Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2781

06.02.2006

BÆJARRÁÐ

2781. fundur.

Ár 2006, mánudaginn 6. febrúar kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Arnar Sigurmundsson formaður, Guðrún Erlingsdóttir, Stefán Jónasson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Á fundinn kom Frosti Gíslason, framkv.stj. umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar. Farið var yfir greinargerð um Sorpeyðingarstöðina og nauðsynlegar endurbætur á búnaði hennar sem þarf að ráðast í á næstu misserum.

Bæjarráð samþykkir að gera ráð fyrir viðbótar fjárveitingu umfram 10 milljónir króna, vegna nauðsynlegra endurbóta á Sorpeyðingarstöðinni og felur framkvæmdastjóranum að leita tilboða í endurbætur á ofni og finna viðunandi lausn á starfsmannaaðstöðu. Þegar tilboð og kostnaðaráætlun liggur fyrir verða gerðar breytingar á samþykktri fjárhagsáætlun.

2. mál.

Formaður bæjarrráðs og bæjarstjóri gerðu grein fyrir viðræðun sínum við stjórnendur Hitaveitu Suðurnesja hf. 1. febrúar sl., þar sem til umræðu voru sameiginleg mál er varða uppgjör vegna Sorpeyðingarstöðvar Vm., orkuviðskipti, lífeyrismál, tjónamál og önnur mál sem varða viðskipti Vestmannaeyjabæjar og Hitaveitu Suðurnesja hf.

Bæjarráð lýsir ánægju sinni að búið sé að ljúka ofangreindum málum, en vekur jafnframt athygli á því að gjaldskrármál hljóta ávallt að vera til umræðu hjá Vestmannaeyjabæ sem er einn af stærri viðskiptamönnum Hitaveitu Suðurnesja hf.

3. mál.

Á fundinn kom fulltrúi Golfklúbbs Vestmannaeyja, Hörður Óskarsson vegna óska GV um viðræður um samstarf við slátt, umhirðu ofl á opnum svæðum bæjarins. Bæjarstjóri gerði grein fyrir þeirri vinnu sem bærinn hefur lagt í vegna málsins og fékk fulltrúi GV þau gögn er varða umfang verksins í sínar hendur.

Verði framhald á málinu mun bæjarstjóri leggja það fyrir bæjarráð á nýjan leik til ákvörðunar.

4. mál.

Fyrir lá samþykkt Launanefndar, dags. 28. janúar s.l., vegna stéttarfélaga sem samið hafa um starfsmat við nefndina.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að áætla heildarútgjöld vegna þeirra heimilda sem launanefndin hefur veitt sveitarfélögum til tímabundina launaviðbóta við gildandi kjarasamninga. Bæjarráð mun taka málið til afgreiðslu á næsta fundi sínum.

5. mál.

Fyrir lá bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga dags. 1. febr. sl. þar sem fram kemur að bréf formanns bæjarráðs og bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar frá 20. jan. sl. hafi verið lagt fram á fundi stjórnar Sambandsins 27. jan. sl. en þar var bent á mikilvægi öflugra heildarsamtaka, valddreifingu og dreifingu ábyrgðarstarfa á vettvangi Sambandsins.

6. mál.

Fyrir lá bréf frá menntamálaráðuneytinu, dags. 20. janúar s.l., vegna tilnefningar Surtseyjar á heimsminjaskrá UNESCO.

Bæjarráð fagnar tilnefningunni og vonar að hún hafi jákvæð áhrif á þróun náttúrutengdrar ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum.

7. mál.

Fyrir lágu undirskriftarlistar frá grunnskólakennurum og skólastjórnendum, dags. 30. janúar s.l., vegna sameiningu skólanna.

8. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 20. janúar sl., vegna erindis sem Bændasamtök Vestmannaeyja sendu ráðuneytinu til athugunar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda greinargerð vegna málsins til ráðuneytisins.

9. mál.

Fyrir lá bréf frá Símanum, dags. 26. janúar sl., vegna skipulagsbreytinga hjá fyrirtækinu.

Bæjarráð skorar á Símann að endurskoða ákvörðun sína um lokun verslunar og fækkun starfsmanna í Vestmannaeyjum og frekari skerðingu á þjónustustigi símnotenda í Vestmannaeyjum. Jafnframt samþykkir bæjarráð að fylgja ályktunni eftir með viðræðum við forráðamenn Símans.

10. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 26. janúar sl., vegna endurskoðunar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma sjónarmiðum Vestmannaeyjabæjar á framfæri og vekja sérstaka athygli á sérstöðu sjávarbyggða og eyjasamfélaga í samanburði á þjónustustigi og rekstrarkostnaði.

11. mál.

Fyrir lá bréf frá Herjólfsbæjarfélaginu, dags. 2. febr. sl., þar sem farið er fram á niðurfellingu gatnagerðargjalda vegna byggingar Herjólfsbæjar í Herjólfsdal.

Bæjarráð getur ekki orðið við ósk um niðurfellingu gatnargerðargjalda en samþykkir í ljósi sérstöðu málsins, sem er bygging fornbæjar í Herjólfsdal, að veita félaginu styrk sem nemur álögðum gatnagerðargjöldum.

12. mál.

Undir þessum lið átti að ræða tillögu Andrésar Sigmundssonar, áheyrnarfulltrúa, en vegna fjarveru tillögumanns var tillagan tekin af dagskrá. Tillögumanni er heimilt að taka málið á dagskrá næsta bæjarstjórnarfundar undir þessum lið, þar sem hann getur þá mælt fyrir henni.

13. mál.

Fyrir lágu eftirfarandi fundargerðir:

  1. Fundargerð skólamálaráðs nr. 164. frá 27. janúar sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.15.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Bergur Elías Ágústsson (sign.)