Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2740
BÆJARRÁÐ
2740. fundur.
Ár 2004, mánudaginn 27. september kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Lúðvík Bergvinsson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fyrir lá til kynningar erindi Vestmannaeyjarbæjar sem lagt verður fyrir fjárlaganefnd Alþingis á fundi sem fulltrúar bæjarins munu eiga með nefndinni, þriðjudaginn 28. september nk.
2. mál.
Fyrir lá fyrirspurn frá ritstjórn Frétta, dags. 22. september 2004.
Svohljóðandi svar barst frá bæjarstjóra.
“Vegna mikillar umræðu um auglýsingamál og viðskipti Vestmannaeyjabæjar við fyrirtæki innan bæjarfélagsins, teljum við rétt að gera undantekningu á birtingu viðskipta. Þetta er gert í samráði við neðangreinda aðila.
Samkvæmt viðskiptamannabókhaldi Vestmannaeyjabæjar eru heildarviðskipti við eftirtalda aðila á umbeðnu tímabili sem hér segir.
Eyjasýn ehf. kr. 1.014.600.-
Fjölmiðlastofan ehf. kr. 641.380.-
Jóhann Ingi Árnason kr. 214.761.-
Þess skal getið að það er stefna núverandi meirihluta að eðlilegt sé að birta viðskipti bæjarfélagsins við einstaka fyrirtæki og einstaklinga einu sinni á ári og verður það gert í heild sinni áður en langt um líður.”
3. mál.
Arnar Sigurmundsson lagði fram eftirfarandi tillögu:
“Bæjarráð Vestmannaeyja skorar á þingmenn Suðurkjördæmis að sjá til þess að framkvæmdum og lagningu bundins slitlags á 4,6 km. kafla á Bakkaveg í Landeyjum verði lokið á fyrrihluta ársins 2005. Bæjarráð bendir á að gert er ráð fyrir fjárveitingum til þess að ljúka verkinu á Vegaáætlun 2004-2006. Verkið hefur enn ekki verið boðið út og áætlaður framkvæmdatími er ekki í samræmi við loforð þingmanna og frambjóðenda í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningar 2003. Að endingu bendir bæjarráð á að ráðgert er að taka nýja flugstöð í noktun á Bakkaflugvelli í mars 2005 og er þessi tæplega 5 km. vegarkafli sá eini sem ekki er bundinn varanlegu slitlagi á þessari fjölförnu leið.”
Lúðvík Bergvinsson lagði fram svohljóðandi bókun:
“Eðli málsins samkvæmt tek ég ekki þátt í afgreiðslu málsins. Til upplýsingar skal þess getið að á fundi þingmannahóps Suðurkjördæmis í mars sl., var ákveðið að fela Vegagerðinni að taka saman upplýsingar um framkvæmd verksins svo hægt væri að bjóða það út fyrir lok árs 2004. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni í dag verður upplýsingasöfnun lokið í október nk. og í framhaldi af því verði hægt að fara í útboð. Samkvæmt gildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir því að á árinu 2004 verði varið 23 milljónum króna til verksins, árið 2005 verða settar 38 milljónir króna í verkið og 23 milljónir árið 2006. Samtals hefur því verið ákveðið að setja 83 milljónir króna til verksins. Samkvæmt ákvörðun þingmannahópsins má því gera ráð fyrir því að verkið verði klárað á árinu 2005. Komi ekki til niðurskurðar núverandi ríkisstjórnar á gildandi samgönguáætlun má gera ráð fyrir því að þessi áætlun standist.”
Andrés Sigmundsson óskaði bókað:
“Tek undir tillögurnar enda hefur sambærileg ítarleg tillaga verið samþykkt áður.”
Bæjarráð samþykkiri tillöguna.
4. mál.
Arnar Sigurmundsson óskaði eftir að því að bæjarráð fjallaði um eftirtalin mál á fundi sínum:
a) Þriggja ára áætlun Vestmannaeyjabæjar og stofnana vegna áranna 2004 – 2007.
Svohljóðandi svar barst frá bæjarstjóra:
“Sú 3ja ára áætlun, 2004-2007, sem samþykkt var við síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar 16. sept. sl. hefur að geyma alla helstu þætti er varða samskipti við Fasteign hf. svo sem innstreymi fjármuna vegna sölu eigna og tilsvarandi lækkun á mati eigna. Jafnframt er sýnd ráðstöfun söluverðsins til lækkunar skulda og annarra þátta. Hvað varðar rekstur er gert ráð fyrir nettó bata að upphæð kr. 20 m. árlega. Í næstu 3ja ára áætlun má vænta þess að þessar fjárhæðir verði nákvæmari en megin línurnar hafa verið dregnar í núverandi áætlun. Það eru engar forsendur fyrir því að færa leigusamninga við Fasteign hf. sem skuldbindingar í efnahagsreikningi, frekar en aðra húsaleigusamninga bæjarins, framtíðar skuldbindinga vegna lána eða innri leigu til Eignarsjóðs, enda er Vestmannaeyjabær ekki skuldbundinn til þess að leysa eignir til sín að loknum leigutíma. Það er sennilegt að leigusamninga verði getið í skýringum með ársreikningi en farið verður eftir leiðbeiningum frá endurskoðanda bæjarins í þeim efnum. Þannig stendur núverandi 3ja ára áætlun óhögguð sem rammi um fjárhag bæjarins næstu 3 árin og lýsir þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið.”
Arnar Sigurmundsson lagði fram eftirfarandi bókun vegna svara bæjarstjóra:
“Er ósammála þeim sjónarmiðum sem fram koma í svari bæjarstjóra. Engin efnisleg umræða hefur farið fram í bæjarstjórn um breytingar á 3ja ára áætlun Vestmannaeyjabæjar. Fyrri umræða fór fram um 3ja áætlun bæjarins 27. maí sl. og varð samkomulag um að fresta síðari umræðu þar til niðurstaða kæmi í viðræður við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. Sérstakur óháður ráðgjafi á vegum bæjarins, Ingvi Elliðason, hjá KPMG lét þá skoðun mjög skýrt í ljós á borgarafundi í vor að Vestmannaeyjabæ beri skylda til þess að geta 30 ára húsaleiguskuldbindinga við Fasteign hf. meðal annarra skuldbindinga bæjarfélagsins. Þessar gríðarlegu skuldbindingar sem nema alls 3.100 milljónum á núverandi verðlagi ásamt breytingum á niðurstöðum rekstrar- og efnahagsreiknings verða að koma skýrt fram í þeim áætlunum sem bæjarstjórn samþykkir. Annað gengur ekki og er ekki í samræmi við góða reikningsskila venju.”
Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri óskar bókað:
“Það að halda því fram að ekki sé unnið eftir góðri reikningsskila venju er fráleitt. Vestmannaeyjabær mun færa sitt bókhald samkvæmt þeim lögum og reglum sem um slíkt gilda þ.e. á sambærilegan hátt og önnur sveitarfélög.”
Andrés Sigmundsson og Lúðvík Bergvinsson óskuðu eftir að taka undir bókanir bæjarstjóra.
b) Byggingu menningarhúss í Vestmannaeyjum.
Upplýst var á fundinum að fyrirhugaður fundur í verkefnisstjórn um byggingu menningarhús í Vestmannnaeyjum mun funda nk. mánudag og munu mál þá skýrast betur.
c) Hvenær ráðgert sé að hefja útboð á byggingu leikskóla sem byggja á Sólarreitnum við Ásaveg og hvernig fyrirkomulagi útboðsins verði háttað.
Upplýst var að stefnt sé að samningum við eignarhaldsfélagið Fasteign hf. um byggingu leikskólans og að félagið muni bjóða út byggingu hans.
Arnar Sigurmundsson lagði fram eftirfarandi bókun vegna svara meirihluta bæjarráðs:
“Í aðdraganda þessa máls hefur verið gert ráð fyrir útboði á byggingu nýs leikskóla. Ég ítreka fyrri skoðun mína að bjóða eigi verkið út og jafnframt verði Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. gefinn kostur að bjóða í byggingu leikskólans með sama hætti og öðrum byggingaverktökum.”
5. mál.
Arnar Sigurmundsson bæjarráðsmaður lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
“Hver samþykkti að hálfu bæjarfélagsins að greiða kr. 71,3 millj. kr. úr bæjarsjóði Vestmannaeyja til Eignarhaldsfélagsins Fasteign hf. vegna viðhalds og endurbóta og draga af söluverði átta fasteigna í eigu Vestmannaeyjabæjar.
Nú liggur fyrir í gögnum Vestmannaeyjabæjar að mat bæjarins var liðlega kr. 49 milljónir króna vegna þessara sömu liða og munar þar 21,9 millj. kr.
Hver hafði heimild til þess að samþykkja að þessar greiðslur leiði ekki til lækkunar húsaleigu þegar um umtalsverðar endurbætur er að ræða?
Af hverju var húsaleigustofninn til Fasteignar hf. ekki lækkaður um þá fjárhæð allann leigutímann?
Hver er áætlaður kostnaður við skjalagerð við sölu- og leigusamninga og matsstörf komi til þess að þessar fasteignir verði seldar Fasteign?
Svohljóðandi svar barst frá meirihluta bæjarráðs:
“Með aðkomu Vestmannaeyjabæjar að Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf., undirgekkst bærinn ákveðið fyrirkomulag vegna sölu og leigu á þeim átta fasteignum sem seldar verða til félagsins og er það í öllum atriðum það sama og önnur bæjarfélög gera í sínum samningum við Fasteign hf. Eignirnar eru metnar með hliðsjón af stærð og notkunargildi, þ.e. hvort um sé að ræða skrifstofuhúsnæði, skólahúsnæði, vöruskemmu o.s.frv og var söluverðmæti eignanna skv. þessu mati 1.181.635.050 kr. Frá þessari tölu dregst kostnaður við framkvæmdir sem nauðsynlegt er að ráðast í vegna viðhalds og endurbóta á fasteignunum.
Þar sem viðhaldi á þessu eignum hefur ekki verið sinnt sem skildi er ljóst að ráðast þarf í umtalsverðar framkvæmdir til koma eignunum í það horf sem aðilar geta verið sáttir við og talsverðar endurbætur þarf að gera á nokkrum þeirra, þ. á m. á Safnahúsinu. Þessar framkvæmdir, þ.e. viðhald og endurbætur eru metnar á 71.3 m.kr.
Starfsmenn Vestmannaeyjarbæjar hafa í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar reiknað út hver lágmarkskostnaður bæjarins sé að koma þessum átta eignum í viðunandi horf og er þá aðeins reiknað með lágmarks viðhaldi eða endurbótum. Samkvæmt þeim útreikningum er kostnaður vegna þessara lágmarks framkvæmda metin á um 49. m.kr.
Af þessum sökum er ekki hægt að bera saman þessar tölur eins og gert er í fyrirspurninni, enda eru forsendur fyrir þessum útreikningum ekki þær sömu. Útreikningar bæjarins miðast við lágmarksviðhald og ódýrari viðhalds- og endurbótaleiðum en þeir útreikningar sem kveðið er á um í samningum aðila. Þar er gert ráð fyrir öllu meira viðhaldi og umfangsmeiri og varanlegri endurbótum en gert var í útreikningum bæjarins, s.s. á Safnahúsinu.
Starfsmenn Vestmannaeyjabæjar hafa farið yfir þessa útreikninga sem liggja til grundvallar í samningum bæjarins við Fasteign hf. og sáu ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá. Hvorki við einstaka kostnaðarliði, né umfang þess viðhalds og þeirra endurbóta sem félagið ætlar að ráðast í.
Ástæða þess að leigugrunnurinn var ekki lækkaður um þá fjárhæð sem þessar endurbætur og viðhald munu kosta eru þær að Fasteign hf. greiddi Vestmannaeyjabæ fyrir eignirnar eins og þær væru í fullkomnu ástandi. Félagið mun síðan fara í þessar framkvæmdir fyrir eigin kostnað. Leigugrunnur er því reiknaður út frá söluverði fasteignanna og miðast hann við að fasteignirnar séu í fullkomnu ástandi á leigutímanum. Þar sem ekki hefur verið ráðist í þessar framkvæmdir en leiguverðið er miðað við að viðhald fasteignanna hafi að fullu verið framkvæmt, fær bærinn afslátt af hverri fasteign þar til umsömdum framkvæmdum hefur verið lokið og fasteignum komið í fullnægjandi horf.
Vegna fyrirspurnar um hver hafi haft heimild til að samþykkja 71,3 m.kr. greiðslu úr bæjarsjóði til Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf., vegna viðhalds og endurbóta og draga frá söluverði fasteigna sem seldar verða félaginu og hver veitti heimild til að samþykkja að þessar greiðslur leiði ekki til lækkunar á húsaleigu, er því til að svara að bæjarstjórn ein hefur heimild til að skuldabinda Vestmannaeyjabæ með þessum hætti.
Af þeim sökum var það bæjarstjórn sem skuldbatt Vestmannaeyjabæ með fyrrnefndum hætti er hún samþykki kaup- og leigusamninga vegna þeirra átta eigna sem seldar verða félaginu, á fundi sínum þann 16. september sl. Enda voru þessar ráðstafanir hluti af samningsdrögunum.
Þá er rétt að geta að kostnaður Vestmannaeyjabæjar vegna þessara samninga er óverulegur og takmarkast fyrst og fremst við vinnu starfsmanna bæjarins.”
Arnar Sigurmundsson lagði fram eftirfarandi bókun:
“Í svari meirihluta bæjarstjórnar kemur fram að kostnaður við endurbætur umfram eðlilegt viðhald við afhendingu eignanna verður reiknaður inní húsaleigugreiðslu bæjarins til Fasteignar hf.. Auk þess að Vestmannaeyjabær mun þurfa að greiða allann viðhaldskostnað innanhúss, þar á meðal á hita- og rafmagnskerfum á 30 ára leigutíma, fellur það í hlut bæjarins að greiða Fasteign hf. húsaleigu vegna endurbóta á þeim húseignum sem meirihluti bæjarstjórnar hyggst selja Fasteign hf. Ofan í kaupin fellur Vestmannaeyjabær frá innheimtu fasteignagjalda af þeim húseignum sem seldar verða Fasteign hf.. Þar með er Fasteign hf. sett í sérstakan flokk meðal greiðenda fasteignagjalda í Eyjum. Slíkt hlýtur að orka mjög tvímælis og kalla fram spurningar um heimildir bæjarfélagsins og mismunum gagnvart öðrum eigendum fasteigna í Vestmannaeyjum.”
Andrés Sigmundsson og Lúðvík Bergvinsson óska bókað:
“Vísum fullyrðingum Arnars Sigurmundsson um greiðslu fasteingagjalda á bug sem röngum. Bókun Arnars tekur mið af því að hann er andvígur samningum við Eignarhaldsfélagið Fasteign og verður að skilja bókunina í því ljósi.”
6. mál.
Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 3. september sl., vegna fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2004.
7. mál.
Fyrir lá sameiginleg viljayfirlýsing félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna átaks um eflingu sveitarstjórnarstigsins.
8. mál.
Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 17. september sl., vegna ráðstefnu um Staðardagskrá 21.
9. mál.
Samningamál.
10. mál.
Fyrir lá fundargerð 195. fundar Launanefndar sveitarfélaga.
11. mál.
Fyrir lá fundargerð 67. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.57.
Andrés Sigmundsson
Lúðvík Bergvinsson
Arnar Sigurmundsson
Bergur Elías Ágústsson