Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2780

25.01.2006

BÆJARRÁÐ

2780. fundur.

Ár 2006, miðvikudaginn 25. janúar kl. 18.00 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Arnar Sigurmundsson formaður bæjarráðs, Guðrún Erlingsdóttir, Elliði Vignisson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Fyrir lá gjafabréf frá Fjólu Þorsteinsdóttur frá Laufási, þar sem hún gefur Byggðasafni Vestmannaeyja málverk eftir tengdaföður sinn, Baldvin Björnsson, gullsmið og listmálara sem lengi bjó í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð þakkar höfðinglega gjöf og verður málverkinu komið fyrir í Listasafni Vestmannaeyja í Safnahúsi bæjarins.

2. mál.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ræða við Eimskip hf., rekstraraðila Herjólfs, um þá reynslu sem komin er á netpantanir og breytingar á einingakerfinu og þjónustu um borð í skipinu. Bæjarráð leggur áherslu á að áfram verði boðið upp á einingar eins og verið hefur, samhliða þeirri nýjung að hægt sé að panta ferðir með skipinu á netinu.

3. mál.

Fyrir lá greinargerð Bergs E. Ágústssonar bæjarstjóra vegna hugsanlegrar aðkomu Vestmannaeyjabæjar vegna knattspyrnuhúss.

Bæjarráð samþykkir að vísa greinargerðinni til afgreiðslu bæjarstjórnar.

4. mál.

Fyrir lá umsókn um áfengisveitingaleyfi vegna Alþýðuhússins.

Bæjarráð samþykkir erindið að því tilskyldu að aðrir aðilar sem um málið eiga að fjalla samþykki það einnig.

5. mál.

Viðhaldsáætlun fasteigna bæjarins vegna ársins 2006.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi áætlun, sem er í samræmi við fyrirliggjandi fjárhagsáætlun ársins 2006.

6. mál.

Guðmundur Þ. B. Ólafsson tók við stöðu rekstrarstjóra Þjónustumiðstöðvar 1. janúar 2006 samhliða starfi sínu sem eftirlitsmaður fasteigna bæjarins.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir ráðningarsamningi og starfslýsingu, sem bæjarráð samþykkti.

7. mál.

Fyrir lágu skjöl vegna kaupa Vestmannaeyjabæjar á fasteigninni Skólavegi 41, Búland, Vestmannaeyjum.

Bæjarstjóra falið að undirrita afsal vegna kaupanna, en kaupverð er kr. 650. þús. og verður húseignin ásamt útihúsi rifin á næstunni.

8. mál.

Rætt var um hugsanlega skaðabótakröfu Vestmannaeyjabæjar vegna tjóns sem rekja má til brota olíufélaganna á samkeppnislögum.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að skrifa undir umboð til handa Eggerti B. Ólafssyni, hdl., um að annast málið f.h. Vestmannaeyjabæjar.

9. mál.

Fyrir lágu niðurstöður nefndar sem hafði það hlutverk að annast kynningu og mat á umsóknum vegna allt að 10 m.kr. hlutafjárþátttöku Vestmannaeyjabæjar á árinu 2006 til eflingar framleiðslu og/eða nýsköpunarstarfsemi í Vestmannaeyjum, sbr. afgreiðsla bæjarráðs frá 28. nóvember sl.

Bæjarráð samþykkir tillögur nefndarinnar, en þær gera ráð fyrir hlutafjárkaupum Vestmannaeyjabæjar í tveimur nýsköpunarfyrirtækjum í Vestmannaeyjum að fjárhæð allt að sjö milljónum króna, að uppfylltum skilyrðum sem fylgja tillögunum.

10. mál.

Fyrir lá greinargerð bæjarstjóra vegna 7. máls bæjarráðs frá 9. janúar sl., samstarfssamningur um framhaldsnám í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ganga frá samningi sem byggir að mestu á fyrirliggjandi tillögu.

11. mál.

Fyrir lágu samningar við Alta um ráðgjafarþjónustu vegna íbúaþings í Vestmannaeyjum, sem haldið verður 18. febrúar nk.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samning.

12. mál.

Fyrir lá bréf frá Fasteign hf., dags. 19. janúar sl., vegna lækkunar leiguverðs hjá Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf.

13. mál.

Fyrir lá bréf frá Kór ehf., dags. 8. janúar sl., vegna kaupa á húsnæði Þjónustumiðstöðvar Vestmannaeyjabæjar.

Bæjarráð hafnar erindinu.

14. mál.

Fyrir lá erindi frá Páli Einarssyni fjármálastjóra, vegna tilfærslna innan endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar ársins 2005.

Bæjarráð samþykkir erindið enda hefur það ekki áhrif á endanlega niðurstöðu ársins.

15. mál.

Fyrir lá ályktun formannafundar Samflots bæjarstarfsmannafélaga, dags. 10. janúar sl.

16. mál.

Fyrir lá bréf frá Ambia, dags. 11. janúar sl., vegna athugasemda við 4. mál bæjarráðsfundar frá 9. janúar sl.

Með aðild Vestmannaeyjabæjar að Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands sem tók gildi nú um áramótin, felst m.a. að komið verði á fót ráðgjöf á sviði atvinnu- og byggðarmála í Vestmannaeyjum og er það hluti af kjarnastarfsemi Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands.

17. mál.

Fyrir lá bréf frá Starfsmenntaráði, dags. 29. desember sl., vegna heimsóknar ráðsins til Vestmannaeyja.

18. mál.

Fyrir lágu eftirfarandi fundargerðir:

  1. Fundargerð 82. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 11. janúar sl.
  2. Fundargerð 391. stjórnarfundar SASS frá 5. janúar sl.
  3. Fundargerð menningar- og tómstundaráðs frá 10. janúar sl.
  4. Fundargerð skólamálaráðs frá 17. janúar sl.
  5. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. janúar sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.45.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Bergur Elías Ágústsson (sign.)