Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2738
BÆJARRÁÐ
2738. fundur.
Ár 2004, mánudaginn 13. september kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fyrir lágu eftirfarandi samningsdrög við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. vegna sölu og leigu á hluta fasteigna Vestmannaeyjabæjar.
a) Þrír kaupsamningar, ódagsettir, vegna sölu á eftirfarandi fasteignum:
1. Hamarsskóla, fastnr. 218-3364, 3365 og 3366.
2. Skólavegi 40, fastnr. 218-4610 (Barnaskólinn).
3. Kirkjuvegi 52, fastnr. 218-4417 (Safnahúsið), Týrsheimilið við Hásteinsveg, fastnr. 218-3693 og 3694, Heiðarvegi 19, fastnr. 218-3748 (Félagsheimilið), Hamarsvegi 160736, fastnr. 218-3560 (Þórsheimilið), Dalhrauni 1, fastnr. 218-3112 og 3113 (Kirkjugerði) og Boðaslóð 8 – 10 8R, fastnr. 218-2725 (Rauðagerði).
b) Átta leigusamningar, ódagsettir, ásamt fylgiskjölum vegna leigu Vestmannaeyjabæjar á eftirfarandi fasteignum:
1. Hamarsskóla, fastnr. 218-3364, 3365 og 3366,
2. Skólavegi 40, fastnr. 218-4610 (Barnaskólinn),
3. Kirkjuvegi 52, fastnr. 218-4417 (Safnahúsið),
4. Týrsheimilið við Hásteinsveg, fastnr. 218-3693 og 3694,
5. Heiðarvegi 19, fastnr. 218-3748 (Félagsheimilið),
6. Hamarsvegi 160736, fastnr. 218-3560 (Þórsheimilið),
7. Dalhrauni 1, fastnr. 218-3112 og 3113 (Kirkjugerði) og
8. Boðaslóð 8 – 10 8R (Rauðagerði), fastnr. 218-2725,
c) Yfirlýsing, ódagsett, frá Fasteign hf. vegna innanhússviðhalds og afsláttar.
Bæjarráð samþykkir með tveimur atkvæðum gegn einu fyrirliggjandi samninga við Eignarhaldsfélagið Fasteign og felur bæjarstjóra að undirrita þá.
Bókun Arnars Sigurmundssonar bæjarráðsmanns vegna afgreiðslu meirihluta bæjarráðs:
“Nú liggja fyrir kaupsamningar vegna sölu Vestmannaeyjabæjar á átta fasteignum í eigu bæjarins til Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. Samhliða þessu eru nú lagðir fram húsaleigusamningar við Fasteign hf. um þessar sömu fasteignir til 30 ára.
Söluverð bæjarins á þessum átta fasteignum ásamt lóðarleiguréttindum er samtals liðlega 1181 millj. króna. Til frádráttar kemur við söluna viðhald að mestu utanhúss á þessum sömu fasteignum sem bærinn þarf að greiða Fasteign hf. að fjárhæð rúmlega 71 millj. kr. Þá kaupir bærinn hlutabréf í Fasteign hf. að fjárhæð 174 millj. kr. Að endingu kemur hlutur ríkisins í grunnskólum að upphæð liðlega 100 millj. kr. sem greiðsla til bæjarins í áföngum til ársins 2010. Þegar búið er að draga þessa liði frá heildarupphæðinni nemur greiðslan frá Fasteign til Vestmannaeyjabæjar rúmlega 836 millj. kr. Þetta er verðmat fyrir Hamarsskóla, Barnaskóla Vm., Safnahúsið, Félagsheimilið við Heiðarveg, Týsheimilið, Þórsheimilið og leikskólana Rauðagerði og Kirkjugerði.
Miðað við núverandi verðlag og 30 ára húsaleigusamning við Fasteign hf. mun leigufjárhæð nema rúmlega 103 millj. kr á ári eða rúmlega 3.100 milljónir króna á 30 ára samningstíma. Bærinn þarf að falla frá innheimtu fasteignagjalda af þessum fasteignum, en það er meira en aðrir eigendur fasteigna eiga að venjast. Þá þarf bærinn að annast allt innanhúss viðhald á 30 ára leigutíma, þar á meðal á hita- og rafmagnskerfum. Þá liggur nú fyrir að ætli Vestmannaeyjabær að kaupa eignirnar til baka þá verður að greiða fullt verð fyrir þær, þrátt fyrir að á kynningarfundum í vor hafi verið talað um 1,5% árlegar afskriftir komi til endurkaupa bæjarins.
Ég hef áður gert grein fyrir andstöðu minni við þennan gjörning meirihluta bæjarstjórnar og tel að þetta verði einfaldlega of dýr kostur fyrir Vestmannaeyjabæ.
Til þess að átta sig betur á þessum sérstöku samningum er rétt að benda á að Safnahúsið verður selt á liðlega 153 milljónir króna. Það segir ekki alla söguna. Bærinn þarf við undirskrift kaupsamnings að greiða Fasteign hf. 25 millljónir króna fyrir meiriháttar utanhúss framkvæmdir á Safnahúsinu þannig að raunverulegt kaupverð lækkar í 127 milljónir króna. Nú skildi einhver ætla að stofn vegna leigu á Safnahúsinu væri 127 milljónir, en svo er ekki, hann verður 153 milljónir. Þarf bærinn fyrst að greiða 25 milljónir vegna viðhalds og greiða síðan leigu í 30 ár af þessum 25 milljónum sem hann greiddi Fasteign. Ég trúi því tæpast að fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar ætli að ganga þannig til verka. Þessi liður einn kostar í viðbótarleigu á núverandi verðlagi rúmlega 65 milljónir á samningstímanum. Ástæðan fyrir því að þetta er dregið fram er einfaldlega sú að þetta stingur mest í augun og kallar á að ráðmenn bæjarins staldri nú við og skoði málið mun betur.
Ég var í hópi þeirra bæjarfulltrúa sem vildi skoða kosti og galla að ganga til samstarfs við Fasteign hf. eða annað fasteignafélag. Eftir ítarlega skoðun á málinu lagði ég til að Vestmannaeyjabær stofnaði eigið fasteignafélag líkt og nokkur sveitarfélög hafa gert. Sú tillaga var felld. Þá lagði ég til að Vestmannaeyjabær notfærði sér þau tækifæri sem skapast hafa með lækkun langtímavaxta og fara í skuldabréfaútboð að fjárhæð 600 milljónir króna. Þeir fjármunir yrðu eingöngu notaðir til að greiða upp óhagstæðari lán og til að draga úr gengisáhættu. Þessi tillaga var felld á síðasta bæjarráðsfundi. Minnihluti bæjarstjórnar verður seint sakaður um að hafa ekki beitt áhrifum sínum til þess að lenda þessu máli í þokklegri sátt. Við sem eigum sæti í bæjarstjórn megum ekki láta stundarhagsmuni ráða för. Við verðum að horfa einnig til framtíðar og stefna ekki skuldbindingum í þá óvissu eins og allt útlit er fyrir í þessu máli.”
Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson bæjarráðsmenn óska bókað:
“Mál þetta hefur fengið góða og málefnalega umfjöllun, niðurstaða meirihluta bæjarráðs er sú sama og önnur sveitarfélög, s.s. Reykjanesbær, Garðabær, Vogar og Sandgerði hafa komist að, að hér sé um skynsama og hagkvæma aðgerð að ræða. Samningar við Eignarhaldsfélagið Fasteign eru ígrunduð ákvörðun sem leiða mun til lægri útgjalda fyrir bæjarfélagið til lengri tíma litið, sem er kjarni málsins.”
2. mál.
Fyrir lá bréf frá Fasteignamarkaðnum ehf., dags. 9. september sl., vegna sölu á fasteignum Vestmannaeyjabæjar og leigu á þeim til baka.
Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson óska bókað:
“Rætt hefur verið við eigendur Fasteignamarkaðsins ehf. vegna bréfs þeirra dagsett 9. september 2004. Samkvæmt þeim viðræðum eru báðir aðilar sammála um að ekki sé grundvöllur fyrir frekari viðræðum þar sem umbjóðandi Fasteignamarkaðsins getur ekki boðið þau kjör sem Eignarhaldsfélagið Fasteign hf býður.”
Arnar Sigurmundsson vísar til fyrri afstöðu sinnar í málinu
Bæjarráð telur ekki efni til frekari viðræðna.
3. mál.
Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 2. september sl., vegna útgjaldajöfnunarframlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
4. mál.
Fyrir lá bréf frá fjárlaganefnd Alþingis, dags. 4. september sl., vegna fundar með nefndinni.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirbúa erindi Vestmannaeyjabæjar til fjárlaganefndar og koma á fundi með nefndinni.
5. mál.
Fyrir lá að skipa í þriggja manna starfshóp, skv. 1. máli frá fundi bæjarráðs frá 6. september sl.
Tilefnt verður í hópinn á næsta bæjarstjórnarfundi.
6. mál.
Fyrir lá fundargerð fulltrúa sveitarstjórna á Suðurlandi vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, dags. 2. september sl.
7. mál.
Fyrir lá fundargerð 377. stjórnarfundar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga frá 3. september sl.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.12.
Andrés Sigmundsson (sign.)
Stefán Jónasson (sign.)
Arnar Sigurmundsson (sign.)
Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri (sign.)