Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2773

31.10.2005

BÆJARRÁÐ

2773. fundur.

Ár 2005, mánudaginn 31. október kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Arnar Sigurmundsson formaður, Guðrún Erlingsdóttir, Elliði Vignisson, Andrés Sigmundsson áheyrnarfulltrúi og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Bæjarráð Vestmannaeyja leggur mikla áherslu á áframhaldandi mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir flugsamgöngur á Íslandi og leggst gegn hugmyndum um að flytja aðalstöðvar innanlandsflugs frá Reykjavík. Staðsetning flugvallarins í höfðuborg landsins skiptir gríðarlegu máli fyrir allt innanlandsflug og nálægð vallarins við Landspítala- Háskólasjúkrahús ræður miklu þegar mínútur geta skipt sköpum.

Bæjarráð ítrekar mikilvægi þess að áætlunarflug Landsflugs á flugleiðinni milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja verði starfrækt af metnaði og ekki verði gerðar fyrirvaralitlar breytingar á auglýstri áætlun.

Bæjarráð samþykkir að taka upp viðræður við viðkomandi stjórnvöld með það fyrir augum að flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja lúti sömu reglum hvað varðar niðurgreiðslu fargjalda og gildir á flestum öðrum flugleiðum innanlands.

Andrés Sigmundsson óskaði bókað:

“Mikilvægi góðra samgangna við Vestmannaeyjar er forsenda þess að snúa megi við þeirri þróun sem ríkt hefur í Eyjum, þ.e. fólksfækkun og stöðugar hækkanir á far- og farmgjöldum. Mikilvægi þess að flugvöllur verði staðsettur í Reykjavík er augljós. Í dag hafa opnast möguleikar á að flugvöllur í Reykjavík verði fundinn nýr staður í eða við Reykjavík og er það eðlilegt og fullkomlega ásættanlegt fyrir Vestmannaeyinga. Það er löngu tímabært að fargjöld hvort sem um flug eða siglningar er að ræða verði lækkaðar all verulega. Því tel ég eðlilegt að taka upp viðræður við stjórnvöld um verulega lækkun far- sem og farmgjalda.”

2. mál.

Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkir að skipa vinnuhóp um framtíðarsýn í slökkviliðs- og eldvarnarmálum í Vestmannaeyjum. Vinnuhópurinn hefur það hlutverk að fara yfir núverandi húsnæðismál slökkviliðsins, tækjabúnað, aðstöðu brunavarða, stöðu eldvarnareftirlits og draga fram helstu áhersluatriði sem vinna þarf að í náinni framtíð. Vinnuhópinn skipa settur slökkviliðsstjóri, aðstoðarslökkviliðsstjóri, fulltrúar Brunavarðafélags Vestmannaeyja og Björgunarfélag Vestmannaeyja auk framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og formanns umhverfis- og skipulagsráðs.

Tillögum skal skilað til bæjarráðs eigi síðar en 30. nóvember 2005.

3. mál.

Rætt um undirbúning aðalfundar SASS, m.a. samstarfsverkefni SASS um náms- og meðferðarúrræði fyrir börn í 5 – 10 bekk grunnskóla á Suðurlandi sem fjallað verður um á aðalfundi SASS þann 25. og 26. nóvember nk.

Bæjarráð samþykkir að leggja til við aðalfund SASS að fast framlag sveitarfélaganna verði lækkað úr 20% eins og núverandi áætlun gerir ráð fyrir og verði lækkað í 5%. Í samræmi við þessa tillögu verði hlutdeild sveitarfélaga sem nýta þjónustu hækkuð úr 40 % í 55 % og hlutur ríkisins verði eftir sem áður 40% af heildarkostnaði.

Bæjarstjóra falið að senda tillöguna til aðalfundar SASS fyrir 6. nóvember nk.

4. mál.

Farið var yfir 9. mánaða stöðukeyrslu Vestmannaeyjabæjar og stofnana vegna ársins 2005. Á næsta reglulega fundi bæjarráðs verður farið nánar yfir stöðukeyrsluna og hún borin saman við fjárhagsáæltun og samþykktar aukafjárveitingar á þessu ári.

5. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 13. október sl., vegna kæru Andrésar Sigmundssonar bæjarfulltrúa við málsmeðferð tveggja tillagana á fundi bæjarstjórnar þann 22. september sl.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.

6. mál.

Fyrir lá bréf frá Golfklúbbi Vestmannaeyja, dags. 20. október sl., vegna samstarfs um slátt og umhirðu á golfvelli Vestmannaeyja og opnum svæðum.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til umhverfis- og skipulagsráðs, jafnframt felur bæjarráð bæjarstjóra og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að ræða við bréfritara.

7. mál.

Fyrir lá umsókn um leyfi til áfengisveitinga frá Svanhildi Guðlaugsdóttur, vegna Skýlisins, Friðarhöfn.

Bæjarráð samþykkir erindið að því tilskyldu að þeir aðilar sem um slík mál fjalla samþykki það einnig.

8. mál.

Fyrir lá samningur milli Vestmannaeyjabæjar og Landsíma Íslands um fjarskiptaþjónustu, sbr. tilboð nr. 13114 milli Landsímans og ríkiskaupa.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samning og felur bæjarstjóra að undirrita samninginn.

9. mál.

Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 26. október sl., vegna fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2005.

10. mál.

Fyrir lá erindi frá Stígamótum, dags. 19. okt. sl., um fjárframlög fyrir árið 2006.

11. mál.

Bæjarráð samþykkir að næstu fundir bæjarstjórnar verði 17. nóvember, 8. desember og 29. desember nk.

12. mál.

Fyrir lá eftirfarandi fundargerð

  1. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. okt. sl.

Varðandi 6. mál í fundargerðinni, samningar um afnot af beitilandi á Heimaey, var gerð grein fyrir viðræðum við fulltrúa Bændasamtaka Vestmannaeyja og Hestamannafélagsins Gáska. Bæjarráð samþykkir að leggja fyrir bæjarstjórn samning um afnot af beitilandi með nokkrum breytingum sem fram komu á fundinum og gerð eru skil í framlögðum drögum.

13. mál.

Bæjarráð samþykkir aukafjárveitingu að fjárhæð 300.000 krónur til framkvæmda við gangstétt sunnan við Miðstöðina við Strandveg og tengist framkvæmdin mótun bílastæða.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20.05.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Elliði Viginsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)

Bergur Elías Ágústsson (sign.)