsins. Það getur þó einungis orðið sé tekið fullt tillit til sjónarmiða heimamanna.Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 12.00

Páley Borgþórsdóttir (sign)

Páll Scheving Ingvarsson (sign)

Gunnlaugur Grettisson (sign)

Elliði Vignisson (sign)