Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2736

24.08.2004

BÆJARRÁÐ

2736. fundur.

Ár 2004, þriðjudaginn 24. ágúst kl. 10.00 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Bæjarráð þakkar Reykjavíkurborg fyrir þann heiður að Vestmannaeyjabær var gestasveitarfélag á menningarnótt 21. ágúst sl. Jafnframt þakkar bæjarráð öllum þeim er komu að undirbúningi, framkvæmd og flutningum vegna menningarnætur og þá ekki síst öllum þeim þúsundum gesta er komu við í Ráðhúsi Reykjavíkur til að upplifa og skemmta sér við hina sönnu Eyjastemmingu.

Það hefur orðið að samkomulagi að sýningum er komið var fyrir í Ráðhúsi Reykjavíkur standi þar í viku til viðbótar.

2. mál.

Fyrir lágu drög að kaupsamningum og leigusamningum við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. vegna sölu á tilteknum fasteignum Vestmannaeyjabæjar.

Bæjarráð vísar samningunum til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Jafnframt samþykkir bæjarráð að taka 3ja ára áætlun bæjarsjóðs til síðari umræðu á næasta fundi bæjarstjórnar.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

“Ítreka andstöðu mína við sölu á fasteignum Vestmannaeyjabæjar til Fasteignar hf. Nauðsynlegt er að afla samþykkis Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga við þessum væntanlega gjörningi, sem felur í sér skuldbindingu um liðlega 3.200 milljóna króna húsaleigugreiðslu vegna 30 ára leigusamnings. Á sama hátt verður að geta þessara gríðarlegu skuldbindinga í 3ja ára áætlun Vestmannaeyjabæjar sem lögð verður fyrir næsta fund bæjarstjórnar."

3. mál.

Bæjarráð samþykkir að næstu fundir bæjarstjórnar verði 16. september, 14. október, 4. nóvember, 2. desember og 30. desember nk.

4. mál.

Að beiðni Arnars Sigurmundssonar, bæjarráðsmanns, var rætt um breytingar á sérdeild í Barnaskóla Vestmannaeyja sem boðaðar hafa verið í upphafi nýs skólaárs.

Svohljóðandi bókun barst frá Andrési Sigmundssyni og Stefáni Jónassyni:

"Allt frá yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á rekstri grunnskóla 1. ágúst 1996 hefur aldrei verið formlega stofnuð sérstök sérdeild við grunnskólana í Vestmannaeyjum. Hvorki hefur verið sótt um stofnun slíkra deilda né menntamálaráðuneytið samþykkt slíka deild eins og lög gera þó ráð fyrir. Í skólastefnu Vestmannaeyjabæjar, sem samþykkt var í bæjarstjórn Vestmannaeyja 7. maí 1998, er ekki gert ráð fyrir tilvist slíkra deilda. Það er því fráleitt af hálfu fulltrúa minnihluta Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði að tala um niðurlagningu sérdeildar við grunnskóla Vestmannaeyja þar sem slík deild hefur aldrei verið stofnuð. Um nokkurt skeið hefur verið uppi faglegur ágreiningur um hvort rétt sé að starfrækja sérdeild/sérskóla við grunnaskóla eða veita sérkennslu, m.ö.o. hvor aðferðin reynist börnum betur. Hvort rétt sé að stofna sérdeild við grunnskóla Vestmannaeyja er ein þeirra spurninga sem leitað verður svara við í úttekt menntamálaráðuneytisins á grunnskólunum í Vestmannaeyjum, sem fyrirhuguð er nú í haust. Allt frá því að Vestmannaeyjabær tók yfir rekstur grunnskólanna hafa framlög vegna sérkennslu verið reiknuð á tiltekinn hátt. Engin breyting hefur orðið á aðferðum við þann útreikning frá árinu 1996. Bæjarstjórn Vestmannaeyja ákveður sérstök framlög til sérkennslu á hverju ári og hefur gert lengi í fjárhagsáætlun hvers árs, sem samþykkt er í bæjarstjórn. Framlög til sérkennslu voru ekki lækkuð umfram annað milli áranna 2003 og 2004 og engar fyrirætlanir um skerðingu á framlagi vegna ársins 2005.

Að undanskildri almennri stefnumótun og ákvörðunum um fjárframlög til sérkennslu, er tilhögun sérkennslu í grunnskólum Vestmannaeyja alfarið á ábyrgð skólastjórnenda. Fræðsluskrifstofu hefur ekki verið greint frá neinum breytingum um tilhögun sérkennslu frá því sem verið hefur undanfarin ár. Vestmannaeyjabær greiðir starfsmönnum laun samkvæmt kjarasamningum. Yfirborgunum til skólastjórnenda, sem talið er að hafi átt sér stað á undanförnum árum, hefur verið sagt upp. Það er túlkun skólastjórnenda að sérdeild starfi í grunnskólunum, sem þýði að skóla- og aðstoðarskólastjórar eigi að fá hærri launagreiðslur. Þessu eru bæjaryfirvöld ósammála, enda hefur engin formleg sérdeild verið starfandi við grunnskólana. Því er ljóst að ef breytingar eru yfirvofandi á sérkennslu í grunnskólunum og skipulagi hennar er það vegna einhliða ákvarðana skólastjórnenda, og því alfarið á þeirra ábyrgð, ekki bæjaryfirvalda."

Svohljóðandi bókun barst frá Arnari Sigurmundssyni:

"Beiðni mín um að ræða breytingar á starfsemi sérdeildar Barnaskóla Vestmannaeyja og sérkennslu í grunnskólum hefur augljóslega valdið nokkrum titringi hjá meirihluta bæjarráðs. Starfsemi sérdeilda og sérkennsla í grunnskólum bæjarins á sér mun lengri sögu, en yfirtaka bæjarins á rekstri grunnskóla árið 1996. Þar hefur verið unnið metnaðarfullt starf og hefur fyrirkomulag sérdeilda/sérkennslu verið með mismunandi hætti hjá Barnaskóla og Hamarsskóla. Ég tel mjög mikilvægt að skólastjórnendum grunnskóla bæjarins verði nú þegar gefinn kostur að gera bæjarráði ýtarlega grein fyrir starfsemi sérdeilda og sérkennslu. Ég tek ekki þátt í ósmekklegri bókun meirihluta bæjarráðs um launakjör skólastjónenda grunnskóla og tel afar mikilvægt að lenda þessu máli sem allra fyrst. Kjörnir bæjarfulltrúar og fulltrúar í skólamálaráði eiga að hafa forystu í mótum skólastefnu bæjarins og þeim áherslum sem fylgja þurfa metnaðarfullu skólastarfi. Sú staða sem nú virðist vera uppi og birtist í síðari hluta bókunar meirihluta bæjarráðs er með öllu óþolandi og getur skaðað það mikilvæga starf sem unnið er í grunnskólum Vestmannaeyjabæjar."

Svohljóðandi bókun barst frá Andrési Sigmundssyni og Stefáni Jónassyni:

"Meirihluti bæjarráðs vísar aðdróttunum fulltrúa minnihluta Sjálfstæðisflokksins í bæjaráði á bug. Ásetningur fulltrúa minnihluta með því að taka þetta mál til umræðu í bæjarráði á þeim forsendum sem hann gerði, var sá einn að reyna að skapa úlfúð milli bæjaryfirvalda og skólastjórnenda. Það er ábyrgðarhluti hjá kjörnum bæjarfulltrúa að vinna á þennan hátt. Þá vekur bókun minnihluta bæjarráðs enn meiri furðu en ella í ljósi erindisbréfs skólamálaráðs, dags. 15. ágúst 1996, og undirritað af Arnari Sigurmundssyni þáverandi formanni skólamálaráðs og núverandi fulltrúa minnihluta í bæjarráði, en þar segir m.a. í 29. gr. "Eigi skólamálaráð þátt í stofnun og uppbyggingu sérdeildar eða sérskóla skal fela fagfólki að gera tillögu að starfsreglum fyrir stofnunina." Eins og fulltrúa minnihluta veit að þá hefur þetta aldrei verið gert. Þetta dregur enn frekar fram hver ásetningur fulltrúa minnihluta í bæjarráði var með þessu upphlaupi. Hann virðist ekki kannast við efni bréfa sem hann undirritar sjálfur. Þrátt fyrir að uppi sé ágreiningur um túlkun kjarasamnings skólastjórnenda og bæjaryfirvalda munu aðilar leysa þann ágreining. Upphlaup eins og það sem fulltrúi minnihlutans hefur staðið fyrir í dag hjálpar þó ekki til til að ná fram viðunandi niðurstöðu, enda tilgangur hans annar."

5. mál.

Á fundinn mættu Ólafur H. Sigurjónsson og Baldvin Kristjánsson frá Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð leggur áherslu á að eiga sem best samstarf við FÍV og vinna að því að efla starf hans frekar.

6. mál.

Fyrir lá tilkynning frá sjávarútvegsráðuneytinu dags. 16. ágúst sl. um úthlutun byggðakvóta.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að sækja um byggðakvót í samræmi við efni bréfsins.

7. mál.

Fyrir lá bréf frá Orkustofnun dags. 9. ágúst sl. þar sem þakkað er fyrir góðar móttökur þegar haldin var ráðstefna á vegum stofnunarinnar í Eyjum.

8. mál.

Fyrir lá bréf frá KB banka dags. 12. júlí sl. um lánamál.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

"Vek athygli á þeirri staðreynd að fyrra bréf KB- banka hf. dags. 16. febrúar sl. var tekið fyrir í bæjaráði daginn eftir. Nú bregður svo til að bréf KB-banka dags. 12. júlí sl. um sama málefni er tekið fyrir í bæjarráði 40 dögum eftir að það var sent.

Það segir allt sem segja þarf um málið á þessari stundu."

9. mál.

Upplýst var að leyfi hafi verið veitt fyrir keppni í mótorcross á svæði á Nýja hrauni 21. ágúst sl.

10. mál.

Fyrir lá bréf frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 27. júlí sl. þar sem óskað er eftir umsögn um endurnýjun Ernu Þórsdóttur á leyfi fyrir gistingu á einkaheimili.

Bæjarráð samþykkir erindið svo fremi sem aðrir aðilar, sem um málið eiga að fjalla, samþykki það einnig.

11. mál.

Fyrir lá fundargerð 376. fundar stjórnar SASS frá 6. ágúst sl.

12. mál.

Fyrir lá fundargerð 66. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 21. júlí sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 12.15.

Andrés Sigmundsson

Stefán Ó. Jónasson

Arnar Sigurmundsson

Bergur Elías Ágústsson


Jafnlaunavottun Learncove