Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2774

14.11.2005

BÆJARRÁÐ

2774. fundur.

Ár 2005, mánudaginn 14. nóvember kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Arnar Sigurmundsson formaður, Guðrún Erlingsdóttir, Elliði Vignisson, Andrés Sigmundsson áheyrnarfulltrúi og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Áður en gengið var til auglýstrar dagskrár var leitað afbrigða, sbr. 2. mgr. 19. gr. til að taka eftirfarandi mál á dagskrá fundarins nr. 1 til 4, 7 og 8.

Var það samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Fyrir lágu tillögur framkvæmdanefndar um nýskipan lögreglumála.

Að ósk bæjarráðs kom á fundinn Karl Gauti Hjaltason, sýslumaður í Vestmannaeyjum til að ræða tillögurnar við bæjarráðsmenn. En tillögurnar verða kynntar á fundi á Selfossi á morgun. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa óskað eftir því að haldinn verði sérstakur kynningarfundur um málið í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð leggst alfarið gegn öllum hugmyndum sem kunna að leiða til þess að dregið verði úr löggæslu í Vestmannaeyjum og felur fulltrúum bæjarins að koma þessum skilaboðum á framfæri á fundinum á morgun.

2. mál.

Fyrir lá skýrsla Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) um berggrunnskönnun á hugsanlegri jarðgangaleið milli lands og Eyja.

Bæjarráð mun fjalla nánar um skýrsluna þegar fyrir liggur álit tveggja óháðra sérfræðinga í jarðgangagerð sem Vegagerðin hefur fengið til að leggja mat á niðurstöður hennar. En reiknað er með að matið liggi fyrir um miðjan næsta mánuð.

3. mál.

Gerð var grein fyrir fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var 10. og 11. nóvember sl.

Jafnframt var fjallað um 9 mánaða stöðukeyrslu Vestmannaeyjabæjar og stofnana.

Andrés Sigmundsson óskar bókað:

“Samkvæmt 9 mánaða stöðukeyrslu fyrir Vestmannaeyjabæ og stofnanir er ljóst að fjárhagsáætlun 2005 er sprungin í tætlur. Framúrkeyrslur eru verulegar sem dæmi:

Félagsþjónustan 5.9 milljónir fram úr áætlun.

Fræðslu og uppeldismál 24.3 milljónir fram úr áætlun.

Menningarmál 7.9 miljónir fram úr áætlun.

Æskulýðs- og íþróttamál 17.1 milljón fram úr áætlun.

Hér eru aðeins fá dæmi af framúrkeyrslum. Ef litið er á einstaka þætti er Íþróttamiðstöðin komin með 12.5 milljónir fram úr áætlun. Hraunbúðir 8.8 milljónir fram úr áætlun.

Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin hafa sameiginlega aukið vanda Vestmannaeyjabæjar stórum á síðustu misserum. Eins og áður sagði er fjárhagsáætlun fyrir 2005 sprungin í tætlur og því ljóst að mjög erfiðir tímar eru framundan og það örlar ekki á úrræðum.

Meirihluti bæjarstjórnar er langt frá því að uppfylla samning er gerður var við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og virðist nú stefna í hreint óefni hjá bæjarfélaginu undir forustu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.”

Bæjarráð óskar bókað:

“Bæjarráð tekur fram að rekstur bæjarfélagsins byggist á jafnvægi tekna og útgjalda. Fyrr á þessu ári var gengið frá greiðslu vegna starfsmats að fjárhæð krónur rúmlega 60. milljónir og skýrir það að töluverðu leyti framúrkeyrslu nokkurra málaflokka. En ekki var gert ráð fyrir þeim útgjöldum nema að litlu leyti í fjárhagsáætlun ársins 2005. Að lokum skal þess getið að mismunur tekna og gjalda eru í fullu samræmi við áðurnefnda fjárhagsáætlun.”

Andrés Sigmundsson óskar bókað:

“Bókun meirihlutans staðfestir einfaldlega að fjárhagsáætlun ársins 2005 er sprungin í tætlur.”

4. mál.

Fyrir lá bréf frá Bændasamtökum Vestmannaeyja og Hestamannafélaginu Gáska, dags. 3. nóvember sl., vegna samninga um afnot af beitilöndum á Heimaey.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ræða nánar við bréfritara.

Andrés Sigmundsson óskar bókað:

“Það er eðlilegt að frjáls félagasamtök mótmæli þeirri ósvífnu fyrirætlan Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að stofna til nýrra skatta sem leggja skal á félaga í nokkrum félögum í bæjarfélaginu. Í þessu tilfelli er um að ræða nýjan skatt sem fyrirhugað er að leggja á alla þá er nýta land á einhvern hátt. Þetta á jafnt við þá er halda hesta, fé eða Golfklúbb Vm. og þá er hugsa um Gaujalund svo eitthvað sé nefnt. Skattheimta sem þessi er vægast sagt mjög óeðlileg og ég furða mig á tilgangi með að skattleggja alla þessa aðila sérstaklega auk alls annars. Enginn samstaða er um þennan nýja skatt hvorki í bæjarstjórn né við hagsmunaaðila. Ekki er ljóst nú hvort lagaheimild er fyrir þessum nýja skatti en það mun koma í ljós síðar. Eins minni ég á reglur um jafnræði. Ég mótmæli þessari fyrirætlan meirihlutaflokkana um nýja skattlagningu á frjáls félagasamtök í bænum.”

5. mál.

Fyrir lá bréf frá Svæðisvinnumiðlun Suðurlands, dags. 2. nóvember sl., vegna aðgangs fólks á atvinnuleysisskrá að sundstöðum.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að kanna hvernig þessum málið er fyrirkomið hjá öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi.

6. mál.

Fyrir var tekið 7. mál í fundargerð bæjarráðs nr. 2770 frá 20. september sl., vegna innheimtu á fasteignagjöldum.

Bæjarráð samþykkir að gera ekki breytingar á innheimtufyrirkomulagi fasteignagjalda.

7. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 7. nóvember sl., um endurskoðun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að fylgja eftir umræðum á fundinum við formann stjórnar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

8. mál.

Upplýst var að von væri á þingmönnum Suðurkjördæmis til Vestmannaeyja, föstudaginn 18. nóvember nk.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirbúa dagskrá.

9. mál.

Eftirfarandi fundargerðir lágu fyrir:

a. Fundargerð 80. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 2. nóvember sl.

b. Fundargerð 388. stjórnarfundar SASS frá 27. október sl.

c. Fundargerð skólamálaráðs nr. 160 frá 1. nóvember sl.

d. Fundargerð fjölskylduráðs frá 31. október sl.

e. Fundargerð menningar- og tómstundaráðs nr. 18 frá 8. nóvember sl.

f. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs nr. 31 frá 9. nóvember sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20.00.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Elliði Viginsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)

Bergur Elías Ágústsson (sign.)