Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2731

05.07.2004

BÆJARRÁÐ

2731. fundur.

Ár 2004, mánudaginn 5. júlí kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Stefán Jónasson og Andrés Sigmundsson bæjarráðsmenn lögðu fram eftirfarandi tillögu:

“Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf., um sölu á fasteignum bæjarins fyrir allt að 1.200.000.000.- króna og um aðild bæjarins að félaginu sem samsvarar um 15% af söluverðmæti þeirra eigna. Þá felur bæjarráð bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að senda tilkynningu þess efnis til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga ásamt fylgigögnum.”

Greinargerð.

Núverandi meirihluti hefur frá því hann tók við völdum leitað leiða til að ná tökum á rekstri bæjarins, sem og að einfalda reksturinn og gera hann skilvirkari. Ein af þeim leiðum sem skoðuð heftur verið er aðkoma Vestmannaeyjabæjar að Fasteignafélginu Fasteign hf., það er mat meirihluta bæjarráðs að hagsmunum Vestmannaeyjabæjar sé betur komið með þátttöku í stórri rekstrareiningu líkt og verið sé að skapa með fyrrnefndu félagi og öðrum bæjarfélögum á landinu en að standa í fasteignarekstri sjálfir, það er í sjálfu sér ekki markmið eða hlutverk bæjarfélaga að vera í fasteignarekstri heldur að bjóða upp á lögbundna og nauðsynalega þjónustu fyrir íbúa sína. Mikil og vönduð vinna og umræða hefur farið fram á undanförnum mánuðum um þessa hugsanlegu aðkomu bæjarins að eignarhaldsfélaginu Fasteign hf., eftir að hafa farið yfir þau gögn og athugasemdir sem liggja fyrir í málinu og er það mat meirihluta bæjarráðs að hagstætt sé fyrir Vestmannaeyjabæ að ganga inn í félagið með hluta af fasteignum sínum til að byrja með og láta félagið sjá um rekstur þeirra. Reynslan hefur líka sýnt það að einkaaðilar hafa oftar en ekki náð betri ágangri við slíkan fasteignarekstur en opinberir aðilar, líkt og bæjarfélög.

Ljóst er að verkefninu fylgja bæði kostir og gallar, séu þeir hinsvegar metnir teljum við að kostirnir séu þyngri á metunum en gallarnir. Er það mat byggt meðal annars á eftirfarandi rökum; losað verður um fjármagn til greiða niður óhagstæð lán sem eru íþyngjandi fyrir rekstur bæjarins, farið verður í að koma þeim fasteignum sem seldar verða til félagsins í gott horf, bæði til hagsbóta fyrir þá aðila sem þær nota sem og fyrir atvinnulífið í Vestmannaeyjum.

Þá er ljóst að Vestmannaeyjabær verður með verkefninu aðili að stærri rekstrareiningu, í því felast nokkrir kostir, s.s. að áhættudreifing, lægri viðhalds- og endurnýjunarkostnaður, minni rekstrarumsvif og gegnsæji í útgjöldum vegna fasteigna bæjarins.

Þá er ótalið hugsanlegur ágóði þess fyrir Vestmannaeyjabæ, sem ávöxtur á eignhlut bæjarins í félaginu mun skila.

Meirihluti bæjarráðs telur þó mikilvægt að þess sé vandlega gætt að tryggja hagsmuni Vestmannaeyjabæjar með sem bestum hætti og að ásættanleg útgönguleið sé til staðar fyrir bæinn, að þeim sökum vill meirihluti tryggja að hann eigi forkaupsrétt á fasteignum og geti keypt þær til baka áður en samningstíma lýkur, s.s. á 5 ára fresti.

Arnar Sigurmundsson gerði grein fyrir afstöðu sinni til málsins með svofelldri bókun og tillögu:

Að selja stóran hluta af fasteignun bæjarfélagsins gegn 30 ára leigusamningi er eitt af stærstu og mikilvægustu málum sem komið hafa til kasta bæjarstjórnar Vestmannaeyja á undanförnum áratugum. Í aðdraganda þessa máls hef ég reynt að kynna mér kosti þess og galla fyrir Vestmannaeyjabæ að ganga til samstarfs við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. Gangi tillaga núverandi meirihluta bæjarstjórnar eftir mun Vestmannaeyjabær verða leigutaki í Barnaskólanum, Hamarsskóla, þremur félagsheimilum, Safnahúsi og Listaskóla. Söluverð allra ofangreindra fasteigna mun losa rúmlega 1000 milljónir kr., en það sem á vantar í 1200 milljónir á eftir að koma í ljós. Vestmannaeyjabær þarf áfram að kosta venjubundið viðhald innandyra í þessum eignum og falla frá öllum fasteignagjöldum þrátt fyrir sölu eignanna til Fasteignar hf. í Reykjavík.

Þá ber að geta þess að árlegar leigugreiðslur Vestmannaeyjabæjar fyrir seldar eignir að fjárhæð 1200 milljónir króna munu nema tæplega 107 milljónum króna á ári. Þessar leiguupphæðir munu síðan breytast 55% miðað við gengi Evru og 45% miðað við innlenda verðlagsþróun á 30 ára samningstíma. Gríðarlegar skuldbindingar felast í 30 ára samningstíma á húsaleigu fyrir Vestmannaeyjabæ og miðað við verðlag í dag telst skuldbindingin um 3.200 milljónir króna sem skylt verður að gera grein fyrir á efnahagsreikningi Vestmannaeyjabæjar. Í lok leigutíma standa eignirnar í 55% verðmæti, miðað við 1,5% afskrift á ári. Ekkert liggur fyrir á hvaða verðlagi verður hægt að leysa þær til sín hvorki þá eða eftir fimm ára leigutíma.

Þeir fjármunir sem munu losna fyrir Vestmannaeyjabæ með sölu ofangreindra eigna eru ákaflega vandmeðfarnir. Miðað við tillögu meirihluta bæjarstjórnar eiga 180 milljónir að ganga til kaupa á hlutafé í Fasteign hf. eftir standa þá rúmlega 1.000 milljónir króna. Endurskoðandi KPMG sem vann greinargerð fyrir Vestmannaeyjabæ vegna þessa máls lagði gríðarlega áherslu á að fjármunir sem losna vegna eignasölu verði eingöngu notaðir til þess að greiða niður lán bæjarfélagsins. Að nota fjármunina í annað væri glapræði.

Með hliðsjón af ofangreindu leggst ég gegn tillögu meirihluta bæjarstjórnar um sölu á fasteignum Vestmannaeyjabæjar til Faasteignar hf. í Reykjavík, gegn 30 ára gengis- og verðlagstryggðum leigusamningi.

Þess í stað geri ég að tillögu minni að skoðaðir verði kostir þess að Vestmannaeyjabær stofni eigið fasteignafélag og eins og nokkur sveitarfélög hafa gert, nú síðast sveitarfélagið Árborg fyrir nokkrum dögum.

Ég tel mikilvægt fyrir bæjarfélagið að vera eigandi þeirra mannvirkja sem nauðsynleg eru til þess að halda uppi lögboðnum verkefnum bæjarfélagsins og nýta sem best þá krafta sem felast í þekkingu og reynslu heimamanna við byggingu og viðhald fasteigna Vestmannaeyjabæjar.

Tillaga Stefáns Jónassonar og Andrésar Sigmundssonar var samþykkt með atkvæðum meirihluta bæjarráðs gegn atkvæði minnihluta.

Tillaga Arnars Sigurmundssonar var felld með atkvæðum meirihluta bæjarráðs.

2. mál.

Fyrir lá fundarboð vegna hluthafafundar í Hitaveitu Suðurnesja hf., 14. júlí nk.

Bæjarráð samþykkir að bæjarstjóri fari með atkvæðisrétt bæjarins á hluthafafundi HS, þann 14. júlí nk.

3. mál.

Ákvörðun um aukafund í bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Bæjarráð samþykkir að halda aukafund í bæjarstjórn miðvikudaginn 7. júlí nk. kl. 18.00.

4. mál.

Fyrir lá greinargerð nefndar um endurskoðun á launum bæjarfulltrúa, ráðs- og nefndarmanna á vegum Vestmannaeyjabæjar, dags. 1. júlí sl.

Bæjarráð samþykkir greinargerðina og þær tillögur sem henni fylgja.

5. mál.

Bæjarráð vill koma þökkum til þeirra sem komu að og tóku þátt í velheppnaðri goslokahátið sem haldin var síðastliðna helgi. Jafnframt vill bæjarráð þakka slökkviliðsmönnum í Vestmannaeyjum fyrir útgáfu bæklings um eldvarnir á heimilum sem dreift var í hús í bænum og Visku, Nýsköpunarstofu og öðrum þeim aðilum sem að komu, fyrir útgáfu bæklings um gönguleiðir í Vestmannaeyjum.

6. mál.

Fyrir lá tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, vegna beiðni um samstarfsaðila að verkefni með sveitarfélaginu Kelme, Litháen.

7. mál.

Fyrir lá bréf frá Úrvinnslusjóði, dags. 30. júní sl., söfnunar og endurnýtingar á heyrúlluplasti.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til umhverfisnefndar.

8. mál.

Fyrir lá bréf frá Brunabót, dags. 24. júní sl., vegna styrktarsjóðs EBÍ.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til framkvæmdastjóra menningar- og fræðslusviðs.

9. mál.

Fyrir lágu tölur frá bæjarstjóra vegna kostnaðar við útgáfu “Ráðhúspóstsins”.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra frekari framgang málsins og að vísa málinu til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.

10. mál.

Samningamál.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20.00.


Bergur Elías Ágústsson (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)


Jafnlaunavottun Learncove