Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2766

25.07.2005

BÆJARRÁÐ

2766. fundur.

Ár 2005, mánudaginn 25. júlí kl. 17.15 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mætt voru: Guðrún Erlingsdóttir, Elsa Valgeirsdóttir, Stefán Jónasson, Andrés Sigmundsson áheyrnarfulltrúi og Páll Einarsson sem ritaði fundargerð.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Fyrir lá bréf frá ÍBV-íþróttafélagi, dags. 13. júlí sl., þar sem félagið óskar eftir leyfi til hátíðarhalda í Herjólfsdal og liðsinni Vestmannaeyjabæjar vegna löggæslukostnaðar.

Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti og felur bæjarstjóra að ganga frá leyfi vegna þjóðhátíðarhalds þar sem fram koma hefðbundin skilyrði um hreinsun hátíðarsvæðisins og að haft skuli fullt samráð við Golfklúbb Vestmannaeyja um notkun á svæði klúbbsins.

Bæjarráð tekur undir sjónarmið bréfritara varðandi löggæslukostnað. Bæjarráð telur mikilvægt að niðurstaða fáist í deilu ÍBV og löggæsluyfirvalda um lögmæti þess sérstæða löggæslukostnaðar sem lagður hefur verið á mótshaldara þjóðhátíðarinnar í Vestmannaeyjum undanfarin ár og fyrirhugað er að leggja á í ár. Nauðsynlegt er fyrir bæjaryfirvöld að fá úr því skorið hver eigi að standa straum af löggæslukostnaði í Vestmannaeyjabæ þann tíma sem þjóðhátíð stendur yfir. Um leið telur bæjarráð mikilvægt að áfram sem hingað til verði öflug löggæsla á þjóðhátíð Vestmannaeyja. Bæjarráð lýsir yfir stuðningi við ÍBV í þeirri baráttu sem framundan er og felur bæjarstjóra að óska eftir fundi með dómsmálráðherra , þar sem leitast verði við að finna viðundandi lausn á málinu.

Andrés Sigmundsson óskar bókað: “Fundur í bæjarráði var settur kl. 17.15 en nú er klukkan 18.44. Allan þennan tíma hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verið að deila um bókun og afgreiðslu á málinu. Ég lýsi yfir furðu minni á að bæjarráð skuli finna hjá sér hvöt til að ýta undir og hvetja Í.B.V til málaferla vegna löggæslukostnaðar er lagður er á bandalagið vegna þjóðhátíðar. Ég tel eðlilegt að bæjarráð beiti sér fyrir því við dómsmálaráðherra að jafnræðis verði gætt vegna löggæslukostnaðar. Mikilvægt er að koma á fundi og freista þess að niðurstaða fáist í málið.”

2. mál.

Fyrir lágu til kynningar drög að áliti bæjarráðs vegna framkvæmdar á byggðaáætlun fyrir árin 2002 til 2005, sbr. 4. mál frá fundi bæjarráðs nr. 2765 þann 11. júlí sl.

Álit bæjarráðs mun lagt fram til endanlegar afgreiðslu á næsta fundi ráðsins.

3. mál.

Fyrir lá bréf frá Jóhanni Pétri Andersen, dags. 14. júlí sl., vegna deiliskipulags fyrir miðbæ Vestmannaeyja.

Bæjarstjóra er falið að ræða við bréfritara.

4. mál.

Fyrir lá símbréf frá Almannavörnum, dags. 14. júlí sl., varðandi viðbragðsáætlun vegna eldgosa í Mýrdals- eða Eyjafjallajöklum og almannavarnaæfingunni Bergrisinn 2005.

Bæjarráð samþykkir að tilnefna Berg Elías Ágústsson bæjarstjóra sem tengilið við almannavarnadeildina.

5. mál.

Fyrir lá bréf frá umhverfisráðuneytinu, dags. 8. júlí sl., vegna fyrirhugaðrar ráðstefnu um málefni Surtseyjar sem haldin verður í Vestmannaeyjum 23. september nk.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju sinni með fyrirhugaða ráðstefnu.

6. mál.

Fyrir lá bréf frá Sjálfsbjörgu, dags. 8. júlí sl., vegna beiðni um aðstoð við hjálpliðasjóð félagsins.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

7. mál.

Fyrir lágu til kynningar eftirtaldar fundargerðir:

  1. Fundargerð 385. stjórnarfundar SASS frá 13. júní sl.
  2. Fundargerð 77. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 19. júlí sl.
  3. Fundargerð fjölskylduráðs frá 20. júlí sl.
  4. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. júlí sl.
  5. Fundargerð hafnarstjórnar frá 21. júlí sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.05.

Guðrún Erlingsdóttir (sign.)

Elsa Valgeirsdóttir (sign.)

Stefán Jónasson (sign)

Andrés Sigmundsson (sign.)

Páll Einarsson (sign.)