Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2746

12.11.2004

BÆJARRÁÐ

2746. fundur.

Ár 2004, föstudaginn 12. nóvember kl. 19.00 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Lúðvík Bergvinsson, Andrés Sigmundsson, Arnar Sigurmundsson og Bergur E. Ágústsson.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Fyrir lá svohljóðandi tillaga frá síðasta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 4. nóvember sl. Þá lá einnig fyrir lögfræðiálit Sveins Sveinssonar hrl. frá Andrési Sigmundssyni:

“Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að Andrés Sigmundsson víki sem formaður verkefnastjórnar um byggingu menningarhúss í Vestmannaeyjum og láti af störfum sem formaður bæjarráðs þar til annað er ákveðið.”

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Guðjón Hjörleifsson (sign.)

Elliði Vignisson (sign.)

Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu.

Andrés Sigmundsson óskar bókað:

“ Þetta er pólitískt áfall sem kemur algjörlega í bakið á mér. Ég áskil mér allan rétt til að fjalla um málið síðar.”

Sömuleiðis óskaði Andrés Sigmundsson eftir að ofangreint lögfræðiálit Sveins Sveinssonar hrl. yrði fært til bókar:

“Undirrituðum hefur verið falið að segja álit sitt á skuldbindingargildi á viljayfirlýsingu dags. 12. október 2004 sem undirrituð er af Andrési Sigmundssyni form. Verkefnastjórnar mennignarhúss í Vestmannaeyjum og Agli Erni Arnarsyni f.h. eigenda Ægisgötu 2.

Samkvæmt hljóðan viljayfirlýsingarinnar eru þeir tveir aðilar sem hana gera að lýsa vilja sínum hvor fyrir öðrum um það, hvað þeir eru tilbúnir til að gera, en það er samkvæmt hljóðan viljayfirlýsingarinnar að

“leggja sameiginlega fram eftirfarandi tillögu til

skoðunar og ákvörðunar í hópi húseigenda og

verkefnastjórnar um menningarhús í Vestmanna-

eyjum.”

Í þessu felst að hvor aðili um sig lofar hinum að leggja tillögurnar fram í sínum hópi og mæla með því þar að þær verði samþykktar. Lengra gengur skuldbinding þeirra ekki gagnvart hvor öðrum.

Þeir eru ekki að lofa hvorum öðrum því að tillögurnar verði samþykktar í sínum hópi, heldur einungis að þær verði lagðar fyrir og ákvörðun verði tekin um hvort þeim verði hafnað eða þær samþykktar þar.

Niðurlag viljayfirlýsingarinnar í staflið 6 staðfestir hver hugsun aðilanna hefur verið. Þar vísa þeir skýrt til þess hverjir eru bærir til að samþykkja það sem þeir eru sammála um. Þeir setja skýran fyrirvara um að samkomulagið sé ekki gert, nema þeir sem í staflið 6 eru tilteknir, samþykki tillögurnar. Þeir aðilar eru þannig einir bærir og einu sem geta samþykkt það sem viljayfirlýsingin hljóðar um.

Eðlilegt framhald undirritunar viljayfirlýsingar var síðan að leggja hana við fyrsta tækifæri fyrir verkefnastjórn menningarhússins og eigendur Ægisgötu 2b til umfjöllunar en þá kæmi fyrst í ljós hvort tillögurnar yrðu samþykktar eða þeim hafnað.

Þegar litið er til þess bréfs sem ritað er af Sigurbirni Magnússyni hrl. dags. 2. nóvember 2004 vegna eiganda að Ægisgötu 2b, er ekki annað að sjá en viljayfirlýsingin sé skýrð á sama hátt og hér hefur verið lýst. Þar er sérstaklega tekið fram um að ákveðið hafi verið

“að leggja fyrir verkefnisstjórn tillögu um að kaupa fasteignina með nánar tilgreindum hætti.” Þá er síðar í bréfinu kallað eftir skýrum svörum um hvort tillagan verði samþykkt eða henni hafnað.

Það er niðurstaða undirritaðs að viljayfirlýsing þessi hafi á engan hátt skuldbindinagargildi fyrir verkefnastjórn menningarhúss í Vestmannaeyjum og hér hafi einungis tveir einstaklingar lofað hvorum öðrum að leggja fram tillögur sem þeir höfðu samið sjálfir, en báðir þess búnir að tillögurnar verði ekki samþykktar af þeim sem þeir væru fulltrúar fyrir.”

Svohljóðandi bókun barst frá Lúðvíki Bergvinssyni:

“Meirihlutasamstarf Vestmannaeyjalista og Framsóknarflokksins hefur verið með miklum ágætum. Tekist hefur að koma mörgum góðum málum af stað og ljúka öðrum. Í ljósi trúnaðarbrests sem upp er komin milli Framsóknarflokks og Vestmannaeyjalista telja bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalista ekki rétt að halda áfram meirihlutasamstarfi þessara lista. Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjarlistans hafa tekið þá ákvörðun með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.”

Tillaga barst frá Lúðvíki Bergvinssyni og Arnar Sigurmundssyni um að fresta bæjarráðsfundi og var það samþykkt.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.28.

Lúðvík Bergvinsson

Andrés Sigmundsson

Arnar Sigurmundsson

Bergur E. Ágústsson


Jafnlaunavottun Learncove