Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2730

28.06.2004

BÆJARRÁÐ

2730. fundur.

Ár 2004, mánudaginn 28. júní kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson bæjarráðsmenn lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Meirihluti bæjarráðs leggur til að byggður verði 6 deilda leikskóli. Jafnframt felur bæjarráð umhverfis og framkvæmdasviði að skila skýrslu um hvort hagkvæmara og betra sé að byggja leikskólann á Sólareitnum eða við Löngulág. Enn fremur leggur meirihluti bæjarráðs til að samhliða verði settur á laggirnar starfshópur um framtíðarnýtingu og starfsemi leikskóla í Vestmannaeyjum, með það m.a. að markmiði að öll börn 18. mánaða og eldri fái leikskólapláss í Vestmannaeyjum, eftir að nýr leikskóli hefur risið. Bæjarráð felur bæjarstjóra að tilnefna í hópinn, ákveða hve stór hann verður, og hvenær tillögum skuli skilað.

Greinargerð

Öll framboð í Vestmannaeyjum höfðu það á stefnuskrá sinni fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar að hefjast handa við byggingu á nýjum leikskóla á kjörtímabilinu. Hér er um mikið þarfa mál að ræða sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að Vestmannaeyjabær hefur aldrei áður byggt sérhæfðan leikskóla. Í því ljósi telur meirihluti bæjarráðs rétt nú að opinbera þá stefnumótun að stefnt sé að því að öll börn í Vestmannaeyjum, 18 mánaða og eldri, eigi möguleika á leikskólavist eftir að nýr leikskóli rís. Það er mikilvægt að undirbúningur þeirrar stefnumótunar fari strax af stað og starfshópur verði settur á laggirnar til að móta stefnu til framtíðar um þennan mikilvæga málaflokk. Er bæjarstjóra falið að hafa yfirumsjón með þeirri vinnu í samráði við fagnefndir og fagfólk.

Mikil undirbúningsvinna hefur verið unnin á undanförnum misserum. Þrjú sjónarmið hafa verið vegin og metinn þ.e. félagslegi þátturinn, faglegi þátturinn og fjárhagslegi þátturinn. Eitt af grundvallar atriðum í þessari vinnu hefur verið að samræma hin mismunandi sjónarmið sem öll skipta verulegu máli. Að auki hefur stærð leikskólans verið mikið umræðuefni og sýnist sitt hverjum. Þróunin hefur verið slík að bæjarfélög víðs vegar um landið hafa byggt stærri leikskóla en áður. Vestmanneyjabær hefur leitað tilboða í bæði 4 deilda og 6 deilda leikskóla, þar sem stuðst hefur verið við teikningar af leikskólanum í Skógalöndum á Egilsstöðum sem er í byggingu. En hönnunin á þeim leikskóla þykir afar vel heppnuð. Hönnun leikskólans gerir ráð fyrir að hægt sé að skipta skólanum í 2*3 deilda einingar sem tengjast innbyrðis. Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. hefur leitað eftir tilboðum í þessa framkvæmd og eru niðurstöðurnar sem hér segir;

4 deilda leikskóli, 219.000.000-. (54,7 m.kr pr deild)

6 deilda leikskóli, 264.000.000-. (44,4 m.kr pr deild)

Þess skal getið að fyrirvarar eru settir vegna tilboðsins og eru þeir meðal annars um eðlilegan framkvæmdarkostnað vegna frágangs lóðar, fjármagnskostnað á meðan á framkvæmdum stendur og hugsanlegur kostnaður vegna breytingatillaga.

Varðandi staðsetningu nýs leikskóla, var umhverfis- og framkvæmdasviði Vestmannaeyjabæjar falið að koma með tillögur að staðsetningu. Í þeirri vinnu var stuðst við þá hugmynd að leikskólinn yrði staðsettur innan hverfis Barnaskóla Vestmannaeyja. Tvær tillögur bárust

· Sólalóðin

· Svæðið undir löngulá

Áður en önnur hvor staðsetningin verður valin, er nauðsynlegt að umhverfis- og framkvæmdasvið Vestmannaeyjabæjar leggi fram kostnaðaráætlun vegna nauðsynlegra framkvæmda á hvorum reit fyrir sig, umferðarmál og áhrif bygginga á sitt nánasta umhverfi.

Arnar Sigurmundsson lagði fram svohljóðandi tillögu að ályktun og bókun:

Legg til að hafinn verði nú þegar undirbúningur að útboði á nýjum 4 deilda leikskóla Vestmannaeyjabæjar sem byggður verði á Sólalóðinni við Ásaveg. Þessi nýi leikskóli komi í stað núverandi leikskóla á Sóla. Jafnframt verði fallið frá hugmyndum um lokun Rauðagerðis, sem áformuð voru í tengslum við byggingu 6 deilda leikskóla.

Ofangreind tillaga er í samræmi við loforð allra framboða fyrir síðustu kosningar til bæjarstjórnar og faglegt álit meirihluta leikskólafólks og foreldrafélaga leikskólabarna. Er sammála því að komið verði á fót starfshópi um framtíðarnýtingu og starfsemi leikskóla í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að hefja undirbúning að útboði að byggingu 4 deilda leikskóla og jafnframt verði kannaðir kostir alútboðs auk þess verði fasteignafélaginu Fasteign hf. gefinn kostur á að bjóða í byggingu leikskólans. Áður en til útboðs kemur skulu bæjarstjóri og framkvæmdastjóri

umhverfis- og framkvæmdasviðs leggja fyrir bæjarráð þá valkosti sem boðið kann að vera uppá við útboð á byggingarframkvæmdum nýs 4 deilda leikskóla á Sólalóðinni. Í framhaldi að því mun bæjarráð taka ákvörðun um fjármögnun verksins og framkvæmdatíma.

Andrés Sigmundsson og Stefán Ó Jónasson óska bókað:

Með þeirri tillögu að byggja 6 deilda leikskóla fellst ekki sú ákvörðun að loka leikskólanum Rauðagerði.

Var nú tillaga Arnars Sigurmundssonar borin upp til atkvæða og var hún felld af meirihluta bæjarráðs.

Að því loknu var tillaga Andrésar Sigmundssonar og Stefán Jónassonar borin upp til atkvæða og var hún samþykkt með atkvæðum meirihluta bæjarráðs.

2. mál.

Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson bæjarráðsmenn lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Meirihluti bæjarráðs leggur til að Nýsköpunarstofa Vestmannaeyja móti stefnu og komi með tillögu að heppilegasta framtíðar tjaldsvæði og aðstöðu fyrir ferðafólk í Vestmannaeyjum. Þess er farið á leit við Nýsköpunarstofu að verkefnið verði unnið í samráði við þá aðila sem hagsmuni hafa af málinu.

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

3. mál.

Arnar Sigurmundsson lagði fram eftirfarandi tillögu sem óskað er eftir að tekin verði til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar 30. júní nk.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að fela Heru Einarsdóttir, framkvæmdastjóra félags- og fjölskyldusviðs bæjarins að kanna þörfina á nauðsyn þess að fjölga íbúðum fyrir fatlaða í Vestmannaeyjum. Að fenginni niðurstöðu úr þeirri þarfagreiningu verði teknar upp viðræður við viðkomandi stjórnvöld um byggingu nýs Sambýlis sem verði staðsett sem næst núverandi Sambýli fatlaðra í Eyjum.

Bæjarráð samþykkir að vísa tillögunni til afgreiðslu fundar bæjarstjórnar 30. júní nk.

4. mál.

Arnar Sigurmundsson lagði fram eftirfarandi tillögu sem óskað er eftir að tekin verði til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar 30. júní nk.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir í tengslum við uppbyggingu útisvæðis við Íþróttamiðstöðina, að fela Bergi E. Ágústssyni bæjarstjóra að ganga til viðræðna við viðkomandi stjórnvöld um þátttöku ríkisvaldsins við uppbyggingu sjúkralaugar á útisvæðinu, Þá felur bæjarstjórn bæjarstjóra að taka upp viðræður við nokkur fyrirtæki og félagasamtök innanbæjar og utan um möguleika á fjárhagslegum stuðningi þeirra við uppbyggingu útisvæðisins, með svipuðum hætti og gert hefur verið í nokkrum bæjarfélögum hér á landi. Ef vel tekst til getur aðkoma fyrirtækja, einstaklinga og frjálsra

félagasamtaka flýtt verulega fyrir framkvæmdum og tryggt um leið að Eyjamenn verði ekki eftirbátar annarra sambærilegra bæjarfélaga í þessum efnum. Samhliða þessu verði bæjarstjóra falið að vinna kostnaðaráætlun um uppbyggingu svæðisins, en slíkt er forsenda þess að hægt verði að tryggja nauðsynlegt fjármagn og ráðast í framkvæmdir.

Bæjarráð samþykkir að vísa tillögunni til afgreiðslu fundar bæjarstjórnar 30. júní nk.

5. mál.

Fyrir lá bréf frá Húseigendafélaginu dags. 23. júní sl. vegna deiliskipulags við Bessahraun.

Erindið verður lagt fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar 30. júní nk., samhliða afgreiðslu fundargerðar skipulagsnefndar frá 2. júní sl.

6. mál.

Fyrir lá bréf frá Hússjóði Öryrkjabandalagsins dags. 23. júní sl. varðandi hugsanlegar sölur og kaup á húsnæði í Eyjum.

7. mál.

Fyrir lá afrit af bréfi Sambands ísl. sveitarfélaga til forsætisráðherra dags. 8. júní þar sem fram kemur ósk um að sveitarfélög verði ekki látin bera kostnað af framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalög.

Jafnframt lá fyrir tölvupóstur frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem spurst er fyrir um kostnað við atkvæðagreiðslur í sveitarfélaginu og var upplýst að kostnaður í Vestmannaeyjum er um 1 m. kr. vegna hverrar atkvæðagreiðslu.

Bæjarráð tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga um að kostnaður og ábyrgð við framkvæmd forseta- og alþingiskosninga verði alfarið á hendi ríkisins.

8. mál.

Fyrir lá tölvupóstur frá tveimur nemendum Háskóla Íslands dags. 22. júní þar sem óskað er eftir styrki vegna gerðar heimildarmyndar um ímyndarsköpun tveggja bæjarfélaga.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

9. mál.

Fyrir lá greinargerð frá bæjarstjóra, sbr. afgreiðsla bæjarráðs frá 10. maí sl., vegna stuðnings við uppbyggingu vísinda- og rannsóknarstarfs í Vestmanneyjum.

Bæjarráð samþykkir að vísa málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

10. mál.

Fyrir lá fundargerð íþrótta- og æskulýðsráðs frá 22. júní sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

10. mál.

Fyrir lá fundargerð Hafnarstjórnar frá 24. júní sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 18.40


Jafnlaunavottun Learncove