Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2823

17.07.2007

2823. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

þriðjudaginn 17. júlí 2007 og hófst hann kl. 12.00

Fundinn sátu:

Páley Borgþórsdóttir, Páll Scheving Ingvarsson, Páll Marvin Jónsson og Elliði Vignisson.

Fundargerð ritaði: Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

Dagskrá:

1. 200707191 - Niðurskurður aflaheimilda í þorski.

Bæjarstjóri lagði fram skýrslu Vífils Karlssonar og Guðnýjar Önnu Vilhelmsdóttur um mikilvægi þorskveiða fyrir Vestmannaeyjar og staðbundin efnahagsleg áhrif 30% kvótaskerðingar, sem unnin var fyrir Atvinnuþróunarfélag Suðurlands að beiðni bæjarstjóra. Helstu niðurstöður eru þær að staðbundin efnahagsleg áhrif 30% þorskkvótaskerðingar á Vestmannaeyjar nema alls um 3.3. milljörðum króna á næsta ári.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að óska tafarlaust eftir fundi með Árna Matthiesen fjármálaráðherra og Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra sem leiða eiga verkefnisstýringu vegna mótvægisaðgerða vegna skerðingar á aflaheimildum í þorski fyrir hönd ríkisstjórnar.2. 200707198 - Sala á 6.787% eignarhlut Vestmannaeyjabæjar í HS

Bæjarstjóri gerði grein fyrir því að greiðsla fyrir hlut Vestmannaeyjabæjar hefði þegar borist. Þá gerði bæjarstjóri einnig grein fyrir helstu lykilstærðum hvað lán og lánasamsetningar varðar.


Í máli hans kom fram að það sem af er ári hefur Vestmannaeyjabær ekki þurft á rekstrarlánum að halda og er það nýmæli í rekstri sveitarfélagsins. Enn fremur gerði bæjarstjóri grein fyrir því að skuldir og skuldbingar Vestmannaeyjabæjar þann 30.06. 2007 væru:
Bæjarstjóður

Samtals: 1.383.081.044

Félagslegar íbúðir
Samtals: 665.538.086

Hafnarsjóður
Samtals: 415.279.998

Alls: 2.463.899.128

Lífeyrisskuldbindingar
ca: 1.600.000.000

Lífeyrisskuldbind.v.hafnarinnar
ca. 186.000.000

Skuldir alls: 4.249.899.128

Bæjarráð samþykkir að greiða strax niður erlend lán að upphæð 124.282.727. Þar með hafa öll erlend lán Vestmannaeyjabæjar verið greidd upp. Þá felur bæjarráð bæjarstjóra að undirbúa gerð minnisblaðs um lánasamsetningu sveitarfélagsins fyrir næsta fund bæjarráðs.


3. 200707192 - Staða samgöngumála

Bæjarstjóri gerði grein fyrir samtölum sem hann hefur átt við starfsmenn VST sem nú vinna að óháðri úttekt á forsendum jarðganga milli lands og Eyja. Von er á niðurstöðu hvað það varðar innan fárra daga.
Bæjarráð fagnar því að nú liggji brátt fyrir niðurstöður hvað jarðgöng varðar og leggur þunga áherslu á að tekin verði af öll tvímæli um það hvort ráðast eigi í gerð jarðganga milli lands og Eyja.


Bæjarstjóri gerði grein fyrir stöðu útboðs á flugi milli lands og Eyja.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni barst einungis tilboð frá Flugfélagi Íslands í þessa mikilvægu þjónustu. Tilboð þeirra var annarsvegar í tvær ferðir á dag allt árið og hinsvegar í tvær ferðir á dag í vetraráætlun og þrjár ferðir á dag í sumaráætlun. Málið er nú til meðferðar hjá samgönguráðuneytinu.

Bæjarráð leggur áherslu á að samið verði við Flugfélag Íslands um þrjár ferðir á dag yfir sumarmánuðina og að minnsta kosti einn dag í viku yfir vetrarmánuðina þar sem farnar eru þrjár ferðir enda flug milli Reykjavíkur og Vestmanneyja afar mikilvæg fyrir atvinnulífið í Vestmannaeyjum, og þá ekki síst yfir vetrartímann.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála hvað varðar löngu lofaðar næturferðir milli lands og Eyja. Engar fregnir hafa borist af því að til standi að efna það loforð þar sem samningar hafa ekki náðst milli ríkisins og Eimskipa.
Bæjarráð harmar seinagang hvað þetta varðar. Yfirlýsingar samgönguráðuneytis og ríkisstjórnar þar sem fullyrt var að rúmlega 30 næturferðum yrði bætt við áætlun Herjólfs skópu miklar væntingar í Vestmannaeyjum sem hafa nú verið að engu hafðar enda langt liðið á sumarið. Fjárhagslegt tjón ferðaþjónustuaðila er verulegt og óþægindi þau er bæjarbúar hafa orðið fyrir vegna flöskuhálsa í samgöngum verða vart metin til fjár.

Fyrir lá erindi frá ÍBV íþróttafélagi vegna næturferða Herjólfs yfir þjóhátíð. Þar kemur fram að fyrirsjáanlegt er verulegt álag á Herjólf vegna þjóðhátíðar og líklegt sé að þörf sé fyrir fleiri næturferðir með Herjólfi en nú eru á áætlun.
Þeir óska því eftir að Vestmannaeyjabær beiti sér fyrir því að næturferð verði bætt við aðfararnótt miðvikudagsins 1. ágúst n.k. og aðfaranótt fimmtudagsins 9. ágúst nk.


4. 200707195 - Skipan starfshóps vegna Pompei norðursins

Bæjarráð samþykkir að starfshópinn skipi:
Arnar Sigurmundsson, Íris Róbertsdóttir og Gísli Hjartarson

5. 200707194 - Skipan stýrihóps vegna goslokahátíðar 2008

Bæjarráð samþykkir að stýrihópinn skipi:
Helga Björk Ólafsdóttir, Páley Borgþórsdóttir og Páll Scheving Ingvarsson.

6. 200707186 - Umsögn vegna Þjóðhátíðar Vestmannaeyja 2007.

Bæjarráð samþykkir erindið svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig.

7. 200707189 - Umsögn Vestmannaeyjabæjar vegna umsóknar ÍBV-íþróttafélags um tækifærisleyfi til áfengissölu í tjaldi á þjóðhátíð 2007.

Bæjarráð samþykkir erindið svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig.

8. 200707187 - Endurnýjun umsóknar Sigurgeirs Scheving vegna gistiskálaleyfis fyrir Faxastíg 33, Vestmannaeyjum

Bæjarráð samþykkir erindið svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig.

9. 200707017 - Efni: Námskeið fyrir sveitarfélög um samningsstjórnun 13.-14. ágúst nk.


10. 200707073 - Fundargerð 744.fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga föstudaginn 22.júní 2007


11. 200707193 - Fundargerðir nefnda lagðar fyrir bæjarráð 2823
Fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs nr. 24 frá 26.júní sl.
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs nr. 64 frá 5. júlí sl.
Fundargerð menningar- og tómstundaráðs nr. 43 frá 5. júlí sl.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.15

Páley Borgþórsdóttir

Páll Scheving Ingvarsson

Páll Marvin Jónsson

Elliði Vignisson