Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2782

13.02.2006

BÆJARRÁÐ

2782. fundur.

Ár 2006, mánudaginn 13. febrúar kl. 17.30 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Arnar Sigurmundsson formaður, Guðrún Erlingsdóttir, Elliði Vignisson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Bæjarráð þakkar fjölskyldu Einars Sigurðssonar og Svövu Ágústsdóttur fyrir rausnarlegar gjafir til Vestmannaeyjabæjar sem gefnar voru til minningar um þau hjón í tilefni þess að hundrað ár voru liðin frá fæðingu Einars, 7. febrúar sl. Um er að ræða listaverk eftir Gerði Helgadóttur sem staðsett er nyrst á Skanssvæðinu og brjóstmyndir af þeim hjónum sem komið hefur verið fyrir í Byggðasafninu.

2. mál.

Fyrir lá samþykkt Launanefndar sveitarfélaga, dags. 28. janúar sl., vegna stéttarfélaga sem samið hafa um starfsmat við nefndina og tímabundnar launaviðbætur við gildandi kjarasamning við Félag leikskólakennara, sbr. 4. mál frá fundi bæjarráðs þann 6. febrúar sl.

Bæjarráð samþykkir að nýta að fullu þær heimildir sem felast í samþykkt Launanefndarinnar frá 28. janúar sl. Jafnframt samþykkir bæjarráð að gera ráð fyrir hækkun launaútgjalda umfram samþykkta fjárhagsáætlun að fjárhæð allt að 34 m.kr. sem koma til greiðslu á árinu 2006.

3. mál.

Fyrir lá ályktun frá leikskólakennurum í Vestmannaeyjum, vegna samþykktar Launanefndar frá 28. janúar sl.

4. mál.

Bæjarstjóri greindi frá niðurstöðum vísindamanna varðandi mat á skýrslu ÍSOR um jarðfræðilegar rannsóknir milli lands og Eyja, sem gerð var grein fyrir á fundi samgönguhóps um Vestmannaeyjar 8. febrúar sl.

Þann 15. febrúar nk. verður lögð fram skýrsla á fundi samgönguhópsins um möguleika þess að byggja ferjuhöfn í Bakkafjöru. Bæjarráð leggur ríka áherslu á að allri undirbúningsvinnu verði hraðað sem kostur er, svo hægt verið að taka ákvörðun um framtíðar samgöngur við Vestmannaeyjar sem allra fyrst.

Bæjarráð sem fer með samgöngumál mun fylgjast náið með stöðu rannsókna í Bakkafjöru.

5. mál.

Fyrir lá bréf frá Stefáni Ólafssyni, f.h. Brands ehf., dags. 8. febrúar sl., vegna opnunartíma veitingarstaðarins Cafe María/Conero.

Bæjarráð frestar afgreiðslu erindisins þar til fyrir liggja heilstæðar reglur um opnunartíma og staðsetningar veitinga- og skemmtistaða í Vestmannaeyjum. Bæjarráð felur Viktori S. Pálssyni að móta reglur og leggja fyrir bæjarráð.

6. mál.

Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 2. febrúar sl., vegna ráðstefnu um tækifæri íslenskra sveitarfélaga í alþjóðlegu samstarfi sem haldin verður þann 23. febrúar nk.

7. mál.

Fyrir lá bréf frá nefnd um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu, dags. 3. febrúar sl., þar sem Vestmannaeyjabæ er gefið tækifæri til að veita umsögn um frumvarp að lögum um heilbrigðisþjónustu.

Bæjarráð samþykkir að fela framkvæmdastjórum fjármála-, stjórnsýslu- og fjölskyldusviðs að fara yfir einstaka þætti frumvarpsins og leggja mat á þær fyrirhugaðar breytingar og hugmyndir sem þar koma fram og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.

8. mál.

Fyrir lá fréttabréf frá Lánasjóði sveitarfélaga, dags. 1. febrúar sl.

9. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 6. febrúar sl., vegna viðbótarupplýsinga Bændasamtaka Vestmannaeyja er varða erindi félagsins til ráðuneytisins.

10. mál.

Fyrir lá samkomulag milli fulltrúa Vestmannaeyjabæjar og Shellmótsnefndar um dagsetningar goslokahátíðar og Shellmótsins 2006 til 2013.

Bæjarráð samþykkir samkomulagið fyrir sitt leyti, en þar kemur m.a. fram að goslokahátíð á þessu ári verður helgina 8. til 9. júlí og Shellmótið 28. júní til 2. júlí.

11. mál.

Fyrir lágu eftirfarandi fundargerðir:

  1. Fundargerð 392. stjórnarfundar SASS frá 2. febrúar sl.
  2. Fundargerð hafnarstjórnar frá 8. febrúar sl.
  3. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. janúar sl.
  4. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. febrúar sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.15.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Bergur Elías Ágústsson (sign.)