Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2737

06.09.2004

BÆJARRÁÐ

2737. fundur.

Ár 2004, mánudaginn 6. september kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Lúðvík Bergvinsson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Andrés Sigmundsson lagði fram svohljóðandi tillögu:

“Bæjarráð samþykkir að setja á fót starfshóp, sem fara skal yfir skjala- og upplýsingavörslu hjá Vestmannaeyjabæ og stofnunum hans. Starfshópurinn skal skila greinargerð og tillögum til úrbóta eigi síðar en 15. október nk.”

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

2. mál.

Fyrir lágu drög að samstarfssamningi við Taflfélag Vestmannaeyja.

Bæjarráð samþykkir samningsdrögin með áorðnum breytingum fyrir sitt leyti og vísar drögunum til menningar- og tómstundaráðs Vestmannaeyjabæjar til afgreiðslu. Gert verður ráð fyrir fjárhæðinni við endurskoðun fjárhagsáætlunar.

3. mál.

Með vísan til 1. máls, 2730. fundar bæjarráðs þann 28. júní 2004, lá fyrir greinargerð umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar, dags. 26. ágúst vegna byggingu nýs leikskóla.

Í framhaldi af 2730. fundi bæjarráðs 1. mál og samþykktar á fundi bæjarstjórnar 30. júní s.l. samþykkir bæjarráð að fyrirhuguð bygging á nýjum 6. deilda leikskóla verði staðsett á Sólareitnum við Ásaveg. Bæjarráð felur umhverfis-og skipulagsráði að gera viðhlítandi ráðstafanir vegna byggingarinnar. Starfsemi leikskólans Sóla verður með óbreyttum hætti meðan á byggingu stendur og reynt verður eins og kostur er að truflun vegna framkvæmda við nýbygginguna verði sem minnst.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

“Fagna staðsetningu á nýjum leikskóla Vestmannaeyjabæjar á Sólalóðinni við Ásaveg og á svæðinu þar fyrir austan. Að öðru leyti vísast til fyrri afstöðu minnar varðandi útboð og byggingu á nýjum 4 deilda leikskóla á þessum sama stað.”

4. mál.

Að ósk Arnars Sigurmundssonar bæjarráðsmanns, var fjallað um fundaskipan og verkefni bæjarráðs og breytingar á hlutverki ráða og nefnda í nýsamþykktri bæjarmálasamþykkt fyrir Vestmannaeyjar.

5. mál.

Arnar Sigurmundsson lagði fram svohljóðandi greinargerð og tillögu:

Á fundi bæjarstjórnar sem haldinn var 26. ágúst 2004 var eftir miklar umræður fallið frá því að leggja fram tillögu um sölu á fasteignum bæjarins til Fasteignar ehf.í Reykjavík. Þess í stað samþykkti bæjarstjórn einróma, eftir fundarhlé að fela bæjarráði og bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

Í viðtali í blaðinu Vaktin sem kom út 2. sept. 2004 er haft eftir formanni bæjarráðs að síðasti fundur bæjarráðs sem haldinn var 24. ágúst sl. og fundur bæjarstjórnar 26. ágúst sl. hafi verið kynningarfundir um málið, en engu að síður áttu kaupsamningar og leigusamningar milli bæjarins og Fasteignar ehf. að taka gildi 1. september 2004.

Núverandi staða málsins er einfaldlega sú að breyttar forsendur, svo sem veruleg lækkun langtímavaxta á markaði ásamt gagnrýni á endurkaupsverð bæjarins að loknum leigutíma ásamt viðameiri skyldum leigutaka og gengisáhætta tengd leigukjörum hafi valdið því að boðuð tillaga um samninga við Fasteign ehf. hafi ekki verið borin fram á fundi bæjarstjórnar 26. ágúst sl.

Í framhaldi af ofangreindu legg ég fram eftirfarandi tillögu að ályktun bæjarráðs:

“Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að hefja nú þegar undirbúning að skuldabréfaútboði á innlendum fjármagnsmarkaði fyrir Vestmannaeyjabæ að fjárhæð allt að 600 milljónir. króna. Lánið verði í íslenskum krónum og lánstími verði til allt að 30 ára. Lánsfjárhæðinni verði varið til þess að greiða upp eldri lán Vestmannaeyjabæjar sem bera hærri vexti en nú eru í boði á markaði og til að draga úr gengisáhættu af erlendum lánum.

Jafnframt samþykkir bæjarráð að fresta frekari viðræðum við Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. Reykjavík um sölu á fasteignum bæjarins fyrir um 1200 milljónir króna og gera leigusamning til 30 ára við sama félag gegn skuldbindingum/leigugreiðslum að fjárhæð um 3200 milljónir króna miðað við núverandi verðlag.”

Meirihluti bæjarráðs óskaði bókað með afgreiðslutillögu sinni:

“Meirihluti bæjarráðs undrar mjög þá framsetningu sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur á tillögu sinni og vísar forsendum sem fram koma í henni á bug. Það er öllum ljóst sem sett hafa sig inn í þessi mál að sveitarfélaginu bjóðast aldrei lánskjör eins og þau sem það getur fengið í gegnum Eignarhaldsfélagið fasteign hf. Með vísan til þess hafnar meirihlutinn alfarið tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.”

Til þess að skýra málið vill meirihlutinn setja fram eftirfarandi rökstuðning:

Dæmi 1.

Sé tekið 600 milljón króna lán til 30 ára á 4,2% vöxtum og verðlagsbreytingu síðastliðins árs, eins og Arnar leggur til. Felur það í sér skuldbindingu fyrir bæjarfélagið upp á 1.619 milljónir króna á tímabilinu. Að auki þyrfti bæjarfélagið að annast eignirnar að öllu leyti með tilheyrandi viðhaldskostnaði utandyra eða um 15 milljónir á ári þ.e samtals 450 milljónir á 30 árum.

Samsvarandi skuldbinding í gegnum Eignarhaldsfélagið Fasteign felur í sér skuldbindingu upp á 1.576 milljónir króna. Til frádráttar þessari upphæð kemur síðan ávöxtun hlutafjáreignar í Fasteign hf. upp á 90 (180/2) milljónir að nafnvirði. Með 10% ávöxtun gefur 270 milljónir.

Dæmi 2.

Sé tekið 1.200 milljón króna lán til 30 ára á 4,2% vöxtum og verðlagsbreytingu síðastliðins árs, eins og Arnar leggur til. Felur slíkt í sér skuldbindingu fyrir bæjarfélagið upp á 3.300 milljónir króna á tímabilinu.

Samsvarandi skuldbinding í gegnum Eignarhaldsfélagið Fasteign felur í sér skuldbindingu upp á 3.200 milljónir króna. Til frádráttar þessari upphæð kemur síðan ávöxtun hlutafjáreignar í Fasteign Hf upp á 180 milljónir að nafnvirði. Með 10% ávöxtun gefur 540 milljónir.

Það sér hvert mannsbarn sem vill sjá að það er ekki að ástæðulausu sem Garðabær, Reykjanesbær, Sandgerði og Vogar hafa gengið inn í félagið og eru jafnframt eigendur þess.

Ástæðurnar eru margar og góðar;

  • Lægri rekstrarkostnaður vegna stærðarhagkvæmni
  • Skilvirkt kostnaðareftirlit í rekstri fasteigna
  • Útgjöld fyrirsjáanlegri (vegna viðhalds)
  • Leigukjör endurskoðuð á 5 ára fresti
  • Leigugreiðslur lækka í takt við lægri fjármagns og rekstrarkostnað
  • Skilvirkari rekstur sveitarfélags
  • Arður af eignarhaldi í Fasteign hf.
  • Betri lánskjör.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað varðandi afgreiðslu meirihluta bæjarráðs

“Í samanburði meirihluta bæjarráðs vantar einfaldlega þá tölulegu staðreynd að 30 ára húsaleiga/skuldbinding á átta tilgreindum fasteignum bæjarins er áætluð 3.200 milljónir á núverandi verðlagi. Þá á eftir að gera ráð fyrir verðlagsbreytingum á Íslandi og breytingum á gengi Evru á 30 ára samningstíma. Þessu til viðbótar mun bærinn þurfa að annast allt hefðbundið viðhald innanhúss og rekstur og viðhald hita-, vatns- og raflagna í þessum húseignum.. Að þessu er ljóst að samningur við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. er einfaldlega of dýr kostur fyrir Vestmannaeyjabæ. Nýlegar vaxtalækkanir á innlendum fjármagnsmarkaði auka á óhagræðið við að selja þessar fasteignir bæjarins til Fasteignar ehf. í Reykjavík. Þá hefur enn ekki fengist skýring á breyttum forsendum Fasteignar við hugsanleg endurkaup bæjarins á þessum fasteignum á samningstímanum.

Óska eftir því að bæjarstjóri leggi fram á næsta fundi bæjarráðs sambærilegan útreikning á áætlaði þróun leiguverðs samkvæmt samningi við Fasteign hf. með sambærilegum hætti og meirihluti bæjarráðs gerði með 600 millj. kr. lán til 30 ára með 4,2% föstum vöxtum.”

Meirihluti óskar bókað.”

“Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. er að stærstum hluta í eigu sveitarfélaganna. Það er því tryggt, takist samningar við félagið um samstarf, að hagmunum bæjarfélagsins verður gætt í hvívetna og því vill meirihluti bæjarráðs ítreka fyrri bókun.”

6. mál.

Fyrir lá bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, dags. 25. ágúst sl., vegna menningarnætur 2004.

7. mál.

Fyrir lá bréf frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, dags. 23. ágúst sl., vegna tilkynningar um aðalfund samtakanna 2004.

8. mál.

Fyrir lá bréf frá landsmótsnefnd “Landsmóts sumaklúbba”, dags. 19. ágúst sl., vegna fyrirhugaðs landsmóts sem haldið verður helgina 15. til 17. október nk.

Bæjaráðr fagnar framtakinu og felur bæjarstjóra framgang málsins.

9. mál.

Bæjarráð samþykkir að halda aukafund í bæjarráði mánudaginn 13. september nk.

10. mál.

Fyrir lá beiðni frá stjórnsýslu- og fjármálasviði um aukafjárveitingu vegna kaupa á netþjóni vegna bókhaldskerfis.

Bæjarráð samþykkir aukafjárveitingu allt að 600 þús. til kaupa á netþjóni vegna bókhaldskerfis.

11. mál.

Samningamál.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.15.

Andrés Sigmundsson (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri (sign.)

Bókun meirihluta bæjarráðs.

Meirihluti bæjarráðs undrar mjög þá framsetningu sem ftr. Sjálfstæðisflokksins hefur á tillögu sinni og vísar forsendum sem fram koma í henni á bug. Það er öllum ljóst sem sett hafa sig inn í þessi mál að sveitarfélaginu bjóðast aldrei lánskjör einsog þau sem það getur fengið í gegnum Eignarhaldsfélagið fasteign hf. Með vísan til þess hafnar meirihlutinn alfarið tillögu ftr. Sjálfstæðisflokksins.

Til þess að skýra málið vill meirihlutinn setja fram eftirfarandi rökstuðning:

Dæmi 1.

Sé tekið 600 milljón króna lán til 30 ára á 4,2% vöxtum og verðlagsbreytingu síðastliðins árs, eins og Arnar leggur til. Felur það í sér skuldbindingu fyrir bæjarfélagið upp á 1.619 milljónir króna á tímabilinu. Að auki þyrfti bæjarfélagið að annast eignirnar að öllu leyti með tilheyrandi viðhaldskostnaði utandyra eða um 15 milljónir á ári þ.e samtals 450 milljónir á 30 árum.

Samsvarandi skuldbinding í gegnum Eignarhaldsfélagið Fasteign felur í sér skuldbindingu upp á 1.576 milljónir króna. Til frádráttar þessari upphæð kemur síðan ávöxtun hlutafjáreignar í Fasteign Hf upp á 90 (180/2) milljónir að nafnvirði. Með 10% ávöxtun gefur 270 milljónir.

Dæmi 2.

Sé tekið 1.200 milljón króna lán til 30 ára á 4,2% vöxtum og verðlagsbreytingu síðastliðins árs, eins og Arnar leggur til. Felur slíkt í sér skuldbindingu fyrir bæjarfélagið upp á 3.300 milljónir króna á tímabilinu.

Samsvarandi skuldbinding í gegnum Eignarhaldsfélagið Fasteign felur í sér skuldbindingu upp á 3.200 milljónir króna. Til frádráttar þessari upphæð kemur síðan ávöxtun hlutafjáreignar í Fasteign Hf upp á 180 milljónir að nafnvirði. Með 10% ávöxtun gefur 540 milljónir.

Það sér hvert mannsbarn sem vill sjá að það er ekki að ástæðulausu sem Garðabær, Reykjanesbær, Sandgerði og Vogar hafa gengið inn í félagið og eru jafnframt eigendur þess.

Ástæðurnar eru margar og góðar;

  • Lægri rekstrarkostnaður vegna stærðarhagkvæmni
  • Skilvirkt kostnaðareftirlit í rekstri fasteigna
  • Útgjöld fyrirsjáanlegri (vegna viðhalds)
  • Leigukjör endurskoðuð á 5 ára fresti
  • Leigugreiðslur lækka í takt við lægri fjármagns og rekstrarkostnað
  • Skilvirkari rekstur sveitarfélags
  • Arður af eignarhaldi í Fasteign hf.
  • Betri lánskjör. 

Jafnlaunavottun Learncove