Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2808

22.12.2006

Bæjarráð

 

2808. fundur. 

Ár 2006, föstudaginn 22. desember kl. 11.00 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu

 

Mættir voru: Gunnlaugur Grettisson, Páll Marvin Jónsson, Páll Scheving og Elliði Vignisson bæjarstjóri.

 

Fundargerð ritaði Rut Haraldsdóttir.

 

Fyrir var tekið:

 

 1. mál.

Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2007.

 

Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2007 til seinni umræðu í bæjarstjórn.

 

 1. mál

Bæjarstjóri lagði fram minnisblað um enduruppbyggingu Skipalyftunnar í Vestmannaeyjum.

 

Bæjarstjóri fór yfir þá stöðu sem upp er komin  hjá Vestmannaeyjahöfn í kjölfar þess mikla tjóns  sem varð á upptökubúnaði skipalyftunnar þann 17. október sl., en mannvirkið er alfarið í eigu Vestmannaeyjahafnar.   Bæjarstjóri lýsti þeirri skoðun sinni að Vestmannaeyjabær ætti að horfa til eflingar og uppbyggingar á lyftu til upptöku skipa. Þá kom einnig fram hjá honum að það væri hans rökstudda mat að hafnarlagalega séð væri ekkert því til fyrirstöðu að ríkið taki á sig 60% kostnaðar þess að ráðast í endurbyggingu upptökumannvirkis fyrir skip í Vestmannaeyjahöfn en slíkt er forsenda þess að bærinn geti ráðist í framkvæmdir.

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og tekur undir sjónarmið bæjarstjóra.  Þá felur bæjarráð bæjarstjóra að óska eftir því við samgönguráðherra og fjármálaráðherra að við gerð samgönguáætlunar verði gert ráð fyrir kostnaðarþátttöku ríkisins í uppbyggingu upptökumannvirkis fyrir skip. Það er von bæjarráðs að til þess bærir aðilar svo sem samgönguráðherra, sjávarútvegsráðherra, fjármálaráðherra, þingmenn Suðurlands og aðrir þeir sem um málið fjalla standi þétt við bakið á Vestmannaeyjabæ í þessu mikla hagsmunamáli..  

 

 1. mál

Verkefnið “Handritin heim”.  Rætt um verkefnið og stuðning Vestmannaeyjabæjar við það.

 

Bæjarstjóri gerði grein fyrir gangi verkefnisins sem fellt hefur verið að starfsemi Rannsókna- og fræðaseturs Vestmannaeyja.  Í máli hans kom fram að verkefnið “Handritin heim” hefði gengið afbragðs vel frá því  ýtt var af stað í Vestmannaeyjum á haustdögum.  Fyrirtæki eins og Sparisjóður Vestmannaeyja hefur komið myndarlega að verkefninu og tekið þátt í að fjármagna  starfsemi þess á fyrstu metrunum.  Nú þegar eru tveir starfsmenn í fullu starfi við þetta verkefni og líkur fyrir frekari fjölgun starfsmanna með auknum umsvifum þess.  Þá kom einnig fram að umsókn Vestmannaeyjabæjar og Kára Bjarnasonar um styrk af fjárlögum hafi verið vel tekið og  úthlutað hafi verið kr. 5.000.000 af fjárlögum árið 2007.  Vonir standa til að á komandi ári nái þetta verkefni að eflast og dafna enn frekar.

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og samþykkir að styrkja verkefnið um 700.000 á yfirstandandi ári.

 

 1. mál.

Bréf frá ÍBV dags. 20.desember 2006 þar sem fram kemur að ÍBV hafi veðsett Glitni banka hf. samninga Vestmannaeyjabæjar og ÍBV um rekstur á Týsheimilinu og rekstur íþróttavalla Vestmannaeyjabæjar. Gildistímar samninganna eru til ársins 2012, með uppsagnarákvæðum.

 

Bæjarráð samþykkir gjörninginn fyrir sitt leyti.

Páll Scheving sat hjá við afgreiðslu málsins.

 

 1. mál.

Bæjarstjóri kynnti samningsdrög vegna fyrirhugaðs leigusamnings við Nautilus um líkamsræktarsal í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja.

 

Í samningnum kemur skýrt fram að leigutakinn (Nautilus) skuli í einu og öllu standa straum af kostnaði við rekstur líkamsræktarsalarins.  Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti samninginn og felur bæjarstjóra að skrifa undir hann.

Páll Scheving tekur afstöðu til samningsins á bæjarstjórnarfundi þann 28. desember n.k.

 

 1. mál.

Bréf frá líkamsræktarstöðinni Hressó dags. 18.desember 2006 þar sem sótt er um frest til að skoða útboð í líkamsræktarsal Íþróttamiðstöðvarinnar.

 

Í fimmta lið hér að framan samþykkti bæjarráð í framhaldi af bæjarstjórnarfundi þann 14. desember sl. að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við Nautilus. Samningurinn liggur nú fyrir og mun taka gildi þann 3. janúar n.k. Hann mun verða lagður fyrir bæjarstjórnarfund þann 28. desember n.k. til samþykktar og því getur bæjarráð  ekki orðið við erindinu.

 

 1. mál.

Bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga dags. 6. desember 2006 þar sem fram kemur að lánasjóðurinn hyggst sameina í einn lánssamning þau útlán sjóðsins sem fjármögnuð eru með eigin fé og veitt á árinu 2004 og fyrr. Ekki er um nýja lántöku að ræða heldur sameiningu tiltekins fjölda skuldabréfa sem útgefin voru á tilteknu tímabili í einn lánssamning, lánskjör eru óbreytt, þ.e. verðtrygging skv. vísitölu neysluverðs, breytilegir vextir nú 4,4% og afborganir í samræmi við áður útgefin skuldabréf og veð í tekjum.

 

Bæjarráð samþykkir þessa breytingu.

 

 1. mál.

Bréf frá fjármálaeftirlitinu dags. 8. desember 2006 þar sem boðið er upp á námskeið um rafvæðingu innherjalista. Námskeiðið er ætlað útgefendum skuldabréfa í Kauphöll Íslands.

 

 1. mál.

Bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 7.desember 2006 þar sem sveitarstjórnir eru minntar á að skv. 61. og 66 gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, ber sveitarfélögum að ljúka gerð fjárhagsáætlunar ársins 2007 fyrir lok desembermánaðar. Skv. sömu lögum skal sveitarstjórn afgreiða þriggja ára áætlun innan tveggja mánaða frá afgreiðslu fjárhagsáætlunar.

 

 1. mál.

Bréf frá Einkaleyfastofu dags. 12. desember 2006 þar sem fram kemur að Einkaleyfastofan hefur, á grundvelli laga um byggðamerki, skráð byggðamerki Vestmannaeyjabæjar.

 

 1. mál

Bréf frá Snorraverkefni dags. 5. desember 2006 þar sem óskað er eftir stuðningi við Snorraverkefnið sumarið 2007.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

 

 1. mál

Trúnaðarmál.

 

 1. mál.

Trúnaðarmál.

 

 1. mál.

Trúnaðarmál.

 

 1. mál.

Fyrir lágu eftirfarandi fundargerðir:

 

 1. Fundargerð nr. 34 frá menningar- og tómstundaráði dags. 19. des. 2006.
 2. Fundargerð framkvæmda-og hafnarráðs nr. 13 dags. 20.des. 2006.
 3. Fundargerð umhverfis-og skipulagsráðs dags. 13.des. 2006.
 4. Fundargerð nr.738 frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 20.okt. 2006.

 

 

 

Fleira ekki bókað.  Fundi slitið kl.12.48

 

Gunnlaugur Grettisson (sign.)

Páll Scheving (sign.)

Páll Marvin Jónsson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)