Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2757

23.03.2005

BÆJARRÁÐ

2757. fundur.

Ár 2005, miðvikudaginn 23. mars kl. 17.00 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Arnar Sigurmundsson formaður, Stefán Jónasson, Elliði Vignisson, Andrés Sigmundsson áheyrnarfulltrúi og Viktor S. Pálsson, staðgengill bæjarstjóra.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Föstudaginn 11. mars sl. var gengið formlega frá vaxtasamningi fyrir Vestmannaeyjar og Suðurland við iðnaðarráðuneytið og var haldinn kynningarfundur að þessu tilefni hér í Vestmannaeyjum að viðstaddri Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra ásamt nokkrum þingmönnum Suðurkjördæmis og fleirum.

Bæjarráð samþykkir að fulltrúar Vestmannaeyjabæjar í samráðshópnum verði Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri, Guðrún Erlingsdóttir bæjarfulltrúi og Elliði Vignisson bæjarfulltrúi.

2. mál.

Fyrir lá erindi frá framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs, dags. 22. mars sl., vegna endurbyggingar holræsakerfis bæjarins og fyrirhugaða lögn undir Vestmannaeyjahöfn.

Bæjarráð samþykkir að flýta framkvæmdum við fráveitukerfið með nýrri lögn undir hafnarsvæðið sem tengist fráveitukerfinu á Eiðinu. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður 19,4 milljónir króna og kemur það til viðbótar fyrri fjárveitingu að fjárhæð 10 milljónir sem er á fjárhagsáætlun þessa árs. Verkið verður fjármagnað með endurgreiðslum ríkisins vegna fyrri fráveituframkvæmda að fjárhæð tæplega 13 milljónir króna og aukafjárveitingu á þessu ári að fjárhæð 6,5 milljónir króna. Bæjarráð samþykkir að gera ráð fyrir ofangreindum tekjum og útgjöldum við endurskoðun fjárhagsáætlunar þessa árs.

3. mál.

Svohljóðandi tillaga barst frá Andrési Sigmundssyni:

“Bæjarráð samþykkir að fela framkvæmdarstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að undirbúa framkvæmdir í sumar í Herjólfsdal. Gert verði ráð fyrir að malbikað verði í kringum tjörnina, kantar við "brekkuna" og í kringum tjörnina verði lagfærðir. Framkvæmdirnar verði í samræmi við samþykkt skipulag af svæðinu. Framkvæmdirnar verði fyrripart sumars á þessu ári. Bæjarráð geri ráð fyrir framkvæmdunum við endurskoðun fjárhagsáætlunar 2005.”

Bæjarráð vekur athygli á því að þjónustumiðstöð bæjarins hefur að undanförnu unnið að jarðvegsskiptum að hlaupabrautinni í kringum tjörnina í Herjólfsdal og er því verki nú lokið. Þessar framkvæmdir eru í samræmi við gatnagerðaráætlun og fjárhagsáætlun þessa árs. Í samræmi við fund með forráðamönnum ÍBV, þann 24. október sl. tekur bæjarráð fram að ráðgert er að ljúka lagningu slitslags á umræddu svæði á árinu 2006.

Andrés Sigmundsson óskar bókað:

“Mér finnst það mjög miður að meirihlutinn skuli ekki samþykkja eins sjálfsagt mál og að malbika kringum tjörnina í Herjólfsdal í sumar.”

4. mál.

Fyrir lágu þrjú tilboð frá þremur fjármálafyrirtækjum vegna lánaútboðs Vestmannaeyjabæjar að fjárhæð 325 milljónir króna sem ráðgert var að taka að láni skv. fjárhagsáætlun yfirstandandi árs.

Bæjarráð samþykkir tilboð Íslandsbanka, innlent lán með lánstíma allt að 20 ár sem ber 3,9% fasta vexti, auk verðtryggingar. Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirrita nauðsynleg lánsskjöl.

5. mál.

Fyrir lá bréf frá Lýðheilsustöð vegna verkefnisins “Allt hefur áhrif, einkum við sjálf”.

Bæjarráð staðfestir að Vestmannaeyjabær verður með í forvarnarverkefni Lýðheilsustöðvar, “Allt hefur áhrif, einkum við sjálf” og felur menningar- og tómstundaráði að hafa yfirumsjón með verkefninu af hálfu bæjarins í samstarfi við fjölskyldu- og skólamálaráð og jafnframt að tilnefna verkefnisstjóra.

6. mál.

Kosning tveggja fulltrúa í samráðsnefnd vegna Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, sbr. samþykkt bæjarstjórnar frá 24. febrúar sl.

Bæjarráð samþykkir að tilnefna Jóhann Guðmundsson og Elliða Vignisson f.h. Vestmannaeyjabæjar og felur Elliða að kalla saman til fyrsta fundar nefndarinnar.

7. mál.

Fyrir lá bréf frá forsætisráðuneytinu, dags. 15. mars. sl., vegna tilnefningar í stjórn Stafkirkjunnar í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð samþykkir að endurtilnefna Sólveigu Adolfsdóttur sem aðalmann og Guðjón Hjörleifsson sem varamann.

8. mál.

Fyrir lá bréf frá Lögmannsstofunni Legalis, Ármúla 7, Reykjavík, dags. 9. mars sl., vegna fasteignarinnar Ægisgötu 2b í Vestmannaeyjum. (Vesturhluta Fiskiðjunnar)

Arnar Sigurmundsson, Stefán Jónasson og Elliði Vignisson lögðu fram svohljóðandi bókun og afgreiðslutillögu:

"Af gefnu tilefni vill Bæjarráð Vestmannaeyja taka fram að Andrés Sigmundsson bæjarfulltrúi hafði hvorki umboð Vestmannaeyjabæjar né Verkefnisstjórnar um byggingu Menningarhúss til viðræðna við forráðamenn og eigendur fasteignarinnar Ægisgötu 2 b, Vestmannaeyjum, um kaup á fasteigninni. Ljóst er því að hvorki Vestmannaeyjabær né Verkefnisstjórn bera ábyrgð á háttsemi bæjarfulltrúans eða afleiðingum þeirra viðræðna. Þá er ljóst að Vestmannaeyjabær og Verkefnisstjórn hafa engar fyrirætlanir uppi um kaup á fasteigninni Ægisgötu 2 b og ekki er fyrir hendi áhugi af hálfu bæjarins til viðræðna við eigendur fasteignarinnar um slík kaup."

Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera bréfritara grein fyrir þessari samþykkt bæjarráðs.

Andrés Sigmundsson óskar bókað:

“Því miður er margt afar villandi og sumt beinlínis rangt er kemur fram í bréfunum, bæði því er Sigurbjörn Magnússon hrl. skrifar undir og sömuleiðis Egill Örn Arnarson skrifar undir. Ég vil vegna þessara bréfa og þess er þar kemur fram benda enn á ný á lögfræðiálit Sveins Sveinssonar hrl. en þar segir:

"Undirrituðum hefur verið falið að segja álit sitt á skuldbindingargildi á viljayfirlýsingu dags. 12. október 2004 sem undirrituð er af Andrési Sigmundssyni form. Verkefnastjórnar mennignarhúss í Vestmannaeyjum og Agli Erni Arnarsyni f.h. eigenda Ægisgötu 2.

Samkvæmt hljóðan viljayfirlýsingarinnar eru þeir tveir aðilar sem hana gera að lýsa vilja sínum hvor fyrir öðrum um það, hvað þeir eru tilbúnir til að gera, en það er samkvæmt hljóðan viljayfirlýsingarinnar að "leggja sameiginlega fram eftirfarandi tillögu til skoðunar og ákvörðunar í hópi húseigenda og verkefnastjórnar um menningarhús í Vestmannaeyjum."

Í þessu felst að hvor aðili um sig lofar hinum að leggja tillögurnar fram í sínum hópi og mæla með því þar að þær verði samþykktar. Lengra gengur skuldbinding þeirra ekki gagnvart hvor öðrum.

Þeir eru ekki að lofa hvorum öðrum því að tillögurnar verði samþykktar í sínum hópi, heldur einungis að þær verði lagðar fyrir og ákvörðun verði tekin um hvort þeim verði hafnað eða þær samþykktar þar.

Niðurlag viljayfirlýsingarinnar í staflið 6 staðfestir hver hugsun aðilanna hefur verið. Þar vísa þeir skýrt til þess hverjir eru bærir til að samþykkja það sem þeir eru sammála um. Þeir setja skýran fyrirvara um að samkomulagið sé ekki gert, nema þeir sem í staflið 6 eru tilteknir, samþykki tillögurnar. Þeir aðilar eru þannig einir bærir og einu sem geta samþykkt það sem viljayfirlýsingin hljóðar um.

Eðlilegt framhald undirritunar viljayfirlýsingar var síðan að leggja hana við fyrsta tækifæri fyrir verkefnastjórn menningarhússins og eigendur Ægisgötu 2b til umfjöllunar en þá kæmi fyrst í ljós hvort tillögurnar yrðu samþykktar eða þeim hafnað.

Þegar litið er til þess bréfs sem ritað er af Sigurbirni Magnússyni hrl. dags. 2. nóvember 2004 vegna eiganda að Ægisgötu 2b, er ekki annað að sjá en viljayfirlýsingin sé skýrð á sama hátt og hér hefur verið lýst. Þar er sérstaklega tekið fram um að ákveðið hafi verið

"að leggja fyrir verkefnisstjórn tillögu um að kaupa fasteignina með nánar tilgreindum hætti." Þá er síðar í bréfinu kallað eftir skýrum svörum um hvort tillagan verði samþykkt eða henni hafnað.

Það er niðurstaða undirritaðs að viljayfirlýsing þessi hafi á engan hátt skuldbindinagargildi fyrir verkefnastjórn menningarhúss í Vestmannaeyjum og hér hafi einungis tveir einstaklingar lofað hvorum öðrum að leggja fram tillögur sem þeir höfðu samið sjálfir, en báðir þess búnir að tillögurnar verði ekki samþykktar af þeim sem þeir væru fulltrúar fyrir."

Jafnframt vil ég taka fram; að ég var formaður verkefnisstjórnar um byggingu menningarhúss í Vestmannaeyjum er verkefnisstjórnin samþykkti 29.10.2004 að snúa sér að nýbyggingu með eftirfarandi hætti:

Næstu skref.

Lagt er til að verkefnisstjórn geri endanlega tillögu um þá starfsemi sem á að fara fram í húsinu. Skýrslu Sögusmiðjunnar má nota til við ákvörðunina. Í kjölfarið er hægt að vinna að samkeppnislýsingu/ útboðslýsingu.

Lagt er til að verkefnisstjórnin tilnefni tvo fulltrúa til viðræðna við eigendur Hallarinnar um með hvaða hætti bæta má sýningaraðstöðu (stærri sýningar leiklist, óperur, söngleiki) í Höllinni.

Lagt er til að bætt verði aðgengi við Bæjarleikhúsið þannig að öllum verði gert auðvelt að sækja leikhúsið. Uppsetningu á lyftu er lægi utan á húsinu er e.t.v heppilegasta lausnin.

Lagt er til verkefnisstjórn um byggingu menningarhúss í Vestmannaeyjum samþykki að byggt skuli menningarhús á lóð við smábátahöfnina. Starfsemi í menningarhúsinu verði með eftirfarandi hætti:

Fiska-og Náttúrugripasafn. Byggðarsafn. Vegleg sérsýning um eldgosið í Heimaey 1973. Rými fyrir farand-og sérsýningar. Upplýsingamiðstöð ferðamála í Eyjum. Kaffi-eða veitingastofa. Minjagripa-og handverksverslun. Aðstaða fyrir starfsmenn. Rýmisáætlun fylgir með.

Með þeirri stefnumörkun að færa byggðasafnið í nýtt menningarhús skapast aðstaða í safnahúsinu er nýtist bókasafninu á margan hátt. Bætt lestrar-og rannsóknaraðstaða ásamt því að gerður verði fullkominn sýninga-og listasalur fjölnota salur.

Með þessari ákvörðun er hugmynd um glerbyggingu í Fiskiðjusundið enn í fullu gildi. Með byggingu menningarhúss við smábátahöfnina þarf að huga að svæðinu í kring og tengingu hafnarinnar við miðbæinn. Í nýju aðalskipulagi er gert ráð fyrir að fiskvinnsluhúsin á svæðinu tilheyri miðbænum. Er það í fullu samræmi við þá hugmyndavinnu er liggur á bak við ákvörðun um staðarval fyrir nýtt menningarhús í Vestmannaeyjum. En það má vera ljóst að gera þarf nýtt deiliskipulag af þessu svæði.

Í lokin vil ég taka eftirfarandi fram: Mínar skoðanir á byggingu menningarhúss í Vm. hafa ekkert breyst. Ég tel að halda eigi áfram þeirri vinnu er verkefnisstjórnin markaði á áðurnefndum fundi sínum þann 29. 10. 2004. Vinna áfram með hugmynd er Sigmund teiknari Jóhannsson lagði fram um, að byggja glerhýsi í Fiskiðjusundið eða í næstu götu. Vel er hugsanlegt að mynda félag með núverandi eigendum húsa á svæðinu "eins og ég reyndar var að vinna að á sínum tíma". Safnið á Stokkseyri er einmitt dæmi um hvað má gera ef margir aðila koma að slíkum verkum. Ef það er hægt á Stokkseyri er það einnig hægt hér. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Fiskvinnslusafn á að setja upp í Fiskiðjunni. Nú er verið að tala um Surtseyjarstofu, hvar á hún að vera annarsstaðar en í eða við menningarhúsið í tengslum við Fiska-og náttúrugripasafn og gosminjasafn. Sömuleiðis er það mín skoðun að byggja eigi veislu-og skemmtistað í gömlu fiskvinnsluhúsunum. Stað þar sem jafnvel má spila háværa tónlist.”

Bæjarráð óskar bókað:

“Bæjarráð ítrekar fyrri ályktun um að Andrés Sigmundsson hafi ekki umboð til þess að undirrita viljayfirlýsingu um kaup á Ægisgötu 2b sem upplýst var um á fundi bæjarstjórnar 4. nóvember 2004.”

Andrés Sigmundsson óskar bókað:

“Enn á ný verð ég að vísa í lögfræðiálit Sveins Sveinssonar hrl. En þar er tekinn af allur vafi varðandi störf mín í verkefnisstjórn um byggingu menningarhús í Vestmannaeyjum.”

9. mál.

Fyrir lá drög að húsaleigusamningi við Vestmannaeyjadeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna Villunnar.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samkomulag.

10. mál.

Fyrir lá ákvörðun um könnun vegna atvinnumála.

Bæjarráð samþykkir að fela GCG ráðgjöf að framkvæma könnun hjá fyrirtækjum um hugsanlegan áhuga þeirra á að staðsetja þau í Vestmannaeyjum. En verkefnið fellur vel að vinnu við gerð vaxtasamnings fyrir Vestmannaeyjar sem vinna er nú hafin við.

Bæjarráð felur bæjarstjóra framganga verksins og samþykkir að gera ráð fyrir 500 þús. kr. án vsk. til verksins og að gera ráð fyrir fjárhæðinni í endurskoðaðri fjárhagsáætlun.

11. mál.

Fyrir lá bréf frá Byrginu þar sem farið er fram á rekstrarstyrk.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

12. mál.

Fyrir lágu þrjú bréf frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum, þar sem farið er fram á umsögn Vestmannaeyjabæjar vegna endurnýjunar rekstrarleyfis fyrir;

a. Veitingarstaðinn Lundann.

b. Veitingarstofuna/greiðasöluna Bjössabar.

c. Veitingarstaðinn Pizza 67, Heiðarvegi 5. (frestað mál frá síðasta fundi bæjarráðs)

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi umsóknir að því tilskyldu að aðrir aðilar, sem um slík erindi eiga að fjalla samþykki þau einnig.

13. mál.

Fyrir lágu tilboð vegna sorpeyðingar og sorphirðu fyrir Vestmannaeyjabæ sem opnuð voru hjá Ríkiskaupum, þann 22. mars sl.

Bæjarráð samþykkir að taka afstöðu til tilboðanna á næsta fundi sínum.

14. mál.

Fyrir lágu umsóknir um leyfi til áfengisveitinga frá eftirtöldum aðilum;

a. Sigfúsi Gunnari Guðmundssyni f.h. Mánabars, Vestmannabraut 28.

b. Stefáni Ólafssyni f.h. Cafe María/Coneró, Skólavegi 1.

c. Unni Guðmundsdóttur f.h. Fjólunnar, Vestmannabraut 28.

d. Elsu Valgeirsdóttur f.h. Golfklúbbs Vestmannaeyja, v/ Torfmýrarveg.

e. Jóni Inga Guðjónssyni f.h. Pizza 67, Heiðarvegi 5.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi umsóknir að því tilskyldu að aðrir aðilar, sem um slík erindi eiga að fjalla samþykki þau einnig. Varðandi umsókn Stefáns Ólafssonar f.h. Cafe María/Coneró vill bæjarráð skilyrða leyfið við að veitingatími áfengis verði óbreyttur frá því sem verið hefur, þ.e. til 23.30 alla daga, þó til kl. 2.00 aðfaranótt laugardags, sunnudags og almenns frídags.

15. mál.

Fyrir lá bréf Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 4. mars sl., vegna ráðstefnu um nýmæli í stjórnun sveitarfélaga.

16. mál.

Fyrir lá fundargerð 60. fundar samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Félags leikskólakennara.

17. mál.

Fyrir lá fundargerð 24. fundar samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Sjúkraliðafélags Íslands.

18. mál.

Fyrir lá fundargerð 9. fundar samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags bókasafn- og upplýsingafræðinga.

19. mál.

Fyrir lá 383. fundargerð stjórnar SASS frá 17. mars sl.

20. mál.

Fyrir lá 73. fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 15. mars sl.

21. mál.

Til kynningar lá fundargerð hafnarstjórnar frá 18. mars sl.

22. mál.

Samningamál.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 18.45.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Viktor S. Pálsson (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)