Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2752

24.01.2005

BÆJARRÁÐ

2752. fundur.

Ár 2005, mánudaginn 24. janúar kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Arnar Sigurmundsson formaður, Stefán Jónasson, Elliði Vignisson, Bergur E. Ágústsson bæjarstjóri og Andrés Sigmundsson áheyrnarfulltrúi.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Bæjarráð lýsir ánægju með þá hreyfingu sem komin er á samgöngumál Vestmannaeyja, sér í lagi með nýja skýrslu og kostnaðarmat sem unnið var af NCC, sem er virt alþjóðlegt verktakafyrirtæki með áralanga reynslu af jarðgangagerð. Skýrslan var kynnt af áhugahópi undir forystu Árna Johnsen 20. janúar sl. Í skýrslunni kom fram að áætlaður kostnaður af jarðgöngum milli lands og Eyja gæti numið um 16 milljörðum króna eða vel innan marka um þjóðhagslega hagkvæmni verkefnisins. Bæjarráð gengur út frá því að skýrslan verði hluti af úttekt um framtíðarskipan samgöngumála milli lands og Eyja sem nefnd á vegum samgönguráðherra vinnur nú að, en meðal nefndarmanna er Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Jafnframt fagnar bæjarráð því að þingmenn Suðurkjördæmis hafa samþykkt rannsóknaráætlun vegna hugsanlegra jarðganga milli lands og Eyja sem unnið verður eftir nú í sumar og tryggt er að ráðist verði í vegaframkvæmdir á Bakkavegi í Landeyjum.

2. mál.

Heimsókn þingmanna Suðurkjördæmis til Vestmannaeyja föstudaginn 4 febrúar nk.

Bæjarráð felur bæjarstjóra frekari framkvæmd fundarins.

3. mál.

Bæjarráð samþykkir að áður höfðu samþykki við bæjarráðsmenn að veita söfnuninni Hjálp úr norðri, landssöfnunar vegna flóða í Asíu styrk að upphæð 500.000.- krónur sem varið verður til hjálpar og uppbyggingarstarfa.

4. mál.

Fyrir lágu undirskriftarlistar með nöfnum 1452 bæjarbúa, þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að beita sér fyrir sáttum milli eigenda Hallarinnar og íbúa í nágrenni hennar, þannig að báðir geti vel við unað.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að boða til fundar með eigendum Hallarinnar og fulltrúum íbúa.

5. mál.

Andrés Sigmundsson lagði fram svohljóðandi tillögu:

“Í lyfjaverðskönnun er Neytendasamtökin gerðu á Reykjavíkursvæðinu nýlega kom í ljós að rekstraraðili Apóteks Vestmannaeyja var þar með hæsta verðið í meirihluta tilvika og þetta ásamt mörgu fleiru staðfestir, að ekki hefur verið staðið við loforð til bæjarstjórnar og þar með bæjarbúa um "að hér skyldi rekin toppþjónusta á lægsta mögulega lyfjaverði, bara ef komið yrði í veg fyrir samkeppnisrekstur" þá samþykkir bæjarráð að óska eftir því við Lyf og Heilsu að fyrirtækið endurnýji umsókn sína um rekstrarleyfi fyrir apótek í Vestmannaeyjum, enda nauðsynlegt að heilbrigð samkeppni komist á í þessum rekstri og bæjarbúar njóti þar með ávallt lægstu verða. Í framhaldinu munu bæjaryfirvöld hafa samband við heilbrigðisráðuneytið og viðkomandi aðila er heimila starfsemi apóteka til að gera þeim grein fyrir nauðsyn þess að heilbrigð og eðlileg samkeppni ríki á lyfjamarkaði svo Vestmannaeyingar njóti sambærilegra verða á lyfjum og aðrir landsmenn.”

Greinargerð:

Til mín hafa leitað fjölmargir aðilar bæði einstaklingar með lítinn rekstur, eldri borgarar og öryrkjar auk annarra þeirra er þurfa á lyfjum að halda og kvartað yfir mjög háu verðlagi í Apóteki Vestmannaeyja. Er þetta sérstaklega bagalegt fyrir þá, sem ekki hafa tök á því að fá lyf sín annars staðar frá, en slíkt er orðið mjög algengt og er auðvitað til vansa fyrir bæjarfélagið. Þá verður að teljast eðlilegt að stofnanir eins og Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og Hraunbúðir geti leitað til fleiri en eins aðila með tilboð í magninnkaup. Hér skal aðeins tilgreint eitt dæmi um okur og skal sérstaklega bent á seðilgjald kr. 400,- sem er helmingi hærra en nokkur annar lætur sér detta í hug að taka.

Innihald lyfjakassa úr plasti á stærð við mjólkurfernu, var endurnýjað hér í apótekinu nú í desember og leit reikningur vegna þessa þannig út:

Endurnýjuð lyf kr. 1.486,-

Skoðunargjald " 1.500,-

Vottorðsgjald " 780,-

Vinna " 2.500,-

Alls kr. 6.266,-

Síðan bættist við

seðilgjald " 400,-

Eða samtals kr. 6.666,-

Kostnaður vegna endurnýjunar lyfja að verðmæti kr. 1.486,- varð þannig margfalt dýrari, eða sem nemur tæpum 450%.

Aðili sá sem hér um ræðir hringdi í nokkur apótek á fastalandinu og fékk þær upplýsingar víðast hvar, að aðeins væri rukkað fyrir efnið í kassann og á öðrum innheimt aukalega eitt gjald frá 300 - 900 krónur og hæst var rukkað skoðunargjald kr. 990,- + vottorð kr. 750,-. Tekið skal fram að ekki var hringt í Laugarnesapótek, sem rekið er af sama aðila og apótekið hér, en það apótek var með hæsta lyfjaverðið af öllum apótekum í Reykjavík í vel yfir helming vöruflokka í nýlegri opinberri könnun.

Staðfest var af Íslandsbanka að taka seðilgjalds kr. 400,- væri alfarið á ábyrgð apóteksins, en það eitt og sér sýnir hugarfarið, en það er helmingi hærra en nokkurt annað fyrirtæki tekur. Því er morgunljóst að við bæjarfulltrúar höfum verið rækilega plataðir og ekki seinna vænna en að reyna að rétta hlut okkar umbjóðenda, bæjarbúa, og bæta fyrir fyrri mistök með því að stuðla að heilbrigðri samkeppni í þessum rekstri hér í bæ.

Í framhaldi af þessu bendi ég m.a. á bréf er bæjarstjórn fékk frá Apóteki Vm. dagsett. 27.mars 2003 og 26. maí 2003 og fl. og heimasíðu Neytendasamtakana sem er www.ns/is/verdkannanir/

Bæjarráð felst ekki á það sjónarmið sem fram kemur í tillögunni um að skora á eina ákveðna lyfjaverslun umfram aðrar um að sækja um lyfsöluleyfi í Vestmannaeyjum. Bæjarráð mun taka afstöðu til umsókna um lyfsöluleyfi í Vestmannaeyjum ef og þegar slíkar umsóknir berast.

Andrés Sigmundsson óskar bókað:

“Ég er mjög undrandi á þessari afstöðu fulltrúa í bæjarráði. Mjög mikilvægt er að íbúar í Vestmannaeyjum njóti ávallt hagstæðustu verða á lyfjum. Ég mun leggja tillögu fyrir bæjarstjórn er fundar nk. fimmtudag og freista þess að ná fram breytingum til hagsbóta fyrir íbúa bæjarins.”

  1. mál.

Andrés Sigmundsson lagði fram svohljóðandi tillögu:

“Að undanförnu hafa mörg sveitarfélög endurskoðað álagningarreglur vegna fasteignaskatts. Sveitarfélög er hafa nýlega endurskoðað og samþykkt að lækka álagningarstuðul fasteignaskatts í 0,32 % eru m.a. Reykjavík, Álftarnes og Seltjarnarnes. Í Vestmannaeyjum er álagningarstuðullinn 0,42 % eða mun hærri en í áðurnefndum sveitarfélögum. Fasteignaskatturinn í Eyjum hefur hækkað gríðarlega og legg ég því eftirfarandi til:

b) Fasteignaskattur af húsnæði verði eftirfarandi hlutfall af fasteignamati þeirra samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, með síðari breytingum, og reglugerð um fasteignaskatt nr. 945/2000.

1) Íbúðir og íbúðarhús, útihús og mannvirki á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði og sumarbústaðir: sem nú eru 0,42 %. lækki í 0,32 %.

Með því að samþykkja þessa lækkun þarf ekki að gera miklar breytingar á fjárhagsáætlun fyrir árið 2005. Því að í áætluninni er gert ráð fyrir að fasteignaskattur verði tæpar 108 miljónir, en nýleg álagning á fasteignir hér er mun hærri eða tæpar 129 miljónir. Er álagður fasteignaskattur því um 21 milljón hærri en gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun og því auðvelt og eðlilegt að samþykkja lækkun á fasteignaskattinum.

Bæjarráð getur ekki fallist á tillöguna með vísan til tekjuáætlunar bæjarsins fyrir árið 2005.

  1. mál.

ÍBV-íþróttafélag hefur óskað eftir breytingu á áætlun Herjólfs laugardaginn 12. febrúar vegna undanúrslita í bikarkeppni karla. Áætlun mundi þá breytast þannig að brottför frá Þorlákshöfn yrði kl. 16.30 í stað kl. 12.00. Óskað er eftir þessari breytingu vegna handboltaleiks en samkvæmt upplýsingum ÍBV mun fjöldi farþega fylgja liðinu. Við teljum að þessi breyting á áætlun þjóni best þeim farþegum sem Herjólfur þjónar. Samskip getur ekki breytt áætlun einhliða nema að um sé að ræða öryggi skips og farþega. Því er óskað eftir samþykki eða athugasemdum við þessa breytingar að hálfu Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar.

Bæjarráð samþykkir ofangreindar breytingar á áætlun skipsins fyrir sitt leyti.

  1. mál.

Fyrir lá bréf frá Skipulyftunni ehf., dags. 24. janúar, vegna þurrkvíar í Vestmannaeyjum.

Fyrir liggur að bæjarráð mun funda með forsvarsmönnum Skipalyftunnar nk. fimmtudag vegna þessa máls.

  1. mál.

Fyrir lá útskrift úr fundargerð fjölskylduráðs frá 10. janúar sl.

Bæjarráð samþykkir tillögu og þær breytingar sem henni fylgja á fjárhagsáætlun ársins 2005.

  1. mál.

Fyrir lágu drög að greinargerð vegna skjala- og upplýsingavörslu hjá Vestmannaeyjabæ og stofnunum hans, sbr. 1. mál. frá fundargerð bæjarráðs frá 6. september sl.

Bæjarráð mun taka afstöðu til málsins á næsta reglulega fundi sínum.

  1. mál.

Fyrir lágu viðskiptamannalistar áranna 2000 til 2003.

  1. mál.

Fyrir lá bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga, dags. 20. janúar 2005, vegna breytinga á starfsemi sjóðsins.

  1. mál.

Fyrir lá fundargerð stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Vestmannaeyjabæjar frá 5. janúar sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

  1. mál.

Fyrir lá útskrift frá 3. máli úr fundargerð 148. fundar skólamálaráðs, vegna aukakennslu til að mæta kennslutapi í liðnu verkfalli.

Bæjarráð samþykkir erindið og samþykkir að gera ráð fyrir allt að 700 þús. kr. til að mæta kennslutapi vegna verkfalls grunnskólakennara síðastliðið haust. Gert verður ráð fyrir fjárhæðinni við endurskoðun fjárhagsáætlunar 2005.

  1. mál.

Eftirfarandi fundargerðir lágu fyrir til kynningar:

  1. Fundargerð menningar- og tómstundaráðs frá 18. janúar sl.
  2. Fundargerð skólamálaráðs frá 17. janúar sl.
  3. Fundargerð fjölskylduráðs frá 10. janúar sl.
  4. Fundargerð umhverfis og skipulagsráð frá 19. janúar sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.20.

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Bergur Ágústsson (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)