Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2788

18.04.2006

BÆJARRÁÐ

2788. fundur.

Ár 2006, þriðjudaginn 18. apríl kl. 17.30 var haldinn fundur í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Arnar Sigurmundsson formaður, Guðrún Erlingsdóttir, Elsa Valgeirsdóttir og Bergur Elías Ágústsson.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Bæjarráð fjallaði um þann hluta tillögu Guðrúnar Erlingsdóttir bæjarfulltrúa, varðandi málefni leikskólans sem vísað var til bæjarráðs á síðasta fundi bæjarstjórnar, en hann hljóðaði þannig, “en við vinnuna skal höfð sú framtíðarsýn að leikskólapláss verði fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri og gjaldfrjáls leikskóli 5 ára barna, sbr. nýsamþykkta skóla- og æskulýðsstefnu Vestmannaeyjarbæjar.”

Í samþykktri þriggja ára áætlun Vestmannaeyjabæjar 2006 til 2009 er gert ráð fyrir að á tímabilinu verði öllum börnum 18 mánaða og eldri tryggt leikskólapláss. Jafnframt er gert ráð fyrir að nýr leikskóli á Sólalóðinni verði tekin í notkun fyrir árslok 2006, á sama tíma verður eldri deildum Sóla lokað.

Meirihluti bæjarráðs telur það hlutverk nýrrar bæjarstjórnar að vinna að þeim markmiðum sem finna má í nýsamþykktri skóla- og æskulýðsstefnu Vestmannaeyjabæjar.

Guðrún Erlingsdóttir óskar að bóka:

“Tel það hlutverk þessarar bæjarstjórnar að vinna að þeim markmiðum sem fram koma í tillögu minni um að tryggja börnum 12 mánaða og eldri leikskólapláss og gjaldfrjálsan leikskóla 5 ára barna. Enda er það er í samræmi við markmið samþykktar bæjarstjórnar frá 2. júní 2005.”

2. mál.

Fyrir lá samkomulag milli Vestmannaeyjabæjar og Teiknistofu PZ ehf. vegna væntanlegra uppkaupa á fasteigninni Bárustíg 16 (Sandprýði) og fyrirhugaðra framkvæmda á Baldurshagalóðinni.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samkomulag.

3. mál.

Fyrir lágu niðurstöður vegna útboðs á þakframkvæmdum o.fl. á fasteigninni Eyjahrauni 1 til 6.

Bæjarráð samþykkir tilboð lægstbjóðanda, Steina og Olla ehf., að fjárhæð 6.382.160 krónur og vísar fjárhæðinni til endurskoðunar fjárhagsáætlunar sbr. fyrri samþykkt bæjarráðs.

4. mál.

Fyrir lágu afrit af undirskriftarlistum frá starfsmönnum Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum vegna launamála, en samningsaðili þeirra er fjármálaráðuneytið f.h. ríkissjóðs.

5. mál.

Fyrir lá bréf frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum, dags. 7. apríl sl., þar sem leitað er eftir umsögn á umsókn Þrastar Bjarnhéðinssonar vegna skemmtanaleyfis fyrir Cafe Drífanda.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu hvað varðar grenndarkynningu til skipulags- og byggingarfulltrúa. Að grenndarkynningu lokinni mun bæjarráð taka afstöðu til erindisins.

6. mál.

Fyrir lá fundarboð vegna félagafundar í Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands, sem haldinn verður 26. apríl nk. á Hótel Selfossi.

Bæjarráð samþykkir að Bergur E. Ágústsson bæjarstjóri, fari með umboð og atkvæði Vestmannaeyjabæjar á fundinum og á aukaaðalfundi SASS sama dag.

7. mál.

Fyrir lá bréf frá Teiknistofu PZ ehf. dags. 10. apríl sl., vegna afsals fyrir fasteigninni Hásteinsvegi 20 b, sem áður var kjötvinnsla og reykhús.

Bæjarráð þakkar Herði Adolfssyni og Sambandi íslenskra samvinnufélaga fyrir aðild þeirra að málinu, en húseignin var afhent bænum til niðurrifs án annara útgjalda. Bæjarráð samþykkir að fela Þjónustumiðstöðinni niðurrif hússins.

8. mál.

Fyrir lágu drög að nýjum reglum um opnunartíma veitinga- og skemmtistaða í Vestmannaeyjum og staðsetningu þeirra skv. aðalskipulagi.

Bæjarráð mun afgreiða málið á næsta fundi sínum.

9. mál.

Fyrir lá beiðni frá umhverfis- og framkvæmdasviði um aukafjárveitingu til að uppfylla samning milli Vestmannaeyjabæjar og eigenda fasteignarinnar Breiðablik, vegna uppsteypu á vegg milli fasteignarinnar og nýja leikskólans á Sólalóðinni.

Bæjarráð samþykkir erindið og felur umhverfis- og framkvæmdasviði að bjóða verkið út. Tekin verður afstaða til aukafjárveitingar á grundvelli tilboða þegar þar að kemur.

10. mál.

Fyrir lágu drög af ítarlegri reglum um lækkun, niðurfellingu eða styrki vegna fasteignagjalda í Vestmannaeyjum, í samræmi við nýja reglugerð um fasteignaskatt.

Bæjarráð mun fjalla nánar um málið á næsta fundi sínum.

11. mál.

Fyrir lá bréf frá foreldrafélögum leikskóla bæjarins varðandi rekstur eldhúss í nýja leikskólanum á Sólalóðinni.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.

12. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 16. mars sl., vegna lóðarleigusamnings við Birkihlíð 10, Vestmannaeyjum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu. Bæjarráð vísar málinu að öðru leyti til endanlegrar afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs.

13. mál.

Fyrir lá til kynningar fundargerð menningar- og tómstundaráðs frá 12. apríl sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.30.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Elsa Valgeirsdóttir (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Bergur Elías Ágústsson (sign.)