Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2767

10.08.2005

BÆJARRÁÐ

2767. fundur.

Ár 2005, miðvikudaginn 10. ágúst kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mætt voru: Arnar Sigurmundsson formaður, Guðrún Erlingsdóttir, Elliði Vignisson, Andrés Sigmundsson áheyrnarfulltrúi og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Bergur Elías Ágústsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Fyrir lá 6 mánaða bókhaldskeyrsla Vestmannaeyjabæjar, tekjur og gjöld málaflokka.

Bæjarráð mun ræða einstaka liði nánar á næsta fundi.

2. mál.

Drög að samningi við skólaþróunarsvið kennaradeildar Háskólans á Akureyri vegna verkefnisstjórnar í skóla- og æskulýðsmálum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar með áorðnum breytingum í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar. Bæjarráð samþykkir að gera ráð fyrir kostnaði vegna verkefnisins í endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 og fjárhagsáætlun fyrir árið 2006.

3. mál.

Rætt var um útboð ríkiskaupa fyrir hönd heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á sjúkraflugi fyrir Vestmannaeyjar.

Í útboðsgögnum ríkiskaupa er ekki lengur skilyrt að sjúkraflugvél sé staðsett í Vestmannaeyjum, eins og verið hefur í mörg undanfarin ár. Bæjarráð Vestmannaeyja telur það með öllu óviðunandi að sjúkravél sem ætlað er að þjóna Vestmannaeyjum sé ekki til staðar á Vestmannaeyjaflugvelli. Þær aðstæður geta skapast að með öllu sé ófært að lenda í Vestmannaeyjum, en á sama tíma mögulegt að sjúkraflugvél geti tekið á loft frá Eyjum. Slík tilvik hafa gerst nokkru sinnum á undanförnum árum. Að auki getur viðbragðstími til að bregðast við óvæntum aðstæðum skipt sköpum ef flugvélin er staðsett í Eyjum frekar en í Reykjavík.

Bæjarráð skorar á heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra að gera nú þegar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að þessi öryggisþjónusta verði skert.

4. mál.

Útboð á rekstri m.s Herjólfs.

Formaður bæjarráðs og bæjarstjóri gerðu grein fyrir aðkomu Vestmannaeyjabæjar að undirbúningi útboðs á rekstri m.s. Herjólfs 2006 til 2010 samanber ákvæði í samningi við Vegagerðina frá desember 2004

Bæjarráð fagnar fjölgun ferða og þeirri auknu þjónustu sem birtast í útboði Vegagerðarinnar á m.s. Herjólfi sem tekur gildi frá og með ársbyrjun 2006.

5. mál.

Fyrir lá svar Vestmannaeyjabæjar til Byggðastofnunar vegna byggðaáætlunar.

6. mál.

Rekstrarform líkamsræktarsalarins í Íþróttamiðstöðinni.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kynna möguleg rekstrarform líkamsræktarsalarins í Íþróttamiðstöðinni á næsta fundi menningar- og tómstundaráðs.

7. mál.

Rekstrarform grjótnáms Vestmannaeyjabæjar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kynna möguleg rekstrarform grjótnámsins í á næsta fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

8. mál.

Flutningur á upplýsingamiðstöð Vestmannaeyjabæjar í andyrri Safnahússins.

Bæjarráð samþykkir flutninginn og mun gera ráð fyrir stofnkostnaði vegna þessa í endurskoðaðri fjárhagsáætlun ársins 2005. Áætlaður stofnkostnaður er 2.500.000.- krónur, innifalið í þessum kostnaði er flutningur á afgreiðslu bóka- og byggðasafnsins á sama stað.

9. mál.

Bréf frá tollstjóranum í Reykjavík vegna upplýsinga um birgðir af olíu í Vestmannaeyjum 1. júlí 2005, vegna gildistöku nýrra laga um olíugjald.

10. mál.

Bréf frá Hótel Þórshamar ehf, vegna fasteignagjalda.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu. Við undirbúning við gerð fjárhagsáætlunar 2006 verða álagningarflokkar fasteingaskatta skoðaðir sérstaklega.

Elliði Vignisson sat hjá við afgreiðslu málsins.

11. mál.

Bréf frá Árnýju Heiðarsdóttur, vegna þátttöku á heimsmeistaramóti öldunga í frjálsum íþróttum.

Bæjarráð vísar erindinu til menningar- og tómstundaráðs til afgreiðslu

12. mál.

Fyrir lá reglugerð um meðhöndlun úrgangs innan marka sveitarfélagsins, önnur umræða, en fyrri umræða fór fram í bæjarstjórn 23. júní 2005, samhliða fundargerð umhverfis og skipulagsráðs.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi reglugerð um meðhöndlun úrgangs.

Fundargerðir til kynningar

Náttúrustofa Suðurlands frá 26. júlí 2005

Umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. júlí 2005

Bæjarráð samþykkir fundargerðina

Nýsköpunarstofa Vestmannaeyja frá 28. júlí 2005

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.30.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)

Bergur Elías Ágústsson (sign.)